Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill að Útlendingastofnun fái heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum. Þau tilvik sem um ræðir eru þegar flóttamaður hefur annað hvort dregið umsókn sína um vernd hérlendis til baka eða hann hefur fengið synjun og ákvörðun hefur verið tekin um að veita aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.
Þeim yrði þá greitt fyrir að fara frá Íslandi í tveimur greiðslum. Sú fyrri, svokallaður ferðastyrkur, yrði greiddur út á Keflavíkurflugvelli. Sá síðari, svokallaður enduraðlögunarstyrkur, yrði greiddur í heimaríki viðkomandi.
Upphæðirnar sem standa til boða sem styrkur til þessara aðila fara meðal annars eftir því hvort viðkomandi er barn eða fullorðinn og hvaðan hann kemur. Þannig eiga fullorðnir einstaklingar frá Afganistan, Íran, Írak, Nígeríu, Sómalíu, Palestínu og Pakistan að fá allt að eitt þúsund evrur, um 123 þúsund krónur, ef þeir samþykkja að fara sjálfviljugur frá íslandi eða hafa fengið synjun á beiðni um alþjóðlega vernd. Barn frá sömu löndum getur hins vegar fengið 600 evrur samtals, um 74 þúsund krónur.
Fullorðnir einstaklingar frá Alsír, Egyptalandi, Kasakstan og Marokkó eiga að fá allt að 700 evrur, 86 þúsund krónur, fyrir að fara frá Íslandi en börn frá sömu löndum fá 37 þúsund krónur samtals í ferða- og enduraðlögunarstyrk.
Fylgdarlaus börn frá öllum ofangreindum ríkjum geta fengið allt að eitt þúsund evrur, 123 þúsund krónur, samþykki þau að draga verndarumsókn sína til baka eða að það sé þegar búið að synja þeim um alþjóðlega vernd.
Flóttamenn frá öðrum löndum en ofangreindum geta fengið á bilinu 100 til 200 evrur í ferða- og enduraðlögunarstyrk fallist þeir á þau skilyrði sem eru fyrir styrkveitingunni.
Þetta kemur fram í drögum að reglugerð sem dómsmálaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda. Drögin voru birt á föstudag, 17. ágúst, og samráðið stendur yfir í tíu daga. Enn sem komið er hafa engar umsagnir verið sendar inn.
Þurfa að undirrita skuldaviðurkenningu
Í drögunum segir einnig að umsókn um enduraðlögunarstyrk skuli lögð fram „innan tveggja daga frá því umsókn um alþjóðlega vernd er dregin til baka eða henni synjað. Ef umsókn um vernd er dregin til baka er Útlendingastofnun heimilt að greiða fullan enduraðlögunarstyrk. Ef umsókn um enduraðlögunarstyrk er lögð fram eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir dragast 100 evrur af heildarupphæð á hvern einstakling. Ef umsókn er lögð fram eftir að úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir dragast 200 evrur af heildarupphæð á hvern einstakling.“
Taki reglugerðin gildi mun Útlendingastofnun fá heimild til þess að greiða styrkina sem um ræðir á meðan styrktarveitingin rúmast innan þeirra fjárheimilda sem stofnunin hefur. Hver útlendingur hefur einungis rétt á enduraðlögunarstyrk einu sinni. „Samhliða umsókn um styrk ber umsækjanda að undirrita skuldaviðurkenningu hjá Útlendingastofnun þess efnis að hann samþykki að endurgreiða veittan styrk komi til þess að hann sæki síðar um dvalarleyfi hér á landi,“ segir í drögunum.
Flóttamönnum sem sækja um hæli á Íslandi hefur fækkað mikið hérlendis undanfarin misseri. Frá áramótum og fram til 15. ágúst höfðu 370 manns sótt um alþjóðlega vernd hérlendis.
Á öllu síðasta ári sóttu 1.096 manns um hæli á Íslandi. Það eru færri en sóttu um hæli á Íslandi á árinu 2016. Þá fengu alls 135 alþjóðlega vernd og leyfi til að dvelja hér áfram, en árið 2017 voru alls 1.293 umsóknir um slíkt afgreiddar. Því fékk einn af hverjum tíu flóttamönnum sem fékk niðurstöðu í hæli á Íslandi.
Þeim hælisleitendum sem voru í þjónustu sveitarfélaga eða Útlendingastofnunar fækkaði mikið í fyrra. Þeir voru 820 í byrjun desember 2016 en 559 í byrjun sama mánaðar 2017. Það þýðir að hælisleitendum sem voru á forræði ríkis eða sveitarfélaga fækkaði um tæpan þriðjung á einu ári.
Þeir sem hafa sótt um hæli og bíða eftir að mál þeirra fái afgreiðslu fá framfærslueyri. Hann er átta þúsund krónur fyrir einstakling á viku en 23 þúsund krónur hjá fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær hver fullorðinn hælisleitandi 2.700 krónur í vasapening á viku og foreldrar fá viðbótar ert barn.