Mynd: Aðsend/Forlagið

Norskur fjallamaður skrifar íslensku hrunsöguna

Svein Harald Øygard hefur skrifað bók um hrun og upprisu Íslands. Hún ber þess merki að hann er maður sem er laus við hlekki sérhagsmuna sem gerendur í þeirri sögu bera með sér á hverjum degi, og litar frásagnir þeirra af því sem gerðist. Norski fjallamaðurinn segir frá því sem raunverulega gerðist, af hverju það gerðist, hvaða afleiðingar það hafði og hverju var um að kenna.

Það var líka gott að vera útlendingur. Þá þurfti ég ekki að verja neina útgáfu sögunnar.“ Þetta segir Norðmaðurinn Svein Harald Øygard, sem um tíma var seðlabankastjóri á Íslandi, í bók sinni „Í víg­línu íslenskra fjár­mála“ sem kom nýverið út á íslensku. 

Í þessari stuttu setningu nær hann að skýra út af hverju það var nauðsynlegt að einhver utanaðkomandi, einhver sem átti ekki neinna hagsmuna að gæta á Íslandi, hafi tekið að sér það verk að skrifa sögu íslenska hrunsins og endurreisnarinnar. 

Øygard er meðvitaður um þessa sögu og því reynir hann eftir fremsta megni að segja söguna ópersónulega. Að láta hana ekki snúast um persónur og leikendur heldur þær ákvarðanir sem voru teknar og þær afleiðingar sem þær höfðu. Hann býr líka til ímyndaðan Íslending, Guðmund Þór, sem lendir í nánast öllum áföllum sem hrunið leiddi af sér. Um er að ræða tilraun höfundar til að sýna fram á hversu víðtæk áhrifin voru á venjulegt fólk. Hún gengur stundum ágætlega, en verður stundum of ýkt. 

Það að Øygard hafi um nokkurra mánaða skeið verið þátttakandi í atburðarásinni hérlendis vinnur með honum vegna þess að á þeim tíma hafði hann aðgang að ótrúlegu magni frumgagna, og gat gert sér grein fyrir við hverja hann þyrfti að tala til að dýpka söguna. Við vinnslu bókarinnar tók hann ríflega 90 viðtöl, mörg hver við mjög háttsett fólk í alþjóðlegu fjármálakerfi, sem varpa nýju ljósi á margt sem átti sér stað bæði fyrir og eftir hrun. Í víglínu íslenskra fjármála.

Á meðal þeirra sem hann ræðir við eru erlendir seðlabankastjórar, erlendir ráðamenn og íslenskir ráðherrar, jafnt núverandi og fyrrverandi. Øygard átti líka samtöl við stofnendur, starfsmenn og lykilráðgjafa þeirra fjárfestingarsjóða, oft kallaðir hrægammasjóðir, sem hingað komu í kippum eftir hrunið til að hagnast á íslenska harminum. Lykilfólk í Seðlabanka Íslands ræddi einnig við hann, meðal annars Már Guðmundsson og Lilja D. Alfreðsdóttir, sem nú er mennta- og menningarmálaráðherra en var á árum áður í stóru hlutverki innan þeirrar stofnunar. Davíð Oddsson hafnaði hins vegar að veita eftirmanni sínum viðtal. 

Tilgangur Øygard með bókinni var að „lýsa stóru myndinni og þeim kröftum sem heltóku lítið land í upphafi 21. aldarinnar, einnig þeirri innsýn sem það veitir í heiminn nú og til framtíðar.“

Það tekst honum prýðilega.

Fjallamaður upp úr hatti

Øygard var settur seðlabankastjóri eftir að Davíð Oddsson var látinn yfirgefa seðlabankann í kjölfar lagabreytinga. Tilgangurinn með skipun hans var að gefa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur svigrúm til að ráða seðlabankastjóra til framtíðar sem myndi ekki njóta góðs af því í umsóknarferlinu að hafa gegnt starfinu tímabundið. Enginn gæti gert tilkall til embættisins. Því var sú óvenjulega leið farin að sækja Norðmann sem hafði árin á undan aðallega starfað fyrir alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey&Co en hafði auk þess verið skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu í Noregi um tíma á tíunda áratugnum. Dregin eins og „kanína upp úr hatti“, eins og höfundurinn lýsir því sjálfur í bókinni. 

Þegar Øygard var skipaður var mikið lagt upp úr því, hjá þröngum hópi í kringum Davíð Oddsson, að mála hann upp sem einhverskonar fáráð. Davíð sjálfur sagði í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokks 2009 að Øygard væri „svo lítt þekktur að jafnvel leitarvél Google finnur hann ekki.“ Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem hefur áratugum saman samtvinnað það að vera prófessor í stjórnmálafræði og að vera í linnulausu klappstýruhlutverki fyrir áðurnefndan Davíð, hélt þessum málstað á lofti síðar. Øygard rekur þetta og vitnar í ummæli um sig sem Hannes lét ítrekað falla, meðal annars á bloggsíðu sinni, sem eru svona: „Maðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki hvað þetta var.“ Í stað þess að taka þessi orð óstinnt upp þá leikur Øygard sér með þau. Það sem eftir lifir bókarinnar lýsir hann sjálfum sér iðulega sem fjallamanninum.

Mismunandi sjónarhorn

Líkt og áður sagði er eitt helsta markmið Øygard að varpa ljósi á það sem gerðist á Íslandi, frá sjónarhorni annarra sem urðu fyrir áhrifum af því en Íslendingar. Frá sjónarhorni þeirra sem höfðu fjárfest hérlendis og tapað, þeirra sem stýrðu alþjóðlegum seðlabönkum sem höfðu verulegar áhyggjur af ógætilegri hegðun íslensku bankanna, þeirra sem urðu fyrir tjóni af þeirri ógætilegu hegðun og þeirra sem græddu á öllu saman.

Greining hans, byggð á ítarlegri rannsóknarvinnu þar sem niðurstaðan var ekki fyrirfram gefin, á því á hverju ákvörðunartaka um að hjálpa Íslandi ekki meira en raun bar vitni á mismunandi tímum í þessu ferli er trúverðug og vel rökstudd. 

Hannes Hólmsteinn Gissurarsson, og hans greiningar á hrunsögunni, er augljós skotspónn í bók Øygard.
Mynd: Skjáskot

Í stuttu máli er hún þessi: Íslenskir bankamenn fóru offari og þegar ljóst var að þeir áttu sér ekki tilverugrundvöll nýttu þeir sér fjölmörg vafasöm tækifæri til að halda sér á floti, en gerðu endanlega hrunið um leið verra en það hefði þurft að vera. Þeir misnotuðu stöðu sína til að verða sér úti um laust fé hjá seðlabönkum í Lúxemborg og Evrópusambandinu, þeir söfnuðu innlánum alþjóðlega á allt of háum vöxtum í sama tilgangi og svo nýttu þeir sér ástarbréfahringrásina til að ná sér í allt það fé sem hægt var að ná sér í hjá íslenska seðlabankanum. 

Og enginn hérlendis vildi hlusta á varnarorð útlendinganna. 

Sparisjóðurinn sem vildi skrifstofu í New York

Það er margt kostulegt, en um leið sorglegt, sem höfundurinn lýsir í bókinni sem hann hefur eftir viðmælendum eða kemur úr gögnum sem hann hefur komist yfir. 

Øygard ræðir meðal annars hlutverk Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta, í útrásinni og tekur sem dæmi ræðu sem hann hélt í London 3. maí 2005 þar sem hann var, oftar sem áður, að útskýra yfirburði íslensku útrásarmannanna. Ólafur nefndi í þeirri ræðu heilar þrettán ástæður fyrir velgengni Íslendinga, sem létu þá skera sig úr gagnvart öðrum. Þar nefndi hann sex fyrirtæki sem blómstruðu máli sínu til stuðnings: Baug, Avion, Actavis, Össur, Kaupþing og Bakkavör. „Af þessum sex fyrirtækjum áttu tvö eftir að verða gjaldþrota, tvö gengust undir endurskipulagningu og eitt þeirra er erfitt að rekja. Aðeins eitt af þessum sex er enn þann dag í dag öflugt og frumlegt iðnfyrirtæki,“ segir Øygard í bókinni. Þetta eina fyrirtæki er Össur. 

Hann nefnir líka að norski Olíusjóðurinn, stærsti fjárfestingarsjóður heims, hafi áttað sig á stöðunni á Íslandi mjög snemma. Strax í byrjun árs 2006 fór hann að kaupa skuldatryggingar á íslensku bankanna vegna þess að hann áleit að það væri eina vitræna fjárfestingatækifærið í þeim. Þ.e. að veðja á að þeir myndu lenda í verulegum vanskilum. 

Øygard segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki boðið forsvarsmönnum sjóðsins til landsins til að ræða ítarlegar greiningar þegar þetta átti sér stað, heldur réðust á sjóðinn í ræðu og riti. Halldór Ásgrímsson, sem var forsætisráðherra á þessum tíma, sagði að gjörningurinn væri brot á samnorrænum varnarsamningi gegn ójafnvægi í fjármálum, auk þess sem þetta væri ekki til marks um góða sambúð grannþjóða.

Øygard greinir frá því að í nóvember 2007, þegar öllum sem horfðu á efnahagsreikninga íslensku bankanna af skynsemi var ljóst að þeir þyrftu að draga verulega saman seglin til að lágmarka tjónið sem þeir gætu ollið, hafi öll framkvæmdastjórn Glitnis, um 50 manns, fundað á golfvellinum Turnberry í Skotlandi, sem í dag er í eigu Donald Trump. „Þar var kynnt áætlun um að tvöfalda efnahagsreikning Glitnis. Sagt er að nokkrir viðstaddir hafi sagt skilið við bankann skömmu síðar. Þetta hafi verið einum of mikið af því góða.“

Vitneskjan var líka til staðar innan íslensku stjórnsýslunnar, þótt ekki hafi verið gripið til réttu ákvarðana til að dempa stöðuna. Í bókinni er meðal annars haft eftir starfsmanni Seðlabanka Íslands sem segir frá því að strax í janúar 2008 hafi starfsfólkið byrja á þeim sið að skála í lok hverrar vinnuviku. „Skál, við lifðum af enn eina vikuna.“

En eitt skýrasta dæmið sem Øygard nefnir um sjúkdómseinkenni á íslenska fjármálakerfinu sem hefði átt að vera öllum sýnilegt, var þegar að Sparisjóðurinn í Keflavík, sú hörmulega rekna fjármálastofnun, ætlaði að opna útibú í New York til að taka þátt í útrásarveislunni. 

Varð flökurt vegna upplýsinga um banka

Í ljósi þess að þónokkur athygli hefur verið á þeim fjármálaglæpum sem framdir voru í aðdraganda hrunsins, bæði í fjölmiðlum og bókaskrifum, er ágætt að Øygard sé ekki mikið að dvelja við þá þætti. Það þýðir ekki að hann dragi úr alvarleika þeirra, enda bendir hann til að mynda á að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi verið sýnt fram á hversu kerfisbundin þau brot voru. Lykilatriðið í þeirri svikamyllu var fjármögnun eigin bréfa, sem margir markaðsmisnotkunardómar hafa fallið vegna á undanförnum árum, og er einsdæmi í heimssögunni. 

Hann greinir þó líka frá því að þegar hann tók við sem seðlabankastjóri hafi hann farið fram á það að fulltrúi Seðlabankans í stjórn Fjármálaeftirlitsins upplýsti hann um ganga mála við skoðun á bönkunum þremur. „Það voru fréttir um tengslanetið, um lán til tengdra aðila og önnur mál. Þegar ég sá skýrsluna um Landsbankann varð ég að fara afsíðis. Mér var orðið svo flökurt.“

Að hans mati eru ein afdrifaríkustu mistökin sem áttu sér stað þau að banna ekki skuldsetningu í öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni. Þá dylst engum sem les að honum ofbýður það hvernig bankarnir höguðu sér í stöðutökum gegn krónunni.

Öllum hefði átt að vera ljóst að íslenska krónan var ofmetin, en samt héldu bankarnir áfram að dæla út þessum lánum til heimila og fyrirtækja allt fram á það síðasta. Þegar allt hrundi voru 84 prósent bílalána til að mynda í erlendum gjaldmiðlum. 

Bankarnir þrír voru þá löngu farnir að verja sig fyrir óumflýjanlegri lækkun. Kaupþing árið 2005, Landsbankinn um haustið 2007 og Glitnir í árslok 2007. „Bankarnir höfðu allir keypt erlendan gjaldmiðil fyrirfram, með öðrum orðum höfðu þeir aðgang að erlendum gjaldmiðli á fyrir fram ákveðnu verði einhvern tíma í framtíðinni. Nú skyldi grætt ef íslenska krónan veiktist.“ 

Vert er að taka fram að ekkert af þessu reyndist ólöglegt. Það mátti bara fella krónuna með handafli, láta viðskiptavini sína taka tapið en græða miskunnarlaust sjálfur á því. Fyrir banka var þetta hins vegar bara piss í skóinn, þar sem augljóst var að vanskil þeirra viðskiptavina sem tóku á sig tapið myndu aukast mikið samhliða.

Umsáturskenningin

Eitt helsta hráefnið í frásögn þeirra sem báru ábyrgð á annað hvort bönkum, eftirlitsstofnunum eða ríkisstjórn í hruninu, þegar þeir hafa reynt að endurskrifa sögu þess síðastliðinn áratug, er að benda á að vondir útlendingar hafi svikið okkur. Þetta er oft kallað umsáturskenningin, en í henni felst að ekk­ert sér­ís­lenskt hafi verið við það ástand sem skap­að­ist á Íslandi og olli hrun­inu. Að geisað hafi alþjóð­legt fár­viðri á fjár­mála­mörk­uðum og að Ísland hafi ein­fald­lega verið fórn­ar­lamb þess. Erlend ríki og seðla­bankar hafi neitað að rétta Íslandi hjálp­ar­hönd og þess í stað brugðið fæti fyrir litla eyþjóð.

Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið fól meira að segja áðurnefndum Hann­esi Hólm­steini Giss­ur­ar­syni, sem átt hefur í við­skipta­sam­bandi við nokkra fyrr­ver­andi lyk­il­starfs- og stjórn­ar­menn hrun­banka við rekstur bóka­út­gáfu sem gefur meðal ann­ars út bækur um þeirra útgáfu af sögu síð­ustu ára, að gera skýrslu um helstu erlendu áhrifa­þætti banka­hruns­ins. Fyrir það fékk hann greitt tíu millj­ónir króna af skatt­fé. Skýrslan tók mörg ár í vinnslu.

Nið­ur­staða hans, sem byggði að mestu á við­tölum við helstu ger­endur í bönk­unum og stjórn­sýsl­unni fyrir hrun, var að íslensku bank­arnir hefðu í raun ekk­ert verið lak­ari en aðrir bankar, að Seðla­banki Íslands, og sér­stak­lega Davíð Odds­son, hafi verið hróp­andi í eyði­mörk­inni og séð allt sem miður fór fyr­ir, og að erlend ríki hafi hagað sér rudda­lega og með óbil­gjörnum hætti gagn­vart Íslandi á ögur­stundu. Hægt hefði verið að bjarga íslenska bankakerfinu ef bandaríski seðlabankinn hefði rétt Íslandi hjálparhönd í formi gjaldeyrisskiptasamnings. 

Fótunum kippt undan skýrslu Hannesar

Til marks um hversu illa unnin skýrsla Hannesar var, og hversu augljós tilgangur hennar til að komast að fyrirframgefinni niðurstöðu var, þá er Davíð Odds­son nefndur 163 sinnum í skýrsl­unni og Icesave 211 sinn­um. Kaup íslensku bank­anna á eigin bréfum með eigin pen­ingum og for­dæma­lausir dómar vegna þeirra eru nefnd einu sinni.

Øygard kippir fótunum algjörlega undan þessari illa ígrunduðu, og beinlínis röngu, kenningu með fjölmörgum viðtölum við háttsetta erlenda aðila sem voru beinir þátttakendur í atburðarásinni. 

Í bókinni er meðal annars rakið stöðumat Svía gagnvart Íslandi. Þar er haft eftir Anders Borg, fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, sem sagði: „Við bjuggum til lista í árslok 2006 og ársbyrjun 2007 yfir löndin þar sem hættan var mest. Ísland, Lettland og Írland voru efst á blaði.“ Stefan Ingves, þá seðlabankastjóri Svíþjóðar, segir í bókinni að hans banki hafi farið að hafa áhyggjur á sama tíma. „Þetta hlaut að enda með ósköpum. Ég fór að senda æ fleiri sérfræðinga til Íslands. Þeir skoðuðu höfuðstól og eignarhald bankanna en þeir gátu ekki útskýrt hvaðan þeim bærist fjármagn til þess að halda áfram að vaxa.“ Hann minnist þess svo þegar hann dró Davíð Oddsson afsíðis þegar hann var í heimsókn á Íslandi árið 2006 og sagði: „Það er eitthvað að bönkunum hjá ykkur. Við höfum nokkra reynslu af svona málum. Við lentum í kreppu. Hringdu hvenær sem er og þá getum við rætt málið[...]Hann hringdi aldrei til þess að biðja um hjálp.“ Þess í stað voru nær allar aðgerðir hins opinbera og íslenska seðlabankans sem olía á eldinn. 

Skakkt númer, hringdu í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Í skýrslu Hannesar, sem skattgreiðendur greiddu fyrir, er ein helsta ályktunin sú að bandarísk stjórnvöld hefðu neitað Íslandi um fyrirgreiðslu vegna þess „að Ísland var ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum.“ Þessi ályktun er jörðuð í bók Øygard af Timothy Geithner, fyrrverandi seðlabankastjóri New York og síðar fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Timothy Geithner varð fjármálaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Barack Obama.
Mynd: EPA

Í samtali við höfundinn segir hann að íslenskir bankar hafi einfaldlega ekki verið neitt sérstaklega virkir í Bandaríkjunum fyrir hrun og höfðu ekki verið að taka lán í Bandaríkjadölum. Þess vegna var ekki til staðar ótti um smit frá íslensku bönkunum inn í bandaríska kerfið. Fókusinn hafi verið á þau ríki þar sem bankar voru að fjármagna sig í Bandaríkjadölum. Fleiri lönd, eins og Tyrkland, hafi heldur ekki fengið boð um hjálp á þessum tíma. 

Þegar Íslendingar óskuðu eftir gjaldmiðlaskiptasamningi eftir hrunið hafi það verið skoðað og Ísland greint af sérfræðingum bandaríska seðlabankans. Geitner segir að beiðnin hafi verið tekin alvarlega, en niðurstaða greiningarinnar hafi verið sú að íslenska bankakerfið hafi verið allt of stórt miðað við þjóðartekjur og gjaldeyrisskiptasamningur myndi ekki bæta ástand landsins sem neinu næmi. Yfirmaður hjá bandaríska seðlabankanum bætti við í samtali við höfundinn að tengsl eigenda íslensku bankanna, sem teiknuð voru upp í greiningunni, hafi verið „eitthvað flóknasta kerfi sem ég hef nokkurn tíma séð.“

„Segja má að ef einhver hringir frá ríki þar sem bankakerfið nemur nífaldri vergri landsframleiðslu og fer fram á gjaldeyrisskipti sé líklega aðeins eitt svar sem kemur til greina,“ segir Geithner í bókinni. „Því miður, skakkt númer. Hringdu í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

Samandregið þá er haft eftir hverjum háttsettum aðilanum á fætur öðrum innan lykilstofnana erlendra ríkja að viðvörunarmerkin á Íslandi hafi átt að vera öllum sýnileg. Það voru því ekki óbilgjarnir útlenskir seðlabankar eða útlensk stjórnvöld sem skópu íslenska ástandið, heldur aðrir.

„Að því er varðar aðdraganda kreppunnar keppa matsstofnanir og endurskoðendur um fyrsta sætið í syndaselakeppninni við bankamenn, stjórnvöld og eftirlitsaðila,“ segir Øygard.

Stjórnvöld stóðu ekki undir væntingum og spilltu ekki gleðinni, eftirlitsstofnanir gerðu ekkert þegar viðvörunarljósin voru augljós, endurskoðendur brugðust skyldum sínum og stimpluðu augljóslega röng uppgjör sem raunveruleg. Matsfyrirtækin hengdu svo háar matshæfiseinkunnir utan um hálsinn á bönkum sem áttu ekkert erindi í að fá slíkar. „Kerfið hrundi vegna þess að það brast í grundvallaratriðum. Bankarnir hunsuðu grunnreglur góðra og skynsamlegra starfshátta í bönkum. Fjármálaeftirlitið sá ekki grundvallarbresti í kerfinu. Ýmist var ekki varað við áhættu eða stjórnvöld sinntu ekki viðvörunum. Flestir vildu að bankarnir héldu áfram að vaxa yfirgengilega og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að þeir héldu því áfram.“

Hrósar endurreisninni

Øygard er mun jákvæðari þegar kemur að ályktunum sínum um hvernig endurreisn Íslands hafi tekist. Sérstaklega fjallar hann umtalsvert um endurskipulagningu bankakerfisins og segir að hún hafi verið eitt helsta afrekið sem var framið hérlendis. Þá hrósar hann ríkisstjórninni sem tók við völdum snemma árs 2009, sem og öllum ríkisstjórnum sem setið hafa síðan, fyrir að „takast á hendur það ógeðfellda verk að fá samþykktar erfiðar ákvarðanir til þess að koma landinu aftur í gang.“

Hann rekur líka í löngu máli hversu einstök áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi hafi verið í öllu sögulegu samhengi. Hér hafi verið veittur slaki til að fara milliveg niðurskurðar og þess að verja lykilstoðir velferðarkerfisins, allt innan strangra fjármagnshafta. Niðurstaðan hafi orðið sú að Ísland hafi breytt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum meira en hann breytti Íslandi. 

Samandregið þá eru þorri þeirra ályktana sem Øygard dregur í bókinni réttar. Bankamennirnir, eftirlitsaðilarnir og stjórnvöld brugðust. Almenningur sat uppi með afleiðingarnar. Flestar stóru ákvarðanirnar sem teknar voru til að bregðast við þessu ástandi: Neyðarlagasetningin, uppsetning hafta, afnám sólarlagsákvæðisins gagnvart kröfuhöfum og samningarnir við þá árið 2015 hafi allt verið réttar ákvarðanir sem höfðu feikilega jákvæð áhrif fyrir íslenskt samfélag. Eftir standi land sem er komið í ótrúlega góða efnahagslega stöðu áratug eftir að risavaxið fjármálakerfið, og afar veikur örgjaldmiðill, hrundi yfir það. 

Hann er líka næmur á að greina það sem ekki hefur tekist að laga. Seint í bókinni stendur: „Hrekklaus maður gæti ímyndað sér að nú, rúmum tíu árum eftir hrunið, hefði orðið til einhvers konar sátt í samfélaginu um það sem hefði orsakað hrunið, hvar rætur þess lágu, hvað setti það í gang, og hver bar ábyrgð á því. Því er ekki að heilsa. Jafnvel í íslenskum vinahópi getur umræðan um nýlega atburði í sögu Íslands leitt í ljós mismunandi skoðanir.[...]Enn þann dag í dag eru margir sem koma við sögu, bankamenn og stjórnmálamenn, að ráða til sín sagnfræðinga til að segja sögur sínar og móta frásagnir af atburðum. Ýmsir greiða þeir þeim sjálfir eða skattgreiðendur eru látnir blæða. Aðrir skrifa bara bækur.“

Ofangreind barátta um söguna, þar sem gerendur berjast um að segja svart vera hvítt og blautt þurrt, er lykilbreyta í því að traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf og er enn horfið. 

Það blasir við aðkomumanninum, fjallamanninum, Øygard og ætti að blasa við okkur öllum. 

Það er mikils virði að maður sem er ekki samdauna öllu sem hér hefur gerst síðustu tæpu tvo áratugi, sem var ekki í MR eða viðskiptafræði með neinum sem telst til gerenda hrunsins eða er náskyldur einhverjum sem tók mögulega röð rangra ákvarðana sem leiddu hörmungar, og svo upprisu, yfir litla örþjóð á eyju í miðju Ballarhafi, hafi tekið sér það fyrir að rannsaka, greina og skrifa sögu sem þessa. 

Baráttan um söguna þurfti á því að halda.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk