Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis dróst saman milli áranna 2016 og 2017. Hún var 570,6 milljarðar króna í lok síðasta árs en 683,5 milljarðar króna árið áður. Þetta kemur fram í nýlegum hagtölum frá Seðlabanka Íslands. Umtalsverð styrking krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum í fyrra skiptir þar mestu.
Mestar eru uppgefnar fjármunaeignir Íslendinga í Hollandi, en þar eiga innlendir aðilar alls 320 milljarða króna. Uppgefnar eignir landsmanna á þekktum aflandseyjum hafa dregist mikið saman á undanförnum árum. Þannig er fjármunaeign innlendra aðila á Bresku Jómfrúareyjunum, sem inniheldur með annars Tortóla, sögð vera 20 milljónir króna í tölum Seðlabanka Íslands. Í árslok 2015 voru 32 milljarðar króna í eigu Íslendinga sagðir vera vistaðir í eyjaklasanum.
Sá hluti fjármuna Íslendinga erlendis sem eru óflokkaðir helmingast milli ára. Rúmlega 75 milljarðar króna féllu í þann flokk árið 2016 en einungis 35 milljarðar króna í lok árs í fyrra.
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur. Sá hluti fjármuna Íslendinga erlendis sem falla í flokkinn „óflokkað“ helmingast milli ára. Rúmlega 75 milljarðar króna féllu í þann flokk árið 2016 en einungis 35 milljarðar króna í lok árs í fyrra.
Íslendingar eiga mikið af földum eignum
Erlend fjármunaeign Íslendinga var mjög í kastljósi heimsins vorið 2016 í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem gerður var opinber í apríl 2016. Í þeim kom fram að um 600 Íslendingar tengist um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins.
Skattrannsóknarstjóri hefur þegar lokið rannsókn í að minnsta kosti 89 málum sem tengdust Panamaskjölunum. Um miðjan júlí síðastliðinn voru enn 14 mál í rannsókn. Alls voru vantaldir undandregnir skattstofnar taldir nema um 15 milljörðum króna.
Í 18 málum hefur skattrannsóknarstjóri farið fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd og einu máli hefur verið lokið með sektargerð. Í níu málum hefur ákvörðun verið tekin um að fella niður refsimeðferð. Til viðbótar lá fyrir ákvörðun í júlí um að vísa einu máli til héraðssaksóknara og þremur til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar.