„Veruleg lækkun vaxta er ný áskorun sem lífeyrissjóðir standa frammi fyrir. Uppgjörsreglur í tryggingafræðilegu mati geta leitt til þess að þeir sæki í meira mæli í áhættusamari eignir.“
Þetta segir í lokorðum ítarlegrar greinar Jóns Ævars Pálmasonar, sérfræðings í áhættugreiningu Fjármálaeftirlitsins (FME), sem birtist í Fjármálum, riti FME. Er þar vitnað til þess að vextir á Íslandi hafa verið með lægsta móti undanfarin ár, miðað við sögulega þróun í gegnum tíðina.
Í greininni fer hann ítarlega yfir stöðu íslenska lífeyriskerfisins, sem stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða í fyrra var um 5,5 prósent.
Heildareignir lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar námu samtals jafnvirði 4.115 milljarða króna í lok síðasta árs en það jafngildir 161% af vergri landsframleiðslu. Þorri sparnaðarins eða 3.550 milljarðar króna tilheyrir samtryggingadeildum lífeyrissjóða, 383 milljarðar króna tilheyra séreignadeildum lífeyrissjóða og 182 milljarðar eru hjá séreignadeildum annarra vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
Eftir að fjármagnshöftum var aflétt hafa lífeyrissjóðir
aukið hlutdeild erlendra eigna í safni sínu, að því er fram kemur í greininni. Eignir
samtryggingadeilda tengdar erlendum gjaldmiðlum námu
26,2% við síðustu áramót og hlutfallið hækkaði um þrjú
prósentustig frá fyrra ári. Þriðjung þeirrar aukningar má
rekja til þess að hlutabréf í Össuri hf. eru ekki lengur skráð
í íslenskum krónum, en félagið er nú eingöngu skráð í kauphöllina í Danmörku. Tvo þriðju má rekja til nýrra fjárfestinga
og ávöxtunar erlendra eigna. Í fjórum lífeyrisdeildum er
hlutfall erlendra fjárfestinga innan við 10% heildareigna en
í fimm deildum er hlutfall erlendra eigna hærra en 30% af
heildareignum.
Í greininni kemur fram að íslenskir lífeyrissjóðir séu fyrirferðamiklir á skráðum markaði Íslandi sem fjárfestar, eins og von er. „Lífeyrissjóðir hafa mikilvægu hlutverki að gegna sem ein af stoðum almannatryggingakerfis. Nú þegar sjá lífeyrissjóðir fyrir meiri hluta þess ellilífeyris sem greiddur er og hlutdeildin fer vaxandi. Sem fjárfestar eru lífeyrissjóðir fyrirferðamiklir á innlendum verðbréfamarkaði og eiga beint eða óbeint rúmlega helming skráðs hlutafjár félaga í kauphöll og um tvo þriðju hluta hluta skráðra skuldabréfa. Sjóðirnir koma einnig að öðrum fjárfestingaverkefnum og hafa sótt í sig veðrið á fasteignalánamarkaði til einstaklinga undanfarin ár,“ segir í greininni.
Heildarstaða samtryggingadeilda lífeyrissjóða í tryggingafræðilegu mati var neikvæð um 756 milljarða króna í lok síðasta árs. „Hallinn stafar aðallega af halla á skuldbindingum deilda með ábyrgð launagreiðanda, sem nemur 755 mö. kr. Fjórir fimmtu hlutar þess er vegna stöðu B deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en fimmtungur vegna skuldbindinga lífeyrissjóða sveitarfélaga. Tæplega tveggja milljarða halli var á heildarstöðu sjóða án ábyrgðar launagreiðanda,“ segir í greininni.