Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp sem gerir eigendum aflandskrónueigenda kleift að fara með þær út úr íslensku hagkerfi og millifæra á erlenda reikninga. Um er að ræða 84 milljarða króna sem aflandskrónueigendurnir fá að skipta á álandsmarkaði.
Upprunalega var aflandskrónustabbinn 314 milljarðar króna en hann hefur minnkað jafnt og þétt með ýmsum aðgerðum Seðlabanka Íslands á meðan að höft voru við lýði. Ein slík leið var fjárfestingarleið Seðlabankans, sem virkaði þannig að óþolinmóðum aflandskrónueigendum bauðst að skipta á krónunum sínum fyrir evrur fjárfesta sem vildu inn í landið gegn því að kaupa evrurnar á yfirverði. Við það gáfu aflandskrónueigendurnir eftir virði en þeir sem keyptu krónur þeirra fengu allt að 20 prósent virðisaukningu. Seðlabankinn var svo milligönguaðili í viðskiptunum.
Þrenns konar heimildir
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að hinar auknu heimildir fyrir aflandskrónueigendur til að yfirgefa íslenskt hagkerfi séu þrenns konar. „Í fyrsta lagi er um að ræða almenna heimild fyrir alla aflandskrónueigendur til að losa aflandskrónueignir til að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja á reikning erlendis. Í öðru lagi heimild fyrir aflandskrónueigendur, sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008, til að losa aflandskrónueignir undan takmörkunum laganna. Í þriðja lagi heimild fyrir einstaklinga til að taka út allt að 100 millj. kr. af reikningum háðum sérstökum takmörkunum. Þær breytingar sem hér eru lagðar til taka mið af því að ekki sé grafið undan virkni hinnar sérstöku bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi.“
Hefðum getað þurrkað vandann upp
Aflandskrónumeðferðin er hápólitískt mál. Daginn eftir að tilkynnt var um losun fjármagnshafta í mars 2017 hélt Benedikt Jóhannesson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, ræðu á Alþingi. Þar sagði hann að mögulegt hefði verið að þurrka upp aflandskrónuvandann í kringum útboðið sem Seðlabankinn hélt um mitt ár 2016, með því að lækka gengið aðeins. Það hafi ekki verið gert og þótt að þá lægi fyrir að skynsamlegt hefði verið að gera það. „Í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið á milli 165 og 170 krónur á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi.
Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki. Kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að ljúka dæminu þá, en menn misstu af því tækifæri.“