Virði hlutabréfa í Icelandair hefur enn og aftur hrunið í morgun. Um tíma fór gengið vel niður fyrir sjö krónur á hlut, sem er það lægsta sem það hefur verið frá því síðsumars 2012, eða í sex ár. Þegar þetta er skrifað hefur verð þeirra lækkað um rúmlega 15 prósent frá opnun markaða og er nú um 7,15 krónur á hlut. Það þýðir að markaðsvirði Icelandair er nú um 34,4 milljarðar króna og hefur lækkað um rúma sex milljarða króna það sem af er degi.
Til samanburðar má nefna að markaðsvirði félagsins var um 189 milljarðar króna í lok apríl 2016. Það hefur því lækkað um 155 milljarða króna síðan þá og er nú umtalsvert lægra en eigið fé félagsins. Það var um 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.
Afkomuviðvörun og uppsögn
Lækkunarhrinuna í morgun má rekja til þess að Icelandair sendi frá sér enn eina afkomuviðvörunina í gær þar sem tiulkynnt var að afkoma ársins 2018 verði mun lakari en gert hafði verið ráð fyrir, eða um 50-80 milljónir dala. Ástæðan fyrir þessu er sú að innleiðing breytinga sem gerðar voru í byrjun sumars 2017 á sölu- og markaðsstarfi félagsins ekki gengið nægilega vel fyrir sig auk þess sem gerðar voru breytingar á leiðarkerfi félagsins í byrjun þessa árs sem hafa valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Vegna þessa hafa spálíkön, sem meðal annars byggja á sögulegri þróun, ekki virkað sem skyldi og er uppfærð tekjuspá lægri en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Lífeyrissjóðir stærstu eigendurnir
Þetta eru ekki fyrstu afkomuviðvaranirnar sem Icelandair sendir frá sér síðustu misseri. Tvær slíkar voru sendar út í fyrra þar sem greint var frá því að rekstrarniðurstaða þess yrði lakari en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum. Í uppfærðri afkomuspá sem birt var 8. júlí í sumar, var hún lækkuð um 30 prósent og í afkomuspánni sem birt var í gær var hún enn lækkuð.
Stærstu eigendur fyrirtækisins eru íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga rúmlega helming af öllu hlutafé í Icelandair. Stærsti eigandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,99 prósent en þar á eftir kemur Gildi lífeyrissjóður með 7,99 prósent hlut, lífeyrissjóðurinn Birta með 7,29 prósent og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 7,09 prósent hlut.