Erdogan Tyrklandsforseti birtist allt einu á blaðamannafundi í Istanbul, 5. október, síðastliðinn og greindi heimsbyggðinni frá því að Jamal Khashoggi, pistlahöfundur The Washington Post, hefði verið drepinn í sendiráði Sádí-Arabíu í Istanbul, 2. október.
Hann hefur síðan haldið því fram að skipanir um morðið - sem framkvæmt var af aftökusveit frá Sádí-Arabíu - hefðu komið frá æðstu ráðamönnum í þessu vellauðuga olíuríki. Hafa spjótin beinst að Mohammed bin Salman, krónprinsinum, en Erdogan hefur fullyrt að skipanir um morðið hafi komið frá honum.
Óhuggulegur atburður
Flest bendir til þess að líkinu af Jamal, sem var þekktur gagnrýnandi yfirvalda, hafi verið eytt í sýru eftir að hafa verið britjað niður. Lýsingarnar á þessu grimmdarverki eru óhuggulegar og leiddu þær nær umsvifalaust til milliríkjadeilu og samtala milli þjóðarleiðtoga.
Í vandaðri umfjöllun The Washington Post, gamla vinnustaðar Jamals, hefur verið fjallað um hvert skref í þessu óhuggulega máli. Nú síðast fyrir tveimur dögum, þar sem fjallað var um dularfullt hvarf eins þeirra sem vann í sendiráðinu, Mohammad al-Otaibi.
Eitt af því sem hefur verið fjallað ítarlega um, er hvernig þjóðir heimsins - ekki síst Bandaríkin - hafa hagað sínum milliríkjasamskiptum í kjölfar þess að morðið kom upp á yfirborðið.
Beinskeytt skrif
Samkvæmt skrifum The Washington Post þá virðast pistlar Jamals um stríðið í Jemen, sem leitt hefur til mestu hörmunga sem fyrirfinnast á jörðinni, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, hafa farið mest í taugarnar á elítunni í Sádí-Arabíu.
Einkum skrifin frá 11. september 2018, þar sem sérstaklega er skrifað til krónprinsins, um að hann geti stöðvað stríðið í Jemen og þá mannvonsku sem þar hefur fengið að viðgangast gegn saklausu fólki, í skjóli Bandaríkjanna.
Hann sagði í pistlinum að Sádí-Arabía sé í þeirri einstöku stöðu að geta stillt til friðar, og beitt sér þannig, í staðinn fyrir að stuðla að stríðinu.
Það er ekki hægt að fullyrða mikið um nákvæmlega hvað átti sér stað í sendiráðsbústaðnum í Istanbul, þar sem upplýsingar eru misvísandi, en það liggur þó fyrir staðfesting á morðinu, og að aftökusveit trúnaðarmanna krónprinsins framkvæmdi hana.
Í Foreign Policy hefur verið fjallað ítarlega um það, að morðið á Khashoggi sé miðpunktur umræðu um stríðið í Jemen, þar sem hann var svo til eina röddin á opinberum vettvangi sem tók upp málstað óbreyttra borgara í landinu.
Neitar sök
Krónprinsinn neitar að hafa fyrirskipað morðið, og yfirvöld í Sádí-Arabíu reyndar líka, en rannsókn á málinu í Tyrklandi hefur leitt annað í ljós, samkvæmt yfirlýsingum þaðan.
Bandarísk yfirvöld hafa lagt áherslu það út á við, að leggja ekki blessun sína yfir þetta voðaverk, heldur krefjast rannsóknar og aðgerða. Náið samband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu er hins vegar þekkt, og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti talað um það með afar skýrum og berorðum hætti, eins og er hans von og vísa. Hann fullyrti til dæmis skömm eftir morðið, hinn 7. október, að Sádí-Arabía ætti allt sitt undir Bandaríkjunum, sem vernduðu „stöðugleikann“ í miðausturlöndum. „Kóngurinn myndi ekki lifa af í tvær viku án okkar,“ sagði Trump.
Yfir hundrað milljarða Bandaríkjadala vopnasölu samningar, frá Bandaríkjunum til olíuríkisins, eru til marks um þetta sterka samband, en einnig víðtæk tengsl á sviði fjárfestinga sem tengjast olíuiðnaði og fjármálamörkuðum almennt.
Krónprinsinn er nú sagður berjast fyrir valdastöðu sinni, með öllum ráðum, og segir Financial Times að líklegra sé nú en ekki, að honum takist að halda valdaþráðunum í höndum sínum. Margir andstæðinga hans hafa horfið og aðrir gagnrýnendur skyndilega breytt um afstöðu, inn í hinum lokaða heimi elítunnar í Sádí-Arabíu.
Olían sem allt snýst um
Í aðdraganda morðsins í Istanbul hafði Donald Trump gagnrýnt Sádí-Arabíu töluvert, fyrir að neita að bregðast við mikilli hækkun olíuverðs, með því að auka framleiðslu. Með því móti væri hægt að lækka olíuverðið, og þar með lækka verðbólguþrýsting víða í heiminum, meðal annars í Bandaríkjunum. Trump hringdi meðal annars í konunginn sjálfan og gagnrýndi þetta, eins og frægt varð, en Trump upplýsti sjálfur um símtalið. Í umfjöllun Reuters segir að Trump hafi verið berorður um þessar óskir um að auka við framleiðslu, til að lækka olíuverðið.
Eftir morðið hefur staðan á olíumörkuðum heimsins gjöbreyst, og það kom mörgum greinendum algjörlega í opna skjöldu, en þeir höfðu flestir spáð áframhaldandi hækkun á verði, jafnvel yfir 100 Bandaríkjadali á tunnuna af hráolíu. Það er nú 56 Bandaríkjadalir.
Algjör kúvending
Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa látið undan þrýstingi, og samþykkt að auka framleiðslu. Þá hafa Bandaríkjamenn einnig samþykkt að liðka fyrir viðskiptaþvingunum á Íran, en ekki er langt síðan að það var nánast talið óhugsandi. Þetta leiddi til þess að framboð af olíu stórjókst á skömmum tíma, og hefur verðið hrunið niður á einum mánuði um tugi prósenta. Farið úr 85 Bandaríkjadölum í 56 Bandaríkjadali.
Mitt í öllum titringnum vegna morðsins á Khashoggi, hafa ákvarðanir um þessa kúvendingu á olíumörkuðum, verið teknar.
Verðlækkunin kemur sér vel fyrir þau ríki sem ekki framleiða olíu og flytja hana inn, eins og t.d. Ísland. Því lægra sem olíuverðið er, því minni verðbólguþrýstingur vegna þess á Íslandi. Þá leiðir lægra verð einnig til betri rekstrarskilyrða fyrir flugfélög, en mikil og hröð hækkun verðsins framan ári leiddi til verulegra þrengingar hjá WOW Air og Icelandair, eins og fjallað hefur um ítarlega í fréttaskýringum Kjarnans.