Sænska veðurstofan spáði sól og blíðu sl. miðvikudag (6.júní) og margir Svíar hugðu gott til grillglóðar eða ferðar í skóginn, eins og venja margra er á þessum degi. En að morgni 5. júní fengu 22 þúsund Svíar orðsendingu sem kollvörpuðu öllum hugmyndum um grillaðar pylsur og huggulegheit með fjölskyldunni. Orðsendingin var frá yfirstjórn hersins og hljóðaði á þá leið að öllum sem skráðir eru í heimavarnarliðið bæri að mæta á stóra æfingu, með hernum, að morgni þjóðhátíðardagsins. Margir hafa ugglaust lesið orðsendinguna tvisvar til að fullvissa sig um að ekkert færi milli mála. Það eru nefnilega 43 ár síðan allt heimavarnarliðið hefur verið kallað til æfinga, gerðist síðast árið 1975. Í tilkynningu sem Micael Bydén yfirmaður hersins sendi fjölmiðlum sagði hann heimavarnarliðið skipta afar miklu máli, væri ómetanlegur stuðningur við herinn þegar á þyrfti á að halda.
Ekkert að óttast
Í áðurnefndri tilkynningu lagði yfirmaður hersins áherslu á að hér væri um að ræða æfingu og þess vegna hefði almenningur ekkert að óttast. Alls tóku 40 deildir heimavarnarliðsins þátt í æfingunni en yfirmaður hersins bjóst við að með svo skömmum fyrirvara myndi um það bil helmingur þeirra sem skráðir eru í heimavarnarliðið mæta á æfinguna.
Fyrir tveimur vikum fengu öll heimili í Svíþjóð bækling inn um bréfalúguna. Innihaldið var óvenjulegt, semsé að kynna landsmönnum hvernig þeir skyldu bregðast við ef á skylli stríð, eða meiriháttar náttúruhamfarir. Fólki var ráðlagt að geyma bæklinginn á vísum stað.
Sumum Svíum brá í brún en aðrir brostu út í annað.
Óttinn við Rússa
Ástæðan fyrir þessari fjölmennu og viðamiklu æfingu er augljós. Svíum, eins og fleirum, stendur stuggur af atferli Rússa. Í september í fyrra efndu Rússar til fjölmennustu heræfinga í sögu landsins, talið er að um það bil 100 þúsund hermenn hafi tekið þátt í æfingunum en Rússar sögðu þátttakendur hafa verið um 13 þúsund en nokkrum vikum fyrr tóku þrjú kínversk herskip þátt í heræfingum rússneska flotans á Eystrasalti. Á leiðinni þurftu kínversku herskipin að fara um danskt hafsvæði sem þau höfðu fullt leyfi til samkvæmt alþjóðasamningum. Stjórnvöld í Eystrasaltsríkjunum hafa miklar áhyggjur af hernaðarbrölti Rússa, minnug þess að innlimun Rússa á Austur-Úkraínu hófst með ,,heræfingu“. Um svipað leyti og æfingar Rússa stóðu yfir í september efndu Svíar til fjölmennrar heræfingar, með þátttöku hermanna nokkurra NATO ríkja. Sænski varnarmálaráðherrann sagði þá aðspurður, að samvinna sænska hersins og NATO væri ekki tákn um hugsanlega aðild Svía að bandalaginu. Í ljósi breyttra aðstæðna hefðu Svíar leitað aukinnar samvinnu við vinaþjóðirnar í NATO, eins og ráðherrann komst að orði.
Svíar hafa ekki átt í stríði frá árinu 1814, þá börðust þeir við Norðmenn.
Herskylda og aukin útgjöld
Um síðastliðin áramót tóku Svíar upp herskyldu á nýjan leik, eftir að hafa lagt hana af árið 2010. Eftir að sú breyting tók gildi skráðu mun færri sig í herinn en reiknað hafði verið með og því var, að mati varnarmálaráðuneytisins nauðsynlegt að innleiða herskylduna á ný.
Á þessu ári og því næsta munu samtals að minnsta kosti átta þúsund manns fá þjálfun í hermennsku. Fjárveitingar til hersins hafa einnig verið stórauknar og munu á þessu ári og tveimur næstu samtals aukast um sem samsvarar 110 milljörðum íslenskra króna. Sú upphæð hrekkur þó skammt að mati yfirstjórnar hersins sem margoft hefur vakið athygli á nauðsyn þess að endurnýja tækjakost hersins, en hann er að stærstum hluta kominn til ára sinna.
Aukin samvinna Svía við Dani og Finna
Þótt Svíar og Danir hafi fyrr á öldum eldað grátt silfur eru nú aðrir tímar. Síðastliðið haust skrifuðu varnarmálaráðherrar landanna, þeir Peter Hultqvist og Claus Hjort Frederiksen undir samkomulag um stóraukið samstarf sænska og danska hersins. Þeir hittust svo aftur fyrir nokkrum dögum, í Kaupmannahöfn og eftir þann fund sagði danski varnarmálaráðherrann við fréttamenn að nú væri verið að leggja línurnar varðandi samstarfið sem tæki til margra þátta. Ekki síst varðandi miðlun upplýsinga og nefndi ráðherrann í því samhengi sérstaklega radarstöðvar. Yfirstjórn hersins ákvað í fyrra að byggt skyldi nýtt 85 metra hátt radarmastur á Borgundarhólmi.
Það gerir Dönum kleift að fylgjast með fjarskiptum Rússa á Eystrasalti, radarmastur sem var á Borgundarhólmi var tekið niður fyrir fjórum árum. Claus Hjort Frederiksen sagði að áhyggjur Svía vegna hugsanlegra aðgerða, eða jafnvel árása Rússa væru síður en svo ástæðulausar og Danir deildu þeim áhyggjum. Ráðherrann sagði dönsku stjórnarflokkana hafa fullan skilning á því að styrkja þyrfti varnir og búnað danska hersins. ,,Við verðum að snúa vörn í sókn varðandi herinn sem hefur verið fjársveltur árum saman“ sagði ráðherrann. Fyrir þremur árum undirrituðu Svíar og Finnar samkomulag um nánara hernaðarsamstarf landanna. Þetta samkomulag olli mikilli reiði í Kreml en stjórnvöld þar töldu það til merkis um að Svíar hygðust gerast aðilar að NATO.
Sænska stjórnin samþykkti umdeilda gasleiðslu
Fyrir tveimur dögum samþykkti sænska ríkisstjórnin beiðni Rússa um að ný gasleiðsla, Nord Stream2 fái að liggja um sænska efnahagslögsögu á botni Eystrasalts. Þetta gerði stjórnin þótt hún hafi áður margoft lýst miklum efasemdum um lagningu leiðslunnar, en hún liggur frá Rússlandi, um Eystrasalt, til Þýskalands við hlið eldri lagnar, Nord Stream1 og er 1200 kílómetra löng. Mikael Damber, atvinnumálaráðherra Svía sagði í fréttaviðtali að Svíar gætu í raun ekki synjað beiðninni en hefðu hinsvegar sett fram ýmis skilyrði varðandi framkvæmdina. Þegar ráðherrann var spurður hvort Svíar væru með þessu að ,,hafa Rússa góða“ svaraði hann því til að Svíar vildu lifa í sátt og samlyndi við allar þjóðir. Danir hafa ekki samþykkt að leiðslan liggi um danskt hafsvæði, við Borgundarhólm. Ef Danir neita Rússum um slíkt leyfi verða Rússar að fara krókaleið á þessu hafsvæði, með tilheyrandi kostnaði.