Gengi krónunnar gagnvart helstu erlendu myntum hefur veikst hratt á undanförnum sex mánuðum sérstaklega.
Þannig hefur verðið á Bandaríkjadal farið úr tæplega 100 krónum í tæplega 119 á skömmum tíma, og verðið á evru úr tæplega 119 krónum í 136 krónur.
Gripið inn í
Inngripið á markaðinn í dag kom eftir að gengi krónunnar veiktist skarpt en þetta er í annað skiptið sem Seðlabanki Íslands grípur inn í viðskipti á síðustu tveimur mánuðum, með það að sjónarmiði að vinna gegn veikingu krónunnar.
Hinn 11. september nam inngripið 1,2 milljarði króna. Gengi krónunnar hélt þó áfram að veikjast og hefur frá þeimt tíma veikst um 5 til 6 prósent.
En af hverju er seðlabankinn að eyða peningum skattgreiðenda í þessi inngrip ef þróunin er eins og hún hefur verið? Stefna seðlabankans miðar fyrst og fremst að því að draga úr of miklum sveiflum, þannig að það magnist ekki upp vandi vegna þessar sveiflna.
Hins vegar má vel velta fyrir sér, hvort inngripastefnan sé nægilega gagnsæ, því ekki verður séð að þessi inngrip á markaði, hvorki í síðasta mánuði né núna, breyti miklu um þá þróun sem er að eiga sér stað á markaðnum.
Í báðum tilfellum veiktist krónan um lítið eitt umfram 2 prósent innan dags, þegar inngripið átti sér stað, svo mögulega er það viðmið hjá bankanum.
Ekki hafa verið birtar upplýsingar um umfang viðskiptanna í dag, en það verður gert á vef seðlabankans í samræmi við birtingaráætlun bankans.
Að mati margra viðmælenda Kjarnans eru inngrip seðlabankans ekki trúverðug í því árferði sem nú er uppi, þar sem gengi krónunnar er að veikjast og verðbólguþrýstingur aukist einnig. Raungengi krónunnar hefur auk þess verið með sterkasta móti í töluvert langan tíma. Að því leytinu til er að eðlilegt að krónan veikist. Ekki má heldur gleyma því að útflutningshlið hagkerfisins hagnast á veikingunni, þar á meðal sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan.
Vextir að hækka?
Annað sem margir velta nú fyrir sér er hvort það sé óhjákvæmilegt að vextir fari nú hækkandi, en meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 4,25 prósent og verðbólga mælist 2,7 prósent. Hagfræðideild Landsbanka Íslands spáir því að verðbólga muni fara upp í 3,6 prósent strax í desember.
Meðal ástæðna fyrir auknum verðbólguþrýstingi er skörp hækkun olíuverðs, en heimsmarkaðsverð hefur hækkað um 45 prósent á fjórum mánuðum.
Samt eru blikur á lofti með olíuverðið, en það lækkaði til að mynda nokkuð mikið í dag, eða um rúmlega 4 prósent og er tunnan af hráolíu nú komin í um 70 Bandaríkjadali.
Ein ástæðan fyrir því að olíuverð hefur lækkað lítið eitt undanfarna daga er sögð sú að væntingar eru nú um að Sádí-Arabía auki framleiðslu, og vinni þannig að því að auka framboð sem leiðir svo til verðlækkunar.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum - með Donald Trump forseta í broddi fylkingar - hafa ekki síst kallað eftir þessu, til að vinna gegn aukinni verðbólgu og hækkandi vöxtum heima fyrir. Vaxtastig í heiminum hefur farið hækkandi að undanförnu, og fátt bendir til annars en að sú þróun haldi áfram.
Hækkandi olíuverð að undanförnu hefur valdið því meðal annars, að rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur versnað, eins og fram kemur í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands í dag. Líklegt er að flugfélög muni halda áfram að finna fyrir erfiðu rekstrarumhverfi á næstunni, vegna þessa.