Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið og byrjaði á Þórhildi Sunnu Ævarsdóttir þingflokksformanni Pírata.
Stefnumótun í fjárlögunum
„Það verða náttúrulega fjárlög kynnt þarna strax í upphafi og þá eigum við kannski séns á að skilja hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í skattamálum. Ég hef átt erfitt með að átta mig á hvað stendur til, ætla þau að lækka milliþrepið um eitt prósent, ætla þau að hækka persónuafsláttinn eða gera eitthvað allt annað. Þau hafa talað svo mikið í kross um þessi mál en kannski sjáum við þetta í fjárlögunum núna,“ segir Þórhildur.
Hún segist einnig gera ráð fyrir að á komandi þingvetri verði mikilvægt að fylgjast grannt með ríkisstjórninni þegar kemur að stöðu ferðaþjónustunnar, að almenningur verði ekki látinn taka skellinn af því ef til dæmis dragi til tíðinda í fluggeiranum þar sem nú sjást miklar hræringar. „Annað eins höfum við séð.“
Verkalýðshreyfingin fer á fullt
Þá nefnir Þórhildur að kjaramálin verði fyrirferðamikil á þessum þingvetri og staða þeirra lægst launuðu í víðara samhengi. „Við vitum það náttúrulega að verkalýðshreyfingin er að fara á fullt. Vinnumarkaðsmálin og húsnæðismálin verða í forgrunni. Við í Pírötum munum leggja áherslu á að auka stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög og grípa til aðgerða til að létta undir með almennum kostnaði í lífinu og þá kemur annað til, lífsgæðin, barnabætur og slíkt, skattbyrðin hefur hækkað á þá tekjulægstu.“
Uppreist æra snýr aftur
Þórhildur segir að Pírtar ætli einnig að fylgjast með því sem hún kallar „gömul mál og ný“.
„Nú kemur út uppreist æru frumvarpið. Það er að mínu mati frekar þunnur þrettándi,“ segir Þórhildur sem furðar sig á því að dómsmálaráðherra hafi talað um að hún stæði fyrir allsherjar endurskoðun þessa lagaumhverfis í byrjun árs 2017, áður en uppreist ræðu málið komst í hámæli. Hún telur að þarna vanti töluvert af breytingum, til að myndi að ýmsir opinberir starfsmenn sem beri ábyrgð á börnum megi ekki hafa hlotið dóma fyrir alvarlegustu brotin eins og til að mynda nauðgun, morð, misnotkun á börnum og alvarlegar líkamsmeiðingar.
„Þetta er ekki að finna þarna og mér finnst þetta frekar rýrt og ekki taka á þessu vandamáli að uppreist æra og óflekkað mannorð sneri allt að því að menn sem áttu að höndla með peninga ríkisins hefðu ekki hafa mátt fengið á sig dóm.“
Fylgjast með öllu
Þá nefnir Þórhildur nokkur önnur mál sem hún segir flokkinn munu leggja áherslu á í vetur. „Barnaverndamálin eru náttúrulega líka í forgrunni hjá okkur. Það mál hefur ekki verið leitt til lykta sérstaklega ekki gagnvart þinginu og síðan þessi rannsókn sem var allt öðruvísi en gefið var út í upphafi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun taka þetta mál áfram að því leyti sem það snýr að ráðherra. svo eru það náttúrulega útlendingalöggjöfin. Við sjáum það að dómsmálaráðherra er sífellt að herða að bæði hælisleitendum og útlendingum almennt. Löggæslumálin og Landsréttarmálið og svo vitum við líka til þess að bráðum standi til þess að birta kostnaðargreiðslur þingmanna aftur í tímann. Við fylgjumst með þessu öllu og meira til,“ segir Þórhildur að lokum.