Bára Huld Beck

Barátta íslenskunnar upp á líf og dauða

Á dögunum kynnti mennta- og menningarmálaráðherra aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Ráðuneytið segir þær snerta ólíkar hliðar mannlífsins er markmið þeirra allra beri að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Misjafnar skoðanir eru þó á tillögunum og könnuðu rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck hvort fólki fyndist þær vera til bóta eður ei.

Tungumál smátunguþjóða týna tölunni á miklum hraða, í hverri viku tapast tungumál – segja fróðir.

Ritað mál á íslensku er grundvöllur þess að tungumálið lifi. Framundan er barátta upp á líf og dauða fyrir íslenskuna og það er tvísýn barátta. Stundum er viðkvæði fólks að íslenskan muni lifa áfram – hún hafi jú lifað í þúsund ár! En nei. Það er ekki sjálfgefið að hún lifi. Í dag eru allt aðrar aðstæður en áður. Við stöndum á þröskuldi algjörlega nýrra tíma bæði hvað varðar lífsskilyrði tungumálsins og fjölmiðla í þeirri mynd sem við höfum þekkt þá. Stafræn tækni, falsfréttir, samfélagsmiðlar, breytt rekstrarskilyrði bæði fjölmiðla og bókaútgáfu og meira til – allt þetta hefur lúmsk en dramatísk áhrif á tungumálið, mátann til að afla sér upplýsinga og daglegt líf. Breytingar í framtíðinni blasa við en enginn veit almennilega hvað bíður. 

Inn í þennan heim rata ekki tungumál smáþjóða – eins og staðan er – heldur aðeins tungumál á borð við ensku, kínversku og önnur mál sem töluð eru af hundruðum milljóna manna. Að halda að mál sem 300.000 manns tala fái þrifist í slíkum aðstæðum án þess að gripið verði til aðgerða er í besta falli óraunsætt. Þetta eru gjörbreyttar aðstæður.

Auglýsing

Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu voru kynntar á fjölmiðlafundi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á dögunum. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu ber markmið þeirra allra að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. „Til grundvallar aðgerðunum er eindreginn vilji stjórnvalda til að tryggja framgang og framtíð íslenskrar tungu meðal annars með stuðningi við íslenska bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun,“ segir í tilkynningunni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnir tillögurnar.
Bára Huld Beck

Ef ritað mál á íslensku veikist – og það veikist smám saman eftir því sem færri lesa það – þarf að snúa vörn í sókn og um það snúast að hluta til þessar tillögur, sem ættu að geta orðið til mikils gagns, ef þær verða rétt útfærðar.

Þeim fjölgar sem lesa aldrei neitt og þá gefur auga leið að ritað mál veikist. Á sama tíma hefur  bóksala dregist saman um þrjátíu og sjö prósent á örfáum árum. Hinn stafræni heimur og breytt atferli sem fylgir honum mun breyta öllu eins og t.d. heimilishaldi – nú þegar við getum talað við heimilistækin. Átak þurfti til að koma íslenskunni inn í tölvuheiminn og eins þarf átak í hinni stafrænu veröld. Þessi þróun er samþætt því að æ færri lesa og þar með veikist grundvöllur tungumálsins. Við þurfum að geta talað við heimilistækin á íslensku, að íslenska sé töluð á heimilinu. Annars fer hún að víkja.

Nú er stundum sagt að enskan sé fín til síns brúks, veruleiki okkar sé það alþjóðlegur að okkur sé hollast að nota hana bara. En íslenskan er okkur einmitt mikilvæg til að skilja umheiminn á okkar forsendum. Við verðum að geta fengist við og unnið úr hlutum með blæbrigðum og dýpt okkar fyrsta tungumáls; þýtt hið ytra yfir á það og notað íslenskuna sem verkfæri til að greina það og skilja.

Nauðsynlegt að koma á vitundarvakningu um gildi íslenskunnar

Eiríkur Rögnvaldsson Mynd: Úr einkasafniEiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt sé að gera átak í því að efla eða koma á vitundarvakningu um mikilvægi og gildi íslenskunnar. Hann bendir á að til að viðhalda íslenskunni skipti viðhorf málnotenda mestu máli, einkum viðhorf ungs fólks. Hann segir jafnframt að unga fólkið verði að geta notað málið á sviðum sem það hefur áhuga á. Ef sú verði ekki raunin sé hætta á að neikvætt viðhorf skapist til tungumálsins.

En er nóg gert til að hlúa að stafrænu lífi íslenskunnar?

Eiríkur segir að ekki hafi verið nóg gert hingað til, en ýmislegt sé í farvatninu. Menntamálaráðuneytið samdi til að mynda á dögunum við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku. Rúmir tveir milljarðar króna verða lagðir í verkið á fimm árum. Eiríkur gerir sér vonir um að það átak skili miklu og segist ekki verða var við annað en að stjórnvöld hafi vilja til að fylgja því eftir.

Hann segist enn fremur hafa talað fyrir því í tuttugu ár að átak sé gert í að gera íslensku gjaldgenga í tölvuheiminum, en sé nú kominn að þeirri niðurstöðu að það sé aðeins önnur hlið málsins – það þurfi líka að hvetja fólk til að nota íslensku á öllum sviðum. „Það er alveg sama hversu þróaðan máltæknibúnað við höfum – ef hann á að gagnast íslenskunni verður fólk að nota hann,“ segir hann.

Sjálfstæð bókaútgáfa kraftaverk

Eins og áður sagði hefur bókasala dregist saman um þrjátíu og sjö prósent á undanförnum árum. Útgefendur og rithöfundar hafa ekki farið varhluta af því og hafa því áhyggjur af framtíð útgáfunnar. Að skrifa og gefa út bækur og rit á svo fámennu málsvæði er jú bæði áhættusamur og viðkvæmur bransi – eins mikilvægur og hann er fyrir samfélagið.

Einar Kárason„Það er í rauninni algjörlega galið að í litlu málsamfélagi eins og okkar, þar sem markaðurinn er jafn lítill og viðkvæmur, að það skuli vera svona íþyngjandi skattur lagður á þessa grein og við verðum að athuga að það að það skuli þrífast sjálfstæð bókaútgáfa í 300 þúsund manna samfélagi er talið kraftaverk hvar sem er í heiminum.“ Þetta segir Einar Kárason, rithöfundur, í samtali við RÚV.

Lagt er til að útgefendur fái tuttugu og fimm prósent af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku endurgreiddan. Hætt hefur verið við áform um afnám virðisaukaskatts á bækur – sem lofað var í sáttmála ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs.

Einar segir tillögurnar um endurgreiðslu hluta af kostnaði bókaútgáfu aðeins greiða götu útgefanda og að rithöfundar beri skarðan hlut frá borði.

„Þetta er svona brauðmolakenning sem hefur heyrst. Ef að þeir fái meiri peninga þá muni hugsanlega eitthvað hrjóta af borðum þeirra til okkar og jú það getur vel verið að þetta þýði það að Rithöfundasambandið þurfi að fara að krefjast þess að samningar verði teknir upp þá þegar þeir renna út næst, og fara í einhvers konar baráttu. Þetta er ekkert auðvelt og mun örugglega taka mörg ár og ekkert er víst hvað kemur út úr því. Hins vegar að fella niður skattinn væri stórkostleg kjarabót,“ álítur hann.


Verður að horfa heildrænt á málin

Tillögunum hefur verið tekið misjafnlega, eðli málsins samkvæmt. Sitt sýnist hverjum, enda misjafnt hvar hagsmunirnir liggja. Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags bókaútgefanda, fagnar því að ríkisvaldið sé að veita þessum málaflokki athygli.

Hann tekur sérstaklega fram að erfitt sé að leggja mat á tillögurnar núna. „Það er búið að gefa ákveðnar væntingar og við bíðum spennt eftir því hvernig ráðherra ætlar að útfæra þessar tillögur,“ segir Heiðar Ingi og bætir því við að nauðsynlegt sé að horfa heildrænt á málin og í samhengi. Hann fagnar jafnframt að tillögurnar séu undir hatti íslenskunnar og bendir á að slíkt hið sama sé gert á hinum Norðurlöndunum.

Heiðar Ingi SvanssonHeiðar Ingi segir að þrátt fyrir að stóra línan liggi fyrir í tillögum ráðherra, þá vanti töluvert inn í jöfnuna, til að mynda hvernig útgáfukostnaður verði skilgreindur o.s.frv. „Við þurfum frekari upplýsingar til að vita hver áhrifin verða,“ útskýrir hann en bætir því við að auðvitað hljóti þessi innspýting að vera af hinu góða.

Hann telur vilja vera til staðar hjá ráðherra að framfylgja bókmenntastefnunni frá árinu 2017 – en þá skipaði Kristján Þór Júlíusson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp til að fjalla um bókmenningarstefnu á Íslandi. Heiðar Ingi segir að þar hafi komið fram áhugaverðar tillögur og einnig hafi verið rætt um stuðningskerfi rithöfunda, námsefni og námefnagerð, útgáfu barnabóka og kaup bókasafna. „Mér finnst áhugavert að verið sé að fylgja þessari stefnu og líta heildrænt á hlutina,“ botnar hann.

Aðgerðir verða að gagnast öllum

Stjórn Rithöfundasambands Íslands lýsti vonbrigðum með að stjórnvöld ætli að ganga gegn áður lofaðri niðurfellingu bókaskattsins sem heitið var í stjórnarsáttmálanum í tilkynningu sem hún sendi til félagsmanna í gær.

Í tilkynningunni kemur fram að stjórnin hafi fullan skilning á erfiðri stöðu á bókamarkaði en sú staða sé mun flóknari og erfiðleikarnir víðtækari en svo að endurgreiðsla á hluta kostnaðar til útgefenda eingöngu muni laga ástandið. „Mikilvægt er að ráðast í aðgerðir sem eru líklegar til að gagnast öllum er koma að þessum geira; höfundum, útgefendum, bóksölum, menntakerfinu sem og lesendum. Undir er tungan, læsi og bókmenning sem er ein af grunnstoðum íslenskrar menningar.“

Stjórnin bendir á að enn sé óljóst hvernig þeim endurgreiðslum sem ríkið hyggst veita bókaútgefendum verði háttað og hvað eigi að falla undir framleiðslukostnað en hægt sé að draga upp sviðsmyndir þar sem hagur rithöfunda kynni að versna við slíkar aðgerðir. Í öllu falli sé ekki hægt að sjá að hann batni á nokkurn hátt, komi ekkert annað til.

„Rithöfundastéttin berst í bökkum eins og staðan er í dag. Ef renna á styrkum stoðum undir íslenska bókaútgáfu er ekki síst nauðsynlegt að hlúa að grundvelli hennar, íslenskum rithöfundum.

Stjórn og starfsfólk RSÍ hefur verið í góðu sambandi við Menntamálaráðuneytið undanfarna daga og verður áfram. Stjórn RSÍ mun hvetja til þess að horft verði heildstætt á vanda bókageirans með áherslu á lausnir sem líklegar eru til að gagnast öllum er koma að sköpun, útgáfu, sölu og lestri bóka á íslensku og boðaðar voru í skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu. Sá vandi verður ekki leystur nema með aðkomu höfunda og þýðenda,“ segir í tilkynningunni.

Auglýsing

Fátt kemur á óvart í tillögunum

Tillögurnar lúta enn fremur að fjölmiðlum – eins og fram hefur komið – og ekki er síður mikilvægt fyrir lífsskilyrði íslenskrar tungu að heilbrigt fjölmiðlaumhverfi fái að blómstra hér á landi, en það er jú einn helsti vettvangurinn þar sem dagleg samfélagsumræða og úrvinnsla hennar á sér stað. Þar spila margir þættir inn í, enda er fjölmiðlanotkun með ýmsu móti og því nauðsynlegt að starfsumhverfi sé með besta móti. Ekki er ofsögum sagt að fjölmiðlar þurfi að takast á við erfið rekstrarskilyrði en þau hafa versnað á síðustu árum og áratugum, m.a. vegna breyttra aðstæðna og tækniframfara. Og til þess að þeir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem og hinu menningarlega, þá þarf að hlúa að þeim með einhverjum leiðum.


Um 400 milljónum króna verður varið til þess að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Aðgerðir felast meðal annars í því að hluti ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla verður endurgreiddur, stutt verður við textun og talsetningu efnis í myndmiðlum og virðisaukaskattur samræmdur vegna sölu rafrænna áskrifta. Því samhliða verður Ríkisútvarpinu gert að starfa innan þrengri ramma á auglýsingamarkaði og þannig skapað aukið rými fyrir einkarekna miðla til að afla sér tekna. Til stendur að minnka umsvif RÚV á samkeppnismarkaði um 560 milljónir.


Laga­frum­varp er í smíðum og verður lagt fram í jan­úar næst­kom­andi en ólíkar skoðanir eru á þessum hluta tillagnanna – eins og hinum. Flestir fagna aðgerðum en hafa samt áhyggjur af því hvernig útfærslurnar verða.


Elfa Ýr GylfadóttirÍ sjálfu sér kemur ekkert á óvart í tillögum mennta- og menningarmálaráðherra, að sögn Elfu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar. Hún segir þær ríma við þær tillögur sem komu fram í skýrslu nefndar sem gerði tillögur að nauðsynlegum aðgerðum til að bæta rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla og skilaði í janúar síðastliðnum.

Varðandi deiluna um RÚV á auglýsingamarkaði segir Elfa Ýr að mismunandi útfærslur og reglur séu á þessu í Evrópu. Hún segir að skoðanir stjórnmálamanna og annarra séu af ýmsu tagi og nú taki við pólitískar ákvarðanir. Fjölmiðlanefnd sé búin að leggja fram sína greinargerð.


Pólitísk ákvörðun hvernig fjármagna eigi RÚV

„Fyrst ber að nefna að það er afskaplega jákvætt að verið sé að taka á stöðu einkarekinna miðla, það er stórt og jákvætt skref sem við hljótum öll að fagna,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við tillögunum. Hann bendir á að auðvitað eigi eftir að útfæra þær og sjá hvernig fjármunum verði dreift á milli miðlanna.

Magnús Geir Þórðarson Mynd: RÚV„Þarna virðist sem verið sé að mæta ábendingum og óskum sem komið hafa frá einkareknu miðlunum. Í mínum huga er mikilvægt að ritstjórnir séu styrktar til að stuðla að upplýstri umræðu og rækta lýðræðishlutverk miðlanna. Það sama á við um textun og talsetningu en hvort tveggja er mikilvægt fyrir íslenska menningu og tungu. Ég vona að tryggt verði að hinir smærri miðlar fái ekki síður stuðning en hinir stærri.,“ segir hann. Magnús Geir telur jafnframt mikilvægt að auðvelda miðlum að sinna barnamenningu og að því leyti séu tillögurnar jákvæðar.

Hvað varðar RÚV þá segir Magnús Geir málin vera óljósari og að þau hafi ekki enn verið útfærð. Sú leið sem farin hafi verið við fjármögnun almannaþjónustunnar um áratuga skeið sé hin blandaða leið, þ.e. opinbert framlag að tveimur þriðju og  auglýsingatekjur að einum þriðja en það er sú leið sem algengust er við fjármögnun almannaþjónustu í Evrópu, að hans sögn.

„Það hefur ríkt samstaða meðal þorra þjóðarinnar um mikilvægi öflugs Ríkisútvarps. Sú er líka raunin nú þar sem RÚV nýtur gríðarlegs stuðnings meðal þjóðarinnar samkvæmt könnunum. Stuðningurinn hefur raunar ekki verið meiri um árabil. Það hafa hins vegar alltaf verið skiptar skoðanir um hvaða blöndun fjármögnunar henti best og á því hafa verið ólíkar pólítískar skoðanir,“ segir hann.

Hann segist ánægður með að sjá ráðherra svo afgerandi í þeirri afstöðu að ef einhverjar takmarkanir á veru RÚV á auglýsingamarkaði gangi eftir, þá liggi alveg fyrir að það verði bætt upp að fullu með hækkuðu útvarpsgjaldi eða með öðrum hætti. „Þetta er það sem mestu máli skiptir, ráðherrann er sammála þjóðinni í því að tekjur og þjónusta RÚV verða ekki skertar frá því sem nú er. Svo þarf að skoða, ræða og útfæra hvernig það verði tryggt,“ segir hann.

Eins og fleiri viðmælendur Kjarnans bendir Magnús Geir á að það eigi eftir að koma í ljós hvernig útfærslur tillagnanna munu verða. Enn fremur að ef til takmarkana á auglýsingamarkaði komi þá eigi eftir að útfæra hvernig það tekjutap verði bætt. „Nú hefst samtal og samráð um það en ráðherra var skýr. Hún er ekki að tala fyrir skerðingu á þjónustunni eða tekjum heldur bara breytingum á fjármögnunarleiðum.“Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar