Íbúðalánasjóður hefur samtals lánað 18,4 milljarða króna til kaupa eða bygginga á 1.325 íbúðum á grundvelli reglugerðar sem ætlað er að tryggja að lánveitingarnar fari einungis til aðila sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni.
Þar af eru um tólf milljarðar króna lán til hlutafélaga eða einkahlutafélaga. Um átta milljarðar króna af þeirri upphæð eru lán til Heimavalla, stærsta leigufélags landsins sem starfar á almennum markaði. Því eru 43,4 prósent allra útistandandi lána Íbúðalánasjóðs sem veitt hafa verið í samræmi við skilyrði reglugerðarinnar til Heimavalla. Alls skuldar félagið Íbúðalánasjóði 18,6 milljarða króna, en hluti þeirra lána eru svokölluð almenn leiguíbúðarlán sem um gilda mun rýmri reglur.
Heimavellir voru skráðir á markað í síðasta mánuði og stefna að því að endurfjármagna lánin frá Íbúðalánasjóði svo félagið geti losnað undan þeim kvöðum sem þau setja um að þiggjendur lánanna megi ekki greiða út arð.
Mega ekki greiða arð
Reglugerð 1042/2013 snýst um að Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins, veiti lán til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið reglugerðarinnar var að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hefur hann lánað til alls 25 félaga og félagasamtaka á grundvelli heimildarinnar. Þar af er eitt hlutafélag, 17 einkahlutafélög, þrjár sjálfseignarstofnanir, tvö húsnæðissamvinnufélög, eitt byggðasamlag og ein félagasamtök.
Lánin eru tvenns konar. Annars svokölluð leiguíbúðarlán sem eru ekki félagsleg. Umfang þeirra er samtals 12,2 milljarðar króna og lántakendurnir 20 talsins. Kjarninn hefur kallað eftir upplýsingum um hverjir þeir séu og er unnið að því innan Íbúðalánasjóðs að kanna hvort hægt sé að veita þær upplýsingar án þess að brjóta gegn trúnaðarákvæðum sem eru í lánasamningunum.
Til viðbótar hafa verið veitt svokölluð félagsleg íbúðarlán að fjárhæð 6,1 milljarður króa til alls sex félaga. Kjarninn hefur einnig kallað eftir upplýsingum um hvaða félög er þar um að ræða. Félagslegu íbúðarlánin eru bundin sömu skilyrðum og almennu leiguíbúðarlánin auk þess sem að viðbótarskilyrði eru um að íbúðirnar sem lánað er til má eingöngu leigja til þeirra einstaklingar og fjölskyldna sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum. Þau lán eru auk þess veitt á niðurgreiddum vöxtum. Heimild til að veita slík lán féll úr gildi um síðustu áramót.
Ríkið selur og ríkið lánar
Kjarninn greindi frá því 25. maí síðastliðinn að ein stærsti einstaki lántakandi Íbúðalánasjóðs sé Heimavellir, stærsta almenna leigufélag landsins sem á um tvö þúsund leiguíbúðir, sem skuldar sjóðnum 18,6 milljarða króna. Það eru rúmlega helmingur af öllum vaxtaberandi skuldum Heimavalla. Á meðal annarra lánveitenda Heimavalla eru ríkisbankinn Landsbankinn.
Í fréttaskýringu Kjarnans kom líka fram að langstærsti seljandi þeirra íbúða sem Heimavellir hafa viðað að sér frá því að félagið var stofnað í febrúar 2015 er íslenska ríkið, annars vegar í gegnum Íbúðalánasjóð og hins vegar í gegnum félagið Kadeco.
Heimavellir hafa aldrei borgað út arð, enda væri það í andstöðu við skilyrði hluta þeirra lána sem félagið hefur fengið hjá Íbúðalánasjóði. Félagið stefnir þó á, samkvæmt skráningarlýsingu þess, að gera það „þegar rekstur félagsins er kominn í jafnvægi“. Því jafnvægi verður náð þegar að Heimavellir hafa náð því yfirlýstu markmiði sínu að „endurfjármagna þessi lán á næstu misserum enda telja stjórnendur að félaginu muni bjóðast betri kjör og skilmálar á markaði. Ekki er á þessu stigi hægt að segja til um hvenær slíkri endurfjármögnun mun ljúka né á hvaða kjörum hún mun bjóðast. Sú hætta er fyrir hendi að félaginu takist ekki að endurfjármagna lánin á kjörum sem það telur ásættanleg. Komi til þess, og félagið ákveður að eiga eignirnar áfram, munu viðkomandi dótturfélög áfram þurfa að lúta skilyrðum Reglugerðarinnar, þ.m.t. banni við greiðslu arðs eða arðsígildis.“
Greiddu eigendum og stjórnendum þóknanir fyrir umsýslu
Annað skilyrði sem er sett í reglugerðinni er að greiðslur til eigenda megi „aðeins fela í sér eðlilegt endurgjald fyrir þá vinnu eða þjónustu sem þeir hafa veitt félaginu“.
Í tilfelli Heimavalla kom þetta skilyrði ekki í veg fyrir að Eignarhaldsfélaginu Heimavellir GP, sem sá um umsýslu eigna fyrir Heimavelli, hafði fengið samtals 480 milljónir króna í þóknanagreiðslur. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins um málið í mars fékk félagið greitt 270 milljónir króna á árinu 2017 einu saman vegna þóknana fyrir greiningu og framkvæmdar fjárfestinga. Þar kom fram að helstu hluthafar Heimavalla GP í byrjun árs 2017 hafi verið félög í eigu Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi starfsmanns Glitnis, Magnúsar Magnússonar, fjárfestis og stjórnarformanns Heimavalla, Halldórs Kristjánssonar, stjórnarmanns í Heimavöllum, og Sturlu Sighvatssonar, athafnamanns og fyrrverandi framkvæmdastjóra Heimavalla. Auk þess áttu Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar og stjórnarmaður í Heimavöllum, og Arnar Gauti Reynisson, fjármálastjóri Heimavalla, báðir 2,5 prósenta hlut í félaginu.
Þessar greiðslur voru mögulegar vegna þess að lán Íbúðalánasjóðs eru til dótturfélaga Heimavalla hf., félagsins sem skráð var á markað. Það félag var nánast að öllu leyti í eigu fagfjárfestasjóðsins Heimavalla leigufélags slhf. um síðustu áramót. Sá sjóður greiddi þóknanagreiðslurnar.
Leiguverð hækkar þrátt fyrir lægri vexti
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 96 prósent á átta árum. Á síðustu tveimur árum hefur það hækkað um 30 prósent. Í nýlegri könnun sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar.
Í morgun var greint frá því, í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs, að leiguverð hafi hækkað á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að vextir á íbúðalánum hafi haldið áfram að lækka.
Í lok maí sendi Íbúðalánasjóður 20 leigufélögum sem eru með lán hjá sjóðnum bréf þar sem kallað var eftir upplýsingum um verðlagningu leiguíbúða í þeirra eigu, og eftir atvikum um hækkanir á húsaleigu þeirra til leigutaka.
Skömmu áður sagði Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs, að hann hefði áhyggjur af því að „ viðskiptavinir hagnaðardrifinna leigufélaga séu að hluta til einstaklingar og fjölskyldur sem ráða ekki við aðstæðurnar á markaðnum eins og hann er í dag. Stór hópur fólks ræður ekki við að greiða svo háa leigu en á ekki í önnur hús að venda og því má segja að markaðurinn sé að bregðast þessum hópum. Við slíkar aðstæður er æskilegt að ríki og sveitarfélög grípi inn í.“ Þessi ummæli félli í tilefni þess að sjóðurinn afhenti Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, innlegg sjóðsins þar sem fjallað var um erfiðar aðstæður leigjenda hérlendis.