„Enginn matur, atvinnuleysi, ofbeldi, rán. Þannig er sósíalisminn í Venesúela þar sem íbúarnir svelta. Þegar demókratar tala um sósíalisma segja þeir: við erum ekki að tala um Venesúela, við erum að tala um Danmörku.“
Ofangreind ummæli lét Trish Regan þáttastjórnandi hjá viðskiptarás bandarísku Fox sjónvarpsstöðvarinnar falla í umræðuþætti fyrir nokkrum dögum. Þessi sjónvarpsrás fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um viðskipta- og efnahagsmál í víðum skilningi og er sú rás af því tagi sem dregur til sín flesta áhorfendur þar vestra Trish Regan er þekkt sjónvarpskona og hefur um árabil stýrt umræðuþáttum. Hún byrjaði hjá CBS árið 2001 og hefur einnig unnið hjá CNBC og Bloomberg en kom til Fox árið 2015. Hún hefur því umtalsverða reynslu og þættir undir hennar stjórn hafa verið tilnefndir til Emmy verðlauna. Ummæli hennar, þar sem hún líkti Danmörku við Venesúela, skrifast því hvorki á reynsluleysi né ungæðishátt.
Þátturinn hófst á því að sýndar voru myndir frá uppþotum í Venesúela en síðan tók Trish Regan við og dró strax samasemmerki milli ástandsins í Venesúela og Danmerkur. Auk ummælanna sem getið var í upphafi pistilsins fullyrti hún að skólaganga væri ókeypis og ekki nóg með það, nemendur fengju greitt fyrir að ganga í skóla og enginn lyki námi. „Svona er raunveruleikinn þar sem sósíalisminn ríkir, enginn hefur dug í sér til nokkurs hlutar, því slíkt er ekki launað. Danmörk hefur eins og Venesúela rænt fólk möguleikunum. Þetta er leiðin sem Bernie Sanders vill fara, og margir ungir demókratar líta nú til þessara tveggja landa“ sagði Trish Regan
Yfir strikið
Þótt Bandaríkjamenn kalli ekki allt ömmu sína þegar kemur að stóryrtum yfirlýsingum og hafi að undanförnu oft fengið að heyra „annarskonar sannleik“, ekki síst frá húsbóndanum í Hvíta húsinu, vöktu fullyrðingar Trish Regan mikla athygli. Lars Get Lose, sendiherra Danmerkur í Bandaríkjunum, gagnrýndi það sem fram kom í sjónvarpsþættinum og nefndi sérstaklega fullyrðingar um fjölda atvinnulausra og yfirlýsingar um að fáir (eða engir) lykju námi. Washington Post og fleiri fjölmiðlar birtu tölur sem sýna, svart á hvítu, að atvinnuleysi í Danmörku er miklu minna en í Bandaríkjunum menntunarstig langtum hærra og bilið milli fátækra og ríkra margfalt minna. Fleira var týnt til sem allt var á sama veg: fullyrðingar Trish Regan eiga sér enga stoð.
Dagblaðið New York Times birti sl. fimmtudag (16.8) grein eftir bandaríska hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman. Greinin fjallar um samanburð á Bandaríkjunum og Danmörku sem Paul Krugman, sem þekkir vel til. Hann hrekur fullyrðingar Trish Regan, nánast lið fyrir lið en segir jafnframt að hún gangi erinda húsbænda sinna hjá Fox sjónvarpsstöðinni. Eigendur Fox séu í hópi þeirra auðugu sem hugsi um það eitt að viðhalda ríkidæmi sínu, og helst auka það en láti sig engu varða hag þeirra sem minna mega sín.
Paul Krugman minnir einnig á að John McCain sem var frambjóðandi repúblikana við forsetakosningarnar árið 2008 sagði Barack Obama vilja innleiða sósíalisma með breytingum á sjúkratryggingakerfinu. Mitt Romney, sem mótframbjóðandi Obama árið 2012 talaði á sömu nótum.
Danski fjármálaráðherrann, Kristian Jensen, skrifaði fyrr í liðinni viku á Twitter að yfirlýsingar Trish Regan væru víðs fjarri sannleikanum og eingöngu notaðar í pólitískum tilgangi. „Afsakið orðalagið en henni líðst ekki að míga (pisse) yfir Danmörku. Ég viðurkenni ekki slík niðrandi og röng ummæli, allir hafa rétt á skoðunum en ekki til að búa til eigin staðreyndir“ sagði ráðherrann og bætti við „að við ættum kannski að bjóða Trish Regan í heimsókn.“
Af hverju er Danmörku líkt við Venesúela?
Þessari spurningu er auðsvarað. Bernie Sanders, sem keppti við Hillary Clinton um útnefningu Demókrata fyrir forsetakosningarnar í hittífyrra, nefndi iðulega Danmörku sem fyrirmyndarríki sem Bandaríkin gætu um margt tekið sér til fyrirmyndar. Af þessum ástæðum hljómar orðið Danmörk kunnuglega í eyrum margra Bandaríkjamanna þótt flestir þeirra þekki lítt til landsins. Ástandið í Venesúela hefur verið mikið í fréttum um langt skeið og flestir Bandaríkjamenn vita að þar ríkir sannkallað hörmungarástand. Frá áramótum hafa rúmar tvær milljónir flúið úr landi, í landinu er skortur á mat, hvergi í veröldinni eru framin fleiri morð, verðbólgan á þessu ári stefnir í milljón prósent svo fátt eitt sé nefnt. Að líkja ástandinu í þessum tveimur löndum Danmörku og Venesúela saman er því eins fráleitt og hugsast getur. Eins og að bera saman eld og vatn sagði blaðamaður New York Times í grein fyrir skömmu.
Tilgangurinn
Í nóvember verða liðin tvö ár frá síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum og jafnframt tvö ár síðan kosið var til fulltrúadeildar bandaríska þingsins og hluta öldungadeildarinnar. Samkvæmt bandarískum lögum skal kosið til fulltrúadeildarinnar á tveggja ára fresti og jafnframt skal þriðjungur öldungadeildarinnar þá kosinn (hver þingmaður deildarinnar kosinn til sex ára í senn). Ef spár ganga eftir er vafasamt að Repúblikanar haldi núverandi meirihluta í fulltrúadeildinni. Í harðri og tvísýnni kosningabaráttu svífast menn einskis og þá er sannleika og staðreyndum iðulega ýtt til hliðar. Margir stjórnmálaskýrendur vestan hafs hafa bent á að Fox sjónvarpsstöðin styðji ljóst og leynt Donald Trump og yfirlýsingar Trish Regan varðandi Danmörku og samanburðinn við Venesúela séu vopn í aðdraganda kosninga. Sósíalismi er eitur í beinum margra Bandaríkjamanna og með því að spyrða þessi tvö lönd, Danmörku og Venesúela saman sé reynt að slá á þá strengi.