Bára Huld Beck

Það sem ekki má ræða

Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti stjórnmálakonuna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur yfir kaffibolla og spjallaði við hana um allt milli heima og geima – þó aðallega um búvörusamningana, ESB, #metoo, sjávarútveginn og hvað það þýði að vera frjálslyndur í heiminum í dag.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir hvarf úr stjórn­málum en sneri aftur í þau, rík af reynslu hruns­ins og þeirri reynslu sem hún afl­aði sér hjá Sam­tökum atvinnu­lífs­ins sem for­stöðu­maður mennta- og vís­inda­sviðs. Þor­gerður er mennt­aður lög­fræð­ingur og hefur bæði verið mennta­mála­ráð­herra í umboði Sjálf­stæð­is­flokks­ins og ráð­herra land­bún­að­ar- og sjáv­ar­út­vegs­mála í umboði Við­reisn­ar, auk þess að vera áður vara­for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og nú for­maður Við­reisn­ar.

Ætla má að hún hafi djúpa inn­sýn í gang­verk sam­fé­lags­ins, hvernig inn­viðir þess virka og það sem meira er – hvernig þeir gætu virk­að, ef póli­tískur vilji væri fyrir hendi. Henni er tíð­rætt um umfang sér­hags­muna í íslensku sam­fé­lagi en mætir þar harðri gagn­rýni úr ýmsum átt­um.

Tvær mætar vinstri sinn­aðar konur fóru fögrum orðum um þig, hvor í sínu lagi, og sögð­ust báðar hafa konu­skot í þér. Getur verið að það bendi til að stjórn­mála­ás­inn sé að breyt­ast úr vinstri versus hægri yfir í frjáls­lyndi versus íhald. Hvað segir þú um þetta?

Þor­gerður brosir og við­ur­kennir að sér þyki vænt um að heyra um kon­urn­ar, slíkt haldi sér við efnið og færi henni vissu um að hún sé á réttu ferða­lagi.

„Síðan er það þessi ás sem er að teikn­ast upp svo skýrt. Þar sem frjáls­lyndi er skýrasta mót­vægið við íhaldsás­inn. Það er hægt að benda víða á dæmin en nær­tækt er að hugsa til Trump og hvernig við horfum upp á hegðun hans. Auð­vitað er hægt segja að hann hagi sér eins og vit­firr­ingur og allt það. En umhverfið leyfir honum að fara sínu fram. Fyrir vikið er þetta ekki lengur bros­legt eða vand­ræða­legt heldur stór­hættu­leg­t.“

„Og það er þetta íhalds­sama umhverf­i,“ heldur hún áfram eftir dálitla umhugs­un. „Valda­um­hverfi, þar sem verið er að vernda völd og ákveðna sér­hags­muni. Hinn ásinn er frjáls­lynd­ið. Það hafnar slíkum sjón­ar­miðum og hags­mun­um. Það stuðlar að því að hafa allt opið og gagn­sætt. Sjálf hef ég svo­lítið þurft að laga mig að því, kom­andi úr öðru­vísi stjórn­málaum­hverfi, ég við­ur­kenni það,“ segir hún. Og bætir við að auð­vitað kunni nálgun sín á hin ýmsu mál­efni að markast að ein­hverju leyti af því að vera alin upp af jafn­að­ar­manni ann­ars vegar og femínista hins­veg­ar.

Nú hef ég heyrt að margar hægri­s­inn­aðar konur hafi stutt Við­reisn. Segir þetta þér eitt­hvað?

Hún seg­ist kann­ast við það en segir líka margt hafa breyst og það geri öll umræðan í sam­fé­lag­inu, ekki bara #metoo-um­ræðan heldur finn­ist henni konur vera að mörgu leyti með sterk­ari sjálfs­vit­und í dag heldur en hér áður fyrr. „Sér­stak­lega yngri kon­ur,“ segir hún með áherslu. „Þær eru svo miklu óhrædd­ari við að tjá sig. Og það eru stór­kost­legar fram­farir og aðdá­un­ar­vert. Þær eru ekki feimnar við að tjá sig um allt – og fara þess vegna gegn hinu hefð­bundna normi. Við getum heldur ekki gengið að því gefnu á meðal ungs fólks að hinir hefð­bundnu flokkar „eigi“ við­kom­andi ein­stak­ling um aldur og ævi. Sem betur fer hefur það breyst.“

Finnst þér öðru­vísi að vera stjórn­mála­kona núna en fyrir tutt­ugu árum?

„Já – og mér finnst betra … að vera kona í dag í stjórn­mál­u­m,“ svarar hún en tekur fram að auð­vitað ríki því miður ennþá ákveðin við­mið og mynstur gagn­vart kon­um.

„En þú ert þó ekki alltaf á varð­bergi líkt og áður var, þótt vakt­inni ljúki aldrei alveg. Þú ert ekki stöðugt að berj­ast fyrir öllu eins og fyrir það fyrsta að láta hlusta á þig. Eða ítrekað að þola að það sem þú segir sé tekið upp af ein­hverjum karli og klappað fyrir því.“

Þor­gerður er viss um að hópefl­ing kvenna hafa styrkt þær og það sjá­ist glöggt í stjórn­mál­um.

„Ég er samt ekki að segja að þetta hafi verið alveg hræði­legt – fyrir tutt­ugu árum. Það var bara annar tími. Og þetta er þroska­ferli og þró­un­ar­ferli sem bæði ég og stjórn­málin fórum í gegn­um. Konum í stjórn­málum hefur fjölg­að. Það gerð­ist þó ekki af sjálfu sér heldur stöndum við í dag í mik­illi þakk­ar­skuld við margar bar­áttu­konur fyrri tíma. Sjálf lít ég með mik­illi aðdáun og þakk­læti til þeirra sem fóru fram á vegum Kvenna­list­ans.

Ég ætla að leyfa mér að líta á fækkun kvenna á þingi frá síð­ustu kosn­ing­um, vegna sterk­ari stöðu íhalds­afla, sem tíma­bundna. Víða í atvinnu­líf­inu hefur verið ýtt undir konur – þótt sú þróun sé í alltof miklum hæga­gang­i,“ segir hún en tekur fram að ætl­unin sé þó ekki að halda því fram að atvinnu­lífið sé með allt niður um sig. Hún hefði þó búist við meiru, vit­andi að verð­mæta­sköpun og fjár­magn skipti máli – af þeirri aug­ljósu ástæðu að mikil verð­mæti og þekk­ing eru fólgin í konum og nálgun þeirra. Hún hefði haldið að fjár­magnið myndi flytja sig fyrr og verk­lag breyt­ast hraðar heldur en raun ber vitni.

„Enn er þessi merki­lega, jafn­vel inn­byggða tregða til að fara alla leið eins og sást á afstöðu hinna íhalds­sam­ari afla gagn­vart jafn­launa­vott­un­inni á síð­asta ári. Reyndar er ég mjög ánægð að sjá hvernig núver­andi for­sæt­is­ráð­herra hefur fylgt henni eftir og talað óhikað um hana jafnt sem mik­il­vægi henn­ar, þó að sam­starfs­flokk­arnir hafi ekki verið hopp­andi glaðir með hana. Og eru jafn­vel ekki enn.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Bára Huld Beck

Ein­hver sagði: Þor­gerður hlýtur að eiga böns af #metoo-­sög­um. Er það rétt?

Þor­gerður horfir íbyggin á mig.

Gerði #metoo-­bylt­ingin mikið fyrir þig?

„Já, mjög mik­ið,“ segir hún loks með þunga. „Ég á vissu­lega mínar sög­ur. Sem ég er þó ekki til­búin til þess að fara út í. En – eins leitt og er að segja það – þá var ótrú­lega gott að finna allar þessar konur sem höfðu líka sínar sög­ur. Og aug­ljós­lega voru þarna líka svaka­legir hlutir sem ég hef ekki reynslu af. En á tutt­ugu árum … ger­ist margt. Líka ýmis­legt sem ég þarf einn dag­inn að klára gagn­vart sjálfri mér. En mér fannst #metoo hjálpa mér mik­ið. Og ég held að hreyf­ingin og sam­staðan hafi hjálpað mörgum kon­um. Ungar konur í dag, meðal ann­ars í póli­tík, eru svo miklu miklu sterk­ari en maður nokkurn tím­ann var sjálf­ur. Ungu kon­urnar hafa veitt mér styrk­inn. Þær eru óhræddar við að tjá sig gagn­vart óvið­eig­andi, ömur­legri, niðr­andi hegð­un. Maður var vanur að sussa athæfið niður því maður var í ein­hverju boði og vildi ekki að það yrði sena svo maður reyndi að brosa í stað þess að segja: Láttu mig vera!

En ungu kon­urnar standa strax upp og segja: Hvað er að þér!? Láttu mig vera! Þær gera það sem maður átti alltaf að gera. Að láta karl­inn heyra það. Og það er stór­kost­legt. Í dag geri ég það. Það er ungu kon­unum að þakka að ég hef í dag fundið kjarkinn til að setja mörk, kjark sem ég hafði ekki áður.“

Ýmsir hér hæð­ast að því þegar stjórn­mála­flokkar kenna sig við frjáls­lyndi, ein­hverjir gefa jafn­vel til kynna að það sé inni­halds­laus tugga. Stuttu eftir síð­ustu kosn­ingar birt­ust tveir pistlar sam­dæg­urs í Morg­un­blað­inu þar sem ann­ars vegar Óli Björn Kára­son úr Sjálf­stæð­is­flokknum og hins vegar Stein­grímur J. Sig­fús­son úr VG hnýttu í notkun orðs­ins í póli­tískri orð­ræðu hér á landi. Hvaða merk­ingu hefur frjáls­lyndi fyrir þér?

„Ég ætla ekki að segja að það komi mér á óvart að þessi sjón­ar­mið séu sett fram af þessum ágætu mönn­um, enda lítið sem ekk­ert sem aðgreinir þá í ríkj­andi stjórn­ar­sam­starfi. Í raun sama hvert litið er. En í frjáls­lyndi býr frelsi – og ábyrgð,“ segir hún. „Opn­un­in! Það kemur mér ekki á óvart að úr ákveðnum ranni sé full­yrt að frjáls­lyndið sé dautt. Að frjáls­lyndi sé inni­halds­laus frasi. Af því að í frjáls­lyndi felst að ýta við! Hreyfa við hlut­um, sporna við íhalds­semi og sam­trygg­ingu. En jafn­framt má segja að frjáls­lyndi felist í því að tala fyrir opnu, gagn­særra, jafn­rétt­is­sinn­aðra og umhverf­is­vænna sam­fé­lagi. Eitt­hvað sem var ekki talað mikið um hér á árum áður en er orðið sjálf­sagð­ara í sam­fé­lag­inu. Allt þetta stuðlar að ákveðnum ótta hjá þeim sem vilja halda í sína sam­trygg­ingarí­halds­semi og hafa mik­inn hag af því að allt sé óbreytt.“

Þor­gerður segir því ljóst að umræðan um þennan ás ruggi bátn­um: „Og það er æðis­legt! Við þurfum á því að halda því ennþá stjórna sterkir rót­grónir hags­munir of miklu í íslensku sam­fé­lagi. Af sama meiði er and­staðan við jafnan atkvæð­is­rétt; einn maður – eitt atkvæði. Það er mik­ill mis­skiln­ingur að misvægi atkvæða hjálpi lands­byggð­inni. Miklu frekar við­heldur það kerf­is­lægu sam­trygg­ing­unni og því sem henni fylg­ir. Það hefur lítið með lands­byggð­ina að ger­a.“

Þor­gerður bendir á að þessi umræða teng­ist líka alþjóða­mál­um. Sorg­legt sé að horfa upp á ákveðna íslenska fjöl­miðla, bæði prent- og ljós­vaka­miðla, bera blak af Trump í sífellu.

„Þetta er Ísland!“ and­varpar hún. „Og ótrú­legt hvernig þessi mál­flutn­ingur er!“

Hún ótt­ast að hér séu ákveðnir hlutir að festa sig í sessi, öfl þjóð­rembu og sér­hags­muna, eins og gerst hafi til dæmis í Ung­verja­landi og að hluta til í Pól­landi – í slíkum mæli að það ógni lýð­ræð­is­legri virkni.

„Í Rúss­landi og Tyrk­landi eru skyld öfl að verki. Þetta á líka við ákveð­inn hluta í Frakk­landi, Þýska­landi og í gegnum UKIP í Bret­landi og hluta af breska Íhalds­flokkn­um. Allt sama mengið og það virð­ist rása frá fimm og upp í tutt­ugu pró­sent. Ég held að svo verði líka hér. Við sjáum þetta að ein­hverju leyti í Mið­flokkn­um. Að hluta til í Sjálf­stæð­is­flokkn­um, í Fram­sókn og hluta til í Vinstri græn­um. Og jú, Flokki Fólks­ins.“

Hún telur ákveðna hættu fólgna í því að ræða þetta ekki og því ætli hún ekki að láta ann­ars ágæta karla tala slíka umræðu nið­ur: „Að við megum ekki tala um frjáls­lyndi! Og allt stóra mengið sem því fylg­ir. Með því er ég meðal ann­ars að tala gegn for­ræð­is­hyggju og belg­ingi. Öllu þessu sem mér finnst vera mesta ógnin gegn opnu, umburð­ar­lyndu og jafn­rétt­is­sinn­uðu sam­fé­lag­i.“

Þorgerður Katrín með hundinum Birtu.
Bára Huld Beck

Með hvaða stjórn­mála­öflum sam­svarar þú þig ef litið er til Evr­ópu og umheims­ins?

Í fljótu bragði seg­ist Þor­gerður eiga mesta sam­leið með Macron og Tru­deau og flokkum þeirra. Á Norð­ur­lönd­unum tengi hún helst við blöndu af Højre og Arbeider­parti­et, enda sé gott fólk í báðum flokkum og margt sam­eig­in­legt í mál­flutn­ingi þeirra bæði á alþjóða­vísu og í heima­land­inu.

„Ar­beider­partiet hefur auð­vitað meiri tengsl við verka­manna- og laun­þega­hreyf­ing­arnar meðan Højre hefur meiri tengsl við vinnu­veit­end­ur. En báðir flokkar fram­fylgja þess­ari sterku sam­fé­lags­legu ábyrgð og sam­kennd. Sama á kannski við hérna heima. Eng­inn einn flokkur getur gert til­kall til að vera frjáls­lyndastur umfram ann­an.

Mér þykir auð­vitað Við­reisn vera ein­stak­lega frjáls­lyndur flokk­ur, í orði sem á borði. En þó sé ég sterka, öfl­uga, góða og frjáls­lynda ein­stak­linga í til dæmis Sam­fylk­ing­unni, Píröt­um, Sjálf­stæð­is­flokkn­um, staka ein­stak­linga í Fram­sókn – og að hluta til í Vinstri græn­um. En þessi flokkar sem ég nefni hafa líka hinn kant­inn. Sem mér finnst því miður ráða of miklu í íslensku sam­fé­lagi. Ég hef stundum strítt þeim í rík­is­stjórn­ar­flokk­unum með því að kalla þá Fram­sókn­ar­flokk­ana.“

Ertu þá að vísa í títt­nefnda sam­trygg­ingu, íhalds­taug – sem sumir álíta að tengi þá?

„Já, algjör­lega. Þessi tregi til breyt­inga er nátengdur gam­al­kunn­ugri sam­trygg­ingu. En þetta eru líka flokkar með merka sögu. Og margt gott sem þessir flokkar hafa gert fyrir íslenskt sam­fé­lag. Ekki spurn­ing. En mér finn­ast þeir ekki endi­lega henta því sem ég ætl­ast til í nútíma­sam­fé­lagi. Þeir ýta ekki nóg undir slíkar breyt­ing­ar.“

Hvernig birt­ist meint sam­trygg­inga­kerfi þér?

„Sam­trygg­inga­kerf­ið! Æ, bara klíkur og hags­munir og reyk­fyllt bak­her­bergi. Ég nenni því ekki.“

Er það raun­veru­leik­inn?

„Já, það er raun­veru­leik­inn. Kannski allt orðið fág­aðra á yfir­borð­inu en það er raun­veru­leik­inn. Ég held til dæmis að í þessu skipti mjög miklu máli að ráðu­neyti verði mun sjálf­stæð­ari frá hags­munum heldur en raunin er. Þau verða að setja upp sterk­ari girð­ing­ar. Og mörk. Þau þurfa að vera mun gagn­særri. Það á ekki að vera þannig að hags­mun­að­ilar í til­teknum atvinnu­greinum geti valsað um ráðu­neytin eins og þeir séu læknar á stofu­gang­i.“

Þorgerður Katrín.
Bára Huld Beck

Þegar þessi rík­is­stjórn var mynduð tal­aðir þú um að það vant­aði frjáls­lynt afl í hana. Hvað átt­irðu við með því?

„Mér finnst þessi rík­is­stjórn vera ákveðin varð­staða utan um ákveðna hags­muni. Og sorg­legt að Vinstri græn hafi veitt Fram­sókn­ar­flokknum og Sjálf­stæð­is­flokknum svig­rúm og and­rými til þess að halda áfram á sömu braut. Til dæmis í land­bún­að­ar- og sjáv­ar­út­vegs­mál­um. Og pen­inga­mál­um. Þetta eru heldur ekki mest alþjóðasinn­uðu flokk­arn­ir.“

Hún segir synd að sjá hvernig ákveðnir stjórn­ar­þing­menn og ráð­herrar í rík­is­stjórn­inni tali að hluta til niður EES-­samn­ing­inn sem enn sé okkar mik­il­væg­asti við­skipta­samn­ing­ur. Sjálf­sagðir hlutir í dag hafi ekki verið það fyrir gild­is­töku EES. Hættan sé sú að íslenskir neyt­endur átti sig ekki á hversu mikið sá samn­ingur hafi gert fyrir sam­fé­lag­ið. Kannski vegna þess að stjórn­mála­menn og fjöl­miðlar hafi ekki upp­lýst fólk nægi­lega um mik­il­vægi evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins. Frjáls og opinn mark­aður og alþjóða­sam­starf hafi sjaldn­ast verið til trafala.

Hún tekur sem dæmi að geta ferð­ast á milli Evr­ópu­landa og flutt ákveðna hluti með sér óhindr­að, þrátt fyrir að það gildi ekki um allar land­bún­að­ar­vör­ur. „Vöru­úr­val eykst og verð lækk­ar. Fólk getur leitað eftir því nokkuð óhindrað að fá vinnu ann­ars stað­ar. Og við fengið hingað fólk að vinna sem býr yfir marg­vís­legri þekk­ingu. Svo ekki sé talað um sam­skipti við alþjóð­legu stór­fyr­ir­tæk­in. Á tímum þar sem þau eru sum hver orðin vold­ugri en ein­stök ríki. Löndin mega sín því lít­ils en saman geta þau spyrnt við ofur­valdi stór­fyr­ir­tækja eins og dæmin sanna. Í því felst mikil neyt­enda- og per­sónu­vernd.

Þetta þykir svo sjálf­sagt að við tökum ekki eftir því og því þurfum við að vera vak­andi. Ef frjáls­lynd öfl, hvar sem þau finnast, hafa ekki nógu hátt, þá styrk­ist hitt í sessi. Og þá verður sífellt erf­ið­ara að breyta og vera á varð­bergi gagn­vart ýmsum öfgum sem hafa óþol­andi lag á að smeygja sér inn og mis­beita vald­i.“

Á for­síðu Der Spi­egel nú í vor var mynd af Ang­elu Merkel og Macron að bjarga Vestr­inu með slökkvi­tæki. Hverju eru þau að bjarga og frá hverj­um?

„Auð­vitað er af ýmsu að taka þegar svona pót­in­tátar eins og Erdogan og Pútín bregða á leik! Og Trump! Ef hug­myndin um frjáls­lyndi er notuð til að spegla þá. Þannig hefur Ang­elu Merkel verið tákn­rænt stillt upp á móti slíkum öflum og hug­myndum sem þeim fylgja. Við sem fædd­umst eftir seinni heims­styrj­öld­ina erum til­tölu­lega vön frjáls­lyndu lýð­ræði og opnu sam­fé­lagi. Þó að vissu­lega sé hægt að gagn­rýna eitt og ann­að. En þykir okkur virkt lýð­ræði vera of sjálf­sagt?

Getur verið að fólk segi, jafn­vel áður en langt um líð­ur: Hey, við þurfum þetta ekki alltaf – við þurfum bara sterka leið­toga. En hvað felst í því að hafa sterka leið­toga? Við getum haft sterka leið­toga sem mis­nota ekki aðstöðu sína. Eins og Merkel. En sagan sýnir margend­ur­tekið að orð­ræð­unni um sterka leið­toga fylgir oftar en ekki mis­notkun valds. Og mis­notkun valds stríðir gegn öllu því sem lýð­ræð­is­lega þenkj­andi fólk aðhyllist.“

Forsíða Der Spiegel í apríl 2018.

Þor­gerður Katrín bjó í Þýska­landi í mörg ár, fyrst í þrjú ár og síðar í tæp þrjú. Hún segir það hafa að hluta til haft áhrif á póli­tíska vit­und henn­ar, sem og dvöl hennar á Spáni en þar bjó hún einnig um tíma.

„Í fyrsta lagi er engin spurn­ing að við Íslend­ingar erum miklir Evr­ópu­bú­ar. Ég hef oft lýst gang­verk­inu í íslensku sam­fé­lagi sem ákveð­inni blöndu af þýsku og spænsku. Hér er mikil vinnu­semi og sköpun en samt hæfi­legt kæru­leysi. Og þraut­seigja. Allt þetta fyr­ir­finnst í ríkum mæli í Þýska­landi. Og líka nátt­úr­lega á Spáni.

En ég dáist að Ang­elu Merkel – með öll þessi íhalds­öfl um allt, m.a. í flokknum hennar – að geta samt talað á þessum nót­um. Nú síð­ast í vik­unni þar sem hún for­dæmir átök byggð á hatri á útlend­ingum í Chemnitz og segir þau ekki sæma lýð­ræð­is­ríki. Hún er alveg skýr. Ég held að bak­grunnur hennar veiti henni styrk, hún veit hvernig það er að búa í ein­ræð­is- og komm­ún­ista­ríki. Að vera heft og ganga ekki að lýð­ræð­is- og mann­rétt­indum sem sjálf­sögðum hlut,“ segir Þor­gerður og við­ur­kennir að hún ótt­ist augna­blikið þegar leið­togar eins og Merkel fari af svið­inu og nýir koma inn sem geti talið fólki trú um að ekki þurfi alltaf að kjósa. Að ekki þurfi alltaf að hafa hlut­lausa dóm­stóla. Eða til­tekna fjöl­miðla. Heldur megi hrófla öllu til, eins og verið sé að gera í Ung­verja­landi.

„Sem er stór­hættu­legt. Frjálsir fjöl­miðlar og sjálf­stæðir dóm­stólar eru það mik­il­væg­asta í dag fyrir við­gang lýð­ræð­is­legs opins rétt­ar­rík­is. Á tímum þegar fyr­ir­brigðið „Fake news“ er að festa sig í sessi ættum við að minn­ast full­yrð­inga stjórn­mála­manna frá öðrum tíma um „Die Lügen­presse“.

Það er nokkuð skotið á þig þegar þú talar fyrir breyt­ingum á gam­al­grónum kerfum eins og í sjáv­ar­út­veg­in­um, stundum gustar til dæmis hressi­lega um þig í Morg­un­blað­inu.

„Já, það gerir það. En sáttin um sjáv­ar­út­veg­inn liggur ekki í gegnum Morg­un­blað­ið. Það er af sem áður var. Það versta við orð­ræð­una um sjáv­ar­út­veg­inn, eins og þegar maður tjáir sig um veiði­leyfagjöld eða sam­keppn­is­hæf­ari markað á land­bún­að­ar­svið­inu, er þetta síend­ur­tekna við­kvæði: Já, þú ert á móti þessu – á móti sjáv­ar­út­veg­inum og/eða land­bún­að­in­um. Þú ert á móti lands­byggð­inni. En auð­vitað snýst þetta ekki um það!“ segir hún og kveðst vera stolt af þessum atvinnu­grein­um. Að vera sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra hafi ekki bara verið eitt skemmti­leg­asta starf sem hún hafi gegnt heldur hafi líka verið ánægju­legt að tala máli þess­ara mik­il­vægu atvinnu­greina. En að verða ráð­herra til­tek­inna greina þýði ekki sjálf­krafa að ráð­herra verði varð­hundur kerf­is­ins. Hvað þá órétt­láts kerf­is. Sá ein­stak­lingur sem gegni stöðu ráð­herra sitji þar í umboði almenn­ings og kjós­enda. Ef sjáv­ar­út­veg­ur­inn eigi að byggja sig upp í meiri sátt en verið hafi þurfi að útkljá deil­una um auð­linda­gjald­ið. Og gjaldið fyrir aðgang­inn að auð­lind­inni.

„Þrátt fyrir að nú gangi mjög vel er ég hrædd um að einn dag­inn muni þetta springa framan í okk­ur. Framan í sjáv­ar­út­veg­inn og um leið allt sam­fé­lag­ið. Þá fyrst yrði það dýr­keypt fyrir útveg­inn.“

Hvernig myndi hann springa? 

„Af óþol­in­mæði og óþreyju. Ef fólki finnst ekki vera rétt gefið mun kerfið bresta. Sér­stak­lega ef það mun ára verr í sam­fé­lag­inu. Þá kemur upp ákveðin úlfúð og þá má grunnatvinnu­vegur þjóð­ar­innar ekki standa tæpt, atvinnu­vegur sem búið er að byggja upp skyn­sam­lega í stórum dráttum á síð­ustu ára­tug­um, m.a. með að því taka hug­rakka póli­tíska ákvörðun á sínum tíma og miða m.a. við vís­inda­lega ráð­gjöf frá Hafró.

Það er algjört lyk­il­at­riði. Þess vegna erum við með einn sterkasta þorsk­stofn í yfir fjöru­tíu ár – í kringum land­ið. Við tókum ákvörðun um kvót­ann, mjög umdeilda ákvörðun sem bæði vinstri og hægri stjórnir hafa komið að. Svo allt lit­rófið hefur komið að því að byggja þetta kerfi upp, kvót­ann og fram­selj­an­leik­ann. Það hefur líka leitt til auk­innar verð­mæta­sköp­unar og betri umgengni um auð­lind­ina. En síðan er spurn­ing­in: Hvernig á að greiða fyrir aðgang­inn? 

Þeirri grund­vall­ar­spurn­ingu verðum við að svara og svarið felst ekki í stór­felldri lækkun veiði­gjalda eins og rík­is­stjórnin ætlar sér og almenn­ingur skilur jafn­vel ekki. Sú til­lögu­gerð öll lýsir kannski því verði sem Vinstri græn eru til­búin til að greiða fyrir setu sína í rík­is­stjórn. Það er bæði kald­rana­legt og aumk­un­ar­vert í senn.“

Þor­gerður seg­ist vera þeirrar skoð­unar að í sinni ein­föld­ustu mynd eigi að setja hluta af kvót­anum á upp­boð eða markað og láta mark­að­inn sjálfan ráða verð­inu. Meðan að mark­aðs­kerfi ráði ekki ferð­inni verði kerfið gall­að. Mark­aðnum sé best treystandi til að finna rétta verð­ið. Hluti gjalds­ins fari síðan í inn­viða­upp­bygg­ingu á við­kom­andi lands­svæði. En hún finni fyrir and­stöðu við hug­mynd­ina.

„Ég held að menn séu óþarf­lega hræddir því við erum ekki að tala um að koll­varpa kerf­inu eða að hér verði ekki starf­ræktur sjáv­ar­út­veg­ur. En hann þarf að vera í meiri sátt við þjóð­ina. Greinin sjálf þarf einnig að skoða hvort upp­sjáv­ar­fyr­ir­tækin greiði hlut­falls­lega of lítið miðað við bol­fisk­fyr­ir­tæk­in. Þar virð­ist vera ein­hver mis­brestur á.“

Hverjar yrðu betrumbæt­urn­ar? 

„Nátt­úr­lega gagn­sæi og frið­ur. Þá yrði alveg skýrt hvað kæmi í hlut rík­is­ins, þjóð­ar­inn­ar, varð­andi greiðslu fyrir aðgang að auð­lind­inni og þá er ég ekki að tala um sér­staka skatt­lagn­ingu. Eitt er að skatt­leggja, annað er gjald sem greitt er fyrir vör­una sem við­kom­andi fær síðan að selja áfram. Við gætum líka hugsað þetta sem hlut þjóð­ar­inn­ar, eins konar þjóð­ar­hlut, líkt og við hugsum um skip­stjóra­hlut eða háseta­hlut.

En gjaldið á að greið­ast til þjóð­ar­inn­ar. Eins á að leggja auð­linda­gjald á aðrar nátt­úru­auð­lind­ir,“ segir hún og álítur nauð­syn­legt að fylgja því sem birt­ist árið 2000 í nið­ur­stöðu auð­linda­skýrslu­nefnd­ar­innar þess efnis að setja eigi auð­linda­gjöld á nýt­ingu nátt­úru­auð­linda. Ekki bara fiski­mið­in.

Ekki afkomu­bund­ið? 

„Nei, en upp­boðið verður í raun afkomu­bund­ið. Ef vel gengur verður eft­ir­spurnin meiri og fyrir vikið greitt hærra verð. Ef gengur verr, þá er greitt minna,“ útskýrir hún og segir Íslend­inga þurfa að fylgj­ast með því sem syst­ur­flokkur Vinstri grænna sé að gera í Fær­eyjum þar sem Fær­ey­ingar þrói sig að hluta til áfram á sviði upp­boðs­mark­að­ar.

Hún minnir á að þetta sé auð­vitað hápóli­tískt mál og gríð­ar­legir hags­munir í húfi. En með þess­ari leið fengi sjáv­ar­út­veg­ur­inn að halda áfram að blómstra.

„Við töpum verð­mætum meðan óein­ing er til stað­ar, fyrir utan kostn­að­ar­sama óviss­una sem hún skap­ar.“

Þorgerður Katrín og Auður spjalla.
Bára Huld Beck

Færðu að finna fyrir íslensku sér­hags­muna­vél­inni þegar þú talar fyrir breyt­ingum í sjáv­ar­út­vegi og land­bún­aði?

Þor­gerður hlær að þess­ari skrýtnu spurn­ingu en segir að stundum sé glefsað í sig í alls­konar send­ing­um. Þá fái hún að finna fyrir ýmsu öðru en vel­vild. En hún sé ekki í stjórn­málum til að sækj­ast eftir henni.

„Það hjálpar mér í þessum málum að vera komin á þann stað sem ég er núna í póli­tík­inni. Ég er frjáls! Ég verð bara ein­hver x mörg ár í póli­tík. En ef fólk hefur gaman af því sem það er að gera og líður vel í ákveðnu vinnu­um­hverfi, sama hversu grimmt og mis­kunn­ar­laust það getur orð­ið, þá öðl­ast það kraft til að láta gott af sér leiða.“

Af hverju sner­irðu aftur í stjórn­mál­in? 

„Af því að ég hef sjúk­lega gaman af þessu. Ég sá það samt ekki fyr­ir, ég fór í þrjú ár og vann hjá Sam­tökum atvinnu­lífs­ins sem var nýr og spenn­andi vett­vang­ur. Það var lær­dóms­ríkt að sjá hvernig hlut­irnir gengu fyrir sig á þeim vett­vangi auk þess að sam­starfs­fólkið var und­ur­gott.

Einn dag­inn á kannski eftir að slokkna á þess­ari ást á póli­tík­inni en ástin … hún er ekki kuln­uð. Hún er sterk enn­þá. Og ástin í líf­inu er drif­kraft­ur.“

Þor­gerður seg­ist finna styrk í reynsl­unni en ekki sé þar með sagt að hún geri ekki mis­tök. Að ein­hverju leyti færri – en hún geri þau. Með öðrum hætti þó.

„En reynslan skapar öryggi eins og þegar maður kemur inn í ráðu­neyti aftur og sér strax að ákveðnir hlutir eru ekki að ganga upp eða ganga ekki nógu hratt fyrir sig þó að þeir ættu að gera það. Það er minna hægt að bulla í manni. Nú hef ég minna umburð­ar­lyndi fyrir því þegar verið er að fara í kringum hlut­ina eins og köttur í kringum heitan graut.“

Þið Stein­unn Val­dís Ósk­ars­dóttir upp­lifðuð báðar að fá mót­mæl­endur að heim­ilum ykkar og verða fyrir hörðu aðkasti. Þið hurfuð svo úr stjórn­mál­unum en þú snerir aft­ur. Skiptir máli að fólk geti snúið aft­ur?

Hún segir þennan tíma auð­vitað hafi verið sárs­auka­fullan en telur sig hafa haft gott af því að end­ur­meta sjálfa sig.

„Ég hef sagt það áður: á sínum tíma tal­aði ég um end­ur­menntun en fór svo sjálf í nokk­urs konar end­ur­mennt­un. Ég þurfti á henni að halda. Það var bæði sárt og heilandi í senn. Að horfast í augu við eigin mis­tök, læra af reynsl­unni, bæði því góða og slæma, og horfa síðan fram á veg­inn er ákveðið þroska­ferli.

Ég vissi að með því að snúa aftur þyrfti ég að fara í gegnum ýmis­legt. Í dag eru enn ein­hverjir pirraðir yfir að ég skuli hafa leyft mér að stíga aftur fram á hið póli­tíska svið. En margir hafa líka verið mér ótrú­lega mikil hvatn­ing. Ég held að þeir átti sig stundum ekki á hversu miklu máli það skiptir mig að fá fal­leg skeyti og hvatn­ingu. Þá hugsa ég með mér: Ókei, þetta er allt í lagi. Það eru fleiri þarna úti sem vilja að ég sé þarna frekar en ekki. Og það er af því ég er frjáls í dag í Við­reisn – og það frelsi verður að nýta.“

Þor­gerður tekur þó fram að ef uppi sé krafa um að stjórn­mála­menn eða fólk í öðrum ábyrgð­ar­stöðum stígi til hliðar – og ef því ákalli sé hlýtt – þá vilji hún búa í sam­fé­lagi sem hafi svig­rúm og umburð­ar­lyndi og veiti fólki tæki­færi að nýju. Sér finn­ist ósjaldan að þeir sem standi hvað sterk­astir hafi oft gert ein­hverjar bommertur en snúið aftur –  því reynslan sé góð og geti nýst sam­fé­lag­inu, þótt hún geti verið erf­ið.

Þorgerður Katrín og Birta.
Bára Huld Beck

Stundum má heyra raddir sem segja að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Við­reisn eigi eftir að sam­ein­ast. Hefur það hvarflað að þér?

Hún segir slíkt tal ekki hafa áhrif á sig. Eina sem skipti hana máli sé að frjáls­lynd öfl standi sam­an, öfl sem þori að bjóða ákveðnum sér­hags­munum byrg­inn því af þeim stafi hætta sem felist í ákveðnum talsmáta og ákveð­inni nálgun við við­fangs­efn­ið. Í því felist ógn fyrir frjáls­lynt lýð­ræð­is­legt sam­fé­lag.

„Engu skiptir hvort fyr­ir­bærið heitir Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Við­reisn eða Sam­fylk­ing eða ann­að. Mestu máli skiptir að sjá áfram gott fólk í Sjálf­stæð­is­flokknum til þess að eiga í sam­ræðu frekar en að flokk­arnir sam­ein­ist. Ef eitt­hvað, þá fer bilið á milli Við­reisnar og Sjálf­stæð­is­flokks­ins stækk­andi, ekki í þá veru að við í Við­reisn séum að fær­ast til heldur öllu frekar að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sé far­inn í meiri sam­keppni við það sem íhalds­sam­ari flokkar eins og Mið­flokk­ur­inn stendur fyr­ir.“

Þú ert þá að vísa í ákveðið mengi innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hóp sem gagn­rýnir þig hvað harð­ast – eða?

„Já, vissu­lega. Sumir telja að ég hafi átt að vera áfram í Sjálf­stæð­is­flokknum og kyngja ákveðnum hlutum út af ein­hverri stórri mynd. En stóra myndin var ekki lengur mín. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var ekki lengur sá flokkur sem ég heill­að­ist af á sínum tíma. Með sína breiðu skírskot­un. Nú er breið­fylk­ingin far­in. Hún hefur tvístrast,“ segir Þor­gerður en verður síðan á orði að á sama tíma leiti sér­stak­lega margt ungt fólk og konur í Við­reisn.

Þó telji hún það há Við­reisn svo­lítið að vera á stundum of tækni­leg í nálg­un. Frjáls­lyndir flokkar verði að gæta sín á að almenn­ingur geti mátað sig við stefn­una og skilið þýð­ingu hennar fyrir hið dag­lega líf. Fáir sýni því skiln­ing þegar þau tali um að mik­il­væg­asta hags­muna­mál Íslend­inga sé að skipta um gjald­mið­il. Og pen­inga­mála­stefnu. En það sé mik­il­væg­asta hags­muna­málið fyrir íslensku heim­ilin og fyr­ir­tæk­in. Þannig fáist stöð­ug­leiki og lægri vext­ir. Það stuðli að sam­keppn­is­hæfni og fái unga fólkið til að leita aftur heim – og sama gildi um sprota- og nýsköp­un­ar­fyr­ir­tæk­in. Það hljóti að vera betra en núver­andi pen­inga­mála­stefna sem oftar en ekki hafi verið háð póli­tískum duttl­ungum og því hvaða hags­muna­að­ilar séu með sterk­ustu streng­ina inn í rík­is­stjórn.

Hún verður vör við flótta stór­fyr­ir­tækja úr landi út af mynt­inni og bendir á stóru atvinnu­veg­ina eins og til dæmis áliðn­að­inn og sjáv­ar­út­veg­inn sem geri meira og minna upp í erlendri mynt, þá fyrst og fremst doll­ara og evru.

„En við sjáum höf­uð­stöðvar fyr­ir­tækja líka flytja úr landi og erlendir fjár­festar eru ekki beint hér í bið­röð­um. Þar skiptir gjald­mið­ill­inn miklu máli. Mestar áhyggjur hef ég af sprota­fyr­ir­tækj­unum sem ná ekki að festa rætur hérna út af geng­is­málum og rekstr­ar­um­hverfi. Þau reka sig strax á hindr­anir í fjár­fest­ingum og reglu­verki. Krónan er svo miklu meiri áhrifa­valdur í íslensku umhverfi en fólk gerir sér grein fyr­ir. Fyrir atvinnu­mögu­leika ungs fólks er þetta meira en baga­leg­t.“

Hvers förum við á mis sem sam­fé­lag að missa þessi fyr­ir­tæki úr landi?

„Menn­ingu. Fjöl­breytni. Fjöl­menn­ingu. Hag­vöxt. Tæki­færi – sér­stak­lega fyrir ungt fólk! Bara fjöl­breytt­ara sam­fé­lag. Við sem búið höfum í öðrum löndum vitum að þessi fjöl­breytni er dýnamík í hverju sam­fé­lagi. Það skiptir máli að hafa fólk alls staðar að hér á Íslandi til að styrkja okkur en það skiptir eins miklu máli að hafa alls­konar fyr­ir­tæki. Af því að fjöl­breyttum fyr­ir­tækjum fylgja mis­mun­andi störf. Mis­mun­andi þarf­ir. Mis­mun­andi kröfur til mennt­un­ar. Þá verður til þessi gróska.“

Nú hefur mikið gengið á í Evr­ópu síð­ustu árin, hversu sann­færð ertu þegar þú talar fyrir aðild­ar­við­ræðum við ESB?

Þor­gerður kveðst sann­færð­ari nú en áður. Hún hafi oft sagt: Ég er Evr­ópusinni en ekki sjálf­krafa Evr­ópu­sam­bands­sinn­i. „En því meira sem ég vinn í kringum þetta því sann­færð­ari er ég að það sé rétt skref fyrir okkur að, ekki bara klára aðild­ar­við­ræð­urnar við ESB heldur líka verða aðili að Evr­ópu­sam­band­inu.

Við erum með mikla hags­muni þar í gegnum EES-­samn­ing­inn og alveg ljóst að það skiptir okkur máli að verða rödd við borð­ið. Það sýnir sig til dæmis bæði í orku­pakk­anum og því sem lýtur að per­sónu­vernd, sem er nýbúið að fara í gegnum þing­ið, hversu þýð­ing­ar­mikið það er fyrir okkur að vera með tals­menn sem setja fram íslenska hags­mun­i.“

Hún minnir á orð Helmut Kohl eitt­hvað á þessa leið: „Þetta verður erfitt þegar síð­asti leið­togi Evr­ópu­sam­bands­ins sem upp­lifði seinni heims­styrj­öld­ina hverf­ur“.

Og hún bendir á hætt­una ef þessi orð hans gleym­ist.

„Evr­ópu­sam­bandið hefur stuðlað að friði og styrk­ingu lýð­ræðis á álf­unni. Ætli það sé ekki það dýr­mætasta sem sam­bandið hefur gert. Og það hefur gerst með ýmsum hætti. Með ein­urð leið­toga Evr­ópu­ríkj­anna en frjáls og opinn mark­aður hefur líka stutt við allt ferl­ið. Það ógnar hins vegar öryggi Íslands þegar leið­togi Banda­ríkj­anna hagar sér með þeim hætti sem hann gerir nú um stund­ir. Toll­ar, múr­ar, henti­stefna og lítil löngun til sam­vinnu og sam­hygðar er ógn við lýð­ræði og öryggi.

Ég hef verið ein­dreg­inn tals­maður þess að við séum aðilar að NATO til þess að treysta öryggi okkar sem þjóðar en það styrk­ist ekki meðan Trump lætur svona. Plan B þarf að vera til innan Atl­ants­hafs­banda­lags­ins. Og innan Evr­ópu­sam­bands­ins. Munu Banda­ríkin hlaupa til ef ein­hverjir koma hingað eða ógna með ein­hverjum hætti? Segjum að Rússar fari í auknum mæli að venja komur sínar hing­að, hvort sem það væru her­flug­vélar eða kaf­bát­ar. Getum við treyst Banda­ríkj­unum til að þess að halda uppi vörnum fyrir okk­ur?

Allt er að breyt­ast mjög hratt,“ botnar hún og álítur að ekki sé nægi­lega rætt um þetta alþjóða­sam­hengi – af því að menn haldi enn í von­ina að þetta lag­ist og Trump hverfi frá. Ennþá sé tiplað á tánum í kringum Banda­ríkin því þau séu, eftir sem áður, sterkasta her­veldi í heimi.

„Getum við leyft okkur að vera til­lits­söm þegar kemur að því að taka afstöðu í ákveðnum málum sem eru stjórn Banda­ríkj­anna ekki þókn­an­leg? Og hvort er betra fyrir Íslend­inga, ef á skellur við­skipta­stríð – sem er allt eins lík­legt að verði – að standa ein eða vera í náinni sam­vinnu við aðrar þjóð­ir?“

Þorgerður Katrín.
Bára Huld Beck

Stuðlað er að hags­munum neyt­enda í Evr­ópu­sam­band­inu. Er nógu mikil neyt­enda­vit­und hér, í þessu umhverfi sér­hags­muna?

Hún álítur hana fara vax­andi. Mörg dæmi er hægt að nefna um bætta stöðu neyt­enda og nefnir sem dæmi milli­landa­sím­töl: „Munið hvernig við vorum á sínum tíma illa leikin með síma­kostnað milli landa? Bara út af slíkum hlutum er mik­il­vægt að fá fólkið okkar heim frá útlöndum – af því að það gerir aðrar kröfur eftir sam­an­burð­inn. Í Evr­ópu er til dæmis mun meiri neyt­enda­vit­und heldur en hér. En auð­vitað eru Neyt­enda­sam­tökin gríð­ar­lega mik­il­væg til að við­halda ákveðnum sjón­ar­miðum og við­horf­um.“

Þor­gerður tekur nýlegt dæmi um það sem hún kallar sér­hags­muna­blessað mál þar sem sjón­ar­mið neyt­enda hafi ekki fengið nægi­legt vægi.

„Árið 2015 var gerður frí­versl­un­ar­samn­ing­ur, við­bót um auk­inn inn­flutn­ing, sem rík­is­stjórn Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks skrif­uðu und­ir. Síð­an, árið 2016, hékk saman að afgreiða þessa tolla­samn­inga og búvöru­samn­ing­ana – og í kjöl­farið voru sett inn­flutn­ings­höft á ákveðna hluti og sextán millj­arðar til við­bótar færðir inn í land­bún­að­inn. En til að lækka í gagn­rýn­is­röddum var inn­leið­ingu á sér­ostum flýtt: tvö hund­ruð og þrjá­tíu tonn áttu að koma um leið og Evr­ópu­sam­bandið hefði full­gilt allt. Um þetta ríkti sam­komu­lag en laga­lapsus kom í veg fyrir að ráðu­neytið gæti gefið út reglu­gerð­ina. Svo þetta þurfti að fara fyrir þing­ið. Og hvað gerð­ist? Allt stoppað fyrir bestu vini Fram­sókn­ar. Svo mikil endemis vit­leysa“

Ostar eru nú mörgum mikið hjart­ans mál!

„Já – en við fengum ekki val­ið! Bara sagt að þyrfti mót­væg­is­að­gerð­ir! En mót­væg­is­að­gerð­irnar voru búvöru­samn­ing­arn­ir! Heilir sextán millj­arðar – en menn gátu ekki komið eitt­hvað pínu­lítið til móts við neyt­end­ur. Hvorki Vinstri græn né Sjálf­stæð­is­flokkur – hvað þá Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn – höfðu döngun eða löngun í sér til að fylgja eftir því sem þó var sam­þykkt á þing­inu árið 2016. Af hverju mátti ekki opna smá glu­fu?“

Hún segir fólk vita hvað hægt sé að fá ann­ars staðar og inn­an­lands­mark­að­ur­inn reyni þar af leið­andi að sinna þeirri eft­ir­spurn. Því þurfi að tryggja ákveðna fram­leiðslu og eins að landið sé í rækt.

„Gagn­rýni á land­bún­að­ar­kerfið þýðir ekki að maður sé á móti bændum eða lands­byggð­inni. Þvert á móti fara hags­munir bænda og neyt­enda sam­an. Það er ótrú­lega dýr­mætt að heyra í dag raddir bænda sem við­ur­kenna ákveðna stöðnun í fram­leiðslu sauð­fjár­af­urða og kalla eftir auk­inni nýsköpun sem verði meira í takti við mark­að­inn og þarfir neyt­enda. Við eigum að styðja þá til þess. Og breyta afurða­stöðvakerf­inu í þágu bænda og neyt­enda. Við þurfum að hlúa að fram­leiðsl­unni hér inn­an­lands en styrk­ur­inn er fólg­inn í því að neyt­endur velja umhverf­is­væna heil­brigða vöru. Ekki að útlenda varan sé það ekki. En við vitum meira um vör­urnar hérna heima. Tæki­færin eru ótelj­andi í land­bún­aði en það þarf að fara segja hlut­ina eins og þeir eru. Og neyt­end­urnir verða að fá að velja. Það sýndi sig með græn­met­inu því þegar ákveðið var að afnema ákveðnar inn­flutn­ings­hindr­anir fengu íslenskir neyt­endur meira úrval. Og völdu þá íslenskt.“

Eins og innri lög­mál leiti jafn­væg­is?

„Já,“ segir Þor­gerður en leggur áherslu á að með því móti fáist sprotar inn í íslenskt sam­fé­lag; ákveðið hug­vit og nýsköpun sem efli störf og auki fjöl­breytni, ekki síst fyrir ungt fólk. Hún vilji búa til öfl­ugan mat­væla­sjóð sem styrki rann­sóknir og nýsköpun á sviði land­bún­að­ar­mála og líka sjáv­ar­út­vegs­mála. Sam­eina einn sjóð, sem heitir Aukið virði sjáv­ar­fangs eða AVS, við Fram­leiðslu­sjóð land­bún­að­ar­ins. Þannig mætti spara þrjá­tíu til fjöru­tíu millj­ónir á ári í yfir­bygg­ingu en um leið auka rann­sóknir til mat­væla.

„Við eigum að mínu mati ekki að hafa sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráðu­neyti heldur mat­væla­ráðu­neyti og horfa á okkur sem mat­væla­þjóð. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er búinn að þró­ast ótrú­lega og við erum komin svo langt þar í allri þró­un, bæði á mark­aði og í vöru. Ég er sann­færð um að land­bún­að­ur­inn nýtur góðs af. Hann gæti tekið svipuð stökk og sjáv­ar­út­veg­ur­inn með því að fá rétta stuðn­ing­inn. Nú þarf að styrkja mat­væla­rann­sókn­ir, þar með talin land­bún­að­ar­mál. Slíkt mun skila sér. Og síðan á að styðja við unga bændur svo þeir verði frjáls­ari frá afurð­ar­stöðv­unum – sem þarf jafn­framt að stokka upp.“ Hún segir grein­ina þarfn­ast meira frelsis en að menn hræð­ist breyt­ingar og ekki megi van­meta ótt­ann sem sér­hags­muna­öflin ali á.

Hvernig blasir íslenska póli­tíkin við þér núna?

Þor­gerður ótt­ast að núver­andi rík­is­stjórn veiti sam­fé­lag­inu falskt öryggi.

„Falskt öryggi felst í ákveðnum talsmáta for­ystu­fólks rík­is­stjórn­ar­flokk­anna því þetta er stjórn þvert yfir lín­una. En hún er algjör­lega á íhalds­ásn­um. For­ræð­is­hyggja – íhalds­ás. Það vantar allt frels­ið. Nú er búið að reyna á þetta trekk í trekk á örskömmum tíma í þing­inu. Og hvar eru stóru mál­in, er passað upp á þau? Ég spyr: Hvernig hafa þau birst í áætl­unum rík­is­stjórn­ar­inn­ar? Sam­göngu­mál­in? Mennta­mál­in? Eða heil­brigð­is­málin þar sem aldrei hefur verið meiri hætta á að verið sé að byggja upp tvö­falt heil­brigð­is­kerfi en nú?“

Þor­gerður nefnir að hún vilji tryggja jafnan aðgang að heil­brigð­is­þjón­ustu, um allt land, jafn öfl­uga þjón­ustu og hún sé nú og helst öfl­ugri. Ef það sé hægt fyrir jafn­mikið fjár­magn eða minna með aðkomu sjálf­stætt starf­andi aðila, þá eigi það ekki að skipta máli, svo lengi sem mark­miðin séu á hreinu.

„Í stað þess að krefj­ast þess að allt þurfi að fara undir rík­ið, líkt og heil­brigð­is­ráð­herra vill, eigum við að spyrja hvernig við tryggjum bestu þjón­ust­una. Útgangs­punkt­ur­inn er og verður sjúk­ling­ur­inn. Ekki rekstr­ar­að­il­inn.“

Og hún spyr: „Eru þessi stóru mál kannski þau sem rík­is­stjórnin vill ekki snerta? Þau sem ekki má ræða? Breyt­ingar á þeim kerfum sem ég hef verið að nefna. Og á pen­inga­stefn­unni. Það er sorg­legt að finna til þess að alltaf þegar helstu bak­hjarlar þess­ara flokka leita ásjár rík­is­valds­ins um stuðn­ing út af hinu og þessu, þá er rótin yfir­leitt íslenska krónan og sveifl­urnar og óstöð­ug­leik­inn sem henni fylgja. En það má aldrei nefna. Þegar krónan er of sterk, eins og núna, reyn­ist róð­ur­inn harður fyrir sjáv­ar­út­veg­inn og þá er talað um litlu fyr­ir­tæk­in. Enn og aftur eru litlu fyr­ir­tækin notuð sem skjól til að rétt­læta alls­herjar skatta- eða gjalda­lækkun á alla grein­ina – sem hefur vel efni á því að greiða sann­gjörn gjöld fyrir aðgang­inn að auð­lind­inn­i.“

Hún segir sama gilda um land­bún­að­inn; algeng­ustu fund­irnir í ráðu­neyt­inu hafi verið vegna erf­ið­leika í land­bún­aði út af stöðu og ófyr­ir­sjá­an­leika íslensku krón­unn­ar.

„Þórður Magn­ús­son fjár­festir benti á í frá­bæru við­tali fyrr á þessu ári, að mig minnir í Við­skipta­blað­inu, að hann hefði farið á aðal­fund Sam­taka atvinnu­lífs­ins og séð þar mynd­band um hund­rað ára sögu atvinnu­lífs­ins en ekki minnst þar einu orði á krón­una. Og þá spyr ég: „Eru allir orðnir með­virkir í þessu sam­fé­lag­i?“

Þor­gerður fylgir mér til dyra en þegar ég er að stíga út úr gætt­inni segir hún skyndi­lega: „Við eigum eftir að ræða stjórn­ar­skrána!“

Það fær að bíða betri tíma …

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal