Framundan eru spennandi kosningar í Bandaríkjunum. Hinar svonefndu miðkjörtímabilskosningar fara fram í nóvember og verður þá kosið um 435 sæti í fulltrúadeildinni og 35 sæti af hundrað í öldungadeildinni.
Donald J. Trump Bandaríkjaforseti og Repúblikanaflokkur hefur sterka stöðu í þinginu um þessar mundir en hún gæti breyst í nóvember.
Athyglin nú beinist ekki síst að einum hópi kjósenda. Ungra kvenna. Samkvæmt könnunum Gallup, sem The Economist fjallaði um í útgáfu sinni 6. ágúst síðastliðinn, þá er mikill munur á viðhorfi kvenna og karla til forsetans.
Jafnt og spennandi
Eins og staða mála eru núna, ef mið er tekið af nýjustum könnunum Gallup, þá hefur Trump haft stuðning 35 prósent kvenna og 49 prósent karla.
Þetta kann að koma mörgum á óvart, í ljósi hinnar hörðu og fordæmalausu orðræðu sem Trump hefur ástundað alveg síðan hann tók við embætti, en margt bendir til þess að kosningarnar í nóvember verði jafnar og spennandi. Þessi munur á viðhorfum kvenna og karla mælist nú meiri en áður á kjörtímabilinu, og eru það sérstaklega konur undir þrítugu sem eru andstæðingar Trumps.
Mæti þær vel á kjörstað, gætu þær ráðið úrslitum í kosningunum, að því er The Economist greinir frá.
Demókratar sundraðir
Demókratar hafa lengi verið með fleiri konur í sínum kjósendaröðum heldur en Repúblikanar og samkvæmt könnunum bendir ekkert til þess að það breytist.
Í síðustu miðkjörtímabilskosningum, árið 2014, talaði Barack Obama, þáverandi forseti, skýrt til kvenna og meira fylgi Demókrata hjá konum réði úrslitum um útkomuna í kosningunum. Árið 2012 fékk Obama 55 prósent fylgi meðal kvenna en 45 prósent meðal karla, sé horft til þeirra sem greiddu honum atkvæði sitt.
Það sem helst þykir óvissa um fyrir komandi kosningar er hvernig Demókrötum muni ganga að þétta raðirnar og sameina flokksmenn. Mikill klofningur hefur einkennt starf flokksins undanfarin ár, og má meðal annars rekja það til baráttu Bernie Sanders og Hillary Clinton um hver yrði forsetaframbjóðandi flokksins fyrir kosningarnar 2016.
Sanders er enn fullur af eldmóði og hefur alls ekki lagt árar í bát. Ólíklegt þykir að hann verði forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum 2020, en hann hefur sjálfur ekki útilokað neitt og hyggst halda áfram með fjöldafundi sína vítt og breitt um Bandaríkin.
Konur í lykilhlutverki
Eitt af því sem kannanir hafa verið að leiða fram að undanförnu, er mikil breyting á fylgi kvenna frá sem verið hefur í fyrri kosningum. Repúblikanar hafa sjaldan eða aldrei verið með minna fylgi meðal kvenna í könnunum.
Samkvæmt rannsókn Pew, rannsóknar- og greiningarfyrirtækis sem The Economist vitnar til í umfjöllun sinni, eru um 25 prósent kvenna stuðningsmenn Repúblikana en 28 prósent karla. Um 39 prósent kvenna styðja Demókrata og 26 prósent karla, samkvæmt fyrrnefndri rannsókn. Afgangurinn telst til óákveðinna.
Í ljósi þessarar stöðu, það er hversu mikið fylgi er að mælast meðal óákveðinna, telja margir sérfræðingar á sviði kosningarannsókna, að aldrei hafi verið jafn augljóst rými fyrir framboð sem gæti skipt miklu máli og náð jafnvel að komast í lykilstöðu í bandarískum stjórnmálum, eitthvað sem oft hefur verið talið óhugsandi.
En breyttir tímar gætu kallað fram breytt landslag og mun tíminn leiða í ljós hvort Demókratar ganga sameinaðir til leiks eða klofna enn meira eftir því sem kosningarnar 2020 nálgast.
Konur stíga fram
Í úttekt The New Yorker, frá því í apríl, var fjallað ítarlega um stöðu kvenna í bandarískum stjórnmálum og hvernig fjölmenn mótmæli kvenna, vítt og breitt um Bandaríkin, gegn Trump og orðræðu hans um konur, hefðu þjappað þeim saman og skapað farveg fyrir ungar konur sem áhuga hafa á frama í stjórnmálum.
Samkvæmt úttektinni er líklegt að 57 konur berjist um að ná kjöri í miðkjörtímabilskosningunum í nóvember og hafa aldrei verið svo margar konur í eldlínunni, í þessum mikla karlaheimi sem svið stjórnmálanna í Bandaríkjunum er. Gott gengi margra kvenna á pólitískum fundum á undanförnum mánuðum rennir stoðum undir þá kenningu að konur geti ráðið úrslitum í nóvember.
Samkvæmt úttekt The New Yorker hafa konur í Repúblikanaflokknum einnig verið að sækjast eftir meiri leiðtogahlutverkum og er megn óánægja með Trump forseta, og hvernig hann hefur talað um konur síðan hann fór í forsetaframboð, innan raða flokksins. Meðal þeirra sem nefndar eru líklegar til afreka innan flokksins eru lögfræðingurinn Claudia Tenney, frá New York, og Barbara Comstock.
Hin síðarnefnda hefur gagnrýnt Trump harðlega fyrir að gera lítið úr konum og kynferðislegri áreitni. Hún hefur hvatt Repúblikana til að taka MeToo byltinguna alvarlega og hlusta á það sem konur úr öllum stigum samfélagsins hafa að segja.
Ólíkt því sem margir héldu í upphafi þá hefur Comstock fengið byr í segl og þykir til alls líkleg, á næstu árum, þegar kemur að frama innan Repúblikanaflokksins. Eitt af því sem hefur viðhaldið vinsældum hennar er sterk staða meðal byssueigenda en hún hefur þann stimpil á sér hjá NRA, Samtökum byssueigenda í Bandaríkjunum, að vera hliðholl viðhorfum samtakanna og líkleg til að styðja þau í þinginu.