Síðastliðinn þriðjudag fór hópur lögregluþjóna, ásamt fulltrúum danskra launþegasamtaka í óundirbúna heimsókn til flutningafyrirtækisins Kurt Beier sem hefur aðsetur í Padborg á Suður-Jótlandi, skammt frá landamærunum að Þýskalandi. Ástæða þessarar heimsóknar var ábending dönsku stéttarfélagasamtakanna 3F en starfsfólk þar hafði komist á snoðir um að ekki væri allt sem skyldi hjá Kurt Beier. Þegar danska lögreglan kom, ásamt fulltrúum 3F á svæðið þar sem bílstjórar flutningafyrirtækisins hafa aðsetur blasti við þeim ömurleg sjón að sögn Kim Brandt, formanns 3F í Aabenraa „ég hef aldrei séð annað eins og hef þó ýmsu kynnst.“
Eins og í fátækrahverfi
Myndirnar sem starfsfólk 3F tók og myndir sem bílstjórarnir hafa tekið í „svokölluðum íbúðum“ (orðalag Kim Brandt) eru þess eðlis að fæstum gæti til hugar komið að um sé að ræða mannabústað á danskri grund. Hriplekir óupphitaðir gámar með myglublettum á veggjum eldunaraðstaðan gasprímusar sem standa á gólfinu, hreinlætisaðstöðunni verður ekki með orðum lýst (orð Kim Brandt), engin rúm, einungis grútskítugar og lélegar svampdýnur, engin þvottaaðstaða. Hvergi kæliskápar né aðrar geymslur fyrir matvæli. „Ömurlegt og minnti helst á myndir sem maður hefur séð úr fátækrahverfum stórborga í öðrum heimsálfum“ sagði Kim Brandt sem sagðist aldrei hafa látið sér til hugar koma að svona nokkuð gæti átt sér stað í Danmörku. Á staðnum voru 26 bílstjórar, langflestir frá Filippseyjum en nokkrir frá Sri Lanka. Þeir fóru á brott með lögreglunni og voru teknar af þeim skýrslur og síðan fengu þeir inni í húsum sem lögreglan útvegaði í nágrenni fyrirtækisins. Hvort þeir starfa áfram hjá Kurt Beier er óljóst. Þessir 26 sögðu frá því að samtals byggju um það bil 200 bílstjórar, ekki þó allir samtímis, í gámunum
Launin aðeins brot af dönskum lágmarkslaunum
Það er ekki bara aðbúnaðurinn sem fékk 3F launþegasamtökin til að leita til lögreglunnar. Nokkrir úr hópi bílstjóranna höfðu upplýst að tímalaun þeirra væru um það bil 20 krónur danskar (um það bil 370 íslenskar krónur) sem er aðeins brot af dönskum lágmarkslaunum. Þeim væri sömuleiðist gert skylt að vinna langt umfram það sem kveðið er á um í dönskum kjarasamningum. Þeir væru lang oftast tveir í bílnum og iðulega á ferðinni 18 klukkustundir á sólarhring, helming þess tíma undir stýri en hinn helming tímans í farþegasætinu. Sex klukkutíma væri bíllinn svo stopp á bílastæði og þá yrðu þeir að sofa í bílnum sem þeir mættu ekki yfirgefa. Svo væri aftur haldið af stað.
Hvernig getur svona gerst og hvað með lögin?
Þetta eru spurningar sem danskir fjölmiðlar hafa margoft varpað fram undanfarna daga. Margir danskir þingmenn segjast saltillir yfir því að svona nokkuð geti átt sér stað í Danmörku og krefjast þess að atvinnumálaráðherrann bregðist við. Ekki sé hægt að líða svona lagað og sumir hafa tekið svo djúpt í árinni að kalla þetta þrælahald, mansal. Lögfræðingur, sérfræðingur í vinnurétti, sem danska útvarpið, DR ræddi við sagði málið snúið og Kurt Beier nýtti sér greinilega glufur í kerfinu. Lögfræðingur Kurt Beier hafnar því algjörlega að fyrirtækið brjóti lög.
Bílstjórarnir hafa allir verið ráðnir til dótturfélags Kurt Beier í Póllandi. Heimilt er að ráða til vinnu fólk frá þjóðum utan ESB ef ekki er hægt að manna störf með heimafólki. Á síðasta ári voru samtals 62 þúsund bílstjórar, frá löndum utan ESB ráðnir til starfa í Póllandi. Þegar bílstjóri hefur fengið atvinnuleyfi, t.d. í Póllandi, hefur hann jafnframt akstursleyfi í öllum löndum ESB, með ákveðnum takmörkunum. Hann má, til dæmis, koma með vörur frá Þýskalandi til Danmerkur, tæma bílinn og fara síðan þrjár ferðir með vörur innan Danmerkur en ekki meira. Þá verður hann að fara úr landi en getur, ef svo ber undir, komið aftur sama daginn með annan farm og endurtekið leikinn. Þessar reglur eru nú til skoðunar innan ESB, ekki síst vegna mótmæla Dana en þeir segja þær bjóða heim undirboðum í flutningum.
Eitt stærsta flutningafyrirtæki Danmerkur
Kurt Beier fyrirtækið er í hópi stærstu vöruflutningafyrirtækja í Danmörku, með um 400 flutningabíla í rekstri. Auk þess á fyrirtækið dótturfyrirtæki í nokkrum löndum utan Danmerkur. Fyrirtækið er þrjátíu ára gamalt en Kurt Beier fjölskyldan hefur þó mun lengur rekið flutningastarfsemi. Karsten Beier, núverandi forstjóri býr ásamt fjölskyldu sinni í Hjerting, úthverfi Esbjerg á Jótlandi, ekki í hriplekum vörugámi, eins og Ekstra blaðið lýsti húsakynnum forstjórans. Einbýlishúsið keypti Karsten Beier fyrir rúmu ári og samtímis keypti hann tvö önnur hús, til að hafa óheftan aðgang að ströndinni. Forstjórafjölskyldan á einnig hús í Monaco og í bílskúrnum stendur nýlegur Ferrari af dýrustu gerð. Ekstra blaðinu hefur ekki, fremur en öðrum dönskum fjölmiðlum, tekist að ná tali af forstjóranum, sem hefur annars alla jafna verið meira en fús að tjá sig.
Þekkt víða um lönd
Kurt Beier fyrirtækið er eins og áður sagði stórt fyrirtæki á sínu sviði. Það hefur á síðustu árum margoft verið til umfjöllunar í evrópskum fjölmiðlum. Umfjöllunin hefur ætíð snúist um það sama, nefnilega alls kyns svik gagnvart starfsfólki fyrirtækisins. Sem dæmi stefndi rúmenskur bílstjóri GBT Logistic SRL, dótturfyrirtæki Kurt Beier í Rúmeníu, vegna vangoldinna launa. Bílstjórinn hafði unnið 843 klukkustundir án þess að fá greidd laun og þegar hann hafði árangurslaust reynt að fá borgað leitaði hann, með aðstoð stéttarfélags síns, til dómstóla. Bæjarréttur í Rúmeníu dæmdi GBT til að borga bílstjóranum upphæð sem samsvarar 470 þúsund íslenskum krónum. Áfrýjunardómstóll staðfesti síðar þennan dóm. Mörg viðlíka mál mætti nefna en þau eiga það öll sameiginlegt að Kurt Beier hefur ætíð tapað og samtals orðið að greiða stefnendum stórfé. Í Rúmeníu einni eru slík mál fleiri en 40 talsins.
Margir hætta viðskiptum við Kurt Beier
Fréttirnar af aðbúnaði og launum bílstjóra hjá Kurt Beier hafa vakið mikla athygli og hörð viðbrögð í Danmörku. Síðan málið komst í fjölmiðla fyrir nokkrum dögum hafa fjölmörg dönsk fyrirtæki hætt viðskiptum við Kurt Beier. JYSK (Rúmfatalagerinn) varð fyrst til og lýsti því yfir strax sama dag og greint var frá málinu að öllum samningum við Kurt Beier, og hugsanlega yfir- eða undirverktaka á vegum þess fyrirtækis yrði samstundis hætt. Síðan hafa mörg dönsk fyrirtæki fylgt í kjölfarið.
Framhaldið
Þegar þetta er skrifað eru fimm sólarhringar síðan danska lögreglan fór í „heimsóknina“ til Kurt Beier. Forsvarsmenn 3F stéttarfélagasamtakanna hafa lýst yfir að þetta mál verði ekki látið lognast út af, samtökin muni sjá til þess. Þótt Kurt Beier fyrirtækið segist engin lög hafa brotið kann rannsókn lögreglunnar, sem er hafin, að leiða annað í ljós. Þar er einkum horft til launamála, vinnutíma og aðbúnaðar. Nokkrir danskir fjölmiðlar hafa nefnt að ef niðurstaða rannsóknarinnar yrði að fyrirtækið hafi brotið á starfsmönnum þess, með þeim hætti að flokkast geti undir þrælahald (slaveri), gæti farið svo að Karsten Beier yrði að skipta um heimilisfang. Þyrfti að sætta sig við sex fermetra kytru í stað einbýlishússins í Hjerting.