Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og er horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Þá er einnig lagt til að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig megi efla samstarf bankanna á sviði innviða í fjármálakerfinu, til að auka hagræðingu í bankakerfinu og bæta þannig kjör til neytenda.
Í starfshópnum sem vanna að Hvítbókinni voru Lárus L. Blöndal, formaður, Guðjón Rúnarsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir og Sylvía K. Ólafsdóttir, en hún hætti í starfshópnum í september 2018.
Fram kemur í Hvítbókinni að langt sé í það, að almenningur hafi traust á fjármálakerfinu, sé mið tekið af könnunum sem gerðar voru fyrir starfshópinn í tengslum við vinnu Hvítbókarinnar. Hrun fjármálakerfisins er enn ofarlega í huga fólks og endurspeglast það í viðhorfum fólks til bankanna.
Aukin hagkvæmni möguleg
Nefnt er í Hvítbókinni að sameining banka til að ná fram meiri hagkvæmni og skilvirkni sé ekki endilega besta leiðin til þess, heldur frekar ætti að horfa til þess að bæta innviðina í kerfinu. Þrátt fyrir að sameining sé líkleg til að auka hagkvæmni, þá hangi meira á spýtunni.
T.d. með samrekstri á sérstökum gagnagrunni yfir skuldir einstaklinga og fyrirtækja, sem yrði ópersónugreinanlegur, þá megi ná fram hagkvæmni.
Er þetta meðal annars talið geta aukið öryggi í fjármálakerfinu og stuðlað að neytendavænni fjármálastarfsemi.
Orðrétt segir meðal annars: „Efast má um að það sé skynsamlegt að ráðast í sameiningar eða uppskiptingu á starfsemi Íslandsbanka og Landsbankans fyrir sölu ríkis á eignarhlutum sínum. Erfitt er að sjá rök fyrir sameiningu, innbyrðis þeirra á milli eða við önnur fjármálafyrirtæki. Ekki eru talin vera rök fyrir fullum aðskilnaði milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi hjá bönkunum. Þeir eru báðir heimamiðaðir í allri starfsemi sinni, með sterk eiginfjárhlutföll og lítið vægi fjárfestingarbankastarfsemi í rekstrinum. Hvað mögulegar aðrar rekstrarumbætur áhrærir er nauðsynlegt að slíkar breytingar grundvallist á framtíðarsýn um reksturinn. Það er á forræði bankanna sjálfra og eigenda þeirra á hverjum tíma að huga stöðugt að hagræðingu í rekstri og að tryggja sem besta fjármagnsskipan. Ekki eru rök fyrir því að fresta söluferli til að fara í sérstakar rekstrarumbætur umfram þær sem gerðar hafa verið á umliðnum árum og eru í gangi. Við sölu munu síðan nýir eigendur sem taka við keflinu fylgja eftir eigin áherslum.“
Tvískráning góð leið?
Fjallað er ítarlega um þær leiðir sem í boði eru, þegar kemur að sölu á eignarhlutum í fjármálakerfinu, og hvernig þær geti náð fram markmiðum stjórnvalda um gott og heilbrigt fjármálakerfi.
Fjallað er meðal annars um þá leið að skrá bankanna á markað, og selja þá með þeim hætti. Sú leið var farin í tilfelli Arion banka og er meðal annars vitnað til reynslunnar af henni í Hvítbókinni. Þar segir meðal annars, að kauphallir á Norðurlöndunum séu opnar fyrir alþjóðlegum fjármálamörkuðum og að það geti verið mikið unnið með því að fá trausta alþjóðlega fagfjárfesta til að koma að eignarhaldi á íslensku fjármálakerfi.
Ríkið á Íslandsbanka 100 prósent og Landsbankann rúmlega 98 prósent. Verði farin sú leið að skrá bankanna á markað, t.d. með tvískráningu, er líklegt að horft verði til þess að skrá bankanna á Íslandi og síðan í einhverju Norðurlandanna. Arion banki er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, og má því segja að komin sé ákveðin fyrirmynd af því hvernig megi vinna að skráningunni.
Mikil verðmæti eru í eignarhlutum ríkisins í ríkisbönkunum tveimur, en samanlagt eigið fé þeirra er um 450 milljarðar króna.
Gagnsæi og heiðarleiki
Mikil áhersla er lögð á það í Hvítbókinni, að vandað verði til verka við sölu á eignarhlutum í bönkunum, og áhersla lögð á heiðarlega viðskiptahætti og gagnsæi. Er ekki síst vitnað til sögunnar í þeim efnum, og hvernig staðan var í bönkunum fyrir hrun þeirra, þegar stærstu lántakar bankanna voru einnig stærstu eigendur þeirra.
Í Hvítbókinni er sagt að mikið geti verið unnið með því, að fá norrænan banka til að kaupa Íslandsbanka, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, en ljóst sé að gera þurfi raunhæfar væntingar til þess að það geti gengið eftir.
„Það er hafið yfir allan vafa að gagnsæi um eignarhald fjármálafyrirtækja er mjög mikilvægt. Þar skiptir mestu að eftirlitsaðilar fái glögga yfirsýn yfir eignarhald allra þeirra sem fara með ráðandi hlut í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið á Íslandi hefur þær heimildir sem þarf til að ná slíkri yfirsýn. Gagnsæi eignarhalds er einnig mikilvægt fyrir þá sem stunda viðskipti við fjármálafyrirtæki, sérstaklega minni fjárfesta, lánveitendur og lántaka. Það að hægt sé að bera kennsl á raunverulega eigendur og að gagnsæi ríki um viðskipti fjármálafyrirtækis við aðila sem gætu verið tengdir stuðlar að auknu trausti viðskiptavina og eflir trúverðugleika fjármálafyrirtækis. Opinber birting upplýsinga um raunverulega eigendur getur einnig leitt til betri stjórnarhátta og viðskiptasiðferðis. Almenningur hefur því hagsmuni af því að vita hverjir séu eigendur fyrirtækja sem hefur verið treyst til að varðveita fjármuni í formi innstæðna,“ segir í Hvítbókinni.