Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Ólafur Ísleifsson þingflokksformaður Flokks fólksins.
Kjarasamningagerð stóra málið
„Það verður mjög áhugavert að kynna sér stefnuræðu forsætisráðherra þarna um kvöldið 12. september. Þær umræður munu náttúrulega taka sinn tíma eins og hefðbundið er og er partur af íslensku stjórnmálaumhverfi. “
Ólafur segir stærsta málið framundan vera vinnumarkaðurinn. „Að það náist viðunandi niðurstaða á vinnumarkaði þar sem allir samningar eru opnir eða að opna. Það er stóra málið.“ Aðspurður um hvort hann sér bjart- eða svartsýnn á kjaraveturinn framundan sem margir hafa áhyggjur af segist hann farinn að muna svolítið langt aftur.
Mun reyna á ríkisstjórnina
„Kjarasamningagerð er nú sjaldnast aðveld. Þannig að ég geri ekki ráð fyrir að það verði frekar auðvelt nú. Það mun reyna mjög á ríkisstjórnina að henni takist að leggja þessu lið, að greiða fyrir kjarasamningum, eins og maður segir. Það hafa þó komið fram yfirlýsingar um að hennar vilji standi til þess,“ segir Ólafur sem segist einnig hlakka til að sjá hvernig ríkisstjórnin muni fara með evrópska orkupakkann og hvaða fyrirætlanir hún hafi í þeim efnum. Ljóst sé að það mál sé erfiðara í sumum flokkum en öðrum.
Standa með þeim gleymdu
„Verkefni okkar í Flokki fólksins eru alveg skýr. Það er standa með þeim og berjast í þágu þeirra sem að standa hérna höllustum fæti og hafa einhvern veginn orðið útundan eða eru gleymdir. Hópar aldraðra, öryrkja sem og tekjulágar fjölskyldur vinnandi fólks og einhleypingar.“
Ólafur segir flokkinn munu halda áfram að beita sér í þágu þessara hópa með ýmsum hætti og leitast við að verja heimilin fyrir vissum þáttum sem við hér á Íslandi búum við og skeri okkur frá öðrum þjóðum.
Gegn verðtryggingunni og ofurvöxtum
„Við munum beita okkur gegn verðtryggingunni og þessum háu vöxtum sem eru hér og annað af því tagi og reyna að skjóta skyldi yfir heimilin sem fóru illa út úr hruninu og eftirleik þess. Ég fékk svar frá dómsmálaráðherra sem leiddi í ljós að 9.200 fjölskyldur máttu yfirgefa heimili sín frá 2008 til og með 2017 og þá er ekki allt talið. Þetta eru nauðungarsölur og sölur af samskonar tagi á íbúðarhúsnæði vegna veðlána. Þessi tala, á tíunda þúsund, ef við gerum ráð fyrir þremur einstaklingum fjölskyldu þá eru þetta 30 þúsund manns sem þetta snertir beint, það eru 10 prósent af þjóðinni. Það hefur ekkert verið gert síðan til að reisa einhverjar varnir í þágu heimilanna.“
Kjarabót vegna breytinga á endurgreiðslum
Ólafur segist með aðgerðir í undirbúningi í því skyni en vill ræða þær síðar. Hann segist að endingu afar spenntur fyrir frumvarpi frá ráðherra sem hann á von á í nóvember. „Það var mál sem við bárum fram á liðnu þingi, sem að varðar sérstakar uppbætur til bótaþega og öryrkja. Hlutir eins og heyrnartæki og ýmislegt sem er endurgreitt sérstaklega, við bentum á það eins og ÖBÍ, að þessar endurgreiðslur hafa verið reiknaðar eins og tekjur. Fólk er krafið um tekjuskatt af þessu og útsvar. Ýmsar bætur geta líka í kjölfarið farið að skerðast vegna hærri tekna. Það var flutt um þetta þingsályktunartillaga sem allir flokkar studdu og ráðherra falið að leggja fram um þetta frumvarp í nóvember og við hlökkum mikið til að sjá það frumvarp.“