Heimavellir, stærsta leigufélag landsins sem starfar á almennum leigumarkaði, notaði nýliðið sumar til að undirbúa endurfjármögnun á langtímaskuldum sínum. Fyrirhugað er að hrinda endurfjármögnuninni í framkvæmd á næstu mánuðum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér vegna árshlutauppgjörs fyrstu sex mánaða ársins fyrir helgi. Þar segir að nýleg skráning Heimavalla „í kauphöll var ekki síst hugsuð til að styrkja stöðu félagsins til að ná betri kjörum á fjármagnsmarkaði. Eitt mikilvægasta verkefni félagsins er einmitt endurfjármögnun langtímaskulda. Heimavellir eiga í samstarfi við Arion banka um útgáfu á fasteignatryggðum skuldabréfum sem er stefnt að bjóða fjárfestum í október næstkomandi. Við teljum að skuldabréf hjá skráðu félagi með veði í vönduðu íbúðasafni ætti að höfða til margra langtímafjárfesta“.
Heimavellir voru reknir með tapi á fyrri hluta ársins, en tap félagsins var samtals 136 milljónum króna á tímabilinu. Það tap var þó fyrst og síðast til komið vegna matsbreytinga á virði fasteigna í eigu Heimavalla. Áður en að tekið var tillit til þeirra nam rekstrarhagnaður Heimavalla á tímabilinu 1.056 milljónum króna. Það þýðir að 57,6 prósent af rekstrartekjum félagsins voru hagnaður, en það hlutfall var mun lægra á sama tíma í fyrra, eða 47,2 prósent.
Ríkið seldi og lánaði
Heimavellir er félag sem var stofnað árið 2015. Það skuldar í dag 36,1 milljarða króna og á 1.978 íbúðir. Íslenska ríkið seldi Heimavöllum flestar þær eignir sem félagið hefur eignast, í gegnum annars vegar Kadeco og hins vegar Íbúðalánasjóð.
Í skráningarlýsingu Heimavalla segir að til að „uppfylla form- og efnisskilyrði Reglugerðarinnar mega félög sem veitt hafa verið slík lán ekki vera rekin í hagnaðarskyni og úr þeim má hvorki greiða arð né arðsígildi“. Slík lán eru veitt til 50 ára.
Um síðustu áramót skulduðu Heimavellir 18,6 milljarða króna í slík lán. Það voru rúmlega helmingur af öllum vaxtaberandi skuldum félagsins um síðustu áramót
Geta greitt arð ef það tekst að endurfjármagna
Í skráningarlýsingunni sagði að stefna Heimavalla sé að „endurfjármagna þessi lán á næstu misserum enda telja stjórnendur að félaginu muni bjóðast betri kjör og skilmálar á markaði. Ekki er á þessu stigi hægt að segja til um hvenær slíkri endurfjármögnun mun ljúka né á hvaða kjörum hún mun bjóðast. Sú hætta er fyrir hendi að félaginu takist ekki að endurfjármagna lánin á kjörum sem það telur ásættanleg. Komi til þess, og félagið ákveður að eiga eignirnar áfram, munu viðkomandi dótturfélög áfram þurfa að lúta skilyrðum Reglugerðarinnar, þ.m.t. banni við greiðslu arðs eða arðsígildis.“
En nú stendur sem sagt til að klára endurfjármögnun á ofangreindum lánum svo að hægt verði að greiða út arð hjá Heimavöllum. Umtalsvert svigrúm er til slíks. Eigið fé Heimavalla í lok júní síðastliðnum var 18,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið var 32,1 prósent.