Mynd: EPA

Hrunið: Þegar Glitnir í Noregi var seldur á slikk

Á sama hátt og Íslendingar voru ekki með hagsmuni útlendinga að leiðarljósi í sínum aðgerðum eftir hrunið var útlendingum nokkuð sama um hagsmuni Íslendinga eða kröfuhafa þeirra. Þeir gátu bent á mjög gott dæmi máli sínu til stuðnings: Glitni í Noregi.

Þann 21. október 2008, um tveimur vikum eftir að Glitnir féll, var dótturbanki hans í Noregi, Glitnir Bank ASA, seldur á 300 milljónir norskra króna, sem þá voru um 5,5 milljarðar króna, til hóps 20 norskra sparisjóða.

Aðdragandi sölunnar var sá að Tryggingasjóður innstæðueigenda í Noregi hafði veitt Glitni í Noregi lánalínu upp á fimm milljarða norskra króna eftir að móðurbankinn á Íslandi féll til að hann gæti staðið af sér áhlaup. Þegar var búið að taka nokkur hundruð milljónir norskra króna út úr bankanum þegar lánalínan var skyndilega afturkölluð eftir fund norska Seðlabankans, norska fjármálaeftirlitsins og tryggingasjóðsins um málefni Glitnis. Í kjölfarið var norski Glitnir settur í söluferli sem stjórn hans í Noregi, ekki skilanefnd Glitnis, stýrði.

Niðurstaða þess söluferlis varð sú að fyrrnefndur sparisjóðahópur keypti á 5,5 milljarða króna. Sá sem leiddi þær viðræður fyrir sparisjóðahópinn var maður sem heitir Finn Haugan. Hann var einnig framkvæmdastjóri Sparebank 1 SMN, sparisjóðs sem keypti 25 prósenta hlut í norska Glitni. Hann var einnig stjórnarformaður tryggingasjóðs innstæðueigenda í Noregi sem innkallaði lánalínu Glitnis og krafðist þess að bankinn yrði seldur. Samkvæmt efnahagsreikningi Glitnis í Noregi var eiginfjárstaða bankans jákvæð um 3.147 milljónir norskra króna, 57,4 milljarða króna, í lok september 2008. Kaupverðið þegar hann var seldur þremur vikum síðar var þar af leiðandi um einn tíundi af eigin fé hans.

Það var því morgunljóst að bankinn hafði verið seldur, með valdbeitingu norskra yfirvalda, á verði sem var langt frá raunvirði hans. Það kom endanlega í ljós um áramótin 2008-2009 þegar nýju eigendurnir uppfærðu virði norska Glitnis, sem þá hafði tekið upp nafnið BN Bank. Þá, tæpum tveimur mánuðum eftir kaupin, var bankinn allt í einu verðmetinn á tvo milljarða norskra króna, eða um 36,5 milljarða króna á þeim tíma. Norski viðskiptavefurinn www.DN.no kallaði kaupin enda „ræningjakaup“.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Finn Haugan að hann hefði vikið úr stjórn tryggingasjóðs innstæðueigenda þegar veiting lánalínunnar til Glitnis var veitt. „Ég veit ekki hversu lengi þessi lánalína átti að vera í gildi en veit þó að hún átti að vera til staðar í takmarkaðan tíma. Móðurbankinn á Íslandi þurfti að selja Glitni hér í Noregi innan ákveðins tímaramma sem var ákveðinn af norskum stjórnvöldum. Það gat hver sem er boðið í þennan banka og þónokkrir gerðu það. Hæsta tilboðið var 300 milljónir,“ sagði Haugan. Hann taldi ennfremur ekkert óeðlilegt við að virði norska Glitnis hefði hækkað jafn mikið á jafn skömmum tíma og raun bar vitni.

Þessi sala situr enn í mörgum á Íslandi og í þeim sem voru í kröfuhafahópi Glitnis. Þeim þykir enn sem norsk yfirvöld hafi beitt sér með óbilgjörnum hætti til að komast yfir verðmæta eign. Salan átti sér hins vegar stað áður en kröfulýsingafrestur hófst og því gátu kröfuhafarnir sjálfir í raun ekki sagt að þeir hafi orðið fyrir tjóni.

Innan Glitnis var ennfremur verið kannað ítarlega hvort hægt sé að sækja einhvers konar bætur vegna þessarar aðgerðar. Niðurstaða var sú að það þótti ráðlegt.

Fréttaskýringin byggir að hluta til á efni sem birtist áður í bókinni Ísland ehf - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar