Tæpur áratugur er nú síðan hrikalegar aðstæður sköpuðust í heimsbúskapnum, og versta fjármálakreppa frá Kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar, skall á.
Vantraust skapaðist á fjármálamörkuðum, húsnæðisverð féll og atvinnuleysi jókst mikið. Svo til alls staðar í heiminum versnuðu atvinnuhorfur og nýr og alvarlegri veruleiki blasti við.
Með fordæmalausum stuðningsaðgerðum seðlabanka og ríkissjóða má segja að hörmungum hafi verið afstýrt. Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir í bók sinni, The Courage to Act, sem kom út árið 2015, að innan við sólarhring hafi munað á því, að algör ringulreið hefði skapast á mörkuðum.
Segir hann í bókinni að atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefði þá getað rokið upp í 30 til 40 prósent, eins og það var í Kreppunni miklu, með fjöldagjaldþrotum og hrikalegum aðstæðum.
Uppgangur
Á þessum tæpa áratug sem liðinn er frá atburðunum sem leiddu til djúprar fjármálakreppu, hefur efnahagslegur uppgangur verið stöðugur á flestum stærstu markaðssvæðum heimsins. Ekki síst í Bandaríkjunum og Evrópu. Óhætt er að segja að mikið umrót hafi verið í stjórnmálum og fjölmiðlum á þessum tíma, ekki síst með hraðri útbreiðslu samfélagsmiðla.
Hægt er að skrifa mikið um þetta tímabil, og út frá ýmsum hliðum. En sé litið til eins þáttar sérstaklega, atvinnuleysis, þá hafa orðið miklar framfarir á síðustu árum.
Mest fór atvinnuleysið upp fyrir 10 prósent í Bandaríkjunum, 2010, en mældist nú í lok júlí, 3,9 prósent. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur í Bandaríkjunum í meira en fjóra áratugi. Sé litið til prósentutalna hefur atvinnuleysi á þessum tíma þróast með svipuðum hætti á Íslandi. Árið 2010 fór það hæst í rúmlega 10 prósent, en það mælist nú um 3 prósent.
Í Evrópu hefur mikið atvinnuleysi lengi verið samfélagsmein, einkum í Suður-Evrópu. Á undanförnum árum hefur staðan þó batnað nokkuð.
Í Evrópusambandríkjum er meðaltalsatvinnuleysi nú 7,1 prósent. Árið 2013 var það mest, sé litið til þróunar á undanförnum áratug, en það fór þá yfir 12 prósent. Atvinnuleysið hefur verið einna mest á Spáni en það er nú 16,1 prósent, en fór hæst yfir 25 prósent árið 2013.
Sé litið til einstaka aldurshópa þá er atvinnuleysið mest hjá ungu fólki, undir 35 ára aldri, í Suður-Evrópu. Á Spáni er atvinnuleysi hjá þessum hópi upp undir 40 prósent og á Ítalíu yfir 30 prósent, en atvinnuleysi mælist þar nú 10,9 prósent.
Í Bretlandi hefur atvinnuleysið einnig haldið áfram að dragast saman, þrátt fyrir harðar deilur í breska þinginu um Brexit og fleiri mál. Það mælist nú um 4 prósent en mest fór það yfir 8 prósent árið 2012.
Hvað gerist þegar Seðlabankar hætta örvunaraðgerðum?
Eins og vel er dregið fram í fyrrnefndri bók Bernanke, þá hafa seðlabankar í heiminum verið í lykilhlutverki þegar kemur að því örvar hagkerfi heimsins á undanförnum áratug. Þeir hafa liðkað fyrir fjármagni í fjármálakerfinu og dælt peningum út á markaði, með skuldabréfakaupum, bæði hjá fyrirtækjum og þjóðríkjum. Þetta hefur leitt til þess að hagvöxtur hefur örvast og fleiri störf hafa skapast.
Seðlabanki Evrópu hefur tilkynnt um að hann muni hætta með áætlun sína um kaup á skuldabréfum (magnbundinni íhlutun) í desember, en í einföldu máli sagt hefur sú áætlun miðað að því að örva hagvöxt og liðka fyrir ódýru fjármagni á mörkuðum, til að koma í veg fyrir frekari erfiðleika, bæði efnahagslega og félagslega. Mario Draghi, seðlabankastjóri, hefur sagt að bankinn muni þó fara að öllu með gát og fylgjast vel með þróun mála.
Það er til marks um umfang þessara örvunaraðgerða, að það er um tvö þúsund milljarðar evra, eða sem nemur um 246 þúsund milljörðum króna, miðað við núverandi gengi krónu gagnvart evru.
Svipað hefur verið upp á teningnum í Bandaríkjunum, en vaxtahækkanaferli er þar hafið. Einn þeirra sem hefur varað við því, að fjárfestar séu ekki nægilega á varðbergi þegar kemur að minnkandi áhrifum seðlabankaaðgerða á mörkuðum, er Jamie Dimon, bankastjóri JP Morgan Chase. Hann segir að framundan geti verið stórar ákvarðanir hjá seðlabönkum með hækkandi vaxtastigi og verðbólgu. Erfitt sé að segja til um hver áhrifin verði á mörkuðum, en augljóst sé að þau verði mikil.
Í bréfi sem Dimon skrifaði til hluthafa, í lok árs í fyrra, minntist hann sérstaklega á hlutverk seðlabanka á mörkuðum á áhrif þeirra á endurreisnartímanum á undanförnum árum. Sagði hann fjárfesta ekki mega vanmeta þessi áhrif.