Búist má við því að þeim sem flytja til Íslands umfram þá sem flytja á brott verði 20.883 talsins frá byrjun árs 2018 og til loka árs 2022, samkvæmt miðspá Hagstofu Íslands um þróun mannfjöldans á Íslandi næstu árin. Láspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir að aðfluttum fjölgi um 12.252 en háspáin 29.323 á þessu fimm ára tímabili.
Hinir aðfluttu verða fyrst og fremst erlendir innflytjendur samkvæmt spánni og fleiri íslenskir ríkisborgarar munu áfram flytja frá landinu en til þess. Í byrjun árs 2018 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu hérlendis 37.950 talsins. Láspáin gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 32,3 prósent, miðspáin gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 64,5 prósent fram til loka árs 2022 og háspáin gerir ráð fyrir því að þeim fjölgað um 77,2 prósent.
Því má búast við að í lok árs 2022 verði erlendir innflytjendur hérlendis 58.833 til 67.273 talsins hið minnsta ef annað hvort mið- eða háspá Hagstofunnar verða að veruleika. Það myndi þýða að erlendir ríkisborgarar yrðu 15,6 til 17,4 prósent allra íbúa landsins. Um síðustu áramót voru þeir 10,9 prósent þeirra.
Spáin gerir ráð fyrir tímabundnum viðsnúningi eftir 2022
Mannfjöldaspáin gerir þó ráð fyrir því að eftir árið 2022 muni þróunin snúast við og fleiri muni flytja burt en til landsins. Í segir: „Til að ná...jafnvægisástandi þarf þó að gera ráð fyrir að hinn mikli fjöldi aðfluttra hverfi aftur til baka eftir skammtímaspána eins og reyndin hefur verið undanfarna áratugi. Þetta er gert með því að hafa fimm ára tímabil milli skammtíma- og langtímaspárinnar þar sem brottflutningur þeirra sem spáð er að komi til landsins á næstu fimm árum er áætlaður út frá meðallengd dvalar útlendinga á Íslandi undanfarin 20 ár.“
Þróun á fjölda erlendra ríkisborgara sem hingað flytja, og þeirra sem ákveða að dvelja áfram, er bundin við gang efnahagsmála. Ef vöxtur er í íslensku samfélagi, og sérstaklega mannaflsfrekum geirum á borð við ferðaþjónustu og byggingaiðnað, þá mun fjöldi þeirra sem flytja hingað líkast til ekki dragast saman á tímabilinu líkt og spáin gerir ráð fyrir, heldur halda áfram að aukast. Að sama skapi gæti aðfluttum erlendum ríkisborgurum fækkað hratt á komandi árum ef hörð lending verður í efnahagsmálum.
Mikil fjölgun á skömmum tíma
Öll fjölgun landsmanna á fyrri hluta ársins 2018, og vel rúmlega það, má rekja til þess að erlendir ríkisborgara fluttu hingað til lands. Mannfjöldaspáin fyrir árið 2018 tekur mið af þeirri miklu aukningu.
Í lok júní síðastliðins voru erlendir ríkisborgarar sem hér búa orðnir 41.280 talsins og hafði fjölgað um 3.328 frá áramótum, eða um 8,7 prósent.
Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 2.360 á tímabilinu og því ljóst að landsmönnum hefði fækkað ef ekki hefði verið fyrir aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ. Fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum.