Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Fjárlögin stóra verkefnið
„Til áramóta er fjárlagafrumvarpið stóra verkefnið. Við sjáum fyrir okkur að það og frumvörp sem því tengjast verði megin viðfangsefnið á haustdögum. Línurnar í þeim efnum hafa að nokkru leyti verið lagðar með fjármálaáætlun í vor og fjármálastefnu síðasta vetur þannig að það má segja að útlínurnar liggja fyrir. En það bryetir auðvitað ekki því að það eru fjárlögin sem slík sem eru samþykkt fyrir áramót sem gilda og menn geta hnikað til einhverjum atriðum þó búið sé að leggja ákveðnar línur. Það eru fjárlögin á endanum sem ráða því hvaða fjárveitingar renna til málaflokka og hvernig tekna er aflað fyrir ríkið,“ segir Birgir.
Hann segir tekjuöflunarfrumvörpin nú um nokkurra ára skeið hafa þurft að koma fram samhliða fjárlagafrumvarpinu, þannig að báðar hliðarnar, tekju- og gjalda, verða mikið til umræðu núna strax á fyrstu dögum þingsins.
Lykilatriði í stefnumörkun
Birgir býst bara við hefðbundinni mótstöðu stjórnarandstöðunnar við fjárlagafrumvarpinu, hvorki meiri né minni en áður. „Þetta er auðvitað alltaf, fjárlögin og skyld mál, lykilatriði í stefnumörkun hverrar ríkisstjórnar. Þannig að það kemur ekkert á óvart að þar eigi sér stað pólitísk átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu.“
Stjórnvöld geti skapað skilyrði
Birgir segir að hitt stóra málið sem hann sér fyrir sér að muni verða fyrirferðarmikið á nýju þingi verði kjaramálin. „Þessi mál [fjárlögin og tengd frumvörp] tengjast auðvitað með sínum hætti öðru stóru viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna næstu misserin sem eru kjaramálin. Auðvitað er það þannig að kjarasamningar aðila á vinnumarkaði eru í öllum atriðum samningamál þeirra á milli, á milli atvinnurekenda og launþega. En auðvitað koma stjórnvöld að þeim málum með einum eða öðrum hætti og geta átt þátt í því að skapa skilyrði fyrir ásættanlegri niðurstöðu.“
Eitthvað svigrúm til staðar
Aðspurður um hvort þingflokkurinn ræði stöðu kjaramálanna mikið og hafi áhyggjur af framhaldinu segir Birgir að auðvitað sé staðan rætt í hópnum og fólk sé að velta fyrir sér hver þróunin verði.
„Það hefur auðvitað verið tölvert herskár tónn í hluta verkalýðshreyfingarinnar. Menn eru að velta fyrir sér hvernig það rímar við veruleikann í ljósi þess hvernig kaupmáttur og lífskjör hafa þróast hér á undanförnum misserum. Þar hefur verið um verulega jákvæða þróun að ræða og hins vegar velta menn fyrir sér auðvitað möguleikanum á frekari kaupmáttaraukningu og kjarabótum á næstunni, þar sem að menn meta það svo að það sé vissulega fyrir hendi eitthvað svigrúm en alls ekki í þeim mæli sem háværustu talsmenn verkalýðshreyfingarinnar tala um. Þetta auðvitað verður til umræðu áfram.“
Ríkisfjármálin og efnahagsmálin verði að vera í lagi
Um helstu mál sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja áherslu á á komandi þingvetri segir Birgir að þau líti þannig á það sé alltaf lykilatriði í þeirra huga að tryggja að ríkisfjármálin og efnahagsmálin verði áfram í lagi.
„Það er líka mikilvægt frá okkar bæjardyrum séð að það náist einhvern skynsamleg lending á vettvangi kjaramálanna, sem bæði færir launþegunum auknar kjarabætur en þó þannig að það sé innistæða til fyrir þeim. Við lítum á okkar ríkisstjórnar þátttöku út frá því að ná þessum stóru markmiðum og svo auðvitað eins og gengur eru einstakir þingmenn eða einstakir ráðherrar með sín áherslumál en þetta eru stóru málin. Efnahagsmálin og þróunin á þeim. Árangur á því sviði er forsenda fyrir öllu því góða sem menn vilja gera á öðrum sviðum.“