Mynd: Kjarninn

Hrunið: Þegar bankarnir endurskipulögðu atvinnulífið

Þótt búið væri að endurskipuleggja bankana eftir hrunvar fjöldi annarra vandamála óleystur. Hvaða viðmið átti að hafa við endurskipulagningu fyrirtækja? Átti að vernda þá sem ráku fyrirtæki sín vel fyrir hrun gegn því að samkeppnisaðilar þeirra fengju stórkostlegar afskriftir og yrðu mun betur í stakk búnir að keppa á markaði? Og stóra spurningin snerist auðvitað um það hver ætti að eiga fyrirtækin eftir að þau hefðu verið endurskipulögð.

Sumarið 2011 birti Samkeppniseftirlitið niðurstöður rannsóknar sem það gerði á stöðu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Um var að ræða stærstu fyrirtækin á hverjum markaði fyrir sig. Þar sagði að 68 prósent þessara fyrirtækja hefðu verið undir beinum eða óbeinum yfirráðum banka eftir hrunið. Þá eru meðtalin fyrirtæki sem voru í svo slæmri fjárhagslegri stöðu að þau réðu ekki örlögum sínum sjálf. Hlutfall fyrirtækja sem voru í eigu einstaklinga hafði þá farið úr því að vera 66 prósent í að vera 23 prósent frá árinu 2007.

Á því hámarksári góðærisins voru tvö prósent allra fyrirtækja undir beinum yfirráðum banka. Til viðbótar voru 22 prósent þeirra skilgreind sem undir óbeinni stjórn banka vegna skuldastöðu sinnar. Það er auðvitað einnig mjög hátt hlutfall en sýnir kannski best hversu óeðlileg skuldsetning íslenskra fyrirtækja var á góðærisárunum. Þegar krónan féll árið 2008 fjölgaði þeim síðan mjög hratt.

Sú stefna var mótuð snemma að endurskipuleggja þyrfti eins mörg fyrirtæki og mögulegt væri. Það var ekki í boði að fara harða gjaldþrotaleið sem myndi þýða að mögulega myndu tugþúsundir starfa tapast. Þeirri stefnu hefðu hins vegar fylgt miklar afskriftir af skuldum, sem alltaf yrðu umdeildar. Leiðin var því afar vandasöm út frá réttlætissjónarmiðum. Innan fjármálaráðuneytis Steingríms J. Sigfússonar voru menn meðvitaðir um þessa stöðu.


Auglýsing

Þrátt fyrir að öllum væri ljóst að grípa þyrfti til skjótra aðgerða gerðist nánast ekkert í endurskipulagningu fyrirtækja framan af árinu 2009 annað en að bankarnir stofnuðu eignaumsýslufélög til að taka við þeim eignum sem þeir yrðu að leysa til sín. Fyrsta tilkynningin um yfirtöku félags í eigu banka á fyrirtæki í óskyldum rekstri barst ekki fyrr en um haustið 2009 þegar tilkynnt var að fyrirtækið Teymi rynni inn í dótturfélag Landsbankans. Upphaflega taldi Samkeppniseftirlitið sig ekki geta beitt samrunareglum samkeppnislaga á slíka yfirtöku og því aðhafðist eftirlitið í raun ekkert vegna hennar. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála tók hins vegar annan pól í hæðina og bjó til nýja túlkun á samrunareglunum. Á einföldu máli varð niðurstaða hennar sú að í hefðbundnum skilningi væri samruni Teymis við dótturfélag banka ekki samkeppnishindrandi, enda væri þarna um að ræða tvö fyrirtæki hvort á sínum markaðnum, en vegna þeirrar fordæmalausu stöðu sem komin var upp í íslensku atvinnulífi og hættunni sem samkeppni var skapað til lengri tíma var ákveðið að beita samrunareglunum. Það þýddi að Samkeppniseftirlitið gat sett yfirtöku banka á fyrirtækjum skilyrði.

Þau skilyrði voru síðan birt í mars 2010. Á meðal þeirra voru eftirfarandi skilyrði: Bankarnir þurftu að selja hvert atvinnufyrirtæki sem þeir tóku yfir innan tiltekins tíma sem þó var ekki greint frá opinberlega, tryggja að yfirteknu fyrirtækin störfuðu sem sjálfstæðir keppinautar á markaði, setja átti þeim eðlilegar arðsemiskröfur, bönkunum var bannað að láta yfirtekin fyrirtæki eiga viðskipti við önnur fyrirtæki í þeirra eigu að eigin undirlagi, birta átti uppgjör yfirtekinna fyrirtækja opinberlega og tryggja þurfti ítarlegt og viðvarandi eftirlit innan bankanna með framkvæmd skilyrðanna, ásamt reglulegri skýrslugerð til Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið tók afstöðu með því að lífvænlegum fyrirtækjum yrði skilað aftur út í atvinnulífið í stað þess að fara í þrot. Páll Gunnar Pálsson var og er forstjóri þess.
Mynd: Hringbraut

Samhliða þessu tók Samkeppniseftirlitið mjög eindregna afstöðu með því að tala fyrir mikilli hreingerningu í atvinnulífinu sem myndi skila lífvænlegum fyrirtækjum aftur út í atvinnulífið í stað þess að setja þau í þrot. Þessi afstaða var sambærileg þeirri sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði tekið og þýddi, vitaskuld, stórkostlegar afskriftir skulda.

Mikill þrýstingur hafði myndast um að nýta samkeppnislög til að jafna aðstæður. Það hefði þýtt að eftirlitið ætti að beita sér fyrir því að afskriftir yrðu minnkaðar til að vernda hagsmuni þeirra fyrirtækja sem lifðu efnahagshrunið af. Því var hafnað og sú afstaða rökstudd með því að þannig myndu langtímahagsmunir um virka samkeppni á sem flestum mörkuðum verða settir í forgrunn. Þeir sem höfðu rekið fyrirtæki sín vel og ekki skuldsett þau óhóflega í aðdraganda hrunsins þurftu einfaldlega að bíta í það súra epli að una því að samkeppnisaðilum þeirra yrði haldið á lífi, skuldir þeirra afskrifaðar og samkeppnishæfni þeirra þar með aukin. Hin risastóra tiltekt í íslensku atvinnulífi átti ekki að markast af tilitssemi við keppinauta tæknilega gjaldþrota fyrirtækja, heldur átti að setja langtímahagsmuni neytenda í fyrsta sæti.

Helmingur enn í „þvottavélinni“ 2011

Árið 2011 hafði tekist að minnka þann stabba fyrirtækja sem voru undir yfirráðum banka, en samt var tæplega helmingur allra stærstu fyrirtækja landsins enn inni í „þvottavélinni“. Í júní það ár gaf Samkeppniseftirlitið út skýrsluna „Samkeppnin eftir hrun“. Hún byggði á rannsókn á fjárhagsstöðu og endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Í niðurstöðu hennar segir meðal annars að sterk staða viðskiptabankanna þriggja gerði það að verkum að þeir hefðu „ægivald yfir atvinnulífinu í dag og séu að því leytinu til ígildi viðskiptablokkar, hver í sínu lagi.“

Auglýsing

Til viðbótar við bankana fóru slitastjórnir föllnu bankanna og lífeyrissjóðir landsins hvort með sinn sjö prósenta hlut í þessum stóru fyrirtækjum. Samanlagt réðu því bankar, slitastjórnir og lífeyrissjóðir beint eða óbeint yfir 60 prósent af stærstu fyrirtækjum landsins um mitt ár 2011, tæpum þremur árum eftir hrunið.

Í greiningu Samkeppniseftirlitsins á þessum aðstæðum voru tilgreindur ýmis konar vandi sem orsakaði þær. Einn slíkur var umsýsluvandi. Í honum felst að þeir sem starfa við að leysa úr vandamálum hafa af því miklar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þess vegna myndu hagsmunir þeirra af tekjuöflun og og atvinnuöryggi vega þyngra en hagsmunir samfélagsins af hraðri úrlausn mála. Orðrétt sagði: „Til er orðin ný tímabundin atvinnugrein, endurskipulagning og sala eigna. Hagsmunir starfsmanna hennar af tekjuöflun og atvinnuöryggi vinna gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn. Hræðslan við að taka ákvörðun og gera mistök heldur aftur af mörgum við núverandi aðstæður. Kerfið umbunar ekki þeim sem tekur af skarið“.

Annar vandi sem var sérstaklega tilgreindur sem undirliggjandi var svokallaður eigendavandi. Í honum fólst að kröfuhafar gömlu bankanna hafi haft af því mikla fjárhagslega hagsmuni að fá eins mikið og mögulegt væri út úr kröfum sem stóðu á fyrirtækjunum. Þess vegna hafi þeir látið langtímaviðskiptahagsmuni nýju bankanna, s.s. þá að hafa í viðskiptum lífvænleg fyrirtæki sem gætu staðið undir skuldum sínum, víkja fyrir skammtímagróðasjónarmiði.

Í greinarflokki um málið sem birtist í Fréttablaðinu haustið 2011 voru þessar aðstæður ræddar við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þar sagði hann: „Ályktunin sem við drógum af rannsókn á þessum 120 fyrirtækjum er sú að það væri ekki verið að reka nægilega mörg þeirra með arðsemissjónarmið að leiðarljósi. Við höfum líka áhyggjur af því að bankarnir hafi yfirráð yfir fleiri fyrirtækjum en þeir hafa tilkynnt til okkar og erum að skoða það hvort svo sé. Þegar við fórum að rannsaka þetta þá sló það okkur hversu stór hluti fyrirtækja hefur ekki farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu þótt þau hafi greinilega þurft á því að halda. Það er ekki búið að taka yfir fyrirtækin heldur eru þau rekin áfram á óljósum grundvelli. Í þeim tilvikum er ekki búið að taka nægilega til né taka þær ákvarðanir sem gera fyrirtækjunum kleift að starfa sjálfstætt á samkeppnismarkaði. Við erum því með umhverfi þar sem hætta er á að fyrirtæki séu rekin lifandi dauð. Það er engum til góðs og skapar afleitar samkeppnisaðstæður“.

Beina brautin

Rannsóknir Samkeppniseftirlitsins beindust aðallega að stórum fyrirtækjum sem skulduðu marga milljarða króna. Endurskipulagning þeirra yrði alltaf sértæk. Það var ekki hægt að búa til eina leið sem ætti að duga fyrir alla. Það var hins vegar gert með fyrirtæki sem skulduðu minna en einn milljarð króna. Leiðinni, sem hlaut nafnið „Beina brautin“, var ætlað að flýta fyrir endurskipulagningu og úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja með því að laga skuldir þeirra að greiðslugetu og eignum. Með öðrum orðum átti að setja upp risastóra iðnaðarþvottavél fyrir öll fyrirtæki sem skulduðu undir milljarði króna og stilla á sömu stillingu fyrir þau öll.

Íslandsbanki gerði 250 fyrirtækjumtilboð um endurskipulagningu fyrir mitt ár 2011.

Um miðjan desember 2010 var undirritað samkomulag um „Beinu brautina“. Að því stóðu efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Viðskiptaráð Íslands, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja. Samkvæmt því var gert ráð fyrir að ljúka tillögugerð að endurskipulagningu allra fyrirtækja sem myndu falla undir samkomulagið fyrir 1. júní 2011. Auk þess fengu bankarnir undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að samræma úrlausnir sínar fyrir þessi fyrirtæki fram að miðju ári 2012.

Fyrirtækin þurftu að uppfylla nokkur skilyrði. Þau þurftu að vera lífvænleg, áframhaldandi rekstur þeirra átti að tryggja best hagsmuni kröfuhafa þeirra, áframhaldandi þátttaka núverandi eigenda og/eða lykilstjórnenda var mikilvæg fyrir verðmæti fyrirtækisins, traust og trúnaður þurfti að ríkja milli hagsmunaaðila, ársreikningar síðustu tveggja ára þurftu að liggja fyrir, ítarlegar sjóðstreymisáætlanir einnig og skattframtöl ef eigendur fyrirtækjanna voru í sjálfskuldarábyrgðum. Upprunalega var talað um að sex þúsund fyrirtækjum ætti að standa til boða að hljóta þvott í „Beinu brautinni“. Þau urðu þó mun færri þegar til kastanna kom.

Viðskiptabankarnir þrír gerðu öllum þeim fyrirtækjum sem féllu undir samkomulagið tilboð um endurskipulagningu fyrir mitt ár 2011, eins og samkomulagið hafði gert ráð fyrir. Hjá Arion banka féllu 470 fyrirtæki undir samkomulagið, hjá Landsbankanum var talið að 355 fyrirtæki gætu nýtt sér tilboðið og hjá Íslandsbanka fengu 250 fyrirtæki tilboð. Til viðbótar bættust um 110 fyrirtæki við þegar SpKef var rennt inn í Landsbankann.

Uppvakningaskýrslan


Í lok mars 2012 gaf Samkeppniseftirlitið út nýja skýrslu um endurreisn fyrirtækja, sem bar nafnið „Aflaklær eða uppvakningar?“ Hún var framhald af rannsókninni á endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja í landinu. Þar var farið yfir það hvernig bönkunum hefði tekist að losa sig við fyrirtæki, lagt mat á hvort þeir hefðu beitt réttri aðferðarfræði og áhyggjur af framtíðinni viðraðar.

Fjármálaeftirlitið birti frétt á heimasíðu sinni 17. nóvember 2011 með fyrirsögninni „Tímabundin starfsemi lánastofnana“. Þar kom fram að 132 fyrirtæki í óskyldum rekstri væru í beinni eigu lánastofnana. Samkvæmt lögum máttu bankar og aðrar lánastofnanir einungis eiga slík fyrirtæki í tólf mánuði hið mesta án þess að leita eftir undanþágu vegna eignarhaldsins. Samkvæmt frétt Fjármálaeftirlitsins höfðu 74 fyrirtæki verið lengur í eigu banka en lögin heimiluðu. Bankarnir höfðu sótt um fresti og Fjármálaeftirlitið undantekningarlaust veitt þá. Af þeim fyrirtækjum sem úttekt Fjármálaeftirlitsins tók til áttu bankarnir 40-100 prósenta hlut í 2/3 þeirra. Ástæður þess að fyrirtækin voru í höndum banka voru mismunandi. Sum voru í slitaferli, önnur voru í sölumeðferð og enn önnur voru í endurskipulagningu vegna þess að þau voru í ekki í söluhæfu ástandi. Fjármálaeftirlitið var ekki tilbúið til að upplýsa hversu langir frestir voru veittir fyrir hvert félag né hvað félögin hétu sem fengu aukinn frest vegna þess að „slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að skaða þann markað sem fyrirtækin starfa á“.

Auglýsing

Á milli skýrslna Samkeppniseftirlitsins hafði því myndast mikill þrýstingur á bankanna að losa um fyrirtæki sem þeir höfðu, beint eða óbeint, tangarhald á. Sá þrýstingur birtist ekki síst í fjölmiðlum. Á síðari hluta ársins 2011 voru bankarnir komnir með bakið upp að vegg og þurftu nauðsynlega að fara að losa um eignir. Umræðan, eftirlitsaðilar og stjórnvöld kröfðust þess.


Sögðu bankana vilja hafa fyrirtækin eins skuldsett og mögulegt væri

Í Uppvakningaskýrslu Samkeppniseftirlitsins kom fram að sá þrýstingur sem settur hafði verið á bankana um að losa um eignarhald á fyrirtækjum hefði skilað sér. Rannsókn eftirlitsins sýndi að bankar væru ráðandi í 27 prósent af 120 stærstu fyrirtækjum landsins í byrjun árs 2012. Á einu ári hafði þeim fækkað um 20.

Í skýrslunni var hins vegar lýst yfir þungum áhyggjum af því að fyrirtæki væru að koma of skuldsett út úr þvottavél bankanna. Skuldir þeirra væru meira að segja enn mjög miklar í alþjóðlegum samanburði. Um þriðjungur stjórnenda þeirra fyrirtækja sem höfðu verið seld eða gengið í gegnum endurskipulagningu taldi að þau gætu ekki staðið undir þeirri skuldabyrði sem bankarnir höfðu skammtað þeim. Margvísleg hætta getur skapast af of mikilli skuldsetningu. Fyrirtæki í þannig aðstöðu geta til að mynda ekki veitt keppinautum sínum aðhald né starfað með skilvirkum hætti á markaði, að mati Samkeppniseftirlitsins.

Bankarnir vildu hafa fyrirtækin eins skuldsett og þeir treystu sér til þegar þeir hengdu þau til þerris. Hinar miklu skuldir, auk biðlána sem sett voru á herðar sumra fyrirtækjanna, voru með þeim hætti að bankarnir voru að veðja á að hérlendis yrði töluverður hagvöxtur á næstu árum. Ef það gengi ekki eftir, sem töluverðar líkur eru á, þarf að ráðast í aðra allsherjarendurskipulagningu á fjárhag fjölda fyrirtækja. Biðlánin voru veitt til þriggja ára og voru að öllu jöfnu innan við 30 prósent af heildarskuldum. Þau báru afar hagstæða vexti og innifalið í þeim var aukinn afsláttur ef lánin yrðu greidd upp á fyrsta árinu eftir að endurskipulagningu væri lokið. 

Í lokaskýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun, sem skilað var inn í maí 2013, kom fram að vísbendingar væru um að eigendur endurskipulagðra fyrirtækja ættu hvorki fé né hefðu aðgang að lánsfjármagni. Því væri erfitt fyrir þá að endurfjármagna umrædd lán og halda rekstri fyrirtækjanna áfram.

Auglýsing

Samtals fóru 69 félög og fyrirtæki sem voru með skuldir yfir milljarð króna í gegnum endurskipulagningu hjá bönkunum. Heildarskuldir þeirra námu 661,3 milljörðum króna þegar ferlið hófst en 415 milljarðar af þeim voru afskrifaðir í ferlinu, eða sem nemur 63 prósentum af heildinni.

Nefndin skilaði sinni síðustu skýrslu til ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sama dag og hann hætti störfum, þann 22. maí 2013. Í henni var sérstaklega vikið að því hvernig til hefði tekist við að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækja með skuldir yfir milljarð. Nefndin taldi að í stórum dráttum hefði vel tekist til en ýmislegt reynst erfitt. Til dæmis hefði eftirfylgni bankanna, þegar kom að sjálfskuldaábyrgðum, verið misjöfn. Í skýrslu nefndarinnar sagði orðrétt: „Greiðslugetu sjálfskuldarábyrgðaraðila skal meta með sama hætti og greiðslugetu vegna greiðslu lána, það er með hliðsjón af tekjuflæði og eignastöðu ábyrgðaraðilans. Við yfirferð á málum þar sem skuldir og/eða niðurfærslur skulda voru umfram einn milljarð króna komu upp allnokkur tilvik þar sem nefndin taldi einsýnt að fjármálafyrirtæki gengju ekki að sjálfskuldarábyrgðum með sama hætti og almennt er áskilið, það er að segja með því að fella aðeins niður þann hluta sjálfskuldarábyrgðar sem væri umfram greiðslugetu ábyrgðaraðila. Frávikstilvikin fólust í að greiðslumat var ekki gert eða framkvæmd þess byggð á einhliða upplýsingagjöf ábyrgðaraðila án þess að fjármálafyrirtæki staðreyndi upplýsingarnar með formlegum hætti eða að sjálfskuldarábyrgðum var sleppt að fullu án skýringa.“

Sérstaklega var nefnt í skýrslunni að tvö tilvik hefðu komið fram við skoðun þar sem sjálfskuldaábyrgðir einstaklinga sem stóðu í fyrirtækjarekstri hefðu verið felldar niður án skoðunar á eignastöðu þeirra eða greiðslugetu. Líkt og með aðrar upplýsingar í skýrslum nefndarinnar voru engin nöfn nefnd en bæði tilvikin áttu sér stað í málum þar sem Íslandsbanki kom að endurskipulagningunni. Eitt tilvik kom í ljós þar sem notast var við lægsta mat á eignavirði án fullnægjandi skýringa, þótt hærra verðmat á tveimur eignum hefði legið fyrir. Þetta þýddi að eiginfjárinnspýting í fyrirtækið var minni en hún hefði annars verið og til hagsbóta fyrir eigendann. Þá kom nefndin auga á eitt tilvik þar sem mat á verðmæti fyrirtækis miðaðist við tiltekið eiginfjárhlutfall, en sama viðmiðun var ekki notuð í skuldauppgjöri, þrátt fyrir að breytt eiginfjárhlutfall hefði áhrif til breytingar á verðmati fyrirtækisins. Í síðustu skýrslu sinni rakti nefndin einnig að töluvert væri enn í það að endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækja væri lokið. Meðal annars væru álitamál varðandi lögmæti fjölmargra lánasamninga, einkum þeirra sem voru með gengistryggingu eða í erlendri mynt, enn óleyst og því óvissa fyrir hendi.

Fréttaskýringin byggir að hluta til á efni sem birtist áður í bókinni Ísland ehf - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson.

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar