Gríðarlegur munur er á getu þeirra sem eiga eigið húsnæði og þeirra sem leigja húsnæði til að safna sparifé. Alls segjast 63 prósent þeirra sem eiga eigin húsnæði að þeir geti lagt svolítið eða talsvert til hliðar en 39 prósent leigjenda segjast vera í þeirri aðstöðu. Athygli vekur að þeim leigjendum sem geta lagt fyrir fækkaði hlutfallslega á milli áranna 2017 og 2018, en í fyrra sögðust 43 prósent þeirra geta lagt svolítið eða talsvert fyrir. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Gallup vegna nýlegrar könnunar fyrirtækisins á fjárhagsstöðu heimila.
Geta landsmanna til að leggja fyrir dróst saman við hrunið og þegar verst lét, árið 2011, sögðust einungis 34 prósent húsnæðiseigenda geta safnað sér sparifé og 26 prósent leigjenda. Síðan þá hefur geta húsnæðiseigenda til að leggja fyrir aukist mjög og þótt fleiri leigjendur geti nú lagt fyrir en fyrir sjö árum þá hefur bilið milli húsnæðiseigenda og leigjenda, þegar geta þeirra til að safna sparifé er mæld, aukist umtalsvert á síðustu árum.
Tölurnar sýna að hlutfall húsnæðiseigenda sem geta lagt fyrir er nú nánast það sama og það var árið 2007, þegar það var 63 prósent. Þá var hlutfall leigjenda sem gátu lagt fyrir hins vegar mun hærra en það er í dag, eða 47 prósent. Því hefur geta þeirra hópa sem leigja sér húsnæði til að leggja fyrir dregist saman á rúmum áratug á meðan að geta húsnæðiseigenda til að safna sér sparifé er orðin sú sama.
Leiguverð heldur áfram að hækka
Bæði leigu verð og íbúðaverð hefur hækkað gríðarlega mikið á Íslandi á undanförnum árum. Frá því í byrjun janúar 2011 hefur íbúðaverð hækkað um 99 prósent og leiguverð um 91 prósent. Síðasta hálfa árið hefur þó árshækkun á leiguverði verið ofar en árshækkun íbúðaverðs, sem hefur lækkað lítillega upp á síðkastið.
Greiningar Íbúðalánasjóðs sýna að það er mun frekar ungt fólk og tekjulágir sem eru á leigumarkaði. Þannig eru t.d. 26-27 prósent þeirra einstaklinga sem eru með undir 400 þúsund krónum í mánaðartekjur á leigumarkaði á meðal an 87 prósent þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur á mánuði búa í eigin húsnæði.
Tölur Íbúðalánasjóðs sýna að 92 prósent landsmanna telji að það sé óhagstætt að leigja húsnæði og 80 prósent telja að framboð af íbúðarhúsnæði sem sé til leigu á Íslandi sem henti sér og sinni fjölskyldu sé lítið.
Helmingur ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað
Staða leigjenda virðist að mörgu leyti vera verri hérlendis en á hinum Norðurlöndunum. Í lok árs 2016 var leiga til að mynda 50 prósent ráðstöfunartekna hjá lágtekjuhópum á Íslandi. Hvergi á hinum Norðurlöndunum greiða lágtekjuhópar jafn hátt hlutfall af þeim peningum sem standa eftir þegar skattar og gjöld hafa verið greiddir. Noregur er þó ekki langt undan. Þessi breyting er tiltölulega nýleg. Á árunum 2008 og 2009 greiddu íslenskir leigjendur með lágar tekjur 39 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu sem þá var lægsta hlutfallið á Norðurlöndunum. Samhliða framboðsvanda og innkomu hagnaðardrifinna leigufélaga á markaðinn hefur þetta hlutfall hækkað.
Meiri menntun og hærri tekjur skipta máli
Það kemur kannski ekki mikið á óvart en þeir sem eru með háskólapróf eru líklegri en þeir landsmenn sem hafa lokið lægri prófgráðum til að geta safnað sér sparifé. Alls segjast 58 prósent háskólamenntaðra geta lagt fyrir, tæplega 50 prósent þeirra sem eru með framhaldsskólapróf geta það og tæplega 46 prósent þeirra sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi.
Geta allra menntunarhópa til að safna sparifé var meiri fyrir hrun en hún er nú. Þannig gátu 72 til 68 prósent háskólamenntaðra lagt fyrir á árunum 2005 til 2007, 56 til 60 prósent framhaldsskólamenntaðra og 51 til 59 prósent þeirra sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun. Á árunum eftir hrun dróst geta allra hópanna til að leggja fyrir verulega saman.
Þá liggur fyrir að þeir hópar sem eru með hærri fjölskyldutekjur geta lagt meira fyrir. Alls segjast 80 prósent þeirra sem tilheyra tekjuhæsta fjórðungi landsmanna að þeir geti lagt fyrir, 68 prósent þeirra sem tilheyra næst tekjuhæsta fjórðungnum geta það og 63 prósent þeirra sem tilheyra þeim næst lægsta. Á meðal 25 prósent tekjulægstu landsmanna segjast 38 prósent geta lagt eitthvað fyrir.