Þekktur íslenskur rithöfundur sem fyrir nokkrum áratugum fór til New York undraðist hávaðann í borginni. Vissi þó ekki almennilega hvaðan hann kom, lýsti honum í blaðaviðtali sem einhvers konar hvin, eða þyt. Sagði að sér hefði verið sagt að þetta væri nútíminn í stórborgum ,,Mér þótti þetta hvimleitt“ sagði rithöfundurinn ,,ekki vanur þessu að heiman“. Á heimleiðinni kom hann við í Kaupmannahöfn ,,þar var líka hávaði en þó minni en í New York.“
Í dag er hávaðinn ekki ( og var ekki heldur í þá daga) bundinn við New York og Kaupmannahöfn. Hann hefur hinsvegar aukist og er hreint ekki bundinn við stórborgir. Þá lýsingu rithöfundarins að hávaðinn sé hvimleiður geta margir tekið undir. En honum fylgir fleira.
Hvað köllum við hávaða?
Hávaðinn í samfélaginu er tiltölulega nýtilkominn. Áður fyrr var það einkum veðrið sem heyrðist í, að minnsta kosti á norðlægari slóðum. Íslendingar þekkja orðið hávaðarok, þar er þó fremur lýsing á hvassviðri en beinum hávaða ,,það hvín og syngur“ segir fólk. Þótt rigning bylji á þökum og götum, og lemji á gluggum, talar enginn um hávaða, þótt hann sé umtalsverður. Það heitir úrhelli eða hellirigning ,,eins og hellt úr fötu“ er dæmigerð lýsing á rigningunni. Slæmu veðri er lýst sem brjáluðu jafnvel snarbrjáluðu eða kolbrjáluðu, vitlausu, bandvitlausu eða snælduvitlausu, aldrei sem hávaða. Hávaði er sem sé eitthvað annað en veðrið.
Hvað veldur þessum hávaða?
Danska útvarpið, DR, hefur undanfarið, í tengslum við skýrsluna, fjallað talsvert um hávaða. Hvað valdi honum og hvaða áhrif hann hafi, fyrir utan að ,,vera hvimleiður“ eins og íslenski rithöfundurinn orðaði það. Fréttamenn DR spurðu stóran hóp fólks hvort hávaði ylli óþægindum. Nær allir svöruðu játandi. ,,Hvernig óþægindum“ var spurt, hægt var að nefna fleira en eitt. Svörin voru mismunandi. Margir sögðu hávaða ,,að utan“ valda svefnleysi, aðrir sögðu hávaða í verslunum óþægilegan, tónlist hjá nágrönnum var líka nefnd, skrölt í járnbrautarlestum, dynur frá flugvélum, og ýmislegt fleira. Eitt atriði skar sig úr og allir nefndu: hávaða frá bílaumferð. Þessi svör komu fréttamönnum DR ekki á óvart. Þau voru nefnilega í sama dúr og í mörgum öðrum löndum þar sem samskonar kannanir hafa verið gerðar. Bílaumferð er helsti, og mesti, hávaðavaldurinn.
Hvers vegna er þessi hávaði frá bílunum?
Þar kemur fleira en eitt til. Bílum hefur á allra síðustu árum fjölgað gríðarlega og í mörgum borgum ríkir sannkallað umferðaröngþveiti. Götur anna ekki síaukinni umferð, sem jafnframt verður sífellt hraðari. Víða eru margra hæða hús meðfram tiltölulega þröngum, en miklum, umferðargötum. Hávaðinn frá bílunum kastast, ef svo má að orði komast, milli húsanna. Íbúarnir mega búa við þennan hávaða allan liðlangan daginn og jafnvel líka á nóttunni. Um árabil hafa verið gerðar tilraunir með margs konar slitlag, yfirleitt malbik, á götum í því skyni að draga úr hávaðanum. Í þeim efnum hefur mikið áunnist en dugir ekki til. En hvað með rafmagnsbílana sem nú fjölgar ört, heyrist ekki miklu minna í þeim? Vélar rafmagnsbíla eru hljóðlátari en hávaðinn frá umferðinni stafar ekki nema að litlu leyti frá bílvélunum, það er fyrst og fremst hljóðið frá malbikinu og dekkjunum sem kallar fram ,,veghljóðið“.
Heilsuspillandi
Skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem nefnd var í upphafi pistilsins, er byggð á áralöngum rannsóknum fjölmargra sérfræðinga í mörgum Evrópulöndum. Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri Evrópudeildar stofnunarinnar, sagði þegar skýrslan var kynnt, að hávaðamengun sé alvarlegt vandamál í Evrópu. Ekki einungis óþægindavandamál, heldur einnig, og það sé mun alvarlegra, heilbrigðisvandamál. Göran Pershagen prófessor við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, og einn skýrsluhöfunda, sagði í viðtali við DR að niðurstöðurnar sem þar birtust séu alvarleg áminning til stjórnvalda í löndum Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að hávaði veldur, og ýtir undir, margs konar sjúkdóma. Tíðni hjartasjúkdóma er mun hærri hjá þeim sem búa við hávaðamengun, langtum fleiri glíma við háan blóðþrýsting, sykursýki og stress, svo fátt eitt sé nefnt.
Hávaðamörk
Í flestum löndum gilda ákveðnar reglur varðandi hávaða frá umferð, oft kallaðar hávaðamörk. Þessar reglur eru mismunandi eftir löndum, og landsvæðum. Danir, og margar aðrar þjóðir hafa lengi miðað við 58 decibel (mælt með sérstökum aðferðum) sem hámark í íbúðahverfum. Höfundar skýrslunnar mæla með að miðað verði við 53 decibel, en stofnunin hefur ekki áður gefið út slíkar leiðbeiningar.
Fimmti hver Dani í áhættuhópi vegna hávaða
Ráðgjafarstofan Rambøll hefur undanfarið unnið að hávaðamælingum í borgum og bæjum í Danmörku. Allan Jensen sem stjórnað hefur verkefninu sagði í viðtali við DR að niðurstöðurnar séu mjög alvarlegar. Rúmlega ein milljón Dana búi við hávaða sem er yfir 58 decibelum, langtum fleiri en áður var talið. Allan Jensen sagði ennfremur að víða, til dæmis í Kaupmannahöfn, væri landrými af skornum skammti og það hefði í för með sér að byggt væri mjög nálægt umferðargötum. ,,Þetta er mjög alvarlegt mál, sem ekki er bundið við Danmörku. Stjórnvöld verða að bregðast við.“
Jakob Ellemann Jensen umhverfismálaráðherra Danmerkur sagði í viðtali við DR að Danska Umhverfisstofnunin væri að yfirfara skýrsluna frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og beðið væri eftir Rambøll skýrslunni. Meira gæti hann ekki sagt að svo stöddu.