Tilkynnt hefur verið að íslenska kvikmyndatökukonan Birgit Guðjónsdóttir hljóti heiðursverðlaun Þýsku kvikmyndaverðlaunanna (Deutsche Kamerapreis) í ár, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi feril viðkomandi listamanns.
Í umsögn dómnefndar um störf Birgit segir að öll verk sem hún hefur fengist við beri merki næmni hennar og innsæi og sé sama hvort hún fáist við leiknar myndir eða heimildamyndir fyrir sjónvarp eða bíóhús. „Henni fellur vel að takast á við alvörumál sem hún gæðir tilfinningum og stemmningu,“ segir þar einnig og að það sé ekki síst glöggt auga hennar fyrir myndbyggingu sem geri þetta að verkum. „Töfrar hennar liggja ekki bara í því að taka fallegar myndir heldur að skapa hárfína blöndu augnablika, afstöðu, sjónarhorna og hreyfingar myndavélarinnar,“ bætir dómnefndin við og klykkir út með því að fullyrða að myndir hennar búi yfir „innri krafti“ sem hvetji áhorfendur til umhugsunar.
Birgit fæddist á Íslandi árið 1962 og er íslenskur ríkisborgari. Móðir hennar var austurrísk og Birgit sótti sér menntun í Vínarborg, gekk þar í listaskóla og lærði ljósmyndun. Fjárhagur hennar réð ekki við að fjármagna kvikmyndanám eins og hana dreymdi um en að námi loknu gerðist hún sjálfboðaliði í kvikmyndagerð og komst þannig inn í fagið.
Hún hefur búið og starfað í Berlín mörg undanfarin ár þótt starfið leiði hana víða. Á Íslandi hefur hún einnig starfað og hefur henni tekist að sameina starf sitt og áhuga á íslenska hestinum, en hún hefur farið í fjölda hestaferða um land allt og alltaf með myndavélina nærhendis.
Heiðursverðlaunin eru ekki eina viðurkenningin sem Birgit hefur hlotnast á ferlinum. Kvikmyndin Our Grand Despair sem hún gerði með tyrkneska leikstjóranum Seyfi Teoman var tilnefnd á Berlinale hátiðinni og Birgit fékk verðlaun fyrir kvikmyndatökuna á kvikmyndahátíðinni í Istanbul árið 2011. Hún hefur unnið mikið með leikstjóranum Connie Walther og eitt af verkefnum þeirra, sjónvarpsmyndin Zappelphilipp, var tilnefnt til Þýsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir bestu mynd og kvikmyndatöku í þýsku sjónvarpi árið 2013, auk þess sem myndin fekk gullverðlaun á hátiðinni Fipa D´Or í Biarritz. Sama ár fékk hún verðlaun alþjóðasamtaka kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi (WIFTS) sem kvikmyndatökukona ársins.
Birgit hefur á ferli sínum tekið þátt í gerð fjölmargra mynda fyrir bíó og sjónvarp og hún er önnum kafin manneskja. Auk þessa að sinna kvikmyndagerð hefur hún um árabil kennt við kvikmyndaháskóla í Baden-Württemberg og Babelsberg. Hún er félagi í Þýsku og Evrópsku kvikmyndaakademíunni og tók frumkvæði að stofnun samtaka þýskumælandi kvikmyndatökukvenna, CInematographinnen – Women Cinematographers Network, en í þeim eru konur frá Austurríki og Sviss, auk Þýskalands.
Þýsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í húsakynnum sjónvarpsstöðvarinnar WDR í Köln 7. júlí næstkomandi. Þetta er í 28. skipti sem þau eru afhent og Birgit er þriðja konan sem hlýtur heiðursverðlaunin. Alls eru veitt verðlaun í 26 flokkum, auk heiðursverðlaunanna.