Sjúkrahúsin og sú þjónusta sem þegnarnir sækja þangað eru meðal hornsteina flestra evrópskra samfélaga. Langflestir þurfa einhvern tímann á lífsleiðinni að nýta sér þjónustu sjúkrahúsanna og ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessara stofnana.
Ríkisspítalinn í Kaupmannahöfn (eða Riget eins og Danir segja gjarna) er lang stærsti spítali Danmerkur. Þar vinna, í fullu starfi, um 12 þúsund manns og á síðasta ári voru sjúklingar sem dvöldu þar, eina nótt eða lengur, tæplega tvö hundruð þúsund. Á spítalanum eru um það bil fimmtán hundruð legupláss.
Ríkisspítalinn var stofnaður árið 1910 og var þá til húsa í nýreistum byggingum á sömu slóðum og núverandi spítalabyggingar standa. Við stofnun Ríkisspítalans var Friðriksspítalanum við Bredgade, fyrsta eiginlega sjúkrahúsi Danmerkur, lokað. Þar er nú til húsa hönnunarsafnið, Designmuseum Danmark, sem til skamms tíma hét Kunstindustrimuseet.
Fyrsti hluti núverandi spítala var tekinn í notkun árið 1958 en hann hefur margsinnis verið stækkaður og því verkefni langt í frá lokið. Eins og áður var getið er Ríkisspítalinn stærsti spítali Danmerkur og má með réttu kallast flaggskip danskrar heilbrigðisþjónustu. Danir gera miklar kröfur til heilbrigðiskerfisins og kannanir sýna að það er ætíð í fyrsta sæti þegar landsmenn eru spurðir hvað skipti mestu máli í dönsku samfélagi. Þótt Danir kvarti gjarna yfir háum sköttum segjast þeir ekki sjá eftir þeim peningum sem renna til heilbrigðiskerfisins. Öll almenn læknisþjónusta er innifalin í sköttunum, engin komu- eða skoðunargjöld.
Kreppan
Danmörk fór ekki varhluta af fjármálakreppunni sem reið yfir heiminn haustið 2008. Kreppan þýddi að fjölmargar framkvæmdir sem voru í gangi stöðvuðust, viðhaldi opinberra bygginga var skotið á frest og hætt var, tímabundið, við nýbyggingar svo fátt eitt sé nefnt. Þetta bitnaði harkalega á sjúkrahúsunum sem eru enn að súpa seyðið af þessum ákvörðunum.
Súpersjúkrahúsin
Fyrir þingkosningarnar árið 2007 kynnti ríkisstjórnin, sem þá var undir forystu Anders Fogh Rasmussen, hugmynd um það sem kallað var supersygehuse, súpersjúkrahús. Hugmyndin var að styrkja verulega, og stækka, sjö sjúkrahús, gera þau að eins konar höfuðsjúkrahúsum á tilteknum svæðum. Þegar ríkisstjórnin kynnti þessar hugmyndir var gert ráð fyrir að framkvæmdir gætu hafist árið 2012 og yrði lokið átta árum síðar, 2020. Kreppan varð til þess að seinka framkvæmdum og nú er miðað við að þeim verði að mestu lokið árið 2022. Miklum fjármunum hefur verið varið til þessara framkvæmda en það hefur hins vegar bitnað á þeim sjúkrahúsum sem fyrir eru en þau hafa um margra ára skeið mátt sæta niðurskurði.
Myglusveppur
l2. júlí árið 2011 gerði úrhelli í Kaupmannahöfn. Á tveimur klukkustundum féllu 150 millimetrar regns og daginn eftir féll sömuleiðis mikil úrkoma. Skemmdir af völdum úrkomunnar urðu miklar, fráveitukerfin réðu ekki við þetta gríðarmikla vatnsmagn. Ástandið var verst á nokkrum svæðum í miðborginni en víða annars staðar olli vatnsaginn miklum skemmdum. Meðal annars á Ríkisspítalanum þar sem vatn flæddi inn í kjallara aðalbyggingarinnar. Skemmdir af völdum þessarar miklu úrkomu komu ekki alls staðar fram fyrr en nokkru síðar. Þar á meðal á Ríkisspítalanum.
Árið 2016 greindi Ekstra Blaðið frá því að í aðalbyggingu Ríkisspítalanum væru verulegar skemmdir af völdum myglusvepps og mörgum Dönum brá í brún þegar þeir sáu myndir sem Ekstra Blaðið birti með umfjöllun sinni. Yfirstjórn spítalans viðurkenndi að myglusveppur væri vandamál, á tilteknum stöðum í spítalanum en lagði áherslu á að sjúklingum og starfsfólki stafaði ekki hætta af sveppnum. Yfirstjórnin sagði ennfremur að unnið væri að því með markvissum aðgerðum, eins og það var orðað, að uppræta sveppinn. Myglusveppur hefur fundist í fleiri sjúkrahúsum en ekki í sama mæli og á Ríkisspítalanum. En vandamál danskra spítala einskorðast ekki við myglusvepp.
Yfirfullir spítalar og sjúklingar á göngunum
Eins og áður var á minnst hafa flest sjúkrahús í Danmörku mátt sæta miklum niðurskurði á síðustu árum. Niðurskurðurinn, sem stjórnvöld kalla gjarna sparnað, hefur haft í för með sér að deildum hefur verið lokað og starfsfólki fækkað. Stjórnendur sjúkrahúsanna hafa margsinnis bent á að sífelldur niðurskurður bitni á þeirri þjónustu sem sjúkrahúsin geti veitt, og beri í raun skylda til að veita. Nú er svo komið að flest sjúkrahús í landinu hafa ekki legupláss fyrir alla þá sjúklinga og því orðið að bregða á það ráð að hafa sjúkrarúm á göngum spítalanna. Á sama tíma hefur starfsfólki verið fækkað og álagið þar af leiðandi aukist.
Í gögnum tölfræðideildar dönsku heilbrigðisþjónustunnar kemur fram að árum saman hafa verið mun fleiri sjúklingar á flestum spítölum en í raun er pláss fyrir. Ástandið hefur aldrei verið verra en um þessar mundir og svo alvarlegt að danska vinnueftirlitið hefur margsinnis gert alvarlegar athugasemdir við ástandið. Þær athugasemdir lúta einkum að vinnuálagi sem er að mati vinnueftirlitsins svo mikið að sjúklingum stafar hætta af. Undir það álit tekur danskur sérfræðilæknir, Flemming Madsen að nafni. Hann hefur rannsakað samhengi yfirfullra deilda og dauðsfalla, á 18 ára tímabili. Niðurstaða hans er að dauðsföllum á lyflæknadeildum fjölgar þegar sjúklingar á deildum eru fleiri en leguplássin og starfsfólk of fátt. ,,Ótímabær dauðsföll við þessar aðstæður eru níu prósent, það er há tala“ sagði Flemming Madsen í viðtali við danska sjónvarpið DR.
Slökkviliðsmenn undir álagi
Í reglum um brunavarnir á sjúkrahúsum er tekið fram að séu rúmliggjandi sjúklingar á göngum sé skylda að hafa brunavörð á viðkomandi gangi. Ástandið á spítölunum undanfarið hefur þýtt að fjöldi brunavarða hefur orðið að standa „gangavaktina“. Slökkviliðsmenn eru langþreyttir á ástandinu og „gangavaktirnar“ kosta peninga, sem slökkviliðið telur að viðkomandi spítali eigi að borga en yfirstjórnir spítalanna eru á öðru máli. Einn slökkviliðsstjóri sagði að ef ekki fyndist lausn á þessu máli myndi hann neita að senda fólk á „gangavaktina“.
Þingmenn krefjast viðbragða ráðherra
Umfjöllun um ástandið á sjúkrahúsunum hefur undanfarið verið áberandi í dönskum fjölmiðlum. Talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna í heilbrigðismálum á danska þinginu, Folketinget, hafa á síðustu mánuðum margsinnis setið fundi með Ellen Trane Nørby heilbrigðisráðherra og krafist aðgerða. Ráðherrann hefur tekið undir að ástandið sé óviðunandi en hefur sagt að það sé verk yfirstjórnar hvers spítala að sjá til þess að reksturinn sé innan þess fjárhagsramma sem ríkisstjórnin hefur sett.