Meirihluti atvinnuveganefndar, sem er skipaður þingmönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér að lækka veiðigjöld sem leggjast á útgerðir landsins fyrir að fá að nýta fiskveiðiauðlindina um milljarða króna. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar. Aðrir þingmenn sem leggja fram frumvarpið eru Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, Ásmundur Friðriksson og Njáll Trausti Friðbertsson frá Sjálfstæðisflokki, Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknarflokki og Sigurður Páll Jónsson, sem þingmaður Miðflokksins er eini stjórnarandstöðumeðlimur nefndarinnar sem skrifar sig á frumvarpið.
Í gildandi fjárlögum var gert ráð fyrir því að veiðigjöld myndu skila tíu milljörðum krónum í ríkiskassann í ár, og byggir það á því að álögð veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2017/2018 voru áætluð 10,8 milljarðar króna. Þorri þeirra átti því að skila sér til ríkisins á þessu almanaksári.
Í frumvarpinu sem meirihluti atvinnuveganefndar hefur lagt fram er lagt til að það lækki umtalsvert. Verði frumvarpið að lögum mun veiðigjaldið sem útgerðir greiða til ríkisins í ár, að teknu tilliti til afsláttar, lækka um 1,7 milljarðar króna og verða 8,3 milljarðar króna. Það er svipað og innheimt veiðigjöld voru árið 2017, þegar þau voru 8,4 milljarðar króna.
Sambærilegt og gerðist 2013
Frumvarpið var lagt fram í gær, þegar þing var nýkomið saman eftir sveitastjórnarkosningar og á einungis örfáa daga eftir starfandi samkvæmt áætlun. Tími sem gefst til að skila inn umsögnum um frumvarpið rennur út á hádegi á föstudag. Þ.e. á morgun. Í frumvarpinu segir: „Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfshæfni fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft umtalsverð neikvæð áhrif á m.a. þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum af sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum eða um tæp 60 prósent á 12 árum.“
Lilja Rafney sagði í Fréttablaðinu í morgun að afkoma útgerða væri komin að þolmörkum. Þar kallaði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, fulltrúi Samfylkingar í atvinnuveganefnd, framkvæmdina „óboðlega stjórnsýslu“.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórn lækkar veiðigjöld á þessum tíma árs, rétt fyrir lok fyrsta vorþings eftir að hún tekur við. Það gerðist líka vorið 2013 þegar eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu, var að samþykkja lög sem lækkuðu veiðigjöld. Þau lög voru samþykkt 5. júlí 2013. Í kjölfarið lækkuðu veiðigjöld mikið á árum þar sem sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem heild sýndu metafkomu.
Frumvarpið vakti hörð viðbrögð víða í samfélaginu, sérstaklega hjá þáverandi stjórnarandstöðu. Þann 4. júlí 2013, daginn áður en frumvarpið var samþykkt, tjáði Svandís Svavarsdóttir, þá þingmaður Vinstri grænna í stjórnarandstöðu og nú ráðherra í ríkisstjórn, sig um vinnulag ríkisstjórnarinnar í málinu í stöðuuppfærslu á Facebook Þar sagði Svandís: „Á lokasprettinum er samkomulag um þinglok sett í uppnám með tillögum meirihluta atvinnuveganefndar um að gefa enn í varðandi gjafir til útgerðarinnar. Á einum degi, án röksemda, án útreikninga, án skýringa á að fella niður veiðigjald á kolmunna sem nemur 459 milljónum króna. Stjórnarmeirihlutinn sendir sprengju inn í viðkvæma stöðu.“
Hagur útgerðar vænkaðist um 366 milljarða á örfáum árum
Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá byrjun árs 2010 og út árið 2016 voru 65,8 milljarðar króna. Eigið fé þeirra frá hruni og til loka árs 2016 batnaði um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 365,8 milljarða króna á örfáum árum.
Atvinnuveganefnd byggir ákvörðun sína um að lækka veiðigjöld að mestu leyti á úttekt sem Deloitte vann á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Í spá, sem Deloitte vann segir að tekjur sjávarútvegs hafi dregist saman úr 249 milljörðum króna árið 2016, sem var metár í hagnaði, í 240 milljarða króna í fyrra.
Þennan viðsnúning hafa eigendur þeirra meðal annars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjárfestingu í geiranum. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja voru 319 milljarðar króna í lok árs 2016 og höfðu þá lækkað um 175 milljarða króna frá hruni. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum, sem eru til að mynda ný skip, var 22 milljarðar króna á árinu 2016. Hún var um 25 milljarðar króna að meðaltali árin á undan.
Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, en þá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Árin þar á eftir lækkuðu gjöldin skref fyrir skref niður í 4,8 milljarða árið 2016. Líkt og áður sagði var áætlað er að þau yrðu 10,8 milljarðar króna vegna yfirstandandi fiskveiðiárs, 2017/2018.
Kallaði veiðigjöld „hátekjuskatt á sterum“
Mikill þrýstingur hefur verið frá útgerðarfyrirtækjum á stjórnvöld um að lækka veiðigjöld. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), hagsmunagæsluarms sjávarútvegsfyrirtækja, sagði við Morgunblaðið í upphafi árs að gjöldin væru allt of há. „Við erum að áætla að árið 2018, miðað við óbreytt veiðigjald eins og fjárlög fóru í gegnum þingið, verði skattur 58 til 60 prósent af hagnaði[...]Þetta verður hátekjuskattur á sterum þetta árið og gjaldtakan er komin langt fram úr hófi. Hún verður beinlínis skaðleg sjávarútvegi og þar með samfélaginu öllu.“
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í ræðu sem hann flutti á aðalfundi Síldarvinnslunnar í lok mars, og var birt á vef fyrirtækisins, að veiðigjöld taki ekki mið af aðstæðum í umhverfi greinarinnar heldur þegar aðstæður hafi verið allt aðrar og betri. Þorsteinn er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji er stærsti einstaki eigandi hennar.
Hagnaður Síldarvinnslunnar árið 2017 var 2,9 milljarðar króna. Samherjasamstæðan, sem starfar á sviði sjávarútvegs bæði hérlendis og erlendis, hagnaðist um 86 milljarða króna á árunum 2010-2016. Árið 2016 var hagnaður hennar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 17 milljarðar króna.