Förum aftur um áratug. Sumarið 2008 var frost á eignamörkuðum á Íslandi. Hlutabréf höfðum á skömmum tíma fallið um meira en 30 prósent frá því í upphafi ársins og óveðursský voru í augsýn.
Þó enginn hafi séð fyrir hið epíska fall íslenska fjármálakerfisins (þó ýmsir telji sig hafa gert það) dagana 7. til 9. október þá voru sannarlega komin fram einkenni á mörkuðum sem vöktu ugg.
Endatafl þessarar þróunar þekkja allir. Neyðarlagasetning og fjármagnshöft mörkuðu sporin í nýju upphafi íslenska hagkerfisins og ekki síst hins skráða markaðar.
Þurrkaðist út
Óhætt er að segja að mikið endurreisnarstarf hafi átt sér stað á markaði hér á landi frá því fyrir tæpum áratug. Nær allt markaðsvirði hlutabréfamarkaðarins gufaði upp og stærstu félögin á markaði - Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir - féllu eins og spilaborg og tilheyrðu honum því ekki lengur.
Undanfarinn áratugur á hluta- og skuldabréfamarkaði hefur markast af þessum atburðum, vitaskuld, enda hefur þurft mikið átak til að endurreisa markaðinn og skapa á honum líf á nýjan leik. Í stórum dráttum hefur þessi endurreisn gengið vel, en nú eru blikur á lofti.
Hafta-markaður
Á aðallista Nasdaq kauphallar Íslands eru nú 18 félög. Lífeyrissjóðir landsmanna eiga á bilinu 50 til 60 prósent af heildarhlutafé á markaðnum, þegar allt er talið, bæði bein og óbein eignaraðild, í gegnum sjóði.
Innan fjármagnshafta var markaðurinn endurreistur og þá var ofgnótt fjár á markaðnum, þar sem lífeyrissjóðir höfðu takmarkaða möguleika til fjárfestinga. Í því umhverfi var markaðurinn reistur við og allt frá fyrstu nýskráningunni á markað eftir hrunið, þegar Hagar voru skráðir á markað í desember 2011, hefur félögum fjölgað jafnt og þétt. Þau eru nú 18 talsins.
Á árunum 2011 og fram til loka ársins 2017 átti sér stað mikil hækkun á flestum eignum á Íslandi, samhliða miklum vexti í ferðaþjónustu og innilokuðu hagkerfinu í höftum. Fasteignir þutu upp í verði, í alþjóðlegum samanburði, og gengi krónunnar styrktist.
Lífeyrissjóðir byggðu í raun upp hlutabréfamarkaðinn með nýfjárfestingum í félögum sem voru skráð á markað. Hlutverk sjóðanna skipti sköpum og gerði það mögulegt að búa til lifandi hlutabréfamarkað á nýjan leik.
Lækkanir og lækkanir
Einhver óveðursský - ekki jafn dökk og árið 2008 þó - hafa verið að hrannast upp á markaðnum að undanförnu. Það sem af er árið hefur vísitala aðallistans lækkað um 17,3 prósent, og sé horft yfir 12 mánaða tímabili þá nemur lækkunin um 13 prósentum.
Hvað er það sem veldur?
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Og eins og ávallt þegar markaðsþróun er annars vegar, þá er ekki auðvelt að skýra nákvæmlega hvað það er sem veldur tiltekinni þróun, að öðru leyti en því fyrir hversu mikið er keypt og selt, hvernig framboð og eftirspurn hefur áhrif á daglegar sveiflur verðs.
Eitt af því sem viðmælendur Kjarnans á meðal sérfræðinga á fjármálamarkaði og fjárfesta voru sammála um að nú væri að gerast á markaði, væri minnkandi kaupþrýstingur á markaði frá lífeyrissjóðum og mörgum efnameiri fjárfestum.
Lífeyrissjóðir hafa að undanförnu verið vaxandi á húsnæðislánamarkaði og hafa auk þess sett sér markmið um að auka hlutfall erlendra eigna í eignasöfnum sínum á næstunni. Hlutfallið fyrir sjóðina í heild er um 25 prósent, um þessar mundir. Heildareignir lífeyrissjóðana voru 4.068 milljarðar króna í byrjun júlí og voru innlendar eignir þar af, rúmlega 3 þúsund milljarðar. Erlendar eignir voru rúmlega 1 þúsund milljarðar.
Flestir íslensku lífeyrissjóðanna hafa sett sér markmið um að auka hlutdeild erlendra eigna á næstu árum, í allt að 30 til 40 prósent. Þessi stefnubreyting hefur því mikil áhrif á Íslandi vegna umfangs lífeyrissjóðana á mörkuðum hér á landi. Eftirspurnin minnkar og markaðurinn verður grynnri.
Viðmælendur Kjarnans sögðu að þessi staða væri alls ekki ákjósanleg, þar sem erfitt sé að styðja við félög til vaxtar, þegar markaðurinn er svona grunnur eins og þessi misserin. Þá vanti einnig að örva erlenda fjárfestingu inn á markaðinn, jafnvel þó erlendir sjóðir hafi fjárfest fyrir milljarða í íslenskum félögum á síðasta ári. Það dugar skammt. Nýskráningar Arion banka og Heimavalla hjálpa þó til við að stækka „vöruúrvalið“ á markaðnum.
Tækifæri og forspárgildi
Þrátt fyrir að hlutabréfamarkaðurinn hafi verið að lækka að undanförnu, og ekki líflegt á markaðnum þessi misserin, þá geta myndast kauptækifæri í stöðu sem þessari. Verðmiðinn á Icelandair er t.d. búinn að lækka um meira en 75 prósent á tveimur árum og er hann nú langt undir því eigin fé sem er í félaginu þessi misserin. Verðmiðinn er nú um 38 milljarðar á meðan eigið fé í lok fyrsta ársfjórðungs á þessu ári var 57 milljarðar.
En hvað er framundan? Erfitt er að segja til um það, eins og áður hefur verið nefnt, en í samanburði við erlenda markaði þá hefur lækkunin á Íslandi verið skarpari en víðast hvar, á þessu ári. Inn á markaðinn vantar sárlega fleiri sem stunda reglulega viðskipti, og það á ekki síst við um almenna fjárfesta, bæði smærri félög og einstaklinga. Ef ekki kemur til vaxandi fjárfesting á markaðnum á næstu misserum - einkum erlendis frá - þá gæti þessi skarpa lækkunarhrina haldið áfram.