Réttaráhrif niðurstöðu Hérðasdóms Reykjavíkur í læknamálinu svokallaða í gær eru ekki augljós. Sjúkratryggingar Íslands höfðu synjað sérgreinalækni aðild að rammasamningi en sú ákvörðun var felld úr gildi með dómnum í gær.
Synjunin var framkvæmd á grundvelli fyrirmæla heilbrigðisráðherra frá september 2017, sem þá var Óttarr Proppé, að ekki yrðu fleiri læknar teknir inn á samninginn, vegna langvarandi framúrkeyrslu á fjárlagalið samningsins.
Lestu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í heild sinni hér
Sautján sérgreinalæknar fengið synjun
Rammasamningurinn er gerður milli sérgreinalækna og Sjúkratrygginga og felur það í sér að læknarnir veiti þeim sjúklingum sem sjúkratryggðir eru samkvæmt íslenskum lögum þjónustu sem íslenska ríkið síðan greiðir fyrir.
Læknirinn sem höfðaði málið sem dæmt var í gær er Alma Gunnarsdóttir sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum en sjö sambærileg mál bíða dóms, auk þess sem síðan að þessir átta læknar ákváðu í samráði við Læknafélag Reykjavíkur að höfða mál, hefur níu sérgreinalæknum til viðbótar verið hafnað um aðild að samningnum.
Fara ekki sjálfkrafa inn á samninginn þrátt fyrir dóminn
Í dómsorði í segir að felld sé úr gildi ákvörðun Sjúkatrygginga að hafna umsókn Ölmu um aðild að rammasamningnum. Sem sagt höfnunin er felld úr gildi. En það þýðir ekki endilega Alma, sem og hinir læknarnir sem synjað hefur verið um aðild að samningnum fari sjálfkrafa inn á samninginn verði þetta endanleg niðurstaða dómstóla.
Í samtali við Kjarnann segir Gísli Guðni Hall lögmaður Ölmu að verði dómnum ekki áfrýjað og niðurstaða þessi standi, þurfi Sjúkratryggingar Íslands einfaldlega næst að afgreiða umsókn Ölmu um aðild að samningnum. „Sjúkratryggingar verða að afgreiða beiðnina eftir settum reglum, fara yfir það hvort að öll gögn hafi verið lögð fram af hálfu læknanna. Það fór engin þannig rannsókn fram af því ráðuneytið setti fyrirmæli um að það ætti bara að hafna. Það á að afgreiða umsóknina eins og var alltaf gert þar til þessi fyrirmæli ráðherra komu,“ segir Gísli.
Fyrirmæli ráðherra eiga sér stoð í lögum
Ekki má þó gleyma því að enn eru í gildi fyrirmæli ráðherra um að „loka“ samningnum.
Í héraðsdómnum er tekið fram að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnvalda sem hafa á hendi framkvæmd stjórnarmálefna er undir hann heyra. Í því felst meðal annars að ráðherra getur gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og fleira.
Vísað er í ýmis lög, stjórnarskrá, lög um sjúkratryggingar, lög um opinber fjármál og fleiri um stjórnskipulega stöðu ráðherra, heimilda hans til yfirstjórnar og skyldna til þess að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og fjáraukalaga á sínu sviði og grípa til nauðsynlegra ráðstafana í tengslum við það og þar af leiðandi ekki fallist á með stefnanda að hin almennu fyrirmæli heilbrigðisráðherra að loka samningnum hafi hvorki átt sér stað í lögum né í rammasamningnum. Fyrirmæli ráðherra eiga sér þannig stoð í lögum.
Hins vegar verði að líta til þess að með rammasamningnum sem lagður grunnur að sérhæfðri heilbrigðisstarfsemi sjálfstætt starfandi sérgreinalækna til langs tíma, í þágu almennings í landinu og þeirra sem starfa eða hyggjast starfa sem sérgreina læknar. Með samningnum sé Sjúkratryggingum falið að fjalla faglega um umsóknir sérgreinalækna og gert ráð fyrir sérstöku máti á þjónustuþörf sem haft er til hliðsjónar við afgreiðslu umsókna nýrra lækna.
„Fyrir liggur að hvorki rammasamningnum né samstarfssamningnum hefur verið sagt upp og eru samningarnir því enn í gildi og leggja gagnkvæmar skyldur á samningsaðila,“ segir í dómnum.
Gert ráð fyrir faglegu mati á umsækjanda
Við mat á umsókn er þannig í rammasamningnum gert ráð fyrir faglegu efnislegu mati Sjúkratrygginga Íslands á umsækjanda, þar með talið hvort hann teljist vera hæfur og hvort hann uppfylli önnur skilyrði til að starfa samkvæmt rammasamningnum og hvort fyrir hendi sé þörf innan heilbrigðiskerfisins fyrir sérgreinalæknisþjónustu umsækjanda.
Ákvörðun um aðild læknis að samningnum er þannig ætlað að vera matskennd stjórnvaldsákvörðun þar sem taka á tillit til margra faglegra þátta, bæði er varða þann umsækjanda sem sótt hefur um aðild að samningi en einnig til fleiri þátta sem varða starfsemi, rekstur og gæði heilbrigðiskerfisins í víðum skilningi, auk fjárhagslegra þátta, og þá skal enn fremur hafa hagsmuni hinna sjúkratryggðu að leiðarljósi í þessu sambandi.
Ekki má halla á rétt borgaranna
Þannig eru samkvæmt dómi héraðdóms yfirstjórnunarheimildir ráðherra ekki án takmarkana. „Ráðherra verður að virða efnis- og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar. Mega fyrirmæli ráðherra því ekki ganga gegn þeim grundvallarreglum svo halli á rétt borgaranna,“ segir í dómnum.
Samkvæmt lögmætisreglu íslensks réttar eru stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að ákvarðanir stjórnvalda og athafnir verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög.
Dómstóllinn segir fyrirmæli heilbrigðisráðherra þess eðlis að með þeim var verulega þrengt að faglegu mati Sjúkratrygginga Íslands á lækninum sem umsækjanda og þörf fyrir sérgreinalæknisþjónustu hennar. „Hið sama á við um samspil umsóknarinnar við hagsmuni hinna sjúkratryggðu og starfsemi, rekstur og gæði heilbrigðiskerfisins í víðum skilningi. Fjárhagslegur ástæður sem vörðuðu útgjöld ríkissjóðs lágu til grundvallar fyrirmælum heilbrigðisráðherra.“ Leiddi þetta til þess að ekki fór fram fullnægjandi mat á umsókn hennar með tilliti til þeirra fjölmörgu faglegu þátta sem skiptu máli við úrlausn á umsókninni.
Með þessu var brotið gegn lögmætisreglunni og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalda. Af þessu leiðir að ákvörðun Sjúkratrygginga sem reist var á fyrirmælum velferðarráðuneytisins, fyrir hönd heilbrigðisráðherra, að synja stefnanda um aðild að rammasamningnum var haldin verulegum annmörkum svo leiðir til ógildingar ákvörðunarinnar.
Framhaldið óljóst
Ráðherra hefur ekki gefið út hvort ráðuneytið hyggst una niðurstöðu héraðsdóms eða áfrýja málinu til æðri dómstóls.
Ljóst er synjun á aðild að samningnum, sem niðurstaða að undangengnu faglegu mati og rannsókn á umsókninni sem uppfyllir ofangreind skilyrði, er alls ekki útilokuð. Það er því alls ekki sjálfsagt að þrátt fyrir að ráðherra uni niðurstöðunni að læknarnir komist inn á samninginn. Sú rannsókn og það mat mun þurfa að fara fram af hálfu Sjúkratrygginga Íslands en óljóst er hvort fyrirmæli ráðherra um lokun samningsins muni taka einhverjum breytingum.
Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð á Svandís Svavarsdóttir núverandi heilbrigðisráðherra hefði gefið út fyrirmælin. Hið rétta er að Óttarr Proppé var heilbrigðisráðherra í desember 2017 þegar Ölmu var synjað um að fara inn á rammasamninginn.