Afleiðingar vegna hlýnunar jarðast virðast versna með hverju árinu sem líður. Óttast er um framtíðina þar sem dauðsföll vegna hitabylgja og pólitískra uppreisna tengdar þurrkum geti hrakið fjölda fólks á flótta á næstu árum. Gæti verið að hægt sé að sporna við þessari þróun með auknum jöfnuði?
Þurrkar, eldar og skæðar hitabylgjur
Þrátt fyrir kulda og vætu á Íslandi hefur sumarið einkennst af skæðum hitabylgjum víðs vegar um heiminn. Hitamet hafa verið slegin í öllum heimshornum, skógareldar geisað í Svíþjóð og langt þurrkatímabil í júlí gerði mörgum Evrópulöndum erfitt fyrir. Geimfarastofnun Evrópuríkja gaf nýlega út gervihnattarmynd þar sem berlega sést hvernig Danmörk hefur skrælnað vegna þurrksins og samkvæmt The Star létust 53 í Montreal í Kanada vegna skæðrar hitabylgju þar í byrjun júlímánaðar.
Sumarið er enn ein birtingarmynd hnattrænnar hlýnunar auk vandamálanna sem fylgja munu henni á næstu árum og áratugum. Vísindamenn spá aukinni tíðni þurrka og hitabylgja samhliða allt að 2,7 metra hækkun sjávarborðs á þessari öld, haldi hlýnunin áfram óbreytt. Samhliða þessu mun meðalhitastig jarðarinnar hækka um allt að fjórar gráður. Ljóst er að allir jarðarbúar muni finna fyrir þessum breytingum á næstu áratugum, en farið geti svo að margir heimshlutar verði óbyggjanlegir innan nokkurra áratuga.
Ójafn leikur
Hnattræn hlýnun hefur þó ekki jöfn áhrif á alla heimsbyggðina. Loftslagsbreytingarnar hafa verið mestar í hitabeltislöndum sem mörg hver eru með fátækustu löndum heims. Mörg þeirra hafa nú þegar fundið fyrir miklum loftslagsbreytingum, en evrópskir vísindamenn hafa sýnt fram á að meðalhitastig jarðar muni þurfa að hækka um þrjár gráður til að íbúar auðugra landa finni fyrir jafnmiklum breytingum.
Þessi skipting á áhrifum loftslagsbreytinga hefur alvarlegar samfélagslegar afleiðingar í för með sér. Fyrst og fremst eykur hún ójöfnuð milli landa, þar sem loftslagsbreytingar eiga sér frekar stað í fátækum löndum sem verða enn fátækari vegna þess að þau skorta innviði til að takast á við þær. Einnig viðheldur skiptingin tregðu til breytinga, þar sem iðnríkin framleiða mest af gróðurhúsalofttegundum en finna minnst fyrir neikvæðum áhrifum þeirra og hafa því ekki nægilega þörf fyrir að efna til róttækra aðgerða í þeim málum.
Engin loftræsting fyrir alla
Hitinn eykur ekki einungis muninn milli iðnríkja og þróunarlanda, heldur einnig ríkra og fátækra innan landanna. The Guardian tók saman fréttaskýringu á dögunum um það hversu skæðar hitabylgjur geta orðið víðs vegar um heiminn, sérstaklega fyrir fátæka borgarbúa. Skýringin nefndi hitabylgjuna í Montreal sem dæmi, en meirihluti þeirra 53 sem létust í henni var yfir fimmtugt, félagslega einangraður og án loftræstingar. Með hækkandi meðalaldri og aukinni sókn í þéttbýlissvæði á heimsvísu er svo búist við fátækir borgarbúar verði enn viðkvæmari gagnvart hitabylgjum í náinni framtíð, verði ekkert að gert.
Ójöfnuður innan borga vegna loftslagsbreytinga á sér margar birtingarmyndir. Skýrust þeirra eru loftræstitæki, sem kæla niður hús auðugra á sama tíma og þau hita upp göturnar. Einnig eru tekjulágir ólíklegri til að búa nálægt grænum svæðum í borginni, en samkvæmt The Guardian gæta slík svæði lækkað meðalhitann í nærumhverfi sínu um 11 til 25 gráður. Á hinn bóginn eru fátækir mun líklegri til að búa nálægt stórum umferðargötum sem gefa frá sér skaðlegar eiturgufur á heitum dögum.
Loftslagsflóttamenn
Óttast er að misskiptingin í áhrifum loftslagsbreytinga, bæði milli landa og innan þeirra, auk þeirra skæðu áhrifa sem búist er við að hnattræn hlýnun mun hafa í för með sér, muni leiða til mikillar aukningar í fjölda flóttamanna af tveimur ástæðum. Annars vegar er bent á tengingu milli loftslagsbreytinga og byltinga, en sýnt hefur verið fram á að þurrkar, stormar og náttúruhamfarir auki pólitískan stöðugleika. Hins vegar er einnig talið að hnattræn hlýnun verði það mannskæð á næstu árum að fólk muni beinlínis flýja loftslagið. Þessa tegund flóttamanna kalla alþjóðlegar stofnanir „loftslagsflóttamenn.“Vísindamenn hafa metið að fjöldi hælisleitenda úr báðum flokkum muni aukast um allt að 200 prósent á þessari öld.
Hvað er til ráða?
Erfitt er fyrir einstaka lönd og borgir að finna lausn á því alþjóðlega vandamáli sem hnattræn hlýnun er. Hins vegar gæti ójöfn áhrif loftslagsbreytinga milli landa útskýrt að hluta til ástæðu þess að iðnríki eins og Bandaríkin hafi ákveðið að slíta sig úr alþjóðlegum samningum gegn losun gróðurhúsalofttegunda.
Sum ríki hafa þó áttað sig á félagslegu afleiðingum hitabylgju á borgara sína og vinna markvisst gegn manntjóni af hennar völdum. Til að mynda hefur Lýðheilsuráð Englands lagt til niðurgreiðslu á loftræstitækjum og indverska ríkisstjórnin hefur stórlækkað manntjón vegna hita með fjölda aðgerða sem miðaðar eru að fátækari borgurum landsins. Samhliða færri dauðsföllum stuðla slíkar aðgerðir einnig að auknum jöfnuði meðal íbúa og minni félagslegri aðgreiningu.
Með bættri lýðheilsu og félagslegum aðgerðum til þeirra sem standa höllum fæti gætu borgir og ríkisstjórnir markvisst minnkað dauðsföll vegna vaxandi hitastigs. Nái fjöldi landa að verða samstíga í þeim málum væri hægt að bæta félagslegan stöðugleika til muna auk þess sem hægt væri koma í veg fyrir þá miklu aukningu í loftslagsflóttamönnum sem óttast er á næstu áratugum.