Mynd: EPA

Hrunið: Þegar Glitnir í Noregi var seldur á slikk

Á sama hátt og Íslendingar voru ekki með hagsmuni útlendinga að leiðarljósi í sínum aðgerðum eftir hrunið var útlendingum nokkuð sama um hagsmuni Íslendinga eða kröfuhafa þeirra. Þeir gátu bent á mjög gott dæmi máli sínu til stuðnings: Glitni í Noregi.

Þann 21. októ­ber 2008, um tveimur vikum eftir að Glitnir féll, var dótt­ur­banki hans í Nor­egi, Glitnir Bank ASA, seldur á 300 millj­ónir norskra króna, sem þá voru um 5,5 millj­arðar króna, til hóps 20 norskra spari­sjóða.

Aðdrag­andi söl­unnar var sá að Trygg­inga­sjóður inn­stæðu­eig­enda í Nor­egi hafði veitt Glitni í Nor­egi lána­línu upp á fimm millj­arða norskra króna eftir að móð­ur­bank­inn á Íslandi féll til að hann gæti staðið af sér áhlaup. Þegar var búið að taka nokkur hund­ruð millj­ónir norskra króna út úr bank­anum þegar lána­línan var skyndi­lega aft­ur­kölluð eftir fund norska Seðla­bank­ans, norska fjár­mála­eft­ir­lits­ins og trygg­inga­sjóðs­ins um mál­efni Glitn­is. Í kjöl­farið var norski Glitnir settur í sölu­ferli sem stjórn hans í Nor­egi, ekki skila­nefnd Glitn­is, stýrði.

Nið­ur­staða þess sölu­ferlis varð sú að fyrr­nefndur spari­sjóða­hópur keypti á 5,5 millj­arða króna. Sá sem leiddi þær við­ræður fyrir spari­sjóða­hóp­inn var maður sem heitir Finn Haug­an. Hann var einnig fram­kvæmda­stjóri Spare­bank 1 SMN, spari­sjóðs sem keypti 25 pró­senta hlut í norska Glitni. Hann var einnig stjórn­ar­for­maður trygg­inga­sjóðs inn­stæðu­eig­enda í Nor­egi sem inn­kall­aði lána­línu Glitnis og krafð­ist þess að bank­inn yrði seld­ur. Sam­kvæmt efna­hags­reikn­ingi Glitnis í Nor­egi var eig­in­fjár­staða bank­ans jákvæð um 3.147 millj­ónir norskra króna, 57,4 millj­arða króna, í lok sept­em­ber 2008. Kaup­verðið þegar hann var seldur þremur vikum síðar var þar af leið­andi um einn tíundi af eigin fé hans.

Það var því morg­un­ljóst að bank­inn hafði verið seld­ur, með vald­beit­ingu norskra yfir­valda, á verði sem var langt frá raun­virði hans. Það kom end­an­lega í ljós um ára­mótin 2008-2009 þegar nýju eig­end­urnir upp­færðu virði norska Glitn­is, sem þá hafði tekið upp nafnið BN Bank. Þá, tæpum tveimur mán­uðum eftir kaup­in, var bank­inn allt í einu verð­met­inn á tvo millj­arða norskra króna, eða um 36,5 millj­arða króna á þeim tíma. Norski við­skipta­vef­ur­inn www.DN.no kall­aði kaupin enda „ræn­ingja­kaup“.

Í sam­tali við Morg­un­blaðið sagði Finn Haugan að hann hefði vikið úr stjórn trygg­inga­sjóðs inn­stæðu­eig­enda þegar veit­ing lána­lín­unnar til Glitnis var veitt. „Ég veit ekki hversu lengi þessi lána­lína átti að vera í gildi en veit þó að hún átti að vera til staðar í tak­mark­aðan tíma. Móð­ur­bank­inn á Íslandi þurfti að selja Glitni hér í Nor­egi innan ákveð­ins tímara­mma sem var ákveð­inn af norskum stjórn­völd­um. Það gat hver sem er boðið í þennan banka og þónokkrir gerðu það. Hæsta til­boðið var 300 millj­ón­ir,“ sagði Haug­an. Hann taldi enn­fremur ekk­ert óeðli­legt við að virði norska Glitnis hefði hækkað jafn mikið á jafn skömmum tíma og raun bar vitni.

Þessi sala situr enn í mörgum á Íslandi og í þeim sem voru í kröfu­hafa­hópi Glitn­is. Þeim þykir enn sem norsk yfir­völd hafi beitt sér með óbil­gjörnum hætti til að kom­ast yfir verð­mæta eign. Salan átti sér hins vegar stað áður en kröfu­lýs­inga­frestur hófst og því gátu kröfu­haf­arnir sjálfir í raun ekki sagt að þeir hafi orðið fyrir tjóni.

Innan Glitnis var enn­fremur verið kannað ítar­lega hvort hægt sé að sækja ein­hvers konar bætur vegna þess­arar aðgerð­ar. Nið­ur­staða var sú að það þótti ráð­legt.

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á efni sem birt­ist áður í bók­inni Ísland ehf - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar