Hinar svo nefndu miðkjörtímabils kosningar (Midterm elections) fara fram á morgun og er óhætt að segja að spennan sé rafmögnuð. Demókratar hafa lagt megináherslu á það að hvetja fólk til að kjósa, enda benda kannanir til þess að kjörsókn geti ráðið miklu um það hvernig fer.
Á vissan hátt er þetta fyrsta stóra prófið sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og Repúblikanar fara í gegnum frá því að Trump tók við stjórnartaumunum sem forseti í byrjun árs 2017 eftir að hafa verið kosinn í nóvember 2016.
Kannanir hafa sýnt að mjótt er á munum víða og því mikil spenna í kortunum. Kosið er um öll 435 sætin í fulltrúadeild og 35 sæti af 100 í öldungadeildinni.
Samkvæmt spá FiveThirtyEight, sem vinnur spá sína úr fjölda skoðanakannana, munu Demókratar að öllum líkindum vinna slaginn í fulltrúadeildinni og ná þar meirihluta en Repúblikanar þykja líklegir til að halda völdum í öldungadeildinni.
Eins og staða mála er nú hafa Repúblikanar meirihluta í báðum deildum og hafa því átt auðveldara með að koma málum í gegn, þar á meðal fjölmörgum umdeildum stefnumálum Trumps Bandaríkjaforseta.
Öldungadeildin er efri deild Bandaríkjaþings en neðri deildin er fulltrúadeildin. Löggjafarvaldinu í þinginu eru þannig skipt milli þessara deilda. Til að lög teljist gild þarf að samþykki beggja deilda.
"Florida strips its felons of the right to vote, even after they've served their time and completed their probation. A ballot measure could be about to change that," writes Ciara Torres-Spelliscy. https://t.co/yEQJC1hDHk
— HuffPost (@HuffPost) November 4, 2018
Samhliða kosningunum verður kosið um ýmis önnur mál í ríkjum Bandaríkjanna, svo sem lögleiðingu kannabisefna, umhverfisskatta, skipulagsmál og embætti ríkisskattstjóra í 36 ríkjum. Ríkisstjórar hafa mikil áhrif og völd, og marka meðal annars kjördæmalínur sem munu skipta miklu máli fyrir kosningarnar 2020.
Mikil spenna er víða, meðal annars í Florída, Texas og Nevada, þar sem mjótt er á munum milli helstu keppinauta.
Early-voting turnout in Texas surpasses the state's entire midterm elections turnout in 2014 https://t.co/WIDQySOTxW pic.twitter.com/SX0eonsqES
— The Hill (@thehill) November 4, 2018
Kosningaþátttaka og konur
Spennan fyrir miðkjörtímabils kosningarnar nú snýr ekki síst að kosningaþátttöku og hvernig mun ganga að fá konur til að mæta á kjörstað.
Þær eru af mörgum taldar geta ráðið úrslitum um það hvernig fer. Samkvæmt könnunum eru þær mun líklegri til að kjósa Demókrata, vítt og breitt um landið, en staðan er þó misjöfn eftir ríkjum.
Kannanir hafa verið að sýna stuðning við Trump - sem síðan hefur afgerandi áhrif á það hvernig kosið verður í miðkjörtímabilskosningunum - frá um 49 prósent karla en um 32 prósent kvenna, af þeim sem gefa upp afstöðu sína. Þessi munur hefur aldrei verið meiri í könnunum, sem horft til síðustu þriggja áratuga í Bandaríkjunum.
Obama stígur fram
Í ljósi þess hvernig aðdragandi þessar kosninga hefur verið, þar sem kastljósið hefur ekki síst verið á Trump, málflutningi hans og stefnumálum, þá er fastlega búist við að viðhorf kjósenda almennt til forsetans - bæði með og á móti - muni hafa mikil áhrif á útkomuna í kosningunum.
Barack Obama, fyrrverandi forseti og forveri Trumps, hefur stigið inn á svið stjórnmálanna á undanförnum vikum og farið milli ríkja til að styðja við frambjóðendur Demókrata. Hann sagði í ræðu í Nevada á dögunum að komandi kosningar væru mikilvægustu kosningar í Bandaríkjunum sem núverandi kynslóð Bandaríkjamanna hefði upplifað.
Ef Repúblikanar myndi ná að halda sömu valdahlutföllum, myndi klofningur þjóðarinnar aukast enn frekar og valda miklum usla. Hann sagði enn fremur, að Trump og Repúblikanar hefðu sýnt að þeim væri ekki treystandi, og það sem nú þegar hefði sést á kjörtímabili Trumps væri bara byrjunin. „Kjósið, og segið vinum ykkar og nágrönnum að gera það,“ sagði Obama.
Þetta snýst um efnahagsmálin
Repúblikanar - og þá ekki síst Trump sjálfur - hafa lagt mikla áherslu á efnahagsmálin. Hagtölurnar eru helstu röksemdir þeirra, en atvinnuleysi er nú með allra minnsta móti og mælist 3,7 prósent. Þá hefur hagvöxtur einnig verið viðvarandi nokkuð mikill, eða á bilinu 2,5 til 4 prósent, undanfarin misseri. „Hagkerfi okkar hefur aldrei verið betra, aldrei,“ sagði Trump á kosningafundi í Florida í síðasta mánuði. Þessi orð hafa ómað ótt og títt á kosningafundum Repúblikana.