Meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup þar sem viðfangið er málefni þjóðkirkjunnar. Alls segjast 54 prósent landsmanna vera hlynnt aðskilnaði, um 23 prósent hafa ekki mótað sér afstöðu og 23 prósent segjast alfarið á móti.
Karlar eru hlynntari aðskilnaði en konur, yngra fólk mun hlynntari en eldra fólk og kjósendur Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Vinstri grænna eru mun hlynntari aðskilnaði en kjósendur Sjálfstæðisflokks og Miðflokks. Þá eru íbúðar höfuðborgarsvæðisins mun hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en íbúar landsbyggðarinnar og stuðningur við aðskilnað eykst eftir því sem menntunarstig er hærra.
Þjóðarpúlsins mældi einnig ánægju með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands. Hún hefur aldrei verið lægra en einungis 14 prósent aðspurðra sagðist ánægt með störf hennar. Raunar hefur ánægja með störf biskups ekki mælst jafn lág á þeim rúmum tveimur áratugum sem hún hefur verið mæld hjá Gallup. Alls sögðust 44 prósent aðspurðra vera óánægðir með störf biskups.
Þriðjungur treystir þjóðkirkjunni
Einungis 33 prósent þjóðarinnar ber mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er tíu prósentustigum færri en sögðust bera mikið traust til hennar í fyrra. Þeir sem treysta þjóðkirkjunni eru nú tæplega helmingi færri en gerðu það árið 1999.
Lítill munur er á afstöðu fólks eftir tekjum en traustið til Þjóðkirkjunnar er ívið meira á landsbyggðinni (38 prósent) en á höfuðborgarsvæðinu (30 prósent).
Mikill munur á afstöðu kjósenda flokka
Mikill munur er hins vegar á afstöðu til kirkjunnar eftir því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi kýs. Kjósendur Sjálfstæðisflokks (52 prósent segjast treysta þjóðkirkjunni) og kjósendur Miðflokksins (48 prósent segjast treysta þjóðkirkjunni) skera sig úr hvað varðar traust. Kjósendur Pírata (71 prósent vantraust), Viðreisnar (52 prósent vantraust) og Samfylkingar (50 prósent vantraust) eru algjörlega á hinum pólnum hvað varðar afstöðu til þjóðkirkjunnar.