Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hrunið: Lagt til að ríkið keypti öll þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki í vanda

Rúmlega ⅔ hlutar íslensks atvinnulífs þurfti á endurskipulagninu að halda eftir bankahrunið. Ýmsar hugmyndir voru uppi um hvernig ætti að fara að því.

Íslenska efnahagskerfið er ekki fyrsta ríkið sem farið hefur á hliðina, þótt það hafi líklega gert það með meiri stæl og umfangi miðað við höfðatölu en nokkurt annað ríki. Þegar hið risastóra verkefni að endurskipuleggja hagkerfið lá fyrir var því hægt að horfa á reynslu og árangur ýmissa annarra ríkja til að finna uppskriftir að velgengni eða víti til varnaðar.

Margir sérfræðingar litu til Norðurlandaþjóðanna, einkum Finna og Svía, og hvernig þær höfðu brugðist við sinni bankakreppu snemma á tíunda áratugnum.

Vítið til varnaðar sem oftast er notað er Japan, þar sem mikil bankakreppa geisaði í upphafi tíunda áratugarins. Sá áratugur er iðulega kallaður „týndi áratugurinn“ þar í landi. Ástæðan er sú að bankar lokuðu ekki á fyrirtæki sem voru í vanskilum né endurskipulögðu þau heldur lengdu einfaldlega í lánunum og veittu ný. Þau fyrirtæki sem svo var ástatt um eru kölluð „uppvakningar“ (e. zombie firms).

Um tíma, framan af árinu 2009, bjóst ríkisstjórnin við því að fá fleiri fyrirtæki í fangið. Þess vegna var meðal annars undirbúin stofnun svokallaðs eignaumsýslufélags ríkisins, sem átti að geta tekið við slíkum fyrirtækjum. Ljóst var að nokkur þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki myndu ekki fá að fara á vonarvöl af neinu tagi. Á meðal fyrirtækja sem skilgreind voru sem slík voru flutningsfyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki. Efst á þeim lista var Icelandair. Það hefði aldrei komið til greina að láta það fyrirtæki lenda í vandræðum vegna mikilvægis þess fyrir flutninga á fólki og vörum til og frá landinu. Ríkisstjórnin hafði gert sér vonir um að ferðaþjónusta gæti orðið ein af vaxtagreinunum eftir hrun sem myndi hjálpa til við efnahagsbatann. Aukning innan hennar var ómöguleg án Icelandair.

Auglýsing

Önnur fyrirtæki sem raunverulega var rætt um að ríkið myndi taka yfir var Míla. Ríkið átti þá þegar Landsnet og þurfti síðar að setja mikið fé í Farice, sem rekur sæstrengi til landsins. Hugmyndin var þá að setja Mílu, sem er félag utan um grunnfjarskiptanetið, ásamt Landsneti og Farice inn í eitt stórt og öflugt flutnings- og fjarskiptafélag í eigu ríkisins.

Hugmyndin um opinbert eignaumsýslufélag er oftast kennd við Svíann Mats Josefsson. Hann kom hingað til lands fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hafði áratuga reynslu af endurskipulagningarstörfum, meðal annars í bankakreppunni í Svíþjóð eftir árið 1990. Josefsson setti strax fram ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að endurreisa atvinnulífið eftir hrunið. Það skyldi gert á grundvelli þess að vernda samkeppni annars vegar og síðan þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki hins vegar. Josefsson lagði til að öll þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki sem stæðu höllum fæti yrðu sett í sérstakt eignaumsýslufélag í opinberri eigu, í það minnsta fyrst um sinn. Með þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum var átt við rekstur sem hagkerfið þurfti nauðsynlega á að halda, svo sem rekstur á sviði skipaflutninga, flugsamgangna og fjarskipta.

Josefsson kynnti þessar hugmyndir í umboði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og taldi að þær væru best til þess fallnar að endurheimta traust, fljótt og vel. Hann var formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, sem ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komu sér saman um að skipa, og hafði það meginmarkmið að samræma aðgerðir stjórnvalda, eftirlitsstofnana og bankanna við þá vinnu fyrstu mánuðina eftir að nýtt bankakerfi varð til í kjölfar neyðarlaganna.
Nýir bankar voru endurreistir á grunni hinna gömlu. Þeir fengu stór hlutverk í endurskipulagningunni. Einn þeirra var nýi Kaupþing en nafni hans var síðar breytt í Arion banki.
Mynd: Birgir Þór Harðarson
Strax var ljóst að mikil andstaða var til staðar innan endurreistu bankanna og hagsmunasamtaka atvinnulífsins, sérstaklega Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, við þær hugmyndir sem Josefsson boðaði. Andstaðan var einkum gagnvart hugmyndinni um stofnun eignaumsýslufélags á vegum ríkisins. Margir óttuðust pólitíska spillingu við stjórn félagsins og einnig að arðsemissjónarmið fengju ekki að ráða för í rekstri, þ.e. að pólitísk stefna yrði að einhverju leyti ráðandi við ákvarðanatöku innan fyrirtækjanna sem yrðu í félaginu. Horft var til ýmissa fyrirtækja sem gætu farið inn í þetta félag, svo sem Eimskips, Icelandair Group og Skipta, móðurfélags Símans.

Andstaðan við hugmyndir Josefsson magnaðist eftir því sem leið á endurreisnarstarfið og varð brátt hávær innan stjórnarflokkanna. Þar var komin upp óánægja með störf Josefsson í upphafi árs 2009 þegar nefndin sem hann stýrði hafði aðeins starfað í nokkra mánuði.

Í maímánuði það ár dró til tíðinda. Þá snöggreiddist Josefsson á fundi með stjórnvöldum og hótaði að hætta störfum þegar í stað. Morgunblaðið greindi frá þessu á forsíðu 25. maí 2009. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra staðfesti í umræðum á þinginu samdægurs að Josefsson hefði hótað að hætta. Ástæðan fyrir reiðikasti Josefsson og hótunum hans í kjölfarið var að hann taldi endurreisn bankanna ekki ganga nógu hratt. Var hann sérstaklega pirraður yfir því að bankarnir væru ekki að leggja nógu mikið af mörkum við að greina eignasöfn sín og taka á vanda fyrirtækjanna. Innan endurreistu bankanna horfðu málin öðruvísi við og var þeim sjónarmiðum margsinnis komið skýrt á framfæri að hugmyndir Josefsson væru á skjön við það sem stjórnendur og starfsfólk bankanna teldu réttast. Þeim hugnaðist ekki stofnun eignaumsýslufélagsins og töldu skynsamlegast að vandi fyrirtækja, einnig þeirra sem væru þjóðhagslega mikilvæg, yrði fyrst og fremst í höndum bankanna og hann yrði leystur sértækt en samt á grundvelli almennra laga og reglna.

Auglýsing

Eygló Harðardóttir, þáverandi þingkona Framsóknarflokksins, spurði forsætisráðherra sérstaklega út í það hvers vegna Mats Josefsson hefði hótað að hætta störfum og hvaða skilyrði hann hefði sett fyrir áframhaldandi störfum fyrir stjórnvöld.
Fyrirspurn Eyglóar var svohljóðandi:

Hvaða skilyrði setti Mats Josefsson fyrir áframhaldandi starfi í samræmingarnefnd um endurreisn bankakerfisins þegar hann hótaði að hætta sem formaður nefndarinnar vegna megnrar óánægju með hægagang við endurskipulagningu bankanna?

Í svari Jóhönnu við fyrirspurninni sagði að Josefsson hefði komið þeirri skoðun sinni „skýrt á framfæri“ við stjórnvöld að endurreisn bankakerfisins hefði verið tímafrekari en að hefði verið stefnt.

„Frá lokum ársins 2008 hefur verið starfandi svonefnd samræmingarnefnd í bankamálum sem Mats Josefsson hefur stýrt og hefur sú nefnd haldið vikulega fundi. Í þessari nefnd hafa setið auk Mats fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Í síðasta mánuði var ákveðið í fullu samráði við Mats Josefsson að breyta fyrirkomulagi þessara mála á þann hátt að í stað samræmingarnefndarinnar yrði sett á laggirnar tímabundinn stýrihópur um endurreisn bankakerfisins. Megintilgangur þessarar breytingar er að styrkja framkvæmd endurreisnarstarfsins enn frekar nú þegar nær dregur þeim tímapunkti að ríkið leggi nýju bönkunum til nýtt eigið fé þegar samningum við kröfuhafa gömlu bankanna lýkur. Stýrihópurinn hefur fundað mjög ört og að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku. Í stýrihópnum sitja, auk Mats Josefssonar, seðlabankastjóri, sem stýrir starfi nefndarinnar, fulltrúi forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis auk aðstoðarmanna forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherra.
Eygló Harðardóttir spurði út í afstöðu Mats Josefssonar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Mats Josefsson hefur því ekki sett nein skilyrði fyrir áframhaldandi starfi en hann hefur komið þeirri skoðun sinni skýrt á framfæri við stjórnvöld að það fyrirkomulag sem upphaflega var sett upp varðandi enduruppbyggingarstarfið í bankamálum hafi ekki verið eins skilvirkt og stefnt var að. Með nýju fyrirkomulagi í þessum málum er brugðist við þessum ábendingum Mats Josefssonar,“ sagði í svari forsætisráðherra.

Eftir því sem leið á vinnuna við endurskipulagningu bankakerfisins og stærstu fyrirtækjanna var ljóst að Mats Josefsson var ekki að ráða för og inntakið í hans hugmyndum fékk ekki hljómgrunn hjá stjórnvöldum eða innan endurreistu bankanna. Á fundum sem hann sat með embættismönnum og starfsfólki úr bönkunum kom margsinnis fram í hans máli að hann hefði litla trú á íslensku fagfólki og helst vildi hann fá erlenda ráðgjafa hingað til landsins til að stýra eignaumsýslufélaginu. Aðeins þannig væri hægt að tryggja faglega stjórn yfir hinum þjóðhagslega mikilvægu fyrirtækjum.

Virkjun eignaumsýslufélagsins reyndist óþörf eftir að bankarnir voru orðnir starfhæfir. Þá gátu þeir sjálfir tekið á vandræðum atvinnulífsins. Það er hins vegar ljóst að hugmyndin um eignaumsýslufélag ríkisins, sem hefði fært eignarhald margra fyrirtækja til hins opinbera, var hótun sem virkaði ágætlega gagnvart bönkunum. Hún var hvati til að drífa þá af stað. Josefsson hætti störfum árið 2011. Hugmyndir hans fengu aldrei neitt brautargengi hjá íslenskum stjórnvöldum.

Fréttaskýringin byggir að hluta til á efni sem birtist áður í bókinni Ísland ehf - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson.

Í upphafi árs 2020

Við á Kjarnanum göngum bjartsýn og einbeitt inn í nýtt ár og þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar