Mynd: Kjarninn

Hrunið: Þegar bankarnir endurskipulögðu atvinnulífið

Þótt búið væri að endurskipuleggja bankana eftir hrunvar fjöldi annarra vandamála óleystur. Hvaða viðmið átti að hafa við endurskipulagningu fyrirtækja? Átti að vernda þá sem ráku fyrirtæki sín vel fyrir hrun gegn því að samkeppnisaðilar þeirra fengju stórkostlegar afskriftir og yrðu mun betur í stakk búnir að keppa á markaði? Og stóra spurningin snerist auðvitað um það hver ætti að eiga fyrirtækin eftir að þau hefðu verið endurskipulögð.

Sum­arið 2011 birti Sam­keppn­is­eft­ir­litið nið­ur­stöður rann­sóknar sem það gerði á stöðu 120 stórra fyr­ir­tækja á völdum sam­keppn­is­mörk­uð­um. Um var að ræða stærstu fyr­ir­tækin á hverjum mark­aði fyrir sig. Þar sagði að 68 pró­sent þess­ara fyr­ir­tækja hefðu verið undir beinum eða óbeinum yfir­ráðum banka eftir hrun­ið. Þá eru með­talin fyr­ir­tæki sem voru í svo slæmri fjár­hags­legri stöðu að þau réðu ekki örlögum sínum sjálf. Hlut­fall fyr­ir­tækja sem voru í eigu ein­stak­linga hafði þá farið úr því að vera 66 pró­sent í að vera 23 pró­sent frá árinu 2007.

Á því hámarks­ári góð­ær­is­ins voru tvö pró­sent allra fyr­ir­tækja undir beinum yfir­ráðum banka. Til við­bótar voru 22 pró­sent þeirra skil­greind sem undir óbeinni stjórn banka vegna skulda­stöðu sinn­ar. Það er auð­vitað einnig mjög hátt hlut­fall en sýnir kannski best hversu óeðli­leg skuld­setn­ing íslenskra fyr­ir­tækja var á góð­ær­is­ár­un­um. Þegar krónan féll árið 2008 fjölg­aði þeim síðan mjög hratt.

Sú stefna var mótuð snemma að end­ur­skipu­leggja þyrfti eins mörg fyr­ir­tæki og mögu­legt væri. Það var ekki í boði að fara harða gjald­þrota­leið sem myndi þýða að mögu­lega myndu tug­þús­undir starfa tap­ast. Þeirri stefnu hefðu hins vegar fylgt miklar afskriftir af skuld­um, sem alltaf yrðu umdeild­ar. Leiðin var því afar vanda­söm út frá rétt­læt­is­sjón­ar­mið­um. Innan fjár­mála­ráðu­neytis Stein­gríms J. Sig­fús­sonar voru menn með­vit­aðir um þessa stöðu.



Þrátt fyrir að öllum væri ljóst að grípa þyrfti til skjótra aðgerða gerð­ist nán­ast ekk­ert í end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tækja framan af árinu 2009 annað en að bank­arnir stofn­uðu eigna­um­sýslu­fé­lög til að taka við þeim eignum sem þeir yrðu að leysa til sín. Fyrsta til­kynn­ingin um yfir­töku félags í eigu banka á fyr­ir­tæki í óskyldum rekstri barst ekki fyrr en um haustið 2009 þegar til­kynnt var að fyr­ir­tækið Teymi rynni inn í dótt­ur­fé­lag Lands­bank­ans. Upp­haf­lega taldi Sam­keppn­is­eft­ir­litið sig ekki geta beitt sam­runa­reglum sam­keppn­islaga á slíka yfir­töku og því aðhafð­ist eft­ir­litið í raun ekk­ert vegna henn­ar. Áfrýj­un­ar­nefnd sam­keppn­is­mála tók hins vegar annan pól í hæð­ina og bjó til nýja túlkun á sam­runa­regl­un­um. Á ein­földu máli varð nið­ur­staða hennar sú að í hefð­bundnum skiln­ingi væri sam­runi Teymis við dótt­ur­fé­lag banka ekki sam­keppn­is­hindr­andi, enda væri þarna um að ræða tvö fyr­ir­tæki hvort á sínum markaðnum, en vegna þeirrar for­dæma­lausu stöðu sem komin var upp í íslensku atvinnu­lífi og hætt­unni sem sam­keppni var skapað til lengri tíma var ákveðið að beita sam­runa­regl­un­um. Það þýddi að Sam­keppn­is­eft­ir­litið gat sett yfir­töku banka á fyr­ir­tækjum skil­yrði.

Þau skil­yrði voru síðan birt í mars 2010. Á meðal þeirra voru eft­ir­far­andi skil­yrði: Bank­arnir þurftu að selja hvert atvinnu­fyr­ir­tæki sem þeir tóku yfir innan til­tek­ins tíma sem þó var ekki greint frá opin­ber­lega, tryggja að yfir­teknu fyr­ir­tækin störf­uðu sem sjálf­stæðir keppi­nautar á mark­aði, setja átti þeim eðli­legar arð­sem­is­kröf­ur, bönk­unum var bannað að láta yfir­tekin fyr­ir­tæki eiga við­skipti við önnur fyr­ir­tæki í þeirra eigu að eigin und­ir­lagi, birta átti upp­gjör yfir­tek­inna fyr­ir­tækja opin­ber­lega og tryggja þurfti ítar­legt og við­var­andi eft­ir­lit innan bank­anna með fram­kvæmd skil­yrð­anna, ásamt reglu­legri skýrslu­gerð til Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins.

Samkeppniseftirlitið tók afstöðu með því að lífvænlegum fyrirtækjum yrði skilað aftur út í atvinnulífið í stað þess að fara í þrot. Páll Gunnar Pálsson var og er forstjóri þess.
Mynd: Hringbraut

Sam­hliða þessu tók Sam­keppn­is­eft­ir­litið mjög ein­dregna afstöðu með því að tala fyrir mik­illi hrein­gern­ingu í atvinnu­líf­inu sem myndi skila líf­væn­legum fyr­ir­tækjum aftur út í atvinnu­lífið í stað þess að setja þau í þrot. Þessi afstaða var sam­bæri­leg þeirri sem rík­is­stjórn Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna hafði tekið og þýddi, vita­skuld, stór­kost­legar afskriftir skulda.

Mik­ill þrýst­ingur hafði mynd­ast um að nýta sam­keppn­is­lög til að jafna aðstæð­ur. Það hefði þýtt að eft­ir­litið ætti að beita sér fyrir því að afskriftir yrðu minnk­aðar til að vernda hags­muni þeirra fyr­ir­tækja sem lifðu efna­hags­hrunið af. Því var hafnað og sú afstaða rök­studd með því að þannig myndu lang­tíma­hags­munir um virka sam­keppni á sem flestum mörk­uðum verða settir í for­grunn. Þeir sem höfðu rekið fyr­ir­tæki sín vel og ekki skuld­sett þau óhóf­lega í aðdrag­anda hruns­ins þurftu ein­fald­lega að bíta í það súra epli að una því að sam­keppn­is­að­ilum þeirra yrði haldið á lífi, skuldir þeirra afskrif­aðar og sam­keppn­is­hæfni þeirra þar með auk­in. Hin risa­stóra til­tekt í íslensku atvinnu­lífi átti ekki að markast af tilits­semi við keppi­nauta tækni­lega gjald­þrota fyr­ir­tækja, heldur átti að setja lang­tíma­hags­muni neyt­enda í fyrsta sæti.

Helm­ingur enn í „þvotta­vél­inni“ 2011

Árið 2011 hafði tek­ist að minnka þann stabba fyr­ir­tækja sem voru undir yfir­ráðum banka, en samt var tæp­lega helm­ingur allra stærstu fyr­ir­tækja lands­ins enn inni í „þvotta­vél­inn­i“. Í júní það ár gaf Sam­keppn­is­eft­ir­litið út skýrsl­una „Sam­keppnin eftir hrun“. Hún byggði á rann­sókn á fjár­hags­stöðu og end­ur­skipu­lagn­ingu 120 stórra fyr­ir­tækja á völdum sam­keppn­is­mörk­uð­um. Í nið­ur­stöðu hennar segir meðal ann­ars að sterk staða við­skipta­bank­anna þriggja gerði það að verkum að þeir hefðu „ægi­vald yfir atvinnu­líf­inu í dag og séu að því leyt­inu til ígildi við­skipta­blokk­ar, hver í sínu lag­i.“

Til við­bótar við bank­ana fóru slita­stjórnir föllnu bank­anna og líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hvort með sinn sjö pró­senta hlut í þessum stóru fyr­ir­tækj­um. Sam­an­lagt réðu því bankar, slita­stjórnir og líf­eyr­is­sjóðir beint eða óbeint yfir 60 pró­sent af stærstu fyr­ir­tækjum lands­ins um mitt ár 2011, tæpum þremur árum eftir hrun­ið.

Í grein­ingu Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins á þessum aðstæðum voru til­greindur ýmis konar vandi sem orsak­aði þær. Einn slíkur var umsýslu­vandi. Í honum felst að þeir sem starfa við að leysa úr vanda­málum hafa af því miklar tekjur og byggja lifi­brauð sitt á því. Þess vegna myndu hags­munir þeirra af tekju­öflun og og atvinnu­ör­yggi vega þyngra en hags­munir sam­fé­lags­ins af hraðri úrlausn mála. Orð­rétt sagði: „Til er orðin ný tíma­bundin atvinnu­grein, end­ur­skipu­lagn­ing og sala eigna. Hags­munir starfs­manna hennar af tekju­öflun og atvinnu­ör­yggi vinna gegn hags­munum sam­fé­lags­ins af hraðri úrlausn. Hræðslan við að taka ákvörðun og gera mis­tök heldur aftur af mörgum við núver­andi aðstæð­ur. Kerfið umb­unar ekki þeim sem tekur af skar­ið“.

Annar vandi sem var sér­stak­lega til­greindur sem und­ir­liggj­andi var svo­kall­aður eig­enda­vandi. Í honum fólst að kröfu­hafar gömlu bank­anna hafi haft af því mikla fjár­hags­lega hags­muni að fá eins mikið og mögu­legt væri út úr kröfum sem stóðu á fyr­ir­tækj­un­um. Þess vegna hafi þeir látið lang­tíma­við­skipta­hags­muni nýju bank­anna, s.s. þá að hafa í við­skiptum líf­væn­leg fyr­ir­tæki sem gætu staðið undir skuldum sín­um, víkja fyrir skamm­tíma­gróða­sjón­ar­miði.

Í grein­ar­flokki um málið sem birt­ist í Frétta­blað­inu haustið 2011 voru þessar aðstæður ræddar við Pál Gunnar Páls­son, for­stjóra Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins. Þar sagði hann: „Álykt­unin sem við drógum af rann­sókn á þessum 120 fyr­ir­tækjum er sú að það væri ekki verið að reka nægi­lega mörg þeirra með arð­sem­is­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi. Við höfum líka áhyggjur af því að bank­arnir hafi yfir­ráð yfir fleiri fyr­ir­tækjum en þeir hafa til­kynnt til okkar og erum að skoða það hvort svo sé. Þegar við fórum að rann­saka þetta þá sló það okkur hversu stór hluti fyr­ir­tækja hefur ekki farið í gegnum fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu þótt þau hafi greini­lega þurft á því að halda. Það er ekki búið að taka yfir fyr­ir­tækin heldur eru þau rekin áfram á óljósum grund­velli. Í þeim til­vikum er ekki búið að taka nægi­lega til né taka þær ákvarð­anir sem gera fyr­ir­tækj­unum kleift að starfa sjálf­stætt á sam­keppn­is­markaði. Við erum því með umhverfi þar sem hætta er á að fyr­ir­tæki séu rekin lif­andi dauð. Það er engum til góðs og skapar afleitar sam­keppn­is­að­stæð­ur“.

Beina brautin

Rann­sóknir Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins beindust aðal­lega að stórum fyr­ir­tækjum sem skuld­uðu marga millj­arða króna. End­ur­skipu­lagn­ing þeirra yrði alltaf sér­tæk. Það var ekki hægt að búa til eina leið sem ætti að duga fyrir alla. Það var hins vegar gert með fyr­ir­tæki sem skuld­uðu minna en einn millj­arð króna. Leið­inni, sem hlaut nafnið „Beina braut­in“, var ætlað að flýta fyrir end­ur­skipu­lagn­ingu og úrvinnslu skulda­mála lít­illa og með­al­stórra fyr­ir­tækja með því að laga skuldir þeirra að greiðslu­getu og eign­um. Með öðrum orðum átti að setja upp risa­stóra iðn­að­ar­þvotta­vél fyrir öll fyr­ir­tæki sem skuld­uðu undir millj­arði króna og stilla á sömu still­ingu fyrir þau öll.

Íslandsbanki gerði 250 fyrirtækjumtilboð um endurskipulagningu fyrir mitt ár 2011.

Um miðjan des­em­ber 2010 var und­ir­ritað sam­komu­lag um „Beinu braut­ina“. Að því stóðu efna­hags- og við­skipta­ráðu­neyt­ið, Við­skipta­ráð Íslands, Félag atvinnu­rek­enda, fjár­mála­ráðu­neyt­ið, Sam­tök atvinnu­lífs­ins og Sam­tök fjár­mála­fyr­ir­tækja. Sam­kvæmt því var gert ráð fyrir að ljúka til­lögu­gerð að end­ur­skipu­lagn­ingu allra fyr­ir­tækja sem myndu falla undir sam­komu­lagið fyrir 1. júní 2011. Auk þess fengu bank­arnir und­an­þágu frá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu til að sam­ræma úrlausnir sínar fyrir þessi fyr­ir­tæki fram að miðju ári 2012.

Fyr­ir­tækin þurftu að upp­fylla nokkur skil­yrði. Þau þurftu að vera líf­væn­leg, áfram­hald­andi rekstur þeirra átti að tryggja best hags­muni kröfu­hafa þeirra, áfram­hald­andi þátt­taka núver­andi eig­enda og/eða lyk­il­stjórn­enda var mik­il­væg fyrir verð­mæti fyr­ir­tæk­is­ins, traust og trún­aður þurfti að ríkja milli hags­muna­að­ila, árs­reikn­ingar síð­ustu tveggja ára þurftu að liggja fyr­ir, ítar­legar sjóð­streym­is­á­ætl­anir einnig og skatt­fram­töl ef eig­endur fyr­ir­tækj­anna voru í sjálf­skuld­ar­á­byrgð­um. Upp­runa­lega var talað um að sex þús­und fyr­ir­tækjum ætti að standa til boða að hljóta þvott í „Beinu braut­inn­i“. Þau urðu þó mun færri þegar til kast­anna kom.

Við­skipta­bank­arnir þrír gerðu öllum þeim fyr­ir­tækjum sem féllu undir sam­komu­lagið til­boð um end­ur­skipu­lagn­ingu fyrir mitt ár 2011, eins og sam­komu­lagið hafði gert ráð fyr­ir. Hjá Arion banka féllu 470 fyr­ir­tæki undir sam­komu­lag­ið, hjá Lands­bank­anum var talið að 355 fyr­ir­tæki gætu nýtt sér til­boðið og hjá Íslands­banka fengu 250 fyr­ir­tæki til­boð. Til við­bótar bætt­ust um 110 fyr­ir­tæki við þegar SpKef var rennt inn í Lands­bank­ann.

Upp­vakn­inga­skýrslan



Í lok mars 2012 gaf Sam­keppn­is­eft­ir­litið út nýja skýrslu um end­ur­reisn fyr­ir­tækja, sem bar nafnið „Afla­klær eða upp­vakn­ing­ar?“ Hún var fram­hald af rann­sókn­inni á end­ur­skipu­lagn­ingu 120 stórra fyr­ir­tækja í land­inu. Þar var farið yfir það hvernig bönk­unum hefði tek­ist að losa sig við fyr­ir­tæki, lagt mat á hvort þeir hefðu beitt réttri aðferð­ar­fræði og áhyggjur af fram­tíð­inni viðr­að­ar.

Fjár­mála­eft­ir­litið birti frétt á heima­síðu sinni 17. nóv­em­ber 2011 með fyr­ir­sögn­inni „Tíma­bundin starf­semi lána­stofn­ana“. Þar kom fram að 132 fyr­ir­tæki í óskyldum rekstri væru í beinni eigu lána­stofn­ana. Sam­kvæmt lögum máttu bankar og aðrar lána­stofn­anir ein­ungis eiga slík fyr­ir­tæki í tólf mán­uði hið mesta án þess að leita eftir und­an­þágu vegna eign­ar­halds­ins. Sam­kvæmt frétt Fjár­mála­eft­ir­lits­ins höfðu 74 fyr­ir­tæki verið lengur í eigu banka en lögin heim­il­uðu. Bank­arnir höfðu sótt um fresti og Fjár­mála­eft­ir­litið und­an­tekn­ing­ar­laust veitt þá. Af þeim fyr­ir­tækjum sem úttekt Fjár­mála­eft­ir­lits­ins tók til áttu bank­arnir 40-100 pró­senta hlut í 2/3 þeirra. Ástæður þess að fyr­ir­tækin voru í höndum banka voru mis­mun­andi. Sum voru í slita­ferli, önnur voru í sölu­með­ferð og enn önnur voru í end­ur­skipu­lagn­ingu vegna þess að þau voru í ekki í sölu­hæfu ástandi. Fjár­mála­eft­ir­litið var ekki til­búið til að upp­lýsa hversu langir frestir voru veittir fyrir hvert félag né hvað félögin hétu sem fengu auk­inn frest vegna þess að „slíkar upp­lýs­ingar eru til þess fallnar að skaða þann markað sem fyr­ir­tækin starfa á“.

Á milli skýrslna Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins hafði því mynd­ast mik­ill þrýst­ingur á bank­anna að losa um fyr­ir­tæki sem þeir höfðu, beint eða óbeint, tang­ar­hald á. Sá þrýst­ingur birt­ist ekki síst í fjöl­miðl­um. Á síð­ari hluta árs­ins 2011 voru bank­arnir komnir með bakið upp að vegg og þurftu nauð­syn­lega að fara að losa um eign­ir. Umræð­an, eft­ir­lits­að­ilar og stjórn­völd kröfð­ust þess.



Sögðu bank­ana vilja hafa fyr­ir­tækin eins skuld­sett og mögu­legt væri

Í Upp­vakn­inga­skýrslu Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins kom fram að sá þrýst­ingur sem settur hafði verið á bank­ana um að losa um eign­ar­hald á fyr­ir­tækjum hefði skilað sér. Rann­sókn eft­ir­lits­ins sýndi að bankar væru ráð­andi í 27 pró­sent af 120 stærstu fyr­ir­tækjum lands­ins í byrjun árs 2012. Á einu ári hafði þeim fækkað um 20.

Í skýrsl­unni var hins vegar lýst yfir þungum áhyggjum af því að fyr­ir­tæki væru að koma of skuld­sett út úr þvotta­vél bank­anna. Skuldir þeirra væru meira að segja enn mjög miklar í alþjóð­legum sam­an­burði. Um þriðj­ungur stjórn­enda þeirra fyr­ir­tækja sem höfðu verið seld eða gengið í gegnum end­ur­skipu­lagn­ingu taldi að þau gætu ekki staðið undir þeirri skulda­byrði sem bank­arnir höfðu skammtað þeim. Marg­vís­leg hætta getur skap­ast af of mik­illi skuld­setn­ingu. Fyr­ir­tæki í þannig aðstöðu geta til að mynda ekki veitt keppi­nautum sínum aðhald né starfað með skil­virkum hætti á mark­aði, að mati Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins.

Bank­arnir vildu hafa fyr­ir­tækin eins skuld­sett og þeir treystu sér til þegar þeir hengdu þau til þerr­is. Hinar miklu skuld­ir, auk bið­lána sem sett voru á herðar sumra fyr­ir­tækj­anna, voru með þeim hætti að bank­arnir voru að veðja á að hér­lendis yrði tölu­verður hag­vöxtur á næstu árum. Ef það gengi ekki eft­ir, sem tölu­verðar líkur eru á, þarf að ráð­ast í aðra alls­herjar­end­ur­skipu­lagn­ingu á fjár­hag fjölda fyr­ir­tækja. Bið­lánin voru veitt til þriggja ára og voru að öllu jöfnu innan við 30 pró­sent af heild­ar­skuld­um. Þau báru afar hag­stæða vexti og inni­falið í þeim var auk­inn afsláttur ef lánin yrðu greidd upp á fyrsta árinu eftir að end­ur­skipu­lagn­ingu væri lok­ið. 

Í loka­skýrslu eft­ir­lits­nefndar um sér­tæka skulda­að­lög­un, sem skilað var inn í maí 2013, kom fram að vís­bend­ingar væru um að eig­endur end­ur­skipu­lagðra fyr­ir­tækja ættu hvorki fé né hefðu aðgang að láns­fjár­magni. Því væri erfitt fyrir þá að end­ur­fjár­magna umrædd lán og halda rekstri fyr­ir­tækj­anna áfram.

Sam­tals fóru 69 félög og fyr­ir­tæki sem voru með skuldir yfir millj­arð króna í gegnum end­ur­skipu­lagn­ingu hjá bönk­un­um. Heild­ar­skuldir þeirra námu 661,3 millj­örðum króna þegar ferlið hófst en 415 millj­arðar af þeim voru afskrif­aðir í ferl­inu, eða sem nemur 63 pró­sentum af heild­inni.



Nefndin skil­aði sinni síð­ustu skýrslu til ráð­herra, Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar, sama dag og hann hætti störf­um, þann 22. maí 2013. Í henni var sér­stak­lega vikið að því hvernig til hefði tek­ist við að end­ur­skipu­leggja fjár­hag fyr­ir­tækja með skuldir yfir millj­arð. Nefndin taldi að í stórum dráttum hefði vel tek­ist til en ýmis­legt reynst erfitt. Til dæmis hefði eft­ir­fylgni bank­anna, þegar kom að sjálf­skulda­á­byrgð­um, verið mis­jöfn. Í skýrslu nefnd­ar­innar sagði orð­rétt: „Greiðslu­getu sjálf­skuld­ar­á­byrgð­ar­að­ila skal meta með sama hætti og greiðslu­getu vegna greiðslu lána, það er með hlið­sjón af tekju­flæði og eigna­stöðu ábyrgð­ar­að­il­ans. Við yfir­ferð á málum þar sem skuldir og/eða nið­ur­færslur skulda voru umfram einn millj­arð króna komu upp all­nokkur til­vik þar sem nefndin taldi ein­sýnt að fjár­mála­fyr­ir­tæki gengju ekki að sjálf­skuld­ar­á­byrgðum með sama hætti og almennt er áskil­ið, það er að segja með því að fella aðeins niður þann hluta sjálf­skuld­ar­á­byrgðar sem væri umfram greiðslu­getu ábyrgð­ar­að­ila. Frá­vikstil­vikin fólust í að greiðslu­mat var ekki gert eða fram­kvæmd þess byggð á ein­hliða upp­lýs­inga­gjöf ábyrgð­ar­að­ila án þess að fjár­mála­fyr­ir­tæki stað­reyndi upp­lýs­ing­arnar með form­legum hætti eða að sjálf­skuld­ar­á­byrgðum var sleppt að fullu án skýr­inga.“



Sér­stak­lega var nefnt í skýrsl­unni að tvö til­vik hefðu komið fram við skoðun þar sem sjálf­skulda­á­byrgðir ein­stak­linga sem stóðu í fyr­ir­tækja­rekstri hefðu verið felldar niður án skoð­unar á eigna­stöðu þeirra eða greiðslu­getu. Líkt og með aðrar upp­lýs­ingar í skýrslum nefnd­ar­innar voru engin nöfn nefnd en bæði til­vikin áttu sér stað í málum þar sem Íslands­banki kom að end­ur­skipu­lagn­ing­unni. Eitt til­vik kom í ljós þar sem not­ast var við lægsta mat á eigna­virði án full­nægj­andi skýr­inga, þótt hærra verð­mat á tveimur eignum hefði legið fyr­ir. Þetta þýddi að eig­in­fjárinn­spýt­ing í fyr­ir­tækið var minni en hún hefði ann­ars verið og til hags­bóta fyrir eig­end­ann. Þá kom nefndin auga á eitt til­vik þar sem mat á verð­mæti fyr­ir­tækis mið­að­ist við til­tekið eig­in­fjár­hlut­fall, en sama við­miðun var ekki notuð í skulda­upp­gjöri, þrátt fyrir að breytt eig­in­fjár­hlut­fall hefði áhrif til breyt­ingar á verð­mati fyrirtæk­is­ins. Í síð­ustu skýrslu sinni rakti nefndin einnig að tölu­vert væri enn í það að end­ur­skipu­lagn­ingu á fjár­hag fyr­ir­tækja væri lok­ið. Meðal ann­ars væru álita­mál varð­andi lög­mæti fjöl­margra lána­samn­inga, einkum þeirra sem voru með geng­is­trygg­ingu eða í erlendri mynt, enn óleyst og því óvissa fyrir hendi.

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á efni sem birt­ist áður í bók­inni Ísland ehf - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar