Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað um 8,14 prósent það sem af er degi. Um tíma nam hækkunin yfir tíu prósentu. Sú hækkun er, samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem starfa á markaði, beintengd þeirri óvissu sem ríkir um hvort að WOW air nái að ljúka yfirstandandi skuldabréfaútboði sínu með viðunandi hætti. Á sama tíma hafa hlutabréf í N1, sem ásamt Air BP seldur WOW air flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli lækkað um 5,28 prósent.
Ferðaþjónustuvefurinn Túristi greindi frá því fyrr í dag, og hafði eftir heimildarmönnum sínum, að þeir teldu einungis tímaspursmál að viðskipti með bréf í Icelandair yrðu stöðvuð þar til að örlög WOW air lægju fyrir.
Öll félög í kauphöllinni hafa lækkað það sem af er degi utan Icelandair og HB Granda, sem hefur hækkað um 0,63 prósent í mjög litlum viðskiptum. Sú staða er einnig rakin til óvissunnar um hvort WOW air nái að klára skuldabréfaútboðið með farsælum hætti. Alls stefndi WOW air á að ná í að minnsta kosti 50 milljónir dala en helst 100 milljónir dala, eða 5,7 til 11,5 milljarða króna.
Skilmálar sífellt að breytast
Eigið fé Wow air var 1,5 milljarðar króna í lok júní síðastliðins, en á fyrri hluta ársins var viðskiptavildin aukin um 19 milljónir Bandaríkjadala, frá því sem hún var í lok síðasta árs, og styrkti þetta eiginfjárstöðu félagsins. Mikið tap hefur verið á rekstri félagsins að undanförnu og nam það tæplega fimm milljörðum króna frá júní í fyrra til júní á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir að reksturinn muni rétta úr kútnum seinni hluta þessa árs, en samt verði tapið 3,3 milljarðar.
Til viðbótar voru settir inn skilmálar um að WOW air þyrfti að lúta framkvæmd sérstakra álagsprófa sem áttu að tryggja að lausa- og eiginfjárstaða félagsins færi ekki undir tiltekin mörk.
Skuldabréfaútgáfan í uppnámi
Ljóst er að skuldabréfaútgáfan er í uppnámi. Stjórnvöld funduðu um stöðu WOW air um helgina í ljósi þess að greiðslustöðvun félagsins myndi hafa mjög víðtæk efnahagslega áhrif, að minnsta kosti til skamms tíma. Þau fundarhöld leiddu þó ekki til neinna aðgerða og mjög erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar um stöðuna síðustu daga.
Samkvæmt heimildum Kjarnans líta að minnsta kosti hluti þeirra sem hafa áhuga á að leggja WOW air til fé þannig á málið að félaginu vanti frekar nýtt hlutafé en nýjar skuldir. Þar er ekki um innlenda aðila að ræða, enda hafa íslenskir fjárfestar ekki sýnt því mikinn áhuga að taka þátt í að fjármagna WOW air.
Það myndi þýða að Skúli Mogensen, eini eigandi félagsins og forstjóri þess, myndi þynnast niður í eign. Um það hefur ekki nást sátt enn sem komið er en málin voru meðal annars rædd á stjórnarfundi sem fór fram í gærkvöldi. Nýjustu skilaboðin frá WOW air er að niðurstaða í málinu eigi að liggja fyrir í lok viku. Áður hafði Skúli sagt að niðurstöðu væri að vænta strax eftir helgi.