Tækni- og smásölurisinn Amazon kom fjárfestum á greinendum nokkuð á óvart með því að sýna meiri hagnað á öðrum ársfjórðungi en reiknað var með.
Hagnaðurinn var 2,5 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 260 milljörðum króna.
Gríðarlegur vöxtur í skýjaþjónustu Amazon, undir Amazon Web Services, er eitt af því sem skýrir betri afkomu en vöxturinn í þeirri starfsemi var um 50 prósent miðað við sama tíma í fyrra.
Sölutekjur jukust um tæplega 40 prósent, en markaðsgreinendur gerðu ráð fyrir meiri aukningu enn það.
Mannauðurinn undir smásjánni
Eitt af því sem skýrir góða afkomu hjá Amazon er minni vöxtur í ráðningum en gert hafði verið ráð fyrir. Framlegðin í rekstrinum hefur þannig styrkst á sama tíma og rekstrarkostnaður ekki hækkað eins mikið og bæði áætlanir og greiningar gerðu ráð fyrir.
Fjármálastjóri Amazon, Brian Olsavsky, lét hafa eftir sér þegar hann kynnti uppgjörið, að eitt af því sem hefði skýrt betri afkomu Amazon væri endurskipulagning á starfseminni. Ráðningar hafa ekki verið eins tíðar og þær hafa verið undanfarið ár, enda hefur vöxtur fyrirtækisins verið með ólíkindum, segir í umfjöllun MarketWatch.
Samtals starfa nú 575 þúsund manns hjá fyrirtækinu en í fyrra bættust 225 þúsund í hópinn. Þar af voru 90 þúsund sem tilheyra Whole Foods en Amazon keypti það fyrirtæki í fyrra fyrir 13,7 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega 1.500 milljarða króna.
Í máli Olsavsky koma fram að vöxturinn í starfsmannafjölda hefði verið 1,7 prósent á undanförnum þremur mánuðum, en í fyrra jókst fjöldinn um 65 prósent.
Olsavsky segir að endurskipulagningin á mannauði fyrirtækisins hafi heppnast vel, og að grunnreksturinn hafi styrkst mikið. Rekstrarkostnaðurinn hefur þó vaxið hratt samhliða vexti fyrirtækisins í tekjum, og jókst hann um 33 prósent milli ára á öðrum ársfjórðungi
Risi á alla kanta
Markaðsvirði Amazon er nú 861 milljarður Bandaríkjadala, eða sem nemur um 90 þúsund milljarðar króna. Til samanburðar er virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni um 750 milljarðar króna. Þannig er Amazon nú 120 sinnum verðmætara en íslenski hlutabréfamarkaðurinn í heild. Fyrirtækið er risi á alla kanta, og hefur vaxið hraðast allra fyrirtækja í sögunni, en það var stofnað 1994 og er með höfuðstöðvar í Seattle.
My dad came here from Cuba all by himself without speaking English when he was 16 years old, and has been kicking ass ever since. Thank you for all the love and heart, Dad! pic.twitter.com/nuavG0yEtM
— Jeff Bezos (@JeffBezos) June 17, 2018
Ríkasti maður heims er stofnandi og forstjóri Amazon, Jeff Bezos. Eignir hans eru metnar á um 150 milljarða Bandaríkjadala, en þær eru að miklu leyti bundnar í hlutabréfum í Amazon. Hann á ennþá stóran hlut í fyrirtækinu, eða 17 prósent.