Mynd: 123rf.com

Hrunið: Lukkuriddarar og hrægammar

Fjölmargir athafnamenn sáu sér leik á borði eftir hrunið til að eignast eignir á Íslandi á slikk. Nokkrir gengu mun lengra en aðrir í viðleitni sinni til að verða sér úti um skjótfenginn gróða.

Því fór fjarri að einu mennirnir sem fjölmenntu til Íslands við hrunið væru þeir sem gættu hagsmuna kröfuhafa. Mýmargir misárennilegir einstaklingar sem sáu tækifæri á skjótfengnum risagróða í hörmungum Íslendinga flýttu sér einnig hingað og vonuðust til að geta nýtt sér ringulreiðina sem ríkti.

Helgina eftir setningu neyðarlaganna í október 2008 lenti einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Um borð var Phillip Green, smávaxinn verslunarmógúll og einn ríkasti maður Bretlandseyja. Hann var kominn til landsins í einum tilgangi: Að kaupa skuldir Baugs Group á mjög lágu verði. Með það fyrir augum mætti hann á Kirkjusand í höfuðstöðvar Glitnis, sem þá hafði verið tekinn yfir af skilanefnd. Með honum í för voru Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans og viðskiptafélagi, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir. Jón Ásgeir og fjölskylda hans voru á þessum tíma aðaleigendur Baugs.

Auglýsing

Green tókst að fá fund með umsjónarmönnum þrotabúsins. Ingibjörg fór með honum inn á fundinn en Jón Ásgeir, sem hafði þar til skömmu áður verið stærsti eigandi Glitnis, bæði beint og óbeint, beið frammi á meðan. Það var ekki talið styrkja stöðu Green að hafa Jón Ásgeir með, enda hafði hann verið útmálaður í opinberri fjölmiðlaumræðu sem einn þeirra sem settu Ísland á hausinn.

Á fundinum lagði Green fram tilboð um að kaupa allar skuldir Baugs við bankann á um fimm prósent af virði þeirra. Þegar tilboðið fékk litlar undirtektir lét hann öllum illum látum og hótaði að allir sem væru inni í herberginu yrðu reknir. Hann gæti látið það gerast. Hann hótaði einnig að tala við forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, ef tilboðið yrði ekki skoðað betur. Hvað forsetinn átti að gera kom ekki fram.

Phillip Green er mjög umdeildur maður. Hann var einn þeirra sem reyndi að beita frekju og ofsa til að komast yfir eignir á Íslandi eftir hrun.
Mynd: Úr safni

Green var á mikilli hraðferð, enda beið einkaþotan eftir honum á vellinum. Hann átt enn eftir að hitta aðra banka í sömu erindagjörðum, auk þess sem hann átti bókaðan fund með Björgvini G. Sigurðssyni, þáverandi viðskiptaráðherra. Þess vegna gilti tilboð hans einungis í nokkrar mínútur. Meðan á látunum stóð sagði Ingibjörg ekkert, utan þess sem hún skaut því inn annars lagið að þetta væri það eina sem hægt væri að gera. Fundarhöldin, ferðin og öll lætin voru þó til einskis. Green flaug af landi brott tómhentur og án þess að forsetinn hlutaðist til um málið. Bankarnir voru ekki til viðræðu um að selja skuldirnar frá sér. Sá hluti þeirra sem Green hafði mestan áhuga á voru þær skuldir sem Baugur og tengdir aðilar höfðu stofnað til við að kaupa erlend fyrirtæki, mest megnis verslanakeðjur í Bretlandi. Fyrir utan þær hafði Baugs-samsteypan einnig skuldsett sig mikið vegna innlendra fjárfestinga.

Umboðsmenn erlendra fjárfesta

Green var einungis sá fyrsti af mörgum sem mættu hingað til lands og ætluðu sér að hagnast stórkostlega á vandamálum Íslendinga á sem skemmstum tíma. Slíkir fjárfestar eru oft kenndir við hrægamma vegna áherslunnar á að kaupa eignir af fyrirtækjum í vanda. Annars vegar eru það þeir sem eiga sjálfir mikið fé til að framkvæma þá gjörninga sem þeir bjóðast til og hafa jafnvel gert slíkt oft áður. 

Hins vegar er hægt að kalla þá lukkuriddara. Munurinn á þeim og hrægömmunum felst aðallega í því að lukkuriddararnir voru flestir íslenskir einstaklingar sem ætluðu að vera nokkurs konar umboðsmenn fyrir erlenda fjárfesta. Lukkuriddararnir áttu það sameiginlegt að lofa upp í ermina á sér án þess að geta staðið við stóru orðin þegar á hólminn var komið.

Auglýsing

Einn slíkur, íslenskur athafnamaður, kom á fund þrotabúa bankanna ásamt konu í pels sem var sögð vera rússnesk greifynja. Maðurinn og viðskiptafélagi hans fluttu mikla kynningu fyrir forsvarsmenn þrotabúanna á meðan greifynjan horfði á. Kynningin gekk út á það hvernig hún, með allan sinn auð, gæti fjármagnað hitt og þetta á Íslandi. Ekkert varð af fjárfestingum greifynjunnar.

Annað athafnaskáld kom á fund ýmissa aðila, meðal annars Steingríms J. Sigfússonar þáverandi fjármálaráðherra, sem fulltrúi viðskiptamanns frá Hong Kong. Sá átti að vera svo ríkur að Ísland hefði í raun getað afþakkað aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef Hong Kong maðurinn fengi að fjárfesta hér, samkvæmt þeirri kynningu sem fjármálaráðuneytið fékk. „Hann átti bara að taka stöðu í Íslandi,“ sagði einn þeirra sem sat umrædda fundi.

Vildi kaupa Morgunblaðið

Hrægammarnir voru menn eins og áðurnefndur Phillip Green og Steve Cosser sem á sínum tíma reyndi að kaupa Morgunblaðið og lýsti yfir áhuga á ýmsum öðrum fjárfestingum á Íslandi. Cosser, sem hafði að eigin sögn efnast ungur á því að selja tónlist til veitingahúsa og verslana, sagðist í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2009 vera tilbúinn að fjárfesta fyrir allt að tvo milljarða evra á Íslandi. 

Steve Cosser sagðist vilja kaupa Morgunblaðið og ætla að fjárfesta hérlendis fyrir allt að tvo milljarða evra.
Mynd: Bára Huld Beck

Blaðamaður á Morgunblaðinu tók viðtal við Cosser á heimili hans í janúar 2009, skömmu áður en hann gerði formlegt tilboð í Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Cosser var bersýnilega mjög efnaður. Hann bjó á dýrasta stað í London í ríkmannlegu húsi. 

Cosser mætti strax mikilli tortryggni þegar hann dúkkaði upp á Íslandi. Margir töldu hann starfa fyrir einhverja Íslendinga sem væru að reyna að ná til baka eignum sem þeir hefðu misst við hrunið. Í þeim samsæriskenningum var Cosser oftast tengdur við Björgólfsfeðga. Sjálfur eyddi hann þessum orðrómi í viðtalinu við Morgunblaðið. Þar sagði hann: „Ég get fullvissað þig um að ég þekki ekki þennan Björgólfsson. Ég gæti ekki einu sinni stafað nafnið! Sama gildir um aðra íslenska fjárfesta. Þá spyr fólk hvort við séum hákarlar sem bíðum eftir að hirða eignir á brunaútsölu. En saga okkar í fjármálum sýnir það og sannar að við erum engir hákarlar“.

Þessar kenningar um Cosser voru hæpnar. Hann hafði sjálfur efnast á fjárfestingum og það væri ofar öllum skilningi ef hann tæki allt i einu upp á því að vera leppur fyrir einhverja á Íslandi. Margir telja þeim mun líklegra að Cosser hafi ætlað sér að nota Morgunblaðið til að liðka um fyrir öðrum viðskiptum. Hann var meðal annars með hugmyndir um að kaupa stjórnarbyggingar á Íslandi og leigja þær aftur stjórnvöldum, og hefur líklega gert sér grein fyrir að hann þyrfti mikinn sannfæringarmátt til að fá þau kaup í gegn. Þá lýsti hann einnig yfir áhuga á að kaupa tónlistar- og ráðstefnuhúsið, sem síðar fékk nafnið Harpa, áður en ríki og borg ákváðu að klára það verkefni.

Cosser hefur ekki sést hérlendis síðan árið 2009. Síðast þegar fréttist af honum var hann að fjárfesta í Afríku þar sem hann sagðist vera að blanda saman viðskiptum og mannúðarstarfi.

Tilraun til samkomulags um að kaupa tekjustreymi Landsvirkjunnar

Nokkrir af stóru erlendu viðskiptavinum bankanna reyndu einnig að nýta sér aðstæður hér til að fá eignir út úr þrotabúunum á lágu verði. Þeir reyndu stundum að vera í sambandi við ráðherra í ríkisstjórn til að fá fundi og kynna sinn málstað. Um var að ræða erlenda aðila sem þekktu vel til á Íslandi.

Auglýsing

Á tímabili reyndu bandarískir aðilar, sem áður höfðu þefað af Íslandi, t.d. að gera samkomulag um að kaupa tekjustreymi Landsvirkjunar til 25 ára og greiða fyrir það háa fasta fjárhæð.

Margir þessara aðila reyndu að komast á fundi hjá ráðamönnum íslensku þjóðarinnar. Stundum létu ráðuneytin meira að segja Seðlabankann gera forsöguathugun á þeim til að athuga hver viðskiptasaga aðilanna væri og hvort þeir væru raunverulega jafn umfangsmiklir fjárfestar og þeir létu í veðri vaka. Alls kyns aðilar í íslensku samfélagi komu fram fyrir hönd þessara aðila sem umboðsmenn. Oftast reyndist lítil innistæða fyrir þeim gífuryrðum um stórkostlegan auð útlendinganna sem látin voru falla.

Fréttaskýringin byggir að hluta til á efni sem birtist áður í bókinni Ísland ehf - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson.

Í upphafi árs 2020

Við á Kjarnanum göngum bjartsýn og einbeitt inn í nýtt ár og þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar