Sterk og viðkvæm staða í senn
Ekki er hægt að segja annað en að hagtölurnar úr íslenska hagkerfinu séu frekar jákvæðar þessi misserin. Engu að síður er staðan viðkvæm, eins og miklar sveiflur á gjaldeyris- og hlutabréfamarkaði gefa til kynna. Þar skiptir staða flugfélaganna lykilmáli. Hvert stefnum við?
Hagstofa Íslands birti 30. nóvember síðastliðinn upplýsingar um viðskiptajöfnuð þjóðarbúsins. Samkvæmt bráðabirgðatölum var vöru- og þjónustujöfnuður á þriðja ársfjórðungi 2018, eins og hann birtist í þjóðhagsreikningum og greiðslujöfnuði, jákvæður um 80 milljarða króna en hann var jákvæður um 69,4 milljarða á sama tíma árið 2017, á gengi hvors árs.
Umreiknaður vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 43,7 milljarða króna en þjónustujöfnuður var hagstæður um 123,7 milljarða. Eins og undanfarinn ár er það ferðaþjónustan sem vegur þyngst í jákvæðum áhrifum þjónustunnar.
Heildarútflutningstekjur á þriðja ársfjórðungi 2018 vegna vöru- og þjónustuviðskipta námu tæpum 398,2 milljörðum króna en heildarinnflutningur á vörum og þjónustu nam 318,1 milljarði króna.
Í september er áætlað verðmæti útflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 127,1 milljarður en áætluð verðmæti innflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 103,9 milljarðar. Vöru- og þjónustujöfnuður er því áætlaður jákvæður um 23,2 milljarða í september 2018.
Samkvæmt bráðabirgðayfirliti námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.380 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs en skuldir 3.012 milljörðum króna. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 368 milljarða króna eða 13,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 162 ma.kr. eða 5,9% af landsframleiðslu. Í sögulegu samhengi er þessi staða svo til einstök, í jákvæðu ljósi. Skuldastaða við útlönd hefur aldrei verið betri, og viðvarandi jákvæður viðskiptaafgangur er eitthvað sem Íslendingar eiga ekki að venjast.
Kúvendingin er algjör, frá því sem áður var, og má ekki síst þakkaði það góðri niðurstöðu í uppgjöri við kröfuhafa föllnu bankanna. Með því uppgjöri hreinsaðist mikið af ónýtum eignum úr fjármálakerfinu og efnahagsreikningur þjóðarbúsins „hreinsaðist“.
Þetta er eitthvað sem flestar aðrar þjóðir hafa ekki gert frá því alþjóðlega fjármálakreppan náði hámarki, fyrir um áratug. Ísland beitti neyðarlögum og fjármagnshöftum vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem allir þrír bankarnir voru í, ekki síst vegna fjármögnunar þeirra á eigin hlutafé.
Því má segja að hinar róttæku aðgerðir stjórnvalda, mitt í hruninu, hafi lagt grunninn að samningsstöðunni sem síðan skilaði sér í sterkari stöðu þjóðarbúsins. Þessara áhrifa gætir enn í dag, og má segja að hrunið, og viðbrögðin við því, séu okkar forréttindi í dag. Margar aðrar þjóðir, og svæði innan stórþjóða, hefðu vafalítið viljað beita neyðarrétti til að verja samfélög fyrir áföllum.
Í ofanálag bættist svo ótrúleg uppsveifla í ferðaþjónustu þar sem ferðamönnum fjölgaði úr 450 þúsund á ári árið 2010 í 2,7 milljónir í fyrra. Ef það tekst að viðhalda þessum fjölda eða efla ferðaþjónustuna enn frekar, þá er nokkuð víst að stoðirnar í hagkerfinu munu ekki bresta svo auðveldlega.
Spjótin beinast að krónunni
En hvers vegna hefur krónan verið að veikjast, á sama tíma og undirliggjandi þættir virðast benda til þess að krónan ætti frekar að hafa haldist sterk?
Almenningur þarf að vera á tánum
Þrátt fyrir að stoðir íslenska hagkerfisins séu sterkar um þessar mundir, þá er staðan engu að síður viðkvæm, eins og rakið hefur verið hér í fréttaskýringunni. Vendingar í flugiðnaði eða á vinnumarkaði geta leitt til verðbólguskot og þar með skertari lífskjara fyrir almenning.
Töluverð lágdeyða hefur verið á fasteignamarkaði að undanförnu, sé horft til síðustu ára í samanburði. Á vormánuðum í fyrra mældist hækkun á húsnæðisverði 23,5 prósent en hún mælist nú tæplega 4 prósent. Þá eru þúsundir íbúða í byggingu og er talið að um 5 þúsund nýjar íbúðir komi út á markað á næstu 18 til 24 mánuðum. Þessi mikla aukning á framboði húsnæðis, á skömmum tíma, er líkleg til að þess að finna fasteignaverðinu nýjan jafnvægispunkt og draga nær alveg úr þeirri spennu sem verið hefur á fasteignamarkaði.Eftirspurnin hefur verið mikil eftir litlum og meðalstórum íbúðum, en flestar þeirra íbúða sem eru í byggingu tilheyra þeim hópi. Spár gera sumar hverjar ráð fyrir því að lækkun sé í farvatninu á fasteignamarkaði, en greining Arion banka gerir ráð fyrir að raunverð fasteigna lækki á næstunni. Flestar aðrar spár gera hins vegar ráð fyrir áframhaldandi hóflegum hækkunum.
Verðbólga hefur farið hækkandi, og þarf fólk að halda vöku sinni þegar kemur að húsnæðislánum. Það gæti verið skynsamlegt fyrir marga að endurfjármagna fasteignalán og skipta úr verðtryggðu yfir í óverðtryggð eða dreifa áhættunni með því að skipta fjármögnun til hálfs, óverðtryggt og verðtryggt. Verðbólga mælist nú 3,3 prósent og benda spár til þess að hún geti farið í 4 til 5 prósent á næsta ári.
Eins og mörg dæmi eru um í íslenskri hagsögu, þá er erfitt að spá fyrir um hvenær verðbólgudraugurinn fer á stjá og hversu miklu tjón hann veldur fyrir almenning. Gengisfall krónunnar að undanförnu hefur komið sér vel fyrir útflutningsfyrirtækin en sterkt gengi krónunnar hefur verið mörgum útflutningsfyrirtækjum erfitt undanfarin ár.
Almenningur þarf að fylgjast með stöðunni eins og hún hefur verið að þróast og reyna að stýra sínum fjármálum í takt við breytingarnar í efnahagslífinu. Það getur hins vegar verið þrautin þyngri, en hinu sveiflugjarna íslenska hagkerfi. .
Peningastefnuefnd Seðlabanka Íslands er ekki viss um hvað veldur því, að krónan hefur veikst að undanförnu, sé horft til þess sem fram kemur í nýjustu fundargerð peningastefnunefndarinnar. Þar segir meðal annars: „Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,25 prósentur voru þau að töluverð óvissa væri um hversu hratt drægi úr hagvexti og hvernig gengi krónunnar myndi bregðast við hækkun vaxta og lækkun hlutfalls sérstakrar bindiskyldu. Forsendur gætu verið til staðar fyrir heldur lægri raunvöxtum en ella, eftir því hvernig þessir þættir ásamt öðrum myndu þróast, þótt það væri ekki í þeim mæli sem hefði nú þegar raungerst. Því væri varlegra að taka minna skref nú. Framhaldið myndi síðan ráðast af framvindunni. Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,5 prósentur voru hins vegar þau að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert og verðbólguvæntingar hækkað það mikið að 0,25 prósentna hækkun vaxta dygði ekki til, enda yrði taumhald peningastefnunnar áfram minna en það var á októberfundi nefndarinnar þrátt fyrir þessa vaxtahækkun. Þá væru raunvextir bankans afar lágir þegar haft er í huga að spenna er enn í þjóðarbúskapnum.“
Eins og kunnugt er - og umdeilt varð - þá ákvað peningastefnunefndin að hækka vexti úr 4,25 prósent í 4,5 prósent. Meðal þess horft er til eru versnandi verðbólguhorfur, en verðbólga mælist nú 3,3 prósent, en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Þegar kemur að veikingu krónunnar, að undanförnu, þá virðast vega þungt þættir eins og áhyggjur af flugiðnaðinum í landinu. Eins og rakið hefur verið í fréttaskýringum, sem birst hafa hér í Mannlífi og á vef Kjarnans, hefur WOW air lengi verið í lífsbaráttu í sínum rekstri. Eftir að Icelandair féll frá því að kaupa WOW air tóku við verulega sveiflukenndir dagar á markaði.
Kom á óvart
Fyrstu viðbrögð markaðarins voru miklar áhyggjur af stöðu mála. Hlutabréfaverð hrundi, gengi krónunnar veiktist. Airport Associates, sem þjónustar WOW air á Keflavíkurflugvelli, sagði strax upp 237 starfsmönnum af um 700, en þó með fyrirvara um að stór hluti uppsagna gæti gengið til baka ef að WOW air tækist að bjarga sér.
En síðan kom yfirlýsingin um að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners væri að koma WOW air til bjargar á ögurstundu.
Óhætt er að segja að yfirlýsing félaganna beggja hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda Indigo enginn nýgræðingur í flugheiminum. Félagið er hluthafi í mörgum lággjaldaflugfélögum, meðal annars Wizz Air, sem hefur aukið verulega umsvif sínu í flugi til og frá íslandi undanfarin misseri. Sérstaklega er félagið öflugt í því að efla tengingar við Austur-Evrópu.
Gengi hlutabréfa hækkaði umtalsvert við þessi tíðindi og gengi krónunnar styrktist. Nema hjá Icelandair en hlutabréfaverð hjá fyrirtækinu hefur hríðfallið frá því að tilkynnt var um mögulega fjárfestingu Indigo. Fyrstu tvo dagana var fallið 20 prósent, en síðan lækkaði verðið örlítið hægar. Þetta verður að teljast til marks um það en fjárfestar á íslenska markaðnum sá það ekki fyrir, að mögulega væri hægt að draga aðra fjárfesta að borðinu þegar Icelandair féll frá kaupunum.
Það sem kom mörgum á óvart, þegar tilkynningin um Indigo birtist, var hversu stór og virtur aðili var þarna á ferðinni.
Bill Franke, hinn 81 árs gamli milljarðamæringum, í Bandaríkjadölum talið, stýrir félaginu enn þann dag í dag, en hann stofnaði það árið 2003. Hann kom til landsins fyrr í vikunni og hóf strax að funda með Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air.
Sé horft til skrifa um hann í fagtímaritum um viðskipti í Bandaríkjunum, þá er Franke óhræddur við að taka áhættu. Hann þykir harður í horn að taka og gerir oft stóra og óvænta samninga. Hann hefur karaktereinkenni viðskiptamanna í Arizona; lætur ekkert stoppa sig og framkvæmir hlutina hratt.
Fyrir hönd Indigo gerði hann stærstu flugvélapöntun sögunnar, þegar 430 Airbus þotur voru pantaðar í einu. Franke lét hafa eftir sér þegar pöntunin var gerð að neytendur í flugi væru í mörgum tilvikum ofdekraðir þegar kæmi að þjónustu. Umhverfið ætti eftir að breytast enn meira, en Franke trúir því að lággjaldaflugvélög eigi mikil tækifæri inn í framtíðina. Hins vegar hefur Indigo öðru fremur einblínt á félög sem sinna tiltölulega stuttum flugleiðum. Stóra spurningin, sem margir viðmælenda Kjarnans spurðu sig að, er hvernig áform WOW air um Indlandsflug falla að því.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins.
Tekjur WOW air námu 501,4 milljónum dala, um 61,5 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru 371,8 milljónir dala.
EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Áhyggjur af kjaraviðræðum
Hagkerfið mun ekki standa og falla með WOW air til framtíðar litið. Icelandair hefur meira að segja boðað umtalsverðan vöxt í framboði flugsæta, eða um 35 prósent, þannig að mögulega eru áhyggjurnar af kerfislægu mikilvægu WOW air, sem birst hafa í miklum titringi á markaði, eitthvað ýktar.
Stoðirnar í hagkerfinu eru sterkar og innviðirnir í ferðaþjónustunni hafa einnig styrkst umtalsvert, og ferðamenn munu finna leiðir til að heimsækja Ísland ef þeir hafa mikinn áhuga á því. Erfiðleikar hjá WOW air eða Icelandair munu þó alltaf hafa mikil skammtímaáhrif á hagkerfið, og hefur versta sviðsmynd stjórnvalda gert ráð fyrir samdrætti í landsframleiðslu upp á 3 prósent, svo dæmi sé tekið.
Kjaraviðræðurnar eru líka áhyggjumál í augum margra. Ástæðan er einföld. Litlar sem engar líkur eru á því að Samtök atvinnulífsins (SA) og atvinnurekendur almennt geti náð saman við verkalýðshreyfinguna nema að það komi til verulegur afsláttur af beggja hálfu. Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt að ekki komi til greina að slá af kröfum um verulega hækkun lægstu launa og að ná fram aðgerðum á húsnæðismarkaði sem tryggja betur rétt þeirra sem eru á leigumarkaði. Viðhorfsmunurinn hjá atvinnurekendum annars vegar og verkalýðshreyfingunni hins vegar er mikill, þegar kemur að því að meta hvert svigrúmið er til kjarabóta.
SA hafa nefnt að svigrúmið getið verið 1 til 4 prósent, þegar kemur að hækkun launa að meðaltali, en það fari þó eftir því hvaða forsendur liggi til grundvallar. Stéttarfélögin hafa hins vegar horft til 25 til 30 prósent hækkun lægstu launa og knýja auk þess á um að stjórnvöld komi fram með margvísleg útspil inn í kjaraviðræðurnar, meðal annars breytingar á skattkerfinu og aðgerðir á húsnæðismarkaði. Þessi mikli munur bendir til þess að erfitt verði að ná samningum og erfiður vetur sé fram undan í kjaraviðræðum, sem jafnvel geti einkennst af verkföllum.
Skúli meirihlutaeigandi að nafninu til
Skúli Mogensen, stofnandi og framkvæmdastjóri WOW air, gæti orðið meirihlutaeigandi að nafninu til í flugfélaginu ef Bill Frankie, stjórnandi Indigo Partners, ákveður að fara sömu leið með WOW air og Wizz air.
Reglur á Evrópska efnahagssvæðinu eru með þeim hætti að aðilar sem tilheyra því ekki mega einungis eiga minnilhluta í flugfélögum, eða mest 49 prósent.Bill Franke, eigandi Indigo Partners, hefur þó komist hjá þeim mörkum með því að eiga breytileg skulda- og hlutabréf í þeim flugfélögum á svæðinu sem hann hefur fjárfest í. Þannig á hann til að mynda einungis beinan hlut í Wizz air upp á um 20 prósent en þegar óbeinn eignarhlutur er talinn með, vegna breytilegu bréfanna, á Indigo Partners um tvo þriðju í félaginu.
Lestu meira um efnahagsmál:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði