Það er ,,rífandi gangur“ í Kaupmannahöfn. Byggingakranarnir sveiflast ótt og títt, nýbyggingar spretta upp eins og gorkúlur, atvinnuleysi er vart mælanlegt og ferðamönnum fjölgar ört . Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana verður tíðrætt um hve vel gangi ,,der sandelig gang i den“ segir ráðherrann þegar rætt er við hann í fjölmiðlum. Í nýlegu blaðaviðtali sagðist Lars Løkke sjá stöðugan straum ferðamanna í nágrenni heimilis síns þar sem hann býr, rétt við Nýhöfnina, og alls staðar væri mikið að gera. Ekki er þó allt sem sýnist.
Langflestir ferðamenn sem heimsækja Kaupmannahöfn leggja leið sína í Nýhöfnina. Daglega rölta tugþúsundir fólks um þennan gamla hafnarkant þar sem úir og grúir af veitingastöðum og börum. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Langt fram eftir síðustu öld voru farmenn mest áberandi á börunum í Nýhöfninni og stundum róstusamt þegar sló í brýnu. Sum þessara gömlu vertshúsa eru enn til staðar en nú eru það ferðamenn sem þar klingja glösum og lítið um pústra. En Nýhöfnin var líka þekkt fyrir annað, það voru húðflúrstofurnar, sem voru fjölmargar.
Meðal sjómanna var vinsælt að láta tattóvera sig, eins og það er kallað, og margan sæfarann prýddi akkeri eða björgunarhringur á upphandlegg þegar heim var komið. Margir notuðu tækifærið og létu líka tattóvera, t.d undir akkerið, nafn kærustunnar. Ólíkt tattúinu endast kærustusambönd ekki alltaf ævina út og margur maðurinn hefur því borið nafn Gunnu á handleggnum þótt hann hafi svo kvænst henni Siggu. Tattúið er, eins og alkunna er, mjög vinsælt og líklega aldrei verið vinsælla en nú um stundir og í borgum og bæjum má yfirleitt finna margar tattústofur. Þannig er það líka í Kaupmannahöfn. En þær eru ekki lengur í Nýhöfninni, þar er í dag einungis ein húðflúrstofa, Tattoo Ole.
Sú elsta á Norðurlöndum
Tattoo Ole, sem var opnuð árið 1884 er elsta starfandi húðflúrstofa á Norðurlöndum og kannski í heiminum öllum. Hún er til húsa í Nýhöfn númer 17, og þar er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja, 30 fermetra kjallaraherbergi. Þekktasti viðskiptavinur stofunnar, að minnsta kosti í augum Dana, er Friðrik IX konungur Danmerkur, faðir Margrétar Þórhildar. Bandaríski rithöfundurinn John Irving fékk hugmyndina að bókinni ,,Until I find you“ eftir að hafa séð tattústofuna. Þótt stofan sé gömul og rótgróin á þessum stað eru nú blikur á lofti varðandi reksturinn. Eigandi hússins númer hefur sagt upp leigusamningum við Tattoo Ole. Ástæðan er sú að eigandinn, sem rekur staðinn Brasserie Nyhavn 17 telur sig þurfa að stækka eldhúsið og annað pláss í húsinu er þegar lagt undir veitingastaðinn. Majbritt Petersen eigandi Tattoo Ole (kallar sig Lille-Ole) segir það dapurlegt að lítil fyrirtæki, eins og sitt, hrökklist burt úr miðbæ Kaupmannahafnar og í staðinn komi enn einn veitingastaðurinn, eða verslun sem sé hluti alþjóðlegrar keðju sem finnist í öllum heimsins borgum og bæjum. Og spyr ,,eru kínverskir ferðmann að koma til Kaupmannahafnar til að borða á McDonalds eða fara í H&M ?“ Og svarar sjálf ,,held ekki.“
Leiguverðið hrekur þá litlu á brott
Sagan af Tattoo Ole húðflúrstofunni er dæmi um það sem er að gerast og ekki bundin við Kaupmannahöfn þótt í þessum pistli sé sjónum beint þangað. Dagblaðið Berlingske fjallaði nýlega um það sem blaðið kallaði ,,Búðadauðann í Kaupmannahöfn“ og fyrir þá sem vilja halda í fjölbreytni á þessu sviði er það ekki upplífgandi lesning. Þrátt fyrir að vel gangi í Kaupmannahöfn og þangað streymi ferðamenn sem aldrei fyrr leggja æ fleiri smáverslanir upp laupana og sama gildir um veitingastaði. Smáfuglarnir (eins og Berlingske orðaði það) ráða ekki við síhækkandi leiguverð og færa sig fjær miðborginni eða leggja hreinlega upp laupana. Tómu og lokuðu búðirnar í Læderstræde sem áður var nefnt eru dæmi um ástandið.
Í umfjöllun Berlingske kom fram að um síðustu mánaðamót var fimm prósent verslunarhúsnæðis í miðborg Kaupmannahafnar autt. Lokað og læst. Fyrir utan kaffi- og veitingahúsin þar sem skellt hefur verið í lás. Ástæðurnar eru áðurnefndar hækkanir á leiguverði og ennfremur að fjársterkir eignamenn og fyrirtæki hafa keypt upp heilu húsalengjurnar í því skyni að rífa það gamla og byggja nýtt sem svo verður selt, eða leigt út. Þekkt erlend verslunarfyrirtæki hafa líka sóst mjög eftir húsnæði til kaups og bjóða hátt verð.
Breytingarnar á Strikinu
Fyrir nokkru var hér í Kjarnanum fjallað um þær breytingar sem orðið hafa á Strikinu, göngugötunni í miðborg Kaupmannahafnar. Þar hefur litlum sérverslunum fækkað mjög á síðustu árum og eru nú nánast horfnar. Í staðinn eru komnar svokallaðar alþjóðlegar verslanir , Prada, Louis Vutton og fleiri af því tagi. Nákvæmlega sömu verslanirnar og finna má í öllum stórborgum heims. Sömu sögu er að segja af veitingastöðunum. Í fyrra var skellt í lás á veitingastaðnum Parnas í miðborginni, sá staður var opnaður á fjórða áratug síðustu aldar. Cafe a Porta sem var opnaður árið 1792 var lokað árið 2012 og þar, fast við Magasin du Nord, er kominn McDonalds hamborgarastaður. Jazzhouse, vinsæll tónlistarstaður, sem staðsettur var í miðborginni flutti um síðastliðin áramót upp á Norðurbrú, framkvæmdastjórinn sagði að húsaleigan hefði hækkað svo mikið að engin leið hefði verið að halda rekstrinum áfram og því var brugðið á það ráð að flytja. Og fyrir hálfum mánuði eða svo var skellt í lás á Skindbuksen, Brókinni, næst elsta vertshúsi Kaupmannahafnar. Enginn veit hvað verður um þann stað, þótt nýr eigandi hafi lýst því yfir ,, að Brókin verði að sjálfsögðu til áfram.“
Netverslun eykst stöðugt
Fyrir tiltölulega fáum árum var netverslun tiltölulega óþekkt fyrirbæri. Þannig er það ekki lengur. Verslun á netinu eykst ört og það hefur haft geysimikil áhrif sem ekki sér fyrir endann á. Þessir breyttu verslunarhættir bitna ekki síður á stórum og þekktum verslunum en þeim minni. Í umfjöllun dagblaðsins Politiken um þessi mál, fyrir skömmu, fullyrtu danskir sérfræðingar á sviði verslunar og viðskipta að þótt netverslunin væri þegar orðin mikil væri það bara byrjunin. Hún myndi halda áfram að aukast og ætti eftir að hafa gríðarleg áhrif. Margar stórverslanir merkja að færri viðskiptavinir koma til að versla, veltan minnkar og þessari þróun verður ekki snúið við. Þessar spár bjarga hinsvegar ekki litlu verslununum sem eiga í vök að verjast. Eitt voru allir viðmælendur Politiken sammála um: Einsleitnin hvað varðar verslanir og veitingastaði hefur aukist og fátt bendir til annars en sú (öfug) þróun haldi áfram.