Sumarið hefur nú náð hápunkti sínum að aflokinni verslunarmannahelginni auk þess sem Hinsegin dagar fara nú fram um helgina og þá styttist í Menningarnótt í Reykjavík. Umferð gangandi og hjólandi á höfuðborgarsvæðinu hefur líkast til aldrei verið meiri og ljóst að umhverfisvænn ferðamáti heillar æ fleiri. Kjarninn tók saman nokkrar staðreyndir um samgöngur.
1.
Heildarfjöldi skráðra ökutækja á Íslandi í árslok 2017 var 366.888 en þar af voru 294.482 ökutæki í umferð á þeim tíma. Að meðaltali voru því fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern Íslending 2017. Alls eru samtals rúmlega 170 þúsund bifreiðar hvers kyns skráðar á höfuðborgarsvæðinu. Fólksbílar eru ríflega 150 þúsund talsins á sama svæði.
2.
Þrátt fyrir mikla aukningu í hjólreiðum var síðasta ár metár í bílaumferð. Umferð hefur aukist samfara efnahagsuppsveiflunni en bifreiðaeign og akstur hefur vaxið með fólksfjölgun og auknum kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna. Þá fara ferðamenn stóran hluta sinna ferða á bifreiðum og hefur hlutur þeirra í umferðinni farið vaxandi á síðustu árum. Mikil umferðaraukning var á öllum helstu stofnæðum höfuðborgarinnar á síðastliðnu ári. Var aukningin svo dæmi sé tekið 8 prósent á milli áranna 2016 og 2017 á Reykjanesbraut, Hafnarfjarðarvegi og Vesturlandsvegi samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins. Alls fóru að meðaltali 162 þúsund ökutæki á sólarhring um þessar leiðir. Jókst dagsumferðin um ríflega 12 þúsund ökutæki á milli ára. Kemur aukningin í kjölfar metvaxtar á árinu 2016 þegar aukningin mældist 7 prósent.
3.
Reykjavík og Nikósía, höfuðborg Kýpurs, eru einu höfuðborgirnar í Evrópu þar sem hlutfall þeirra sem ferðast með einkabíl til vinnu er yfir 75 prósent. Þá er hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur langminnst í þessum tveimur borgum, auk Vallettu, höfuðborg Möltu samkvæmt skýrslu Hagstofu Evrópusambandsins frá síðasta ári. Þar voru samgöngumátar í Evrópuborgum meðal annars bornir saman. Reykjavík skar sig nokkuð úr, en alls fara 83 prósent borgarbúa akandi í vinnuna.
4.
Borgarlína er eitt af því sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hyggjast nýta til að snúa þessari þróun við og fjölga þeim sem notast við aðra ferðamáta en einkabílinn. Borgarlínan, sem flestir þekkja núorðið, er samkvæmt heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu nýtt og afkastamikið kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirbúa nú í sameiningu. Þar er því haldið fram að hún sé forsenda þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og við línuna og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka. Með borgarlínu verði hægt að byggja hagkvæmari rekstrareiningar með að byggja þéttari byggð til dæmis með því að hafa færri bílastæði.
5.
Minnst er á borgarlínu stuttlega í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þar segir: „Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“ Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar lýst yfir ákveðnum efasemdum um verkefnið, aðallega í ljósi fyrirsjáanlegs kostnaðar við það. Hann sagði til dæmis á Alþingi í vor að hvorki ríkið né Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu sýnt fram á að þau hefðu úr þeim fjármunum að spila sem þyrfti til þess að hrinda borgarlínu í framkvæmd.
6.
Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur, sem samanstendur af Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Vinstri grænum, ætlar að vinna áfram að borgarlínu, ljúka skipulagsvinnu vegna fyrsta áfanga hennar og hefja framkvæmdir formlega á kjörtímabilinu. Í meirihlutasáttmála flokkanna segir einnig að samningum verði náð við ríkið um línuna og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar til að létta á umferðinni og breyta ferðavenjum. Þá ætlar flokkarnir einnig að bæta strætó og gefa 12 ára og yngri frítt í vagnana og auka tíðni á helstu stofnleiðum í 7,5 mín á háannatímum. Einnig verður sett ný bílastæðastefna og gjaldskyld svæði stækkuð og gjaldskyldutími lengdur. Uppbyggingu hjólastíga verður hraðað og skoðað að leggja sérstakar hjólahraðbrautir. Að endingu ætlar meirihlutinn að liðka fyrir notkun rafmagnsreiðhjóla, meðal annars með uppsetningu hleðslustöðva.
7.
Í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar til ársins 2020, sem er ætlað að auka hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í borginni, kemur fram að markmiðið sé að hlutfall hjólandi í öllum ferðum verði að minnsta kosti 6,5 prósent árið 2020 og hlutdeild hjólandi og gangandi verði að minnsta kosti 26 prósent á sama tíma. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru sett fram þau markmið að árið 2030 verði hlutdeild hjólandi minnst 8 prósent og að hlutdeild hjólandi og gangandi verði 30 prósent árið 2030. Hjólaferðum í Reykjavík hefur fjölgað svo mikið undanfarin ár, að það nálgast markmið sem sett var í aðalskipulaginu fyrir árið 2030, og er nú komið upp í 7 prósent.
8.
Karlar hjóla meira en konur, en í mælingum Reykjavíkurborgar sem birtar voru í mars voru 9 prósent ferða karlmanna farnar á hjóli en 5 prósent kvenna. Hafði þá hjólandi ferðum kvenna fjölgað frá því í mælingum fyrir þremur árum. Hins vegar höfðu ferðir karla staðið í stað. Stærsti hjólahópurinn er síðan 6 til 12 ára börn.
9.
Tímabil göngugatna í Reykjavík stendur yfir frá 1. maí til 1. október. Markmið þessara takmarkana er að efla mannlíf og verslun í miðborginni. Öll umferð bifreiða er óheimil á svæðinu nema á ákveðnum tímum fyrir vörulosun. Þessi tilhögun hefur ekki verið óumdeild. Nokkrir kaupmenn á svæðinu hafa til að mynda kvartað yfir minnkandi sölu sem þeir rekja til lokananna.
10.
Í könnun Maskínu frá því í fyrra kom fram að hátt í 52 prósent Íslendinga eru ánægð með sumargötur í Reykjavík en slétt 22 prósent eru óánægð með þær. Þó nokkur munur var á svörum eftir aldri en eftir því sem fólk er yngra er það ánægðara með sumargöturnar. Ekki var munur á viðhorfi eftir búsetu eða tekjum einstaklinga en hins vegar töluverður munur eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk sagðist myndi kjósa. Þannig voru mun færri kjósendur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins ánægðir með sumargötur á meðan ánægjan var töluvert meiri meðal kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar.