Nýr meirihluti Reykjavíkurborgar var kynntur í morgun og samhliða var meirihlutasáttmála þeirra fjögurra flokka sem hann mynda dreift. Í sáttmálanum er farið um víðan völl þegar kemur að stjórnun og rekstri borgarinnar, eins og tíðkast.
Kjarninn hefur tekið saman það helsta í sáttmálanum sem beinlínis er lofað. Því hefur verið sleppt sem „stefna skal að“, „efla“ eða „skoða“ og svo framvegis.
Umhverfis-, skipulags- og samgöngumál
Meirihlutinn í Reykjavík ætlar að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og ætlar að fylgja áfram gildandi Aðalskipulagi borgarinnar sem felur í sér áframhaldandi þéttingu byggðar.
Meirihlutinn lofar því að fjölga matjurtargörðum og auka aðgengi að hreinu vatni í borgarlandinu.
Því er lofað að ljúka skipulagsvinnu vegna fyrsta áfanga Borgarlínu og hefja framkvæmdir. Auk þess á að ná samningum við ríkið vegna Borgarlínunnar.
Frítt verður í Strætó fyrir börn 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum auk þess sem tíðni verður aukin á helstu stofnleiðum í 7,5 mínútur á háannatímum.
Gjaldskyld bílastæðasvæði verða stækkuð sem þýðir að greiða þarf gjald fyrir að leggja bifreiðum víðar en nú er og gjaldskyldutíminn lengdur.
Því er lofað að auka sorphirðu í borginni á álagstímum.
Húsnæðismál
Meirihlutinn ætlar að vinna með húsnæðissamvinnufélögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og lofar því að fjölga stúdentaíbúðum, íbúðum eldra fólks og leiguíbúðum verkalýðsfélaga.
Því er lofað að fjölga félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar um 500 á kjörtímabilinu og íbúðum fyrir sértæk búsetuúrræði um að minnsta kosti 100.
Velferð og lýðheilsa
Hjúkrunarrýmum verður fjölgað. Reglur varðandi námsstyrki þeirra sem fá fjárhagsaðstoð hjá borginni verða rýmkaðar og aldurshámark endurskoðað.
Setja á á fót búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíknivanda.
Meginreglan verður að borgin sinni velferðarþjónustu en vinni einnig með einkaðilum samkvæmt samningum.
Skóla- og frístundamál
Meirihlutinn lofar því að fjölga ungbarnadeildum og byggja nýja leikskóla.
Leggja á áherslu á borgarrekna skóla en áfram stutt við sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla.
Einn leikskóli í hverju hverfi verður opinn yfir sumartímann í tilraunarskyni.
Frá og með áramótum 2019 munu barnafjölskyldur einungis þurfa að borga námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Frá og með áramótum 2021 skulu þær mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig.
Avinnumál og þjónusta
Meirihlutinn lofar því að stofna frumkvöðlasjóð til að auka fjölbreytta atvinnustarfsemi og endurlífga hverfiskjarna.
Fjármál og rekstur
Útsvar verður óbreytt. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða lækkaðir úr 1,65 prósent í 1,60 prósent fyrir lok kjörtímabilsins.
Því er lofað að opna bókhald borgarinnar alfarið á kjörtímabilinu.
Malbikunarstöðin Höfða fær nýja lóð og skoða hvort eigi að selja fyrirtækið.
Kynjajafnrétti og kjaramál
Meirihlutinn lofar því að eyða launamun kynjanna hjá starfsfólki borgarinnar. Laun kvennastétta verða leiðrétt.
Eyðublöð verða uppfærð svo þau geri ráð fyrir öllum kynjum.
Mannréttinda- og lýðræðismál
Klára á mælaborð borgarinnar. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verða aðgengileg á netinu og rekjanleg eftir innihaldi.
Menningar-, íþrótta- og tómstundamál
Safn Nínu Tryggvadóttur verður opnað.
Meirihlutinn ætlar að klára boltahús í Grafarvogi. Sundlaug í Úlfarsárdal verður klárað. Lokið verður við velli í Árbænum og Víkinni og einnig verður lokið við fjölnota knatthús og boltahús í Mjódd.
Stjórnkerfi
Fagráðum og nefndum borgarinnar verður fækkað.
Mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð verða sameinuð í nýtt mannréttinda- og lýðræðisráð.
Menningar- og ferðamálaráð og íþrótta- og tómstundaráð verða sameinuð í menningar-, íþrótta og tómstundaráð. Ferðamálin munu heyra undir borgarráð, líkt og atvinnuþróun og atvinnumál.
Loftslagsmál, loftgæði, úrgangsmál, sorphirða, málefni grænna svæða og umhirða, ásamt málefnum heilbrigðisnefndar munu heyra undir nýtt umhverfis- og heilbrigðismál. Núverandi umhverfis- og skipulagsmál fær nýtt heiti og verður framvegis skipulags- og samgönguráð.
Kosningu í hverfisráð verður frestað til áramóta.