Líkur á því að Dagur B. Eggertsson verði áfram borgarstjóri í Reykjavík hafa aukist á undanförnum dögum. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að á meðal lykilfólks í Viðreisn, meðal annars í stjórn flokksins, væri það ófrávíkjanleg krafa að nýr borgarstjóri yrði ráðinn til að ný áferð yrði á meirihlutanum.
Síðar sama dag var tilkynnt að viðræður um meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna myndu hefjast fimmtudaginn 31. maí, eða degi síðar. Í viðtölum í kjölfarið neituðu borgarfulltrúar Viðreisnar því að slík krafa hefði verið sett fram og ítrekað hefur verið sagt að viðræður um verkaskiptingu fari ekki fram fyrr en búið sé að komast að samkomulagi um málefnasamning. Stjórn Viðreisnar fékk ekki upplýsingar um að ákvörðun um að meirihlutaviðræður yrðu hafnar áður en þær voru gerðar opinberar. Þar er þó ekki andstaða við leiðina sem farin var. Vert er að taka fram að í samþykktum flokksins er ekki kveðið beint á um slíkt samráð.
Ýmis nöfn nefnd
Hugmyndin um að ráða borgarstjóra var tilkomin vegna þess að ýmsir innan Viðreisnar vildu fá nýja áferð á meirihlutann til að ekki liti út sem svo að Viðreisn væri að bætast við sem fjórða hjól undir vagni þess fráfarandi, og komi þar með beint í stað Bjartrar framtíðar. Auk þess væri æskilegt að „framkvæmdastjóri“ borgarinnar ynni jafnt fyrir alla flokka. Sá þarf hins vegar að búa yfir einhverjum öðrum kostum öðrum en að vera ekki Dagur B. Eggertsson, sem hefur 16 ára reynslu sem borgarfulltrúi og hefur verið í forystu borgarinnar frá árinu 2010.
Það hefur hins vegar gengið illa að finna kandídat í það starf. Ýmis nöfn voru nefnd til að byrja með. Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og sérfræðingur um borgarmál, var ítrekað nefndur en kom því fljótt áleiðis að hann hefði engan áhuga á starfinu sem stendur. Þar af leiðandi fékk hann aldrei formlega beiðni um að nafn hans yrði lagt fram. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi dómsmálaráðherra, er samkvæmt upplýsingum Kjarnans heldur ekki jákvæð. Sögusagnir um að Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, komi til greina eiga sér ekki fótfestu.
Þá hefur nöfnum tveggja fráfarandi bæjarstjóra verið kastað fram, þeirra Haraldar Líndals Haraldssonar og Eiríks Björgvinssonar. Haraldur var ráðinn bæjarstjóri í Hafnarfirði 2014 en nú er ljóst að Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í bænum, muni taka við því starfi. Eiríkur hefur verið faglega ráðinn bæjarstjóri frá árinu 2002, nú síðast í átta ár á Akureyri.
Margt gæti breyst
Formlegu viðræðurnar hófust, líkt og áður sagði, síðastliðinn fimmtudag og ganga vel. Nær öruggt þykir að flokkarnir fjórir nái saman um málefnasamning og -áherslur. Í tilkynningu sem send var út í síðustu viku sögðu oddvitar þeirra að markmiðið væri að „samstarfssáttmáli nýs meirihluta liggi fyrir í góðum tíma fyrir fyrsta borgarstjórnarfund nýrrar borgarstjórnar 19. júní nk.“
Stefnur flokkanna fjögurra liggja mjög vel saman í skipulags- og samgöngumálum og allir eru þeir tilbúnir í miklar aðgerðir til að auka enn í uppbyggingu húsnæðis í borginni til að tryggja fleiri borgarbúum húsnæði á kjörum sem þeir ráða við.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans mun Viðreisn fara fram á að stefna flokksins í atvinnumálum, meðal annars lækkun á fasteignasköttum á fyrirtæki, og í menntamálum fái gott pláss í sáttmála meirihlutans. Það þykir því líklegt að Pawel Bartoszek, annar maður á lista Viðreisnar, muni verða yfir annað hvort umhverfis- og skipulagsráði eða skóla- og frístundaráði borgarinnar. Auk þess kemur til greina að ráð borgarinnar verði stokkuð upp, málaflokkar færðir til og þeim jafnvel fækkað.