Morðtól í tómstundabúð

Þegar tveir ungir menn, Toke Suhr og Frederik Skøt, opnuðu verslun í Kaupmannahöfn, fyrir tveim árum, grunaði þá ekki að vörur sem þeir hefðu til sölu yrðu notaðar til árása og manndrápa í Írak.

Frederik Skøt og Toke Suhr.
Frederik Skøt og Toke Suhr.
Auglýsing

Vorið 2016 settist Toke Suhr inn í leigubíl skammt frá Amalienborg í Kaupmannahöfn. Bílinn hafði hann pantað gegnum Uber akstursþjónustuna. Bílstjórinn var 27 ára Kúrdi, hér eftir nefndur Mehmet, glaðlegur náungi og ræðinn. 

Á leiðinni upp á Norðurbrú, þangað sem förinni var heitið, barst í tal að Toke myndi ásamt félaga sínum eftir um það bil tvo mánuði opna verslun með dróna (flygildi) í Kaupmannahöfn. 

Auglýsing
Mehmet leigubílstjóri sagðist hafa mikinn áhuga fyrir drónum og hann myndi fljótlega koma í búðina og skoða það sem þar væri í boði, og kannski kaupa eitthvað. Spurði margra spurninga um drónana, hvað þeir gætu flogið langt, hvað þeir gætu borið þunga hluti o.s.frv. Toke svaraði eftir bestu getu öllum spurningum bílstjórans. „Notalegasti náungi“ hugsaði Toke með sér þegar þeir kvöddust. Hvorki Toke né Mehmet höfðu hugmynd um að fylgst var með ferðum þeirra.

Leyniþjónustan bankar upp á

Um fimm leytið að morgni sex vikum eftir bíltúrinn með Mehmet vaknaði Toke við að dyrabjöllunni var hringt. Þegar hann svaraði ekki var dyrabjöllunni hringt aftur. Toke leit á símann og sá að hringt hafði verið til hans fimm sinnum, úr leyninúmeri. „Ég hélt að nágranninn væri í einhverjum vandræðum en þegar ég svaraði í dyrasímann sagðist sá sem hringdi vera lögreglumaður og þyrfti nauðsynlega, ásamt vinnufélaga sínum, að tala við mig. Mér krossbrá, vissi ekki til að ég ætti neitt vantalað við lögregluna, hélt svo kannski að eitthvað alvarlegt hefði gerst í fjölskyldunni.“ Lögreglumennirnir byrjuðu á að segja Toke að þeir þyrftu að ræða við hann í trúnaði, en það snerist ekki um fjölskylduna heldur um ökutúr í leigubíl. Sem sé um ferðina með Mehmet. Toke mundi vel eftir ökuferðinni og samtalinu við Mehmet. 

Auglýsing
Eftir að hann hafði rifjað upp samtalið, spurningar Mehmet og áhuga hans á drónum, sögðu lögreglumennirnir að þeir væru starfsmenn Dönsku Leynþjónustunnar, PET, og hefðu grun um að Mehmet hefði kannski eitthvað misjafnt í huga varðandi drónana. Vildu þó ekki útskýra það nánar. „Nú brá mér illilega“ sagði Toke sem sagði að þeir félagarnir, hann og Frederik Skøt, hefðu einmitt rætt það sín á milli að þeir þyrftu að vera á verði ef þeir yrðu varir við grunsamlega viðskiptavini. Lögreglumennirnir sögðu Toke að þeir vildu gera samkomulag við þá félaga, hann og Frederik. Ef Mehmet kæmi í búðina ættu þeir strax að láta PET vita og ef hann vildi kaupa eitthvað skyldu þeir segja að þeir ættu þetta ekki á lager. Þeir myndu panta það sem hann vildi fá og láta vita þegar pöntunin yrði tilbúin. Toke samþykkti þetta og lögreglumennirnir fóru, eftir að hafa látið hann hafa símanúmer sem þeir félagar gætu hringt í hvenær sem væri.

Göngutúr

Síðar þennan sama morgun fór Toke niður á Fredensgade þar sem þeir félagar voru að standsetja verslunina. Frederik var mættur og Toke sagði honum að þeir skyldu fá sér göngutúr. Þetta þótti Frederik einkennilegt, þeir voru ekki vanir að fara saman út að ganga, allra síst að morgni dags. „Toke var mjög alvarlegur“ sagði Frederik, „ég hélt fyrst að eitthvað hefði komið fyrir, það var sem betur fer ekki en hann sagði mér frá heimsókninni. Ég trúði þessu varla og spurði hvort hann hefði nokkuð dreymt þetta.“

Toke fullvissaði félaga sinn um að þetta væri ekki draumur og þeir vissu að þeir yrðu að aðstoða PET eins og óskað var eftir. „Við vorum óneitanlega ansi stressaðir yfir þessu“ sagði Frederik. Toke lýsti Mehmet, eftir bestu getu, fyrir félaga sínum en ennþá var mánuður þangað til búðin yrði opnuð.

Spurði sérstaklega um stóru drónana

Eins og Mehmet hafði sagt við Toke kom hann fljótlega eftir að búðin var opnuð. Spurði Toke hvort hann myndi ekki eftir sér, Toke dró aðeins við sig svarið, til að virka ekki grunsamlegur, en spurði svo hvort það hefði ekki verið eitthvað með leigubíl. Það stóð heima. Eftir að hafa litið í kringum sig beindist athygli Mehmet að stærsta drónanum í búðinni, hann getur borið að minnsta kosti tíu kíló. Mehmet spurði nú um tiltekin tæknileg atriði varðandi drónann og eftir að hafa skoðað eitthvað í símanum sagðist hann vilja kaupa dróna með ýmis konar aukabúnaði og tiltók að sér lægi á að fá þetta sem fyrst. 

Toke sagðist gera sitt besta til að útvega hlutina eins fljótt og unnt væri, síðan kvöddust þeir og Mehmet fór. Toke talaði strax við PET og ákveðið var að kaupin færu gegnum millilið, til að tryggja að þeir félagar sætu ekki í súpunni og yrðu hugsanlega ákærðir fyrir að hafa aðstoðað við undirbúning hryðjuverka. PET vildi líka fá að skoða hlutina áður en Mehmet fengi þá afhenta. Allt tók þetta sinn tíma en Mehmet keypti fimm stóra dróna, sem hann staðgreiddi þegar hann fékk þá afhenta.

Mehmet kaupir meira

Nú liðu nokkrir mánuðir. Þeir Toke og Frederik heyrðu ekkert, hvorki frá PET né Mehmet. Þeir ímynduðu sér að annaðhvort hefði lögreglan handtekið Mehmet eða málið orðið að engu. En dag einn birtist Mehmet í versluninni og vildi fá að skoða dróna sem hefðu búnað til að greina á milli kaldra hluta og heitra. Bandaríkjaher hafði þróað slíkan búnað og þeir Toke og Frederik höfðu selt nokkra dróna með slíkum búnaði, til fyrirtækja sem notuðu þá til að greina skemmdir á byggingum. Hvað eigið þið marga svona? spurði Mehmed og bætti við að hann vildi gjarna kaupa 40 stykki. 

Auglýsing
„Við vorum orðlausir“sagði Toke. Þegar þeir sögðu hvað svona drónar kostuðu sagði Mehmet að hann hefði séð svona dróna á miklu lægra verði annars staðar en hann vildi versla við þá félaga. Meðan á þessu stóð fór Toke afsíðis og hringdi til PET og í framhaldinu sagði hann Mehmet að því miður væri einungis leyfilegt að selja sex svona dróna til hvers kaupanda, það tengdist einkaleyfismálum. Mehmet tók þessa skýringu góða og gilda og pantaði sex dróna. Þeir áttu að koma eftir tvo mánuði. Á leiðinni út úr búðinni spurði Mehmed hvort þeir vildu fá borgað í dollurum eða dönskum krónum, hann myndi borga með seðlum. „Dönskum krónum“ svaraði Toke.

Á tilteknum tíma birtist Mehmet í versluninni til að sækja drónana. Hann dró seðlabúnt upp úr tösku sem hann bar um mittið og sagði Toke að telja. Upphæðin stemmdi. „Það fer ótrúlega lítið fyrir svona mörgum seðlum“ sagði Frederik. Mehmet hló og sagði „Þið ættuð að sjá þetta í evrum, sést varla.“

Svo gekk hann út úr búðinni, setti drónana í sendibíl sem beið fyrir utan og fór.

Þetta var í síðasta skipti sem þeir Toke og Frederik sáu Mehmet.

Handtökur

21. september í fyrra var Mehmet handtekinn á heimili sínu í Brøndby. Síðan hefur hann setið í gæsluvarðhaldi, ákærður fyrir að taka þátt í undirbúningi hryðjuverka. Lögregla telur sannað að hann hafi keypt drónana fyrir íslamisk hryðjuverkasamtök. Samtímis var annar maður úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum(in absentia).

28. september síðastliðinn, ári eftir handtöku Mehmet, voru þrír til viðbótar handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, grunaðir um að hafa keypt dróna og síðar selt til samtaka sem kenna sig við íslamska ríkið. Einn þessara fimm, sá sem ekki hefur náðst er Basil Hassan sem er eftirlýstur vegna tilraunar til að ráða af dögum danska rithöfundinn Lars Hedegaard árið 2013. Basil Hassan er talinn hafa skipulagt drónahernað samtakanna íslamska ríkisins en sprengja sem dróni flutti varð tveimur kúrdískum hermönnum að bana í Írak í október 2016. Danska leyniþjónustan, PET, telur víst að sá dróni hafi verið keyptur í versluninni á Fredensgade í Kaupmannahöfn.

Drónarnir hættuleg árásarvopn

Thomas Galasz Nielsen yfirmaður deildar hertækni hjá danska herskólanum sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að drónarnir geti verið hættuleg vopn. Írakar hafi ekki búnað til að verjast þessum tækjum. Drónarnir sem Mehmet keypti í búðinni hjá þeim Toke og Frederik eru áþekkir þeim sem til dæmis bandaríski herinn notar. Þótt tölvubúnaðurinn í drónum sem seldir eru í tómstundabúðum sé ekki jafn fullkominn og sá sem bandaríski herinn notar má kaupa slíkan búnað í verslunum og auðvelt sé fyrir kunnáttumenn að koma honum fyrir í dróna.

Þeir Toke Suhr og Frederik Skøt sögðu sögu sína í viðtali við danska útvarpið. Viðtalið var sýnt sl. sunnudag, 2. desember. Aðfaranótt 4. desember var stórum steinum kastað í rúður á verslun þeirra félaga. Rúðurnar eru úr sérhertu þykku gleri og brotnuðu ekki. Ekki er vitað hver þarna var að verki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar