Karnival-stemning út á Granda – Margra ára hugmynd orðin að veruleika
Grandi Mathöll hefur nú göngu sína en markmiðið með henni er að búa til svokallaða „street-food-menningu“ á Íslandi. Kjarninn leit við í vikunni sem leið en þá voru iðnaðarmenn í óða önn við að klára undirbúning fyrir opnun mathallarinnar.
Grandi Mathöll er staðsett út á Granda en það er Sjávarklasinn sem heldur utan um verkefnið. Auglýst var eftir umsóknum og sótti gríðarlegur fjöldi veitingaaðila um. Mörg hundruð umsóknir bárust, frá innlendum aðilum og erlendum, og úr þeim voru átta valdir til að fá rými. Til viðbótar við þessi átta rými er einn pop-up vag á staðnum en þar gefst frumkvöðlum tækifæri til að prófa rétti sína og veitingaþjónustu án þess að þurfa að leggja í umtalsverðan kostnað við uppsetningu veitingastaðar. Hver veitingamaður fær 1 til 2 mánuði til umráða en svo er skipt út og eru reglulega nýja veitingamenn fengnir til að prófa.
Hver og einn setur upp sinn bás en staðirnir sem um ræðir eru Fjárhúsið, Fusion Fish & Chips, Kore, Lax, Pop-up vagn, Micro Roast - Vínbar, Rabbar Barinn, The Gastro Truck og Víetnam. Boðið er upp á götufæði frá Víetnam og Kóreu, nýja uppskeru af grænmeti, fisk, kjöt og kaffi og aðra drykki.
„Hver hefur sinn háttinn á. Við erum ekkert að setja neinar línur eða reglur hvernig lúkkið á að vera. Við viljum frekar að hver komi með sínar hugmyndir sem skilar sér í karnival-rými,“ segir Franz Gunnarsson viðburðastjóri verkefnisins. Þannig séu staðirnir fjölbreytilegir.
Hugmyndin búin að gerjast lengi
Veitingaaðilarnir sjá um sig og sitt rými en að sögn Franz er mikil samvinna á milli þeirra og Sjávarklasans. Til að mynda sitji veitingaaðilarnar í markaðsráði þar sem teknar séu ákvarðanir um hvernig hlutunum er háttað o.s.frv. „Hér á ekki bara að vera borðað, heldur á líka að vera líf. Þetta er lítið samfélag, þar sem allir sitja við sama borð,“ segir Franz.
Hugmyndin er búin að gerjast lengi. Aðilar innan Sjávarklasans byrjuðu fyrir 10 árum að stunda mathallir víða um Evrópu og annars staðar í heiminum. Þar sáu þau þessa menningu spretta upp og í framhaldinu fæddist hugmyndin. Árið 2012 var erindi sent inn til Reykjavíkurborgar varðandi það að starfrækja starfsemi sem þessa en að sögn Franz hefur verkefnið verið í vinnslu síðastliðin fjögur ár. Þannig hafi það verið í gerjum í langan tíma og allt síðasta ár fram til dagsins í dag þá hafi verið unnið staðfastlega að þessu.
Það skipti miklu máli þegar þeir voru valdir, í staðinn fyrir að opna enn einn hamborgarastaðinn eða pizzastaðinn sem eru út um allt. Þannig vildum við frekar fá nýja og ferska strauma hérna inn í þetta rými.
Fengnir voru aðilar til að vega og meta umsóknirnar sem bárust. „Leitað var eftir ákveðnu frumkvæði og nýjungum. Og þar sem Sjávarklasinn er frumkvöðlasetur í grunninn þá vildum við að staðirnir myndu rýma við það og þau gildi,“ segir Franz.
Vildu nýja og ferska strauma
Þeir aðilar sem fengu aðstöðu í Granda Mathöll eru að mestu að vinna með íslensk hráefni og nýjungar í matargerð. „Það skipti miklu máli þegar þeir voru valdir, í staðinn fyrir að opna enn einn hamborgarastaðinn eða pizzastaðinn sem eru út um allt. Þannig vildum við frekar fá nýja og ferska strauma hérna inn í þetta rými,“ segir hann.
Staðurinn var opnaður um helgina en iðnaðarmenn hafa unnið baki brotnu síðustu daga og vikur til að klára verkið fyrir opnun. Hátíð hafsins er um helgina og segir Franz að þau á þessum stað séu svo tengd við hafið að það hafi rímað vel við opnunina.
Ekki bara fiskur
Franz segir að þau hafi verið að leita eftir þessari svokölluðu „street-food-menningu“. Í því hugtaki liggur að baki mikið frumkvöðlastarf, að hans sögn. Hann bendir á að lítið hafi verið um slíka menningu hér á landi, þannig að augljóslega hafi verið vöntun á henni.
Á þróunarstiginu komu fram þær hugmyndir að hafa einungis veitingastaði með sjávarfang en svo komust þau að þeirri niðurstöðu að þá væri þetta ekki alvöru mathöll. „„Street-food-matur“ er þannig að þú ert að fá eitthvað út öllum áttum. Við erum auðvitað með staði sem bjóða upp á fiskinn en við viljum ekki einskorða okkur við það. Við viljum að fleiri komi að borðinu,“ segir Franz. Til dæmis sé staður hjá þeim sem selur íslenska lambakjötið og telur hann að það eigi alveg jafn mikið heima þarna eins og fiskurinn.
„Boðið er upp á góða rétti sem eru samt ekki að kosta af þér handlegginn,“ segir Franz. Hægt er að kíkja við og kaupa nokkra rétti og er mathöll sem þessi eitthvað sem hefur vantað á Íslandi, að hans mati.