Meiri- og minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur greinir á um friðun Elliðaárdalsins, það er að segja hvort þau úrræði sem standa borginni til boða og gripið hefur verið til sé nægileg friðun á svæðinu eða hvort grípa þurfi til ítrustu úrræða með því að friða svæðið alfarið samkvæmt náttúruverndarlögum.
Nánar tiltekið vill meirihlutinn byggja í jaðri dalsins, sem telst ekki falla innan svokallaðs borgargarðs og nýtur þannig ekki hverfisverndar. Minnihlutinn telur hins vegar að friðlýsa eigi Elliðaárdalinn, í samráði við umhverfisráðherra, samkvæmt náttúruverndarlögum til að standa vörð um græn svæði í borginni.
Bókanir þvers og krus
Á fundum skipulags- og samgönguráðs og borgarráðs í byrjun júlí voru lagðar fram tillögur um nýtt deiliskipulag í nágrenni Elliðaársdalsins, auk breytinga á deiliskipulags dalsins sjálfs.
Í fyrsta lagi lagði meirihlutinn til að mörk deiliskipulags fyrir Elliðaárdalinn yrðu færð til að koma fyrir svokallaðri Vogabyggð. Að auki var lagt fram deiliskpulag fyrir umrædda Vogabyggð sem og Stekkjarbakka, þar sem skilgreindar eru nýjar lóðir, byggingareitir og hámarks byggingamagn á svæðinu.
Í bókun minnihlutans í borgarráði, það er að segja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins kemur fram ósætti við tillögur um breytingar á afmörkunum skipulags Elliðaárdalsins. Fleiri slíkar tillögur liggi fyrir sem allar þrengi að „viðkvæma og verðmæta svæði í borgarlandinu.“ Fulltrúar flokkanna segjast leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns uppbyggingu mannvirkja sem gengið getur nærri slíkum svæðum og viðkvæmu lífríki þeirra.
Þannig vilja fulltrúar flokkanna að unnið verði að því í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. grein náttúruverndarlaga. „Standa þarf vörð um græn svæði í borgarlandinu, gróðursetja þarf fleiri tré og gæta þess að uppbygging svæðanna snúi eingöngu að bættri aðstöðu til útivistar og afþreyingar,“ segir í bókun minnihlutans.
Fulltrúar meirihlutans segja Elliðaárdalinn skilgreindan sem borgargarð í Aðalskipulagi og sem slíkur settur undir hverfisvernd. Þá sé skilgreint helgunarsvæði Elliðaáa 100 metra frá hvorum bakka og þar sé engin uppbygging heimil og leyfi til framkvæmda mjög takmarkað. Innan borgargarðsins eru aðeins heimilaðar framkvæmdir sem samræmast útivist, svo sem stígagerð.
„Það er mikilvægt að uppbygging á húsnæði í Reykjavík gangi hratt og vel og að allir innviðir sem fylgi nýjum hverfum séu til fyrirmyndar. Það er skýrt kveðið á um að ekki sé gengið á græn svæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og er þessi uppbygging í fullu samræmi við þá stefnumörkun,“ segir í bókun meirihluta Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Flokkarnir segja uppbyggingu við Vogabyggð mikilvæga fyrir fjölgun íbúða í borginni og „leitt að sjá vilja til að tefja þetta mikilvæga mál.“ Meirihlutinn heldur því fram að breytingin sem fyrir liggi hafi engin áhrif á mögulega verndun Elliðaárdalsins og snúi að breyttri afmörkun skipulagssvæðisins til þess að hægt sé að skipuleggja grunnskóla sem þjóna muni hinu nýja hverfi.
Þá telur meirirhlutinn vert er að geta að ef dalurinn yrði friðlýstur samkvæmt náttúruverndarlögum myndi borgin missa yfirráð yfir dalnum og þau færast til ríkisins.
Segja tillögu um friðun ekki hafa verið fylgt eftir
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja að með þessu sé verið að ganga á Elliðaárdalinn með mannvirkjum og byggingum.
Í bókun frá fulltrúum þeirra í skipulags- og samgönguráði segja þeir að árið 2014 hafi verið lögð fram tillaga í borgarráði um friðun Elliðaárdals í deiliskipulagi með svokallaðri hverfisvernd. „Svo virðist sem tillögunni hafi ekki verið fylgt eftir. Eins liggur fyrir að friðun með hverfisvernd í deiliskipulagi hefur ekki sömu réttaráhrif og friðlýsing samkvæmt náttúruverndarlögum. Elliðaár og nærliggjandi svæði virðast því hvorki friðuð með hverfisvernd né samkvæmt náttúruverndarlögum.“
Í kosningabaráttunni í vor kynnti Sjálfstæðisflokkurinn hugmyndir sínar um formlega friðlýsingu Elliðaárdals og lögðust gegn hvers kyns áformum um uppbyggingu húsnæðis í dalnum.
Í tísti frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra kom fram að hann hafi fengið þá tillögu samþykkta í borgarráði árið 2014, en þar var samþykkt að Elliðaárnar og nánasta umhverfi verði friðað með hverfisvernd í deiliskipulagi. Þannig sé dalurinn þegar friðaður.
Þessi kosningabarátta er að verða nokkuð kostuleg. Nú á eitt aðalmál Sjálfstæðisflokksins að vera friðun Elliðaárdalsins. Þá tillögu fékk ég samþykkta í borgarráði 2. okt 2014. "Lagt er til að Elliðaárnar og nánasta umhverfi verði friðaðar með hverfisvernd í deiliskipulagi." pic.twitter.com/HDLviqRLur
— Dagur B. Eggertsson (@Dagurb) May 12, 2018
Sjálfstæðisflokkurinn heldur því að fram að engin hverfisvernd fyrir Elliðaárdal sé í gildi.
„Tillagan sem borgarstjóri vísaði til kom því aldrei til framkvæmda. Elliðaárdalurinn er ekki friðaður,“ segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Elliðaárnar sjálfar séu skilgreindar sem borgargarður en að öðru leyti njóti dalurinn í heild ekki verndar. „Jafnvel þó hverfisvernd væri nú gildandi í deiliskipulagi myndi hún ekki hafa sams konar réttaráhrif og friðlýsing samkvæmt náttúruverndarlögum. Hverfisvernd kemur ekki í veg fyrir uppbyggingu á grænum svæðum í dalnum og áform núverandi meirihluta í borgarstjórn um uppbyggingu verslunar- og þjónustuhúsnæðis á svæðinu gefa ekki til kynna nein áform um verndun Elliðaárdalsins.“
Freistnivandi í húsnæðiskreppu
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að í grunninn vilji flokkurinn einfaldlega standa vörð um græn svæði í borgarlandinu.
„Reykjavík er ekkert eina borgin í heiminum sem hefur staðið frammi fyrir svona freistnivanda. Sérstaklega þegar uppi er húsnæðisskortur. Til dæmis voru uppi hugmyndir á sínum tíma um að byggja í Central Park í New York,“ segir Hildur.
Hún segir meirihlutann hafa verið tvísaga um stöðu verndar á Elliðaárdalnum, hvort þar ríki vernd eða ekki, hvernig þeirri vernd sé háttað og hvað hún feli í sér. „Það virðist liggja fyrir þarna tilaga frá 2014 um að setja á svokallaða hverfisvernd í Elliðaárdalnum, en hún er ekki komin á ennþá því hún er sett á með deiliskipulagi sem ekki er búið að samþykkja fyrir þetta svæði,“ segir Hildur og bætir því við að hverfisvernd komi síðan ekki í veg fyrir að hægt sé að byggja mannvirki á svæðinu, enda eru nú þegar áform um ýmsan rekstur í dalnum.
Hildur tekur fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi sagt að græn svæði hafi mikil jákvæð áhrif á til að mynda andlega heilsu fólks sem og loftgæði, auk annars. „Við höfum talað um að þetta svæði sé lungu borgarinnar þar sem að fólk getur farið og notið náttúrunnar og útivistar og þess vegna leggjumst við gegn þessu.“
Hver er munurinn á friðlýsingu, hverfisvernd, borgargarði og helgunarsvæði?
Í lögum um náttúruvernd segir að ráðherra geti friðlýst landsvæði til að stuðla að markmiðum laganna, sem eru meðal annars að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Þar segir einnig að hvers konar athafnir eða framkvæmdir sem ganga gegn markmiði friðlýsingar og geta skðað verndargildi friðlýstra náttúruminja séu óheimilar nema samkvæmt sérstakri undanþágu sem ráðherra veitir samkvæmt mjög þröngum skilyrðum. Þá varðar það allt að fjögurra ára fangelsi að spilla friðlýstum náttúruminjum hljótist af þeim alvarleg spjöll á náttúru landsins samkvæmt lögunum.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur eru borgargarðar þeir stóru garðar innan borgarmarkana sem setja hvað mestan svip á borgarlandið. Auk Elliðaárdals, sem er 270 hektarar, eru í hópi stórra borgargarða Fossvogsdalur, Öskjuhlíð, Klambratún, Vatnsmýri, Laugardalur, Gufunes, Grafarvogur að Hólmsheiði og Úlfarsárdalur frá Blikastaðakró að Hafravatni.
Minni borgargarðar eru til dæmis Tjörnin og Hljómskálagarður og Laugarnestangi. Gert er ráð fyrir því að styrkja sérstöðu og sérkenni borgargarðanna þannig að hvert svæði bjóði upp á ólíka möguleika til útivistar og afþreyingar. Innan borgargarða er gert ráð fyrir útivistariðkun og fjölbreyttri mannvirkjagerð af ýmsum toga sem tengist nýtingu og þjónustu svæðanna til útiveru, afþreyingar og leikja og allrar almennrar frístundaiðkunar. Einnig má gera ráð fyrir veitingaaðstöðu og veitumannvirkjum.
Í skipulagslögum segir að sé talin þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd. Jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndarsvæði í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.
Í Aðalskipulaginu segir að ekki sé gert ráð fyrir að byggt sé nær ám og vötnum innan þéttbýlissvæðis borgarinnar en ákvarðast af helgunarsvæði þeirra. Helgunarsvæði áa og vatna ákvarðist síðan af afmörkun hverfisverndar fyrir viðkomandi á eða vatn. Ekki er heimilt að hindra leið fótgangandi meðfram ám og vötnum. Endanleg fjarlægð byggðar frá vötnum og ám er skilgreind á grunni náttúrufarsúttekta og á grunni deiliskipulags fyrir viðkomandi svæði og afmörkun hverfisverndarsvæðis. Gera má ráð fyrir mannvirkjum innan helgunarsvæðis áa og vatna sem tengjast notkun svæðanna til útivistar sem sagt stíga, dvalar- og áningarstaða. Ár og vötn eru hluti af heildarskipulagi opinn svæða í borgarlandinu, en hefur sérstaka skilgreiningu sem ár, vötn og sjór á landnotkunaruppdrætti.
Skilgreining Elliðaárdalsins í Aðalskipulagi
Elliðaárdalur nær frá Elliðavatni, vestur og norður að Elliðavogi. Hann dregur nafn sitt af Elliðaám, sem um hann renna. Elliðavogshraun þekur dalbotninn. Austan og norðan við dalinn eru hverfin Árbær og Höfðar, en sunnan og vestan við hann eru Heimar, Sogamýri, Fossvogur og Breiðholt. Elliðaárdalur er eitt mest sótta útivistarsvæðið í borginni.
Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, til vatnsaflsvirkjunar. Rafstöðin var reist um 1920.
Árið 1950 hóf Skógræktarfélag Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum í samstarfi við borgina og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það starf hefur skilað í víðfeðmum skógi og frjósömu lífríki gróðurs sem er eitt helst aðdráttarafl skógarins. Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliðaárdalur skiptist í megindráttum í tvo hluta, ofan og neðan við Breiðholtsbraut sem þverar svæðið. Innan svæðisins er hesthúsabyggðin í Víðidal, íþróttasvæði, ræktaður útivistarskógur. Árnar og nánasta umhverfi þeirra, Blásteinshólmi og árbakkar Dimmu falla undir hverfisvernd.
„Stefnt er að afmörkun hverfisverndarsvæðis fyrir Elliðaárnar og nánasta umhverfi þeirra í deiliskipulagi innan þriggja ára frá samþykkt aðalskipulagsins. Megin stefna í skipulagi svæðisins er að skapa jafnvægi á milli verndunar og nýtingu svæðisins til útivistar.“