Mynd: Bára Huld Beck

Miðflokkurinn næði ekki inn manni á þing – Mælist með 4,3 prósent fylgi

Frjálslyndu flokkarnir þrír í stjórnarandstöðu eru sterkasta blokkinn í íslenskri pólitík eftir Klaustursmálið samkvæmt nýrri könnun. Vart mælanlegur munur á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Fylgi meintra popúlistaflokka hefur helmingast á nokkrum dögum.

Miðflokkurinn myndi fá 4,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, samkvæmt nýrri könnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið. Það myndi þýða að flokkurinn næði ekki inn manni á þing. Miðflokkurinn, sem  var stofnaður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og helstu samstarfsmönnum hans skömmu fyrir síðustu kosningar, fékk þá 10,9 prósent atkvæða og er sem stendur með sjö þingmenn. Það var besta útkoma nýs flokks í fyrstu kosningum sem hann hafði tekið þátt í í sögunni. Miðflokkurinn hafði enn fremur verið að vaxa umtalsvert í könnunum á þessu ári og mældist til að mynda með yfir tólf prósent fylgi í nóvember.

Ástæða þessa fylgistaps er Klausturmálið, þar sem samtöl fjögurra þingmanna flokksins, þar með talin öll stjórn hans, og tveggja þingmanna Flokks fólksins voru tekin upp. Í samtölunum var fjölmörgum stjórnmálamönnum og ýmsum öðrum nafngreindum einstaklingum úthúðað með niðrandi orðalagi. Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, hafa verið sendir í leyfi en hinir tveir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, ætla ekki að segja af sér.

Þingmenn Flokks fólksins sem tóku þátt í samtalinu, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjartarson, hafa verið reknir úr flokknum en ætla að starfa áfram sem óháðir þingmenn. Fylgi Flokks fólksins mælist 5,7 prósent sem er undir kjörfylgi og myndi þýða að flokkurinn rétt næði inn á þing ef kosið yrði nú.

Fylgi Klausturflokkanna helmingast en hin andstöðublokkin styrkist

Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins sitja í stjórnarandstöðu og hafa þótt halda á lofti sambærilegum áherslum. Sumir þingmenn flokkanna tveggja hafa starfað nokkuð náið saman. Saman er þessi blokk flokka, sem hafa legið undir ámæli um að stunda lýðskrum í ýmsum málum og voru meðal annars flokkaðir sem popúlistaflokkar í nýlegri úttekt breska stórblaðsins Guardian um ris slíkra í Evrópu. Samanlagt fylgi þessara flokka, sem mældist nálægt 20 prósent í nóvember, mælist nú slétt tíu prósent og hefur helmingast.

Í stjórnarandstöðunni er síðan önnur þriggja flokka blokk sem nær saman í öllum helstu meginatriðum. Í henni eru Samfylkingin, Píratar og Viðreisn.

Samfylkingin virðist vera sá flokkur sem hagnast mest á málinu. Fylgi flokksins mælist nú 20,8 prósent og þarf að fara aftur til ársins 2014 í mælingum tveggja stærstu fyrirtækjanna sem gera skoðanakannanir, Gallup og MMR, til að finna viðlíka fylgismælingu hjá flokknum. Píratar mælast með 14,4 prósent fylgi sem er meira en flokkurinn hefur verið að mælast með að jafnaði undanfarna mánuði.

Viðreisn má einnig vel við una en fylgi flokksins mælist 9,1 prósent sem er umtalsvert yfir þeim 6,7 prósentum sem flokkurinn fékk í kosningunum í fyrra. Samanlagt er þessi blokk því með 44,3 prósent fylgi sem myndi duga henni til að fá 27 til 28 þingmenn. Í dag eru flokkarnir þrír með 17 slíka.

Ríkisstjórnin fallin

Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkur landsins með 21,4 prósent fylgi. Slík niðurstaða í kosningum yrði þó versta niðurstaða flokksins nokkru sinni. Frá stofnun Miðflokksins virðist hafa verið ákveðin fylgni milli fylgisaukningar hans og fylgistaps Sjálfstæðisflokks en í könnun Zenter fyrir Fréttablaðið virðist Sjálfstæðisflokkurinn ekki græða neitt á fylgishruni Miðflokksins. Flokkurinn er enn að mælast vel undir kjörfylgi en hann fékk 25,2 prósent í kosningunum 2017.

Hinn flokkurinn sem hefur átt í fylgiserfiðleikum vegna uppgangs Miðflokksins er auðvitað Framsóknarflokkurinn, sem Sigmundur Davíð klauf til að stofna Miðflokkinn. Framsóknarflokkurinn beið afhroð í síðustu kosningum og fékk sína verstu niðurstöðu í sögunni þegar 10,7 prósent atkvæða féllum honum í skaut. Framsókn virðist heldur ekki hagnast mikið á falli Miðflokksins en fylgi flokksins mælist nú 8,5 prósent.

Vinstri græn, sem leiða ríkisstjórnina, myndu fá 12,7 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag sem er líka langt frá kjörfylgi flokksins. Hann fékk 16,9 prósent atkvæða í kosningunum í október 2017. Margir kjósendur flokksins eru enda óánægðir með þá ákvörðun hans að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem þeir líta á sem höfuðandstæðing sinn í stjórnmálum.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist því 42,6 prósent sem myndi þýða að þeir fengu 26 til 27 þingmenn ef kosið yrði í dag. Það er ansi langt frá því að duga til að mynda ríkisstjórn.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar