1. Stofnun
Danski þjóðarflokkurinn, eða Dansk Folkeparti, var stofnaður þann 6. október árið 1995 sem klofningsframboð úr Danska framfaraflokknum. Stofnmeðlimirnir fjórir voru þau Pia Kjærsgaard, Kristian Thulesen Dahl, Poul Nødgaard og Ole Donner, en þeir höfðu allir lotið í lægra haldi í síðustu kosningum til forystu Framfaraflokksins.
2. Pia
Íslandsvinurinn Pia Kjærsgaard leiddi stofnun Þjóðarflokksins, en hún var áður formaður Danska framfaraflokksins. Pia fæddist árið 1947 í Kaupmannahöfn og er því 71 árs, en hún hefur setið samfellt á þingi frá árinu 1984. Pia var formaður Þjóðarflokksins frá stofnun alveg til ársins 2012, en árið 2015 tók hún við sem forseti Danska þjóðarþingsins. Kristian Thulesen Dahl tók við formannssæti Þjóðarflokksins af Piu og er sitjandi formaður.
3. Vaxandi vinsældir en aldrei í stjórn
Allt frá stofnun flokksins hefur hann verið með fulltrúa á danska þjóðþinginu, en stofnmeðlimirnir sátu allir sem þingmenn Danska framfaraflokksins. Þremur árum seinna tók hann svo þátt í fyrstu þingkosningunum sínum og náði þar 7,4 prósentum atkvæða. Fylgi flokksins hefur vaxið nær stöðugt síðan þá, en í síðustu þingkosningum árið 2015 fékk flokkurinn 21,1 prósent atkvæða. Flokkurinn hefur ekki enn verið formlega í ríkisstjórn, en hefur þó varið þrjár minnihlutastjórnir falli og einungis verið í stjórnarandstöðu í fimm ár frá aldamótunum.
4. Í sama flokki og Le Pen
Opinber stefnumál flokksins snúa að sjálfstæði Danmerkur, stuðningi við þjóðkirkjuna og konungsveldið, hörðum refsingum við lögbrotum, verndun dansks menningararfs auk takmörkunar á innflytjendum og andstöðu við fjölmenningarsamfélag. Á hinn bóginn fer minna fyrir efnahagsmálefnum flokksins, þess utan að þau vilji viðhalda norrænu velferðarkerfi og stuðla að sterku atvinnulífi. Stjórnmálafræðingar hafa skilgreint flokkinn sem róttækan hægrisinnaðan popúlistaflokk, í sama flokki og Þjóðarfylking Marine Le Pen og Svíþjóðardemókratarnir.
5. Gamlir karlar á Jótlandi
Fylgi flokksins mælist mest á Suður-Jótlandi, Fjóni og Sjálandi utan höfuðborgarinnar, en Danski þjóðarflokkurinn mælist ekki sterkur í flestum dönskum borgum. Sömuleiðis er kjósandi flokksins líklegri til að vera karlmaður, á efri árum, búa við lágar tekjur og hafa litla formlega menntun.
6. Hreintungustefna
Danski þjóðarflokkurinn er þekktastur fyrir þjóðernishyggju sína, en talsmenn flokksins hafa oft sett sig upp á móti erlendum tungumálaáhrifum.Fyrir þremur árum síðan lagði talsmaður menningarmála flokksins, Alex Ahrendtsen, til að enskukennsla yrði bönnuð í dönskum ríkisháskólum. Sömuleiðis hefur Martin Henriksen, ritari flokksins, mælt gegn því að innflytjendur tali á móðurmáli sínu heima hjá sér, heldur ættu þeir að tala á dönsku. Morten Marinus, talsmaður fjölmiðlamála flokksins, hefur einnig krafist þess að a.m.k. 40% allrar tónlistar á útvarpsstöðvum landsins skuli vera á dönsku.
7. Múslimar
Þjóðernishyggjan nær þó dýpra en einungis í hreintungustefnu, en margir meðlimir flokksins hafa lýst yfir andúð sína gagnvart fólki af erlendum uppruna og þá sérstaklega múslimum. Í kjölfar hryðjuverkaárasanna á Tvíburaturnana í New York þann 11. september árið 2001 sagði Pia Kjærsgaard vestræna siðmenningu vera eina siðmenningu heimsins. Opinberir meðlimir flokksins hafa líka að minnsta kosti verið fjórum sinnum dæmdir vegna refsiverðrar kynþáttahyggju í dönskum dómstólum, meðal annars fyrir að hafa kallað 80% pólskra kvenna vændiskonur og líkt múslima við Hitler.
8. „Þú ert ekki danskur“
Með frægustu atvikum meðlima Danska þjóðarflokksins á síðari árum var þó framkoma Martins Henriksen, ritara flokksins, í sjónvarpsþættinum Debatten fyrir tveimur árum síðan. Þar sagði hann dönskum menntaskólanema að hann væri ekki danskur, þar sem hann væri af erlendu bergi brotinn. Uppákomuna má sjá hér að neðan.
9. Ásakanir um rasisma
Vegna fjandsamlegra ummæla í garð útlendinga auk fólks af öðrum kynþáttum hefur Danski þjóðarflokkurinn oft verið ásakaður fyrir að ýta undir kynþáttahatur. Í fyrra sagði til dæmis fyrrum ráðherra Danska vinstriflokksins margt vera sameiginlegt milli Þjóðarflokksins og Ku Klux Klan. Aðrir hafa einnig bent á þá staðreynd að flokkurinn beri sama nafn og danskur nasistaflokkur í síðari heimsstyrjöldinni, en Þjóðarflokksmeðlimir hafa þvertekið fyrir líkindi á milli þeirra og segja nafngiftina vera ómerkilega tilviljun.
10. Samkynhneigðir
Skoðanir margra innan þjóðarflokksins eru ekki einungis fjandsamlegar í garð útlendinga, en talsmenn hans hafa einnig tjáð sig gegn réttindum samkynhneigðra. Einn þingmaður flokksins kallaði þá „fatlaða“ og annar líkti hjónabandi samkynhneigðra við því að giftast hundi. Einnig eru þeir á móti ættleiðingum samkynhneigðra para þar sem börnin fengju ekki „réttu upplifunina af fjölskyldulífi.“ Í ræðu sinni árið 2006 sagði svo Pia að tveir samkynhneigðir karlmenn myndu ekki fá gervifrjóvgun í hennar valdatíð, slíkt væri „hneyksli.“