Maí 1945. Adolf Hitler hefur tekið eigin líf og Þriðja ríkið er að falli komið. Síðari heimsstyrjöldinni er að ljúka, að minnsta kosti í Evrópu. Flestir þátttakenda í þessum hryllilega hildarleik hugsa nú um það eitt að komast af. Þó berjast enn fanatískar SS-hersveitir og neita að gefast upp.
Fangarnir
Sögusviðið er hinn drungalegi Itter-kastali í austurrísku Ölpunum sem SS nýttu sem fangelsi á stríðsárunum. Þar voru í haldi fangar sem nasistar töldu mikilvæga og gátu mögulega nýst í fangaskiptum. En þegar þarna var komið sögu hafði líf þeirra ekki lengur neina þýðingu fyrir SS og því voru fangarnir í bráðri lífshættu. Fangarnir voru flestir franskir en þó af ólíku sauðahúsi. Á meðal þeirra voru: Fyrrum forsætisráðherrarnir Paul Reynaud og Edouard Daladier, hershöfðingjarnir Maurice Gamelin og Maxime Weygand, fasistaleiðtoginn Francois de La Rocque sem, þrátt fyrir stjórnmálaskoðanir sínar, hafði snúist gegn nasistum og Vichy-stjórninni og því verið fangelsaður, einnig var þarna tennis-stjarnan Jean Borotra sem var hallur undir fasisma en líkt og De La Rocque snerist gegn Vichy-stjórninni og féll því fljótlega í ónáð. Verkalýðsleiðtoginn/sósíalistinn Leon Jouhaux og einnig Marie-Agnes Cailliau, eldri systir franska hershöfðingjans Charles de Gaulle voru einnig fangar þarna og með mörgum karlfanganna voru eiginkonur þeirra.
Samkomulagið milli þessara ólíku aðila var vægast sagt stirt. Reynaud og Daladier höfðu lengi verið svarnir pólitískir óvinir og þótt þeir væru nú fangar undir sama þaki, hafði lítið breyst hvað það varðaði. Eitt áttu þeir þó sameiginlegt því báðir fyrirlitu þeir Maxime Weygand hershöfðingja. Weygand hafði tekið við vörnum Frakklands af Gamelin í maí 1940 en hafði fljótlega gefist upp fyrir þýska innrásarliðinu og var af ýmsum stimplaður sem samverkamaður (fr: Collaborateaur) en það var eitt mesta og versta styggðaryrði sem til var í augum Frakka á þeim tíma. Það þarf varla að taka það fram að Gamelin hershöfðingi fyrirleit einnig Weygand og var meinilla við Daladier. Fasistinn de La Rocque og verkalýðsforkólfurinn og sósíalistinn Jouhaux þoldu eðlilega ekki hvorn annan, enda langt frá hvorum öðrum á hinu pólitíska línuriti.
Þau gerðu sér þó ljóst að þegar þarna var komið var líf þeirra allra í stórhættu. Fangavörður þeirra var SS-foringinn Sebastian Wimmer og þó hann hefði áður reynt að fullvissa fangana um að lífi þeirra yrði þyrmt þá fór það ekki fram hjá neinum að hann varð sífellt óstöðugri og óútreiknanlegri í hegðun. Að morgni 4. maí lét Wimmer sig síðan hverfa. SS-hermennirnir sem eftir voru höfðu greinilega lítinn áhuga á skyldustörfum sínum eftir að foringi þeirra var flúinn og frönsku fangarnir voru skyndilega ein eftir í kastalanum. En þótt þau væru frjáls þá þýddi það ekki endilega að þau væru örugg. Stutt eftirlitsferð þeirra leiddi í ljós að enn voru þýskir hermenn á sveimi. Þó var bót í máli að fangaverðirnir höfðu skilið eftir vopn og skotfæri.
Leitað að hjálp: Rafvirkinn
Flestir starfsmanna kastalans voru fangar af austurevrópskum uppruna. Aðeins degi áður en Wimmer flúði kastalann hafði króatíski rafvirkinn Zvonko Cuckovic stungið af til að leita hjálpar. Cuckovic hafði smyglað útvarpi til fanganna og því var þeim kunnugt um að bandarískar hersveitir væru nálægt. Vegna starfs síns sem rafvirki í fangelsinu þurfti hann oft að fara þaðan til að ná í varahluti. Á leið sinni sá Cuckovic að grunur þeirra um að sumir Þjóðverjar hefðu ekki í hyggju að gefast upp, var réttur. Hann hjólaði fram hjá SS-hersveitum sem höfðu málað slagorð eins og Hollusta við Foringjann! á bryndreka sína. Honum tókst að sannfæra alla um að hann væri á sinni venjubundnu leið að ná í varahluti. Að lokum kom hann í þorp þar sem hinn rauði og hvíti fáni Austurríkis hékk utan á húsum. Cuckovic hjólaði fyrir horn og starði þá beint inn í hlaup á skriðdreka. Hann bjó sig undir að endurtaka lygasögu sína um varahlutina er hann áttaði sig á því að á skriðdrekanum var ekki svartur kross þýska hersins, heldur hvít stjarna. Zvonko Cuckovic hafði tekist að finna bandaríska herliðið.
Leitað að hjálp: Kokkurinn
Í kastalanum óttuðust fangarnir um afdrif Króatans Cuckovic og þrátt fyrir stirt samband þá réðu þau nú ráðum sínum og ákváðu finna annan sendiboða til að leita hjálpar. Það var, þrátt fyrir allt, mjög líklegt að Cuckovic hefði verið tekinn fastur eða jafnvel skotinn til bana. Eins og áður hefur komið fram þá hikuðu SS-sveitir og aðrir sem enn voru fylgjandi nasismanum ekki við það að taka þá af lífi sem sýndu minnstu merki um uppgjöf. Tennisleikarinn Jean Borotra bauð sig fram en þá sté tékkneski kokkurinn Andreas Krobot fram og bauðst til að fara frekar. Krobot, eins og Cuckovic, var með miða, skrifaðan á ensku, sem lýsti aðstæðum í kastalanum. Hann stefndi til þorpsins Wörgl. Frönsku fangarnir höfðu talið líklegt að þorpið væri nú í höndum Bandaríkjamanna.
Krobot sjálfur var ekki of viss og hann komst fljótlega að því að grunur hans reyndist á rökum reistur. Hann kom auga á SS hermenn sem skutu á hús þar sem austurríski fáninn blakti. Hann hraðaði sér fram hjá og sá seinna vopnaðan mann standa í dyragætt á húsi einu en Krobot tók eftir því maðurinn var borgaralega klæddur. Krobot hikaði en ákvað að láta slag standa og útskýrði fyrir manninum stöðu mála. Maðurinn reyndist vera í austurrískum andspyrnuhópi sem barðist gegn SS-hersveitunum. Hann leiddi Krobot inn í húsið og kynnti hann fyrir foringja andspyrnuhópsins. Krobot gat ekki dulið undrun sína er hann sá foringjann því sá var klæddur einkennisbúningi majórs í Wehrmacht, þýska hernum.
Þýski majórinn
Foringinn sem Krobot hafði nú hitt var Josef Gangl, oftast kallaður „Sepp“. Hann hafði gengið í þýska herinn árið 1928, rétt nýorðinn 18 ára. Þar voru menn fljótir að koma auga á leiðtogahæfileika hans og hann reis fljótlega upp til metorða og hækkaði í tign. Gangl hafði barist á ýmsum vígstöðvum og meðal annars verið fjögur ár í Rússlandi. Þegar þarna var komið sögu var herdeild hans ekki svipur hjá sjón og Gangl hafði löngu misst áhugann á því að berjast fyrir foringjann og föðurlandið.
Hans eina markmið, á þessum tímapunkti, var að halda mönnum sínum á lífi og komast í samband við bandaríska innrásarliðið. Það hafði meira að segja verið Sepp Gangl sem sjálfur kom sér í samband við austurríska andspyrnuhópinn. Við það vænkaðist hagur þeirra mjög því Gangl gat útvegað vopn og auk þess hafði hann mikla reynslu. Yfirmenn Gangl í hernum vissu heldur ekki að hann var nú í raun nokkurskonar gagnnjósnari, lék tveimur skjöldum og réð því yfir mikilli vitneskju um stöðu mála í Austurríki. Aðeins fáum dögum áður hafði herinn flúið frá svæðinu og nú voru aðeins eftir SS-sveitir. Gangl ákvað að verða eftir og með honum voru um 30 hermenn hans. Gangl var í raun kunnugt um fangana í Itter-kastala og hann hafði velt því fyrir sér hvernig hann gæti komið þeim til aðstoðar. Nú hafði SS-mönnum fjölgað á svæðinu og Gangl gerði sér ljóst að tíminn vann ekki með þeim. Hann yrði að komast í samband við Bandaríkjamennina ef hann ætti að geta bjargað föngunum.
SS-foringi og bjargvættur
Í kastalanum gerðust atburðir enn furðulegri því fangarnir höfðu farið í nærliggjandi þorp og beðið Þjóðverjann Kurt Schrader um að hjálpa sér. Schrader hafði særst illa í orrustu og því sest í helgan stein í Austurríki ásamt fjölskyldu sinni. Eftir að nokkrir háttsettir foringjar í hernum höfðu reynt að koma Adolf Hitler fyrir kattarnef þann 20. júlí 1944 hafði Schrader algjörlega fallið frá hugmyndafræði nasista og var óhræddur að segja frönsku föngunum frá fyrirlitningu sinni á Hitler. Hann hafði vingast við fangana og þau treystu honum. Ástæðan fyrir því að fangarnir báðu hann liðsinnis var sú að Kurt Schrader hafði verið ekki verið neinn venjulegur hermaður heldur var hann höfuðsmaður (þ: Hauptsturmführer) í sjálfu SS. Hann samþykkti strax að hjálpa föngunum og klæddist nú á nýjan leik í sinn gamla búning. Hugmynd þeirra var sú að er SS-hermenn kæmu í kastalann myndi Schrader segja þeim að hann væri yfirmaður þar og bæri ábyrgð á föngunum. Þótt bæði Schrader og fangarnir væru efins um að sú brella myndi virka lengi, eða yfirhöfuð, þá fannst þeim vissara að reyna.
Bandaríski höfuðsmaðurinn
Á meðan fangarnir í kastalanum búðu sig undir hið versta var Sepp Gangl majór, ásamt undirmanni sínum Keblitsch, að brjóta heilann um það hvernig hann kæmist klakklaust til bandaríska herliðsins. Þó það væri aðeins í 12 kílómetra fjarlægð þá var augljóst að þetta yrði hættuför. Þeir myndu mögulega verða stöðvaðir af SS-hersveitum og ef leitað yrði á þeim væru miklar líkur á að þeir yrðu teknir af lífi þegar í stað enda tóku þeir með sér hvítan uppgjafarfána og bréfið frá frönsku föngunum sem Krobot hafði látið þá hafa. Einnig voru austurrískir andspyrnuhópar á svæðinu sem þekktu þá ekkert og myndu eflaust ekki hika við að skjóta á tvo þýska foringja. Svo má ekki gleyma því að bandarískir hermenn voru einnig líklegir til að skjóta fyrst en spyrja svo. Hættan var gífurleg en Gangl og Keblitsch ákváðu að láta slag standa og brunuðu af stað. Um 45 mínútum seinna voru þeir komnir í þorpið Kufstein. Þeir höfðu orðið varir við þýska hermenn á leiðinni en blessunarlega hafði enginn haft fyrir því að stöðva þá. Keblitsch keyrði greitt og tók hvassa beygju en stöðvaði þá snöggt.
Fyrir framan þá stóðu fjórir bandarískir M-4 Sherman skriðdrekar og illilegir bandarískir hermenn stukku af drekunum og æddu að þýsku hermönnunum með vopn á lofti. Í snarhasti reisti Gangl upp hvíta fánann og þeir Keblitsch stigu varlega út úr bílnum með hendur á lofti. Bandarísku hermennirnir öskruðu á þá og neyddu þá til að fara niður hnén með hendur á hnakka. Þjóðverjarnir voru jafnvel hræddir um að þeir yrðu mögulega skotnir áður en þeim gæfist tóm til að útskýra sendiför sína. Nú varð Sepp Gangl þó var við að hermennirnir viku til hliðar fyrir manni sem gekk þungum skrefum í átt til þeirra.
Gangl vogaði sér að líta upp og starði þá beint framan í bandarískan foringja sem var eins og klipptur út úr Hollywood – stríðsmynd. Maðurinn var í meðallagi hávaxinn en gífurlega vöðvastæltur og kraftalegur, með hjálminn skakkann á höfðinu og í þvældum og rykugum búningi höfuðsmanns (e: Captain). Gangl tók eftir stórri 45 kalíbera Colt skammbyssu í slíðri um öxlina, í munnvikinu var Ameríkaninn með stóran vindil. Gangl kunni hrafl í ensku og byrjaði nú að útskýra mál sitt og dró fram bréfið frá frönsku föngunum. Bandaríski höfuðsmaðurinn reif bréfið af þýska majórnum og skotraði augunum yfir það, gekk til baka að skriðdreka sínum og hvarf ofan í hann. Í drykklanga stund biðu Þjóðverjarnir með öndina í hálsinum. Loks kom bandaríski höfuðsmaðurinn til baka, reif þá báða á fætur, brosti og sagði glaðhlakkalega: “Jæja, félagar. Það lítur út fyrir að við séum að fara í björgunarleiðangur!“
Maðurinn sem þeir Gangl og Keblitsch höfðu rekist á var John „Jack“ Carey Lee Jr. 27 ára gamall fótgönguliðsforingi, frá New York fylki á austurströnd Bandaríkjanna. Verði einhvern tíma gerð kvikmynd eftir sögunni um bardagann við Itter-kastala þá ætti ekki að vera nein ástæða til að breyta neinu er kemur að persónu Jack Carey Jr. Hann var 177 sentimetrar á hæð og 86 kíló á þyngd og hafði þótt mikið efni í ruðningi, eða amerískum fótbolta. Jack var einnig þekktur fyrir að kunna sérstaklega að meta tvo hluti: Vindla og viský og ekki skemmdi fyrir að lenda í slagsmálum af og til.
Jack var þó enginn bjáni og gekk vel í skóla og er Bandaríkin gerðust þátttakendur í stríðinu í árslok 1941 var Jack Carey við það að útskrifast sem liðsforingjaefni í herskóla í Vermont-fylki. Hann var því fljótlega kallaður til þjónustu. Carey var náttúrulegur leiðtogi, ákveðinn, kappsamur og fylginn sér. Hann hafði fengið höfuðsmannsnafnbót aðeins fjórum dögum áður. Bandarísku hermennirnir höfðu haft lítið að gera undanfarnar vikur og margir byðu eftir því að Þjóðverjar gæfust upp. Eflaust voru ýmsir undirmanna Careys ekkert spenntir fyrir því að fara í björgunarleiðangur inn í land óvinarins. Þeir þekktu þó brosið á andliti foringja síns er hann talaði við þýska majórsins. Þetta var spennandi verkefni og Jack Carey kunni að meta spennu og áhættu.
Björgun og bardagi
Jack Lee hafði formlega tekið við uppgjöf þýsku hermannanna en það er til marks um það traust sem hafði myndast milli hans og Sepp Gangl majórs að bandaríski höfuðsmaðurinn leyfði Þjóðverjunum að halda vopnum sínum. 14 bandarískir hermenn fóru með Lee í kastalann og Gangl hafði 10 þýska hermenn með sér en formlega var hópurinn undir forystu bandaríska höfuðsmannsins. Ólíklegt er að nokkur foringi bandamanna hafi stjórnað þvílíkum hópi í stríðinu. Lee hafði í byrjun ætlað að taka fimm Sherman skriðdreka með sér en brú hafði gefið sig og hann neyddist til að skilja fjóra eftir. Hópurinn hafði rekist á nokkra SS-menn á leiðinni en ekki hafði komið til neinna alvarlegra átaka.
Lee bakkaði skriðdreka sínum, sem hét því gáskafulla nafni Blindfulla Jenný (e: Besotten Jenny) inn í hlið kastalans svo að fallbyssan sneri að veginum. Frönsku fangarnir voru alsælir að sjá björgunarleiðangurinn en lýstu yfir vonbrigðum með hve fámennur hann var. Einnig fór það ekki fram hjá þeim að þýski majórinn og bandaríski höfuðsmaðurinn voru gerólíkir. Jack Lee höfuðsmaður byrjaði strax að skipa fyrir hárri röddu og æddi inn um allt á skítugum skónum með vindil milli varanna. Þeim Daladier og Reynaud blöskraði ruddaskapur kafteinsins en kunnu að meta kurteisi og háttvísi þýska majórsins. Þrátt fyrir að vera ólíkir, þá náðu Gangl og Lee vel saman enda báðir reyndir hermenn. Brátt voru bandaríski höfuðsmaðurinn og frönsku fangarnir komnir í hávaðarifrildi. Lee skipaði þeim að halda sig innan dyra og forðast öll átök. Frakkarnir mótmæltu hástöfum en létu loks til leiðast er Lee benti þeim á þeir gerðu Frakklandi lítið gagn eftir stríðið ef þeir yrðu allir dauðir! Lee benti einnig á að þrátt fyrir að herflokkur þeirra væri fámennur þá hefðu þau ýmsa yfirburði ef kæmi til átaka. Flokkurinn var vel vopnaður, með riffla, handsprengjur og bæði léttar og þungar vélbyssur. Einnig var 76mm öflug fallbyssa í Blindfullu Jenný. Þar að auki væru þau staðsett í kastala sem hafði verið byggður og hannaður með það í huga að verjast árásum. Mjög erfitt var að nálgast kastalann frá annarri átt en austri, eftir veginum, en árásarlið sem kæmi þaðan væri alveg berskjaldað fyrir skothríð úr kastalanum.
Aðfaranótt 5. maí 1945 leið án alvarlegra átaka en varnarliðið varð þó vart við SS-hermenn sem voru augljóslega að kanna varnir kastalans. Um tíuleytið tók Lee höfuðsmaður upp kíki sinn og litaðist um. Honum brá við er hann sá að SS-hermennirnir voru á milli 100 – 150 manns og það sem var verst: Þeir voru með 88mm fallbyssu með sér. Fallbyssa sú var alræmd meðal bandamanna og Lee vissi að hún væri vel fær um að granda Sherman skriðdrekanum og það sem verra var: Rjúfa gat í kastalamúrinn. Ekki var það heldur til að bæta skap bandaríska foringjans að frönsku fangarnir voru allir komnir út í kastalagarðinn, Daladier og Jouhaux voru í hrókasamræðum og virtust kæra sig kollótta um nærveru SS-herliðsins. Lee var í þann veg að fara að öskra á þá á koma sér burt en óp hans drukknuðu í háværri drunu frá 88mm fallbyssunni, á eftir fylgdi vægðarlaus skothríð úr öllum áttum á kastalann.
Orrustan var hafin. Skot úr skriðdrekabyssu hæfði Sherman-skriðdrekann og það kviknaði í honum. Sherman skriðdrekarnir voru reyndar alræmdir vegna þess hve auðveldlega gat kviknað í þeim og sumir hermenn bandamanna kölluðu þá beisklega „Ronson“ eftir vinsælum sígarettukveikjara. Logarnir léku um Blindfullu Jenný og það var ljóst að hún yrði ekki að frekara liði. Frönsku fangarnir höfðu tekið við sér er skothríðin hófst og flest flúið inn í kastalann. Nokkrir þeirra ákváðu að óhlýðnast skipun Lee höfuðsmanns um að taka ekki þátt í bardaganum enda voru í hópi þeirra tveir hershöfðingjar, þeir Weygand og Gamelin. Borotra, Reynaud, Daladier og de La Rocque höfðu einnig allir reynslu af hermennsku. Þeir hlupu nú niður í kjallara og sneru aftur með þýsk vopn í hendi og hófu að skjóta á árásarliðið. Öldungis óhræddur fór Reynaud, þá tæplega sjötugur, að kastalahliðinu þar sem rústir Sherman drekans stóðu. Hann mundaði þýska MP-40 vélbyssu. Jack Lee sá sér til skelfingar að Frakkinn yrði berskjaldaður gegn skothríð SS-liðsins og skipaði honum að snúa við. Sepp Gangl beið ekki boðanna, heldur stóð upp og hljóp af stað í áttinna að fyrrum forsætisráðherranum. Skyndilega kipptist hann við og féll til jarðar. Lee höfuðsmaður hélt fyrst að hann hefði kastað sér sjálfur niður en sá svo hvar blóðpollur myndaðist kringum höfuð hans. Sepp Gangl majór var allur. Skothríð dundi á kastalanum úr öllum áttum. Lee fyrirskipaði þeim Reynaud og Clemencau að fara í annan enda kastalans. Þótt aðgengi að kastalanum þaðan væri afar bratt þá hafði sést til SS-manna sem nálguðust.
Þeir Clemencau og Reynaud hittu þar fyrir ungan austurrískan táning úr andspyrnuliðinu og þýska liðsforingja. Þessir ólíku samherjar tóku nú að spúa blýi af öllu afli gegn innrásarliðinu. Á meðan hafði Lee ákveðið að fara um og athuga hvernig staðan væri á skotfærum. Því miður þá leit það illa út. Lee skipaði fólki að reyna að spara skotfærin. Er hann var á leið til baka út í kastalagarðinn glumdi skyndilega í símtæki er hann gekk fram hjá. Undrandi ákvað Lee þó að svara. Á hinum enda línunnar var bandaríski majórinn John Kramers sem hafði ætlað að forvitnast um stöðuna. Hann þurfti ekki að spyrja. Í bakgrunni heyrði hann skothríð og sprengingar og Lee öskra hásri röddu: „Þeir eru að sprengja okkur til helvítis! Við verðum að fá liðsauka strax!“ Því næst rofnaði sambandið.
Þrátt fyrir stanslausa skothríð frá rifflum, vélbyssum og fallbyssum SS-liðanna þá hafði þeim ekki tekist að taka kastalann enn. En þeir þokuðust nær og um leið og skotfæri verjendanna kláruðust, þá þyrfti ekki að sökum að spyrja. Allir nema Gangl voru enn á lífi en tveir þýskir hermenn voru alvarlega særðir. Lee vissi að félagar hans hefðu nú vitneskju um ástandið en það gæti tekið þó nokkurn tíma fyrir liðsauka að berast og þeir gætu ekki farið of hratt yfir vegna SS-hersveita. Einnig hafði samband hans við Kramer rofnað áður en hann gat sagt honum styrk SS-liðsins en það var yfir 100 manns. Ef Kramers sendi aðeins 20 menn, myndi það litlu breyta. Hann gaf nú skipun um að hörfa inn í kastalann.
Björgun
Fyrrum forsætisráðherrann Edouard Daladier hafði komið sér fyrir á annarri hæð kastalans ásamt tveimur þýskum hermönnum. Daladier var forsætisráðherra þegar Frakkland lýsti stríði á hendur Þýskalandi 3. september 1939 vegna innrásinnar í Pólland. Hann hafði fyrir stríð margoft varað gegn Hitler. Nú, nokkrum árum seinna, sat hann á rykugu kastalagólfi með þýska vélbyssu í hendi, ásamt vopnabræðrum sínum sem voru þýskir hermenn. Annar þeirra hafði dregið fram flösku af Fernet-Branca sem þeir félagar nutu nú saman. Lífið gat vissulega verið furðulegt stundum. Skyndilega hrópaði hinn Þjóðverjinn upp yfir sig: „Amerikanische Panzer!“og benti í átt að þorpinu. Daladier þaut að glugganum og sá sér til skelfingar að SS-hermennirnir voru komnir nær alveg að kastalanum en eitthvað hafði truflað þá. Þá glumdi skyndilega við fallbyssuskothríð og Daladier sá bandaríska Sherman skriðdreka koma æðandi. Margir SS-hermannanna flýðu í dauðans ofboði en sumir gáfust upp. Klukkan var rétt rúmlega fjögur. Orrustunni var lokið. Jack Lee gekk að bandaríska herflokknum sem hafði, eins og riddaraliðið í vestramynd, komið til bjargar á síðustu stund. Lee stillti sér upp fyrir framan foringja þeirra og spurði: „What kept you?“
Eftirmáli
Bardaginn um Itter-kastala er vissulega ekki ein af stórorrustum síðari heimsstyrjaldar en hún er ein af þeim merkari. Sumir frönsku fanganna sem lifðu af höfðu heilmikil áhrif á pólitíska framvindu og stjórnmál eftir stríð. Þetta fólk hefði líklega verið tekið af lífi ef SS hefði tekist að ná kastalanum. Ef á það er litið má vel segja að áhrif bardagans séu töluverð.
Sepp Gangl er í dag álitin þjóðhetja í Austurríki og er nafn hans að finna á minnisvarða ásamt öðrum andspyrnuhetjum. Ferill Jack Lee höfuðsmanns lá því miður meira og minna niður á við eftir að stríðinu lauk. Hann hætti í hernum og reyndi fyrir sér í viðskiptum. Baráttan hans við alkóhólisma tók þó sinn toll og hann lést 1971 eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús vegna áfengiseitrunar.
Til stendur að gera kvikmynd um þessa atburði, í leikstjórn Peter Landesman.
Heimild
Stephen Harding, The Last Battle: When U.S. and German Soldiers Joined Forces in the Waning Hours of World War II in Europe (Boston: Da Capo Press 2013).