Reynt verður til þrautar að ná sátt um veiðigjaldafrumvarpið á milli þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi á fundum sem eiga að hefjast um hálf ellefu leytið. Þá munu þingflokksformenn stjórnmálaflokkanna fyrst hittast og formenn þeirra í kjölfarið. Heimildir Kjarnans herma að fyrir liggi óformlegt tilboð frá ríkisstjórnarmeirihlutanum um að gildandi lög um veiðigjöld verði framlengd án þess að innheimt gjöld verði lækkuð. Viðmælendur Kjarnans segja að í því felist að flöt krónutölulækkun og hækkun persónuafsláttar á minni útgerðir séu úti. Það þurfi þó að leggja fram nýtt frumvarp og ekki sé útilokað að reynt verði að ná persónuafslættinum aftur inn þegar það fer inn til atvinnuveganefndar.
Frumvarpið var lagt fram af meirihluta atvinnuveganefndar fyrir viku síðan, þegar örfáir dagar voru eftir af þinginu. Í því felst, samkvæmt greinargerð þess, að greiðslur veiðigjalda á yfirstandandi almanaksári lækki úr tíu milljörðum króna í 8,3 milljarða króna. Því hefðu tekjur ríkissjóðs dregist saman um 1,7 milljarða króna í ár ef frumvarpið hefði verið samþykkt.
Núgildandi veiðigjaldaákvæði renna út þann 31. ágúst næstkomandi og verði ekkert gert þýðir það að engin veiðigjöld verða innheimt síðustu fjóra mánuði ársins.
Hörð gagnrýni
Hörð gagnrýni var sett fram af hendi stjórnarandstöðunnar á málið, sérstaklega vegna þess hversu seint það kom fram og hversu hratt stóð til að keyra það í gegn, en frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið var einungis um tveir dagar. Þá er umfang veiðigjalda stórpólitískt mál þar sem sumir flokkar vilja auka álögur á útgerðir landsins en aðrir draga úr þeim.
Fréttablaðið hefur meðal annars reiknað það út að um helmingur fyrirhugaðra breytinga á veiðigjöldum muni lenda í vasa tíu stærstu útgerða landsins. Kjarninn hefur kallað eftir upplýsingum um hvort greining hafi farið fram á skiptingu lækkunarinnar milli útgerða hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem hefur ekki getað svarað þeirri fyrirspurn enn sem komið er.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt opinberlega að hún skilji þessa gagnrýni og hefur því reynt að höggva á hnútinn sem upp er kominn, og stendur í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka þingstörfum. Verði það tilboð sem liggur fyrir eftir fundarhöld gærdagsins samþykkt þá mun Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, væntanlega leggja fram nýtt frumvarp um breytingu á veiðigjöldum í haust sem mun hafa það markmið að miða útreikning þeirra við síðasta ár í rekstri, en ekki rekstrarskilyrði fyrir tveimur til þremur árum síðan eins og er í dag.
Hægt að ljúka þingstörfum ef sátt næst
Ef lending næst í veiðigjaldamálinu ætti að vera hægt að ljúka þingstörfum fljótlega. Vonir standa til þess að það takist að minnsta kosti fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir með mál sem þeir gera kröfu um að komi til umræðu og atkvæðagreiðslu eigi þeir að liðka fyrir þinglokum. Hjá Viðreisn er það frumvarp um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, hjá Samfylkingu er það breytingar á barnalögum og hjá Miðflokki er það þingsályktunartillaga um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, sem meirihluti velferðarnefndar lagði í gær til að yrði felld.
Takist sátt um ofangreint verður hægt að afgreiða mjög mikilvæg mál á borð við persónuverndarfrumvarp dómsmálaráðherra, sem mun þó líkast til taka einhverjum breytingum, og síðari umræða um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þá þarf að samþykkja frumvarp um breytingar á peningaþvættislögum til að þau nái yfir rafmyntir og byggðaáætlun næstu fimm ára, svo nokkuð dæmi séu tekin.