Mynd: Bára Huld Beck

Miðflokkurinn næði ekki inn manni á þing – Mælist með 4,3 prósent fylgi

Frjálslyndu flokkarnir þrír í stjórnarandstöðu eru sterkasta blokkinn í íslenskri pólitík eftir Klaustursmálið samkvæmt nýrri könnun. Vart mælanlegur munur á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Fylgi meintra popúlistaflokka hefur helmingast á nokkrum dögum.

Mið­flokk­ur­inn myndi fá 4,3 pró­sent atkvæða ef kosið yrði í dag, sam­kvæmt nýrri könnun sem Zenter gerði fyrir Frétta­blaðið. Það myndi þýða að flokk­ur­inn næði ekki inn manni á þing. Mið­flokk­ur­inn, sem  var stofn­aður af Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni og helstu sam­starfs­mönnum hans skömmu fyrir síð­ustu kosn­ing­ar, fékk þá 10,9 pró­sent atkvæða og er sem stendur með sjö þing­menn. Það var besta útkoma nýs flokks í fyrstu kosn­ingum sem hann hafði tekið þátt í í sög­unni. Mið­flokk­ur­inn hafði enn fremur verið að vaxa umtals­vert í könn­unum á þessu ári og mæld­ist til að mynda með yfir tólf pró­sent fylgi í nóv­em­ber.

Ástæða þessa fylgis­taps er Klaust­ur­mál­ið, þar sem sam­töl fjög­urra þing­manna flokks­ins, þar með talin öll stjórn hans, og tveggja þing­manna Flokks fólks­ins voru tekin upp. Í sam­töl­unum var fjöl­mörgum stjórn­mála­mönnum og ýmsum öðrum nafn­greindum ein­stak­lingum úthúðað með niðr­andi orða­lagi. Tveir þing­menn Mið­flokks­ins, Gunnar Bragi Sveins­son og Berg­þór Óla­son, hafa verið sendir í leyfi en hinir tveir, Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, ætla ekki að segja af sér.

Þing­menn Flokks fólks­ins sem tóku þátt í sam­tal­inu, Ólafur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjart­ar­son, hafa verið reknir úr flokknum en ætla að starfa áfram sem óháðir þing­menn. Fylgi Flokks fólks­ins mælist 5,7 pró­sent sem er undir kjör­fylgi og myndi þýða að flokk­ur­inn rétt næði inn á þing ef kosið yrði nú.

Fylgi Klaust­ur­flokk­anna helm­ing­ast en hin and­stöðu­blokkin styrk­ist

Bæði Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins sitja í stjórn­ar­and­stöðu og hafa þótt halda á lofti sam­bæri­legum áhersl­um. Sumir þing­menn flokk­anna tveggja hafa starfað nokkuð náið sam­an. Saman er þessi blokk flokka, sem hafa legið undir ámæli um að stunda lýð­skrum í ýmsum málum og voru meðal ann­ars flokk­aðir sem popúlista­flokkar í nýlegri úttekt breska stór­blaðs­ins Guar­dian um ris slíkra í Evr­ópu. Sam­an­lagt fylgi þess­ara flokka, sem mæld­ist nálægt 20 pró­sent í nóv­em­ber, mælist nú slétt tíu pró­sent og hefur helm­ing­ast.

Í stjórn­ar­and­stöð­unni er síðan önnur þriggja flokka blokk sem nær saman í öllum helstu meg­in­at­rið­um. Í henni eru Sam­fylk­ing­in, Píratar og Við­reisn.

Sam­fylk­ingin virð­ist vera sá flokkur sem hagn­ast mest á mál­inu. Fylgi flokks­ins mælist nú 20,8 pró­sent og þarf að fara aftur til árs­ins 2014 í mæl­ingum tveggja stærstu fyr­ir­tækj­anna sem gera skoð­ana­kann­an­ir, Gallup og MMR, til að finna við­líka fylg­is­mæl­ingu hjá flokkn­um. Píratar mæl­ast með 14,4 pró­sent fylgi sem er meira en flokk­ur­inn hefur verið að mæl­ast með að jafn­aði und­an­farna mán­uði.

Við­reisn má einnig vel við una en fylgi flokks­ins mælist 9,1 pró­sent sem er umtals­vert yfir þeim 6,7 pró­sentum sem flokk­ur­inn fékk í kosn­ing­unum í fyrra. Sam­an­lagt er þessi blokk því með 44,3 pró­sent fylgi sem myndi duga henni til að fá 27 til 28 þing­menn. Í dag eru flokk­arnir þrír með 17 slíka.

Rík­is­stjórnin fallin

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er enn stærsti flokkur lands­ins með 21,4 pró­sent fylgi. Slík nið­ur­staða í kosn­ingum yrði þó versta nið­ur­staða flokks­ins nokkru sinni. Frá stofnun Mið­flokks­ins virð­ist hafa verið ákveðin fylgni milli fylg­is­aukn­ingar hans og fylgis­taps Sjálf­stæð­is­flokks en í könnun Zenter fyrir Frétta­blaðið virð­ist Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ekki græða neitt á fylg­is­hruni Mið­flokks­ins. Flokk­ur­inn er enn að mæl­ast vel undir kjör­fylgi en hann fékk 25,2 pró­sent í kosn­ing­unum 2017.

Hinn flokk­ur­inn sem hefur átt í fylg­is­erf­ið­leikum vegna upp­gangs Mið­flokks­ins er auð­vitað Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem Sig­mundur Davíð klauf til að stofna Mið­flokk­inn. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn beið afhroð í síð­ustu kosn­ingum og fékk sína verstu nið­ur­stöðu í sög­unni þegar 10,7 pró­sent atkvæða féllum honum í skaut. Fram­sókn virð­ist heldur ekki hagn­ast mikið á falli Mið­flokks­ins en fylgi flokks­ins mælist nú 8,5 pró­sent.

Vinstri græn, sem leiða rík­is­stjórn­ina, myndu fá 12,7 pró­sent atkvæða ef kosið yrði í dag sem er líka langt frá kjör­fylgi flokks­ins. Hann fékk 16,9 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum í októ­ber 2017. Margir kjós­endur flokks­ins eru enda óánægðir með þá ákvörðun hans að mynda rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um, sem þeir líta á sem höf­uð­and­stæð­ing sinn í stjórn­mál­um.

Sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna mælist því 42,6 pró­sent sem myndi þýða að þeir fengu 26 til 27 þing­menn ef kosið yrði í dag. Það er ansi langt frá því að duga til að mynda rík­is­stjórn.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar